Beint í efni

Til hamingju með fallið

Til hamingju með fallið
Höfundur
Megas
Útgefandi
Falleg
Staður
Reykjavík
Ár
1996
Flokkur
Hljómdiskar / Hljómplötur

Lagalisti:

01. Kysstu mig
02. Kölski og ýsan
03. As Time Goes By (Play It Again Sam)
04. Hlíðarendatafl
05. Ef heimur eigi
06. Minnisrækt (gleymist svo geymist)
07. Þyrnirós
08. Hamingjuhvörf
09. Griðljóð
10. Ertu ekki farin að mannast
11. Ljóma sínum
12. Götuvísa
13. Heimilisfang óþekkt
14. Vita sínu viti (aldrei of ung)
15. Dagur hjólbarðasalans

Af Til hamingju með fallið:

Heimilisfang óþekkt

og ég bjó hér nafnlaus nokkurt skeið
ég fór níutíusinnum þessa leið
ég var hafinn á loft
og ég hékk þar svo oft
en ég hélt niðrí mér andanum og beið

og ég - ég gekk þvílíkar götur forðum tíð
í gegnum þetta haglél - fræga hríð
jú ég fraus og mig kól
allan sviðinn af sól
en ég sættist þó við stríð já eftir stríð eftir stríð

hann var nýr hann var notaður þó
því hann naut þess að spilla allri ró
en hann keypti það sem var falt
og hann falaði allt
uns hann fann sig loks í sviðnum eyðiskóg
   ég háði stríð við tímann sem ég tapaði gjarnan
   því þegar ég kom voru konurnar einatt farnar
   en ég gerði betur næst og nú er ég heima
   ég veit það er eitt að vera og að dreyma
   gera og gleyma

ég hef laumast gegnum löndin útúr neyð
jafnvel lagt á höf alls óþekkt ævareið
verið hæst uppi niðri
skipt um hákarl í iðunni miðri
já og horfið síðan í alfaraleið

og ég lærði - sór lævísan eið
eftir lifuð mörg svo aleinskisnýt skeið
og ýmsar háleiðir farðar
milli himins og jarðar
og höfð á djöflum skipti góð og greið - er á leið
   víst fann ég fyrir kvöl sem ég kannaðist ekki við
   ég hafði fargað því sem átti ég fyrir óþekkt grið
   en ég gat engan spurt - allt var læst og lokað
   þó ég hefði reynt um eilífð já mokað og mokað
   varð engu um þokað

samt mætti ég kveld eftir kveld
og kveikti svo tilgangslausan eld
og að hverri lokinni för
varð æ færra um svör
uns svo fór að eldfærin þau voru seld
   ég samdi - hélt ég - við tímann en týndi mér bara oft
   er ég vildi anda því það vantaði loft
   ég reyndi að vera lítill því mig langaði að fá það
   en hann valtaði bara yfir mig og okkur báða
   ég fékk engu að ráða

ég hafði að margri mæstjörnu gelt
sem að morgni úr sessi síðan var svo velt
en ég fékk lof og prís
já og flær bæði og lýs
allt var frá mér jafnskjótt tekið enn og selt
   en ég fer ekki lengra ég er laus við tímann
   hann var þarna í brotum en ég var ekkert að ríma hann
   myrkrið sem geymir okkur gætir okkar vel
   þú veist ég er eftirsóttur í partíum eins og perla í skel
   enda heilladís mín Hel

neinei ég iðrast einskis - ekki ég
þó oftast væri þátttakan treg
því síðast og fyrst stelpa
ég fór að minni lyst
uns ég fann mér milli mosa og sleggju veg - og leg
   en ég segi ekki mikið þegar einskis er að iðrast
   ég er læstur úti ég er inni að viðrast
   en höndin sem gefur er höndin sem tekur
   og höggið sem lamar það lýsir og vekur
   og hver er þá sem lekur?

ég hef sigrað mitt sætbeiska stríð
ég er sestur upp og yfir þessa hríð
á endanum frjáls
og með fjötra um háls
mun ég fagna sem ég bíð og bíð og bíð og bíð jú ár og síð
   allt er gott og það er margs að minnast
   lífið er jú til þess að glepjast og ginnast
   ég er pilla í glasi ég gæti ýmsa hresst
   en það er mjólkað úr mér stoffið ég er mannskæð pest
   jú ég frétti það fyrir rest

en ég hef sigrað mitt súrbláa ég
það situr uppá staur og varðar veg
því þeim opnast flest sundin
sem í báða skó er bundinn
og birtuna úr djúpunum ég dreg

Fleira eftir sama höfund

Megas – textar 1966-2011

Lesa meira

Drög að sjálfsmorði

Lesa meira

Haugbrot: glefsur úr neó-reykvískum raunveruleika

Lesa meira

Á bleikum náttkjólum

Lesa meira

Bláir draumar

Lesa meira

Drög að upprisu

Lesa meira

Englaryk í tímaglasi

Lesa meira

Far ... þinn veg

Lesa meira

Fláa veröld

Lesa meira