Beint í efni

Þættir af einkennilegum mönnum

Þættir af einkennilegum mönnum
Höfundur
Einar Kárason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1996
Flokkur
Smásögur

Úr Þáttum af einkennilegum mönnum:

Skari og Kobbi

Í myndarlegu húsi hér í bænum bjuggu fyrr á árum bræður tveir ásamt foreldrum sínum, hét hinn yngri Kobbi en sá eldri var nefndur Skari. Og allt líf Kobba, yngri bróðurins, var vígt skelfingu og ógn, vegna þess að Skari sem var menntaskólapiltur sat um að lemja, kvelja og hræða litla bróður.
 Kobbi var kveif, hann var alltaf hokinnn og skjálfandi og með óttasvip á andlitinu. Hann sagði fátt og muldraði þá í barm sér og gjóaði augunum í allar áttir. Stóri bróðirinn Skari aftur á móti var stórbeinóttur og sleggjulegur, skimaði stöðugt í kringum sig einsog árvökull veiðimaður, og beraði tanngarðana.
 Ef þeir urðu á vegi hvor annars og stóri bróðir var í sæmilegu skapi þá lét hann sér nægja að sparka í rassinn á Kobba; væri Skari eitthvað stúrinn kýldi hann þann litla í magann, en ef hann var fúll og afundinn, einsog oftast var raunin, þá greip hann í emjandi litlabróðurinn, tók hann haustaki og herti að þartil Kobbi var farinn að blána, loks kleip Skari í kinnarnar á skrækjandi bróðurnum, sneri uppá eyrun og sagði: Þú ert einsog mannaskítur helvítis auminginn þinn.
 Kobbi var alltaf hræddur; heima hjá sér þurfti hann að sæta færis ef hann ætlaði að færa sig milli herbergja; hann skimaði lengi og lagði við hlustir áður en hann gekk eftir gangi eða fór upp stiga, til að vera öruggur um að Skari hinn skelfilegi yrði ekki á vegi hans. Og jafnvel fjarri heimilinu, í skólanum eða í bíó átti hann það til að stífna upp af hryllingi, hrökkva í kút og líta óttasleginn um öxl, og þegar hann hafði náð sér brosti hann veiklulega, strauk svitann af enninu og sagði afsakandi: Mé-mér heyrðist Skari bara vera að kalla á mig.
 Skari vakti allar nætur; spilaði þá plötur eða horfði á kanasjónvarpið svo að skothvellirnir glumdu um allt hús. Stundum þurfti hann líka að læra fyrir próf, og þá ræskti hann sig hátt og grimmilega með stuttu millibili við skrifborðið, svo bergmálaði í næturmyrkrinu. Og við hverja ræskingu hrökk litli bróðir upp af vondum draumi. Á morgnana fóru báðir bræðurnir í skólann, en á eftirmiðdögum vildi Skari sofa. Hann kom heim dró fyrir gluggana og lagði sig, og þá vildi hann fá algjöran frið. Það varð að ríkja grafarþögn í húsinu svo að Skari gæti sofið, og hann gerði Kobba litla bróður ábyrgan fyrir svefnró sinni. Ef hann var vakinn þá skifti ekki máli hver væri valdur að trufluninni; hvort það væri Kobbi sjálfur sem léti á sér kræla, til dæmis með því að sturta niður eða loka ógætilega á eftir sér dyrum, eða hvort truflunin kæmi frá lágfleygri flugvél eða pústlausum bíl; það skipti engu máli, því að Skari hefndi sín með því að rjúka upp, króa aumingjann bróður sinn af og berja hann dálítið.
 Svona liðu dagar og nætur hjá Kobba, í einni samfelldri ógn, árið um kring.
 Okkur kunningjum hans Kobba og skólabræðrum hlífði Skari, að einum undanskildum. Það var fitukeppur bekkjarins, Búbbi bumba, sem Skari gat ómugulega séð í friði. Hann kom hás af hlátri og hugaræsingi út úr herberginu sínu er hann vissi af Búbba bumbu í húsinu. Svo stökk Skari á hann, snéri fitukeppnum á hvolf, keip hann allan og kreisti, batt peysuermarnar saman í hnút og lokaði hann grenjandi úti á svölum. Svo gekk Skari í burtu, rjóður af hamingju og sagði: Djöfull er gaman að hvelja helvítis feita kvikindið.
 Þetta var fyrir aldarfjórðungi. Bræðurnir Kobbi og Skari eru báðir orðnir fullorðnir menn. Kobba rekst ég stundum á, hann afgreiðir í fataverslun. En hvað skyldi hafa orðið um fantinn hann Skara? Ef þetta væri skáldskapur, og persónulýsing hans ætti að öðlast einhverja dýpt, þá myndi ég láta hann gera eitthvað óvænt á fullorðinsaldri; starfa að mannúðarmálum eða sem barnasálfræðing. En veruleikinn er hversdagslegur: Skari rekur bara tannlæknastofu, í kaupstað úti á landi.

(s. 9-11)

Fleira eftir sama höfund

Wyspa diabla

Lesa meira

Une affligeante histoire

Lesa meira

Fjendemøde

Lesa meira

Revontulet

Lesa meira

Pirunsaari

Lesa meira

Tyhmyreiden neuvot

Lesa meira

Kultasaari

Lesa meira

Luvattu maa

Lesa meira