Um bókina
Frá árinu 1981 hafa Einar Örn Benediktsson og Bragi Ólafsson unnið saman sem tónlistarmenn, textahöfundar og útgefendur.
Út úr mátunarklefanum er önnur bók Einar og Braga sem þeir vinna saman. Einar hefur einnig teiknað myndir á kápur annarra bóka Braga, bæði ljóðabóka og skáldsagna. Fyrri bók þeirra félaga kallast Mátunarklefinn og aðrar myndir, en í því smáriti eru prósar og teikningar, hvort um sig sjálfstæð verk. Um svipað leyti gaf Bragi út hjá Smekkleysu smáritið Fjórar línur og titill, safn fjögurra lína ljóða með titli. Það má því segja að Út úr mátunarklefanum – fleiri fjórar línur og þrefalt færri fjórlínungar sé sjálfstætt framhald þessara tveggja smárita, þótt í þetta skiptið sé formatið mun stærra, eins konar tímaritabrot. Verk höfundanna í þessu bókverki eru sem áður sjálfstæð verk, en tengjast þó á sterkan hátt í anda, enda hafa Einar og Bragi, eins og áður segir, þekkst mjög lengi og átt í mjög nánu samstarfi sem listamenn.
Með Út úr mátunarklefanum má segja að höfundarnir séu endanlega komnir út úr klefanum, eftir að hafa tekið sér góðan tíma til að velja sér viðeigandi búning.
Úr bókinni
Fjórar línur um íslenska sveit
Jafn auðvelt og það er að eyða mörgum línum,
jafnvel tuttugu, í borgina Reykjavík,
er erfitt að eiga bara tvær eftir
til að gera sveitinni sómasamleg skil.
Samtal fyrir framan gamlan útikamar við Suðurá í Bárðardal
"Þarna hefur margt dáið fólk létt á sér," segi ég.
"Dáið fólk?" spyrð þú (með undrun í svipnum)
"Ég á við : það dó einhvern tíma síðar."
(Óþarfi að halda áfram með þetta, enda uppurnar línurnar)