Æviatriði
Eva Björg Ægisdóttir fæddist á Akranesi 27. júní 1988. Hún gekk í grunnskóla þar og útskrifaðist svo úr Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Í framhaldi að því stundaði hún nám í félagsfræði með bókmenntafræði sem aukagrein við Háskóla Íslands. Eftir útskrift lá leiðin til Noregs þar sem hún nam Alþjóðafræði við NTNU í Þrándheimi.
Fyrstu skrefin í skrifum voru tekin í Grundaskóla á Akranesi þegar hún vann smásagnakeppni, en eftir það liðu um tæp fimmtán ár þar til næsta ritverk fékk að líta dagsins ljós. Eftir námið í Þrándheimi skrifaði hún fyrstu skáldsögu sína, Marrið í stiganum, samhliða starfi sem flugliði. Sú bók kom út árið 2018 og hlaut Svartfuglinn, glæpasagnaverðlaun sem veitt eru fyrir fyrstu glæpasögu höfunda og var fyrst til að hljóta þau verðlan.
Síðan þá hefur Eva Björg sent frá sér glæpasögu árlega og náð að helga sig ritstörfunum. Bækur hennar hafa hlotið margvísleg verðlaun heima og heiman. Marrið í stiganum vann til hinna virtu glæpasagnaverðlauna Breta, CWA Dagger og fékk einnig Thrillzone Award í Hollandi fyrir bestu fyrstu glæpasöguna.
Heim fyrir myrkur hlaut Íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann árið 2023.
Bækur Evu Bjargar hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál, auk ensku og gefnar út í Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi, Grikklandi, Makedóníu, Ísrael, Eistlandi, Japan, Póllandi, Portúgal, Eþíópíu, Búlgaríu, Rússlandi, Serbíu, Ungverjalandi, Brasilíu og á Spáni.
Um höfundinn
Óhreinu börnin hennar Evu
Eva Björg Ægisdóttir hlaut glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn fyrir sína fyrstu bók, Marrið í stiganum 2018. Fyrir hana fékk hún líka Blóðdropann og Gullrýtinginn í Bretlandi fyrir bestu frumraun ársins. Síðan hefur Eva Björg sent frá sér bók árlega: Stelpur sem ljúga 2019, Næturskuggar 2020, Þú sérð mig ekki 2021, Strákar sem meiða 2022 og Heim fyrir myrkur 2023. Annan Blóðdropa hlaut Eva Björg fyrir þá síðastnefndu.
Margradda saga um misnotað barn
Marrið í stiganum er dæmigerð upphafsbók í seríu. Hún hefst þegar Elma Jónsdóttir hefur störf hjá lögreglunni á Akranesi og við lesendur kynnumst vinnustaðnum um leið og hún. Jöfnum höndum eru kynntir til leiks félagar Elmu í lögreglunni, Hörður yfirlögga, Sævar og Begga. Þetta er fólk rúmlega þrítugt, nema Hörður er á sextugsaldri. Elma ólst upp á Akranesi en fór þaðan fyrir tvítugt og þetta er því endurkoma hennar til heimahaganna, en hún á enn foreldra og systur á staðnum.
Sagt er frá í þriðju persónu og sjónarhornið dvelur ekki bara hjá Elmu rannsóknarlögreglukonu, heldur færist á milli nokkurra lykilpersóna. Strax er hafist handa við að kynna til sögunnar þá sem tengjast glæpnum, þótt glæpurinn sjálfur komi ekki til tals fyrr en líkið finnst, á blaðsíðu 62. Sögunni víkur t.a.m. að Hendrik og Ásu, ríka fólkinu í bænum, en þau eiga fyrirtæki og fasteignir sem þau leigja út og finna töluvert til sín. Bjarni sonur þeirra og Magnea kona hans eru sterkefnuð, fögur og flott og lesendur fá innsýn í þeirra líf. Hvers vegna? Jú, þau hljóta að hafa óhreint mjöl í pokahorninu.
Frásögnin kallast á við stutta kafla sem gerast á Akranesi 1989, en þar segir vanrækt og misnotað barn frá sínu lífi. Þetta er dæmigert fyrir þær bækur sem á eftir koma. Sagan er margradda og lesandi hefur betri innsýn í aðstæður en Elma og félagar hennar í lögreglunni, þar sem hann sér beinlínis inn í fortíðina – og inn í huga þeirra persóna þar sem sjónarhornið er hverju sinni.
Sagan teygir sig líka til Reykjavíkur, þar sem aðstandendur Elísabetar Hölludóttur, flugmanns á fertugsaldri, fá að vita að lík hennar hafi fundist við gamla vitann á Akranesi. Það hefur verið ekið á hana og henni ýtt út í sjó.
Hvernig tengist Elísabet ríka fólkinu á Skaganum og hvernig tengist tæplega þrítug frásögn barnsins þessum glæp?
Í Marrinu í stiganum er rannsókn málsins afskaplega hefðbundin. Elma og samstarfsmenn hennar fara á milli fólks og tala við það eftir því sem vísbendingum fjölgar. Gamla konan í næsta húsi, bekkjarfélagar, kennarar og gangaverðir. Fólk er spurt um fortíðina og upplýsingum safnað og stundum hleypur á snærið. Þetta er kunnugleg rannsóknaraðferð lögreglunnar, sem fer sér að engu óðslega.
Samfélagsmeinin í Skandinavíu
Bækurnar fjórar sem hafa rannsóknarlögreglukonuna Elmu Jónsdóttur í forgrunni falla undir Nordic Noir eða Scandi-Noir-hefðina. Rannsóknin er umfjöllunarefni sögunnar, en líka einkalíf þeirra sem standa að rannsókninni. Löggurnar þrjár, Sævar, Hörður og Elma eru kynntar, fortíð þeirra og náin fjölskyldutengsl og þeim fylgt eftir í lífi og starfi.
Ýmsar brotalamir í samfélaginu eru til umfjöllunar í þeirri tegund glæpasagna sem kenndar eru við Norðurlöndin eða Skandinavíu. Sögurnar sem ganga þvert á þá hugmynd að Skandinavía sé velferðarparadís, þar sem allir séu hamingjusamir, ríkir og glaðir. Oftast er rannsóknarlögreglumanni fylgt eftir; tveir af þeim þekktari eru hinn sænski Kurt Wallander í bókum Hennings Mankell og Erlendur Sveinsson Arnaldar Indriðasonar. Kaldranalegt landslag, þurrlegur húmor, skelfilegir glæpir – og textinn ekki sligaður af myndmáli, skrauti eða stælum. Rannsóknarlögreglumaðurinn er oft með allt niðrum sig í einkalífinu, en lifir fyrir vinnuna. Enda hefur hann ríka réttlætiskennd og einstaka hæfileika til þess að leysa flókin sakamál. Í þessu tilliti er Elma rannsóknarlögreglukona ólík erkitýpunni, en það verður skoðað nánar hér að neðan.
Eva Björg fjallar um margvísleg samfélagsmein, þótt hún láti skipulagða glæpastarfsemi, sem er í uppáhaldi hjá mörgum kollega hennar á Norðurlöndunum, algerlega eiga sig. Það hentar að mörgu leyti vel að hafa smærra byggðarlag á borð við Akranes að sögusviði, þar sem eitt af uppáhaldsumfjöllunarefnum Evu Bjargar er einelti/félagsleg útskúfun og kemur það fyrir í einhverri mynd í öllum bókum hennar. Fórnarlömb ófyrirleitinna kjaftasagna í smærri byggðarlögum eru ófá og rannsóknarlögreglukonan Elma er ein af þeim. Um það er fjallað í Marrinu í stiganum:
Hún hugsaði stundum: Hvers vegna ég? Hvers vegna varð hún skotspónn kjaftasagna? Hvað gerði hún til að verðskulda það? Var það allt vegna þess að hún var öðruvísi, af því að hún vildi ekki haga sér nákvæmlega eins og allir hinir? Auðvitað lét hún engan sjá að hún tæki þetta nærri sér. Hún hló bara eða sneri upp á sig. Út á við lét hún eins og sér væri sama en heima grét hún í koddann sinn og bölvaði þessu fólki, þessum skóla og þessum bæ. Þess vegna hafði hún aldrei ætlað að koma aftur. (49)
Af fleiri viðfangsefnum Evu Bjargar má nefna vanrækslu barna, ofbeldi og kynferðisbrot gegn þeim. Misskipting auðs, nauðganir og heimilisofbeldi koma líka við sögu. Margir þræðir eru teknir upp sem kannski flokkast ekki sem alvarlegur skaðvaldur, en eru verðugir skoðunar. Blekking samfélagsmiðlanna ber t.d. oft á góma – munurinn á milli þess sem þeir miðlar sýna um líf manneskjunnar og þess hvernig manneskjan hefur það í raun. Framhjáhald, ábyrgð og ábyrgðarleysi í nánum samskiptum fær verðugan sess, sem og sú pressa sem bæði karlar og konur finna fyrir í nútímasamfélagi, en er mismunandi eftir kynjum.
Svartálfur finnst í helli
Það undirstrikar hlutverk íslensku glæpasögunnar sem gjafavöru að sögurnar hefjast allar í nóvember/desember og það er augljóst að gert er ráð fyrir því að þær séu lesnar um jólaleytið. Flestar eru þær „skrifaðar beint inn í samtíma sinn“ og gera það að verkum að lesandanum finnst hann fylgjast með rannsókn glæpsins í rauntíma. Snjór, kuldi og myrkur skapar líka afar viðeigandi andrúmsloft fyrir sögusvið glæps á hinu hráslagalega Íslandi.
Stelpur sem ljúga hefst í nóvember. Elma, Sævar og Hörður eru kölluð að Grábrók, þar sem lík finnst í hraunhelli um klukkustundarakstur frá Akranesi. Ljóst er frá upphafi að líkið er af Maríönnu, konu sem hvarf frá Borgarnesi um vorið.
Höfundur dvelur lengur við óhugnað líksins en í fyrstu bókinni. Það hefur verið svo lengi í hellinum að börnin sem finna það halda að það sé svartálfur – og réttarmeinafræðingurinn fær að segja í smáatriðum frá rotnunarferlinu:
„Þeir hlutar sem voru minna varðir, eins og hendur og andlit, eru að mestu leyti beinaber þótt eftir séu sinar og liðbönd sem rotna yfirleitt hægt. Heilinn og augun eru að sjálfsögðu alveg horfin.“ (57)
Í þessari bók er frásögnin líka fléttuð köflum úr fortíðinni. Nafnlaus kona segir frá og kaflarnir bera heiti sem vísa til aldurs barnsins sem hún elur í upphafi sögu. Hvorki konan né barnið ganga heil til skógar.
Rannsókninni vindur fram, teygir sig vítt og breitt og hefur ýmsa snúninga, en ásakanir um kynferðisofbeldi – sannar eða lognar – gera hlutaðeigandi útlæga úr samfélaginu. Dómstóll götunnar tekur til sinna ráða og það oftar en einu sinni.
Hin myrta var ekki góð móðir í lifanda lífi, en gömul áföll, fátækt og neysla höfðu áhrif á hæfni hennar sem foreldris. Hugleiðingar um vanrækslu barna, og hvað gerir fólk hæft eða vanhæft til þess að ala upp börn, eru sjaldan langt undan í bókum Evu Bjargar og eru eitt aðalviðfangsefnið í Stelpum sem ljúga.
Lesandinn veit meira en löggan
Allar sögurnar sex hefjast á stuttu textabroti sem er áhugavert en illskiljanlegt fyrr en undir lok sögu. Þetta er einhver óhugnaður, nafnlaust fólk í neyð eða við einhverja miður góða iðju. Erfitt er að fá botn í þetta nema lesandi geri það sem höfundur vill að hann geri: Lesi áfram. Aðdáendur glæpasagna eru harðir í horn að taka og því eins gott að ná þeim strax inn í hugsunina: „Þetta er spennandi“ jafnvel áður en kynntar eru til sögunnar persónur, sögusvið eða glæpur.
Eva Björg sækir í smiðju félaga sinna úr Norðurlandadeildinni og lætur allar sögur sínar gerast á tveimur tímaplönum, eins og áður var nefnt. Þetta eru fléttufrásagnir; rannsókn glæps í nútíðinni kallast á við aðra frásögn úr fortíðinni og lesandi áttar sig á því smám saman hvernig frásagnirnar tengjast. Textarnir tala hvor við annan og lausn gátunnar afhjúpast. Lesandinn er þannig alltaf í aðalhlutverki sem rannsakandi, vegna þess að honum er sýnt meira en lögreglunni sem rannsakar glæpinn.
Í sögunum er skipt um sjónarhorn. Við sjáum ekki allt með augum Elmu Jónsdóttur rannsóknarlögreglukonu, heldur flakkar sjónarhornið milli sögupersóna. Þannig lesum við hug fleiri og upplýsumst frekar. Ekki bara um glæpinn, heldur líka hinar persónurnar. Í bókinni Strákar sem meiða dvelur t.a.m. sjónarhornið hjá Kristjönu, móður Þorgeirs sem var myrtur. Svo vill til að hún býr við hliðina á Elmu og getur sagt okkur hvernig hún kemur henni fyrir sjónir: „Unga lögreglukonan með vingjarnlega svipinn. Hún virkaði frekar einföld“ (120).
Við vitum margt um Elmu, en yfirleitt vitum við það vegna þess að hún hefur sagt okkur það sjálf. Annað dæmi sem sýnir okkur „Elmu utanfrá“ má nefna úr Næturskuggum, þegar ungur fótboltastrákur er tekinn til yfirheyrslu: „Elma var ekki beint falleg en sæt á einhvern hátt sem Andri kunni ekki alveg að útskýra“ (95).
Flakk sjónarhornsins er sérlega áberandi í Þú sérð mig ekki þar sem það fer víða og dvelur aðeins stutta stund hjá hverjum fyrir sig. Sú bók víkur frá Norðurlandahefðinni, eins og talað verður um hér á eftir, en þar er rannsakandinn ekki í forgrunni og leikurinn felst í því að varpa grun á sem flesta.
Að eiga flotta konu
Karlmenn sem halda framhjá og neita að taka ábyrgð á lífi sínu – og já, börnum sínum, skjóta oft upp kollinum í verkum Evu Bjargar Ægisdóttur.
Í Næturskuggum lætur króníski framhjáhaldarinn Unnar hugann reika um það hvað Laufey konan hans hefur látið á sjá:
Konan hans hafði einu sinni verið falleg en nú hugsaði hún lítið um útlitið. Fyrir nokkrum árum hafði hún klippt hárið stutt og farið að ganga með gleraugu og guð, hvað hann hataði þessi gleraugu. Þau bættu á hana tíu árum í það minnsta. [...] Konur vinnufélaga hans litu margar hverjar mun betur út og virtist meira umhugað um útlitið. (17-18)
Í þessari bók er lýst samfélagi þar sem karlar þurfa fyrst og fremst að græða peninga og eiga „flottar“ konur, en konur þurfa að mennta sig betur, reka fallegt heimili, grennast og vera besta mamma í heimi. Bæði eru að bugast undan álagi og óánægju – karlinn heldur framhjá með ungum konum sem finnst hann vera voðalegur spaði og konan reynir að halda andliti. Unga fólkið sem er í mörgum aðalhlutverkum sögunnar er svo smækkuð mynd af því sem koma skal í rugli fullorðinsáranna.
Fjölskylda Unnars og Laufeyjar tengist inn í rannsókn á morði á ungum manni og íkveikju, en Næturskuggar er fyrsta bók höfundar þar sem Elma og kollegar hennar þurfa að rannsaka fleiri en eitt morð.
Samfélagsvandinn er ærinn, en botnlaus illmennska er ekki til umfjöllunar í bókum Evu Bjargar. Ástæður morða eru oft slysaleg viðbrögð breyskra manna – framin til að hylma yfir fyrri misgjörðir – eins og í þessari bók.
Ábyrgð kvenna og ábyrgðarleysi karla er stef í Næturskuggum. Óréttlætið sem felst í því að konur sitji uppi með ábyrgðina á óléttum og börnum á meðan karlmenn hegða sér eins og þeir vilja. Þetta kemur meðal annars til af því að Elma verður ólétt og er ekki viss um að njóta stuðnings barnsföðurins. Þar speglar hún fleiri kvenpersónur sögunnar, sem eru með barni, hugsa um ungbörn, ala upp börn og missa börn.
Karlmennirnir leyfa sér að verða skelkaðir og/eða reiðir þegar þess er krafist að þeir taki ábyrgð á börnum sínum og af sjónarhóli eins karlsins í sögunni er sagt: „Hann elskaði börnin sín, að sjálfsögðu, en þetta fjölskyldulíf átti bara ekki við hann“ (299).
Ekki ljót en ekkert sérstaklega sæt
Elma Jónsdóttir er í forgrunni rannsóknar í fyrstu þremur bókum Evu Bjargar og þeirri fimmtu.
Þegar Elma hefur störf á Akranesi fylgja henni nokkrir draugar. Hún hefur árum saman átt kærasta, en því sambandi er lokið og lesendur fá ekki að vita fyrr en undir lok bókar hvað kom fyrir. Minningar frá unglingsárum hennar á Skaganum eru líka að trufla hana – einhvers konar einelti hefur átt sér stað, kjaftagangur og útskúfun. Í Stelpum sem ljúga ber hún sig í sífellu saman við Dagnýju systur sína, sem á mann og börn og stendur sig vel í að rækta tengslin við foreldra þeirra:
Dagný var falleg en Elma var ... ja, eins og hún var. Ekki ljót en ekkert neitt sérstaklega sæt. Fullkomlega venjuleg. Með skollitað hár, ljósa húð og freknur. Ekkert sem bar af eða gerði hana eftirminnilega. (43)
Sem einhleyp kona fellur Elma nánast í flokk kvöldu löggunnar í Skandíkrimmanum. Hún borðar örbylgjumat, stundar skyndikynni og er alltaf með hugann við það sem aflaga hefur farið í fortíðinni. Þegar hún festir ráð sitt (í þriðju bók) þá hverfa einkennin.
Elma er ekki óskeikul og fjarri því að vera sjáanlega klárari eða sniðugri að leysa sakamál en félagar hennar í lögreglunni. Nokkur dæmi eru til að mynda um að henni er bent á eitthvað sem öðrum finnst grunsamlegt, en hún nánast afskrifar það. Dagný systir hennar kemst á snoðir um að Þorgeir einn af hinum myrtu í Strákum sem meiða hafi verið beittur ofbeldi í æsku. „„Takk fyrir að láta vita, en ...“ Elma hikaði. „Ég á erfitt með að sjá hvernig þetta kemur málinu við““ (136).
Auðvitað kemur í ljós að það kemur víst málinu við og hjálpar til við að leysa gátuna. Hér er Elma nánast andstæða rannsakandans sem ‚finnur á sér‘ lausn gátunnar, er vakinn og sofinn við rannsóknina og brýtur jafnvel lög til þess að sýna fram á að hans hugboð hafi verið rétt.
Elma fer sjaldan sérleiðir í rannsókn mála, heldur starfar í sátt og samlyndi við kollega sína. Þetta er dagfarsprútt fólk sem vinnur frá níu til fimm við að leysa sakamál og Elmu þykir tildæmis Hörður vera kominn á hálan ís þegar hún tekur eftir því að hann hefur prentað út gögn sem tengjast málinu klukkan að verða hálfellefu að kvöldi (!).
Höfundur leggur mikið í sköpun persóna sinna og lesendur kynnast líka kollegum Elmu. Einna mest púður er sett í persónu Harðar yfirmanns rannsóknarlögreglunnar á Akranesi, en hann verður fyrir áfalli í einkalífinu og persóna hans þróast og breytist í takt við það. Sævar tekur meira pláss eftir því sem á líður, en hann á sér fortíð sem enn hefur ekki fyllilega verið gerð upp.
Hver er eiginlega morðinginn?
Þú sérð mig ekki náði að koma aðdáendum Elmu rannsóknarlögreglukonu í opna skjöldu, þar sem hún er fjarri góðu gamni þeirrar bókar. Sagan er meira í ætt við whodunnit, stundum nefndar sveitasetursráðgátur, þar sem ákveðið mengi fólks er kynnt, oft í lokuðu rými – og ekki þarf að þeytast um allar koppagrundir í leit að morðingjanum. Klassískar sveitasetursráðgátur eru til að mynda sumar sagna Agöthu Christie, sem lýkur oft á því að hugsanlegir morðingjar sitja í hring í stofu á sveitasetri og rannsakandinn rökræðir sig að niðurstöðu um það hver framdi glæpinn.
Í Þú sérð mig ekki dvelur hin sterkefnaða Snæbergsætt heila helgi á hóteli á Snæfellsnesi. Lík finnst en lesendur fá ekki að vita hver það er sem fallið hefur í valinn og enn síður hver er hinn seki fyrr en undir lok bókar. Sagan snýst um að kynna lesendum fólkið á hótelinu. Vitaskuld kemur í ljós að það hafa flestir óhreint mjöl í pokahorninu og margir hugsanlegir morðingjar eru hópnum. Lögreglan er í aukahlutverki þótt þeir Sævar og Hörður rannsaki málið, en glæpurinn á sér stað ári áður en Elma gengur til liðs við lögregluna á Akranesi.
Þar sem Snæbergsættin er ein af auðugri fjölskyldum landsins fá vangaveltur um misskiptingu auðs pláss í sögunni. Hótelstarfsmaðurinn Irma fylgist hér með frægum meðlimum fjölskyldunnar mæta á svæðið:
Þau eru bæði svo falleg að það er næstum ómögulegt að finna ekki til öfundar. Erfitt að velta ekki fyrir sér hvernig væri að vera þau. Vera ríkur og fallegur og geta gert nokkurn veginn hvað sem er. Skroppið í helgarferð til Parísar með engum fyrirvara, farið í fatabúðir og keypt nákvæmlega það sem mann langar í. Ég sem get varla keypt í matinn án þess að fá verk í magann þegar ég rétti fram kortið. (15)
Eftir því sem við kynnumst fjölskyldunni nánar kemur vitaskuld í ljós að allar klisjurnar eru sannar: peningar eru ekki allt og ekki er hægt að kaupa hamingjuna. Það er önnur hlið á málunum. Unglingsstúlkan Lea Snæberg hefur orðið fyrir félagslegri útskúfun og þurft að skipta um skóla:
Stundum finnst mér eins og ég hafi varið öllu lífinu í að afsanna fyrirframgefnar hugmyndir fólks um mig. Fólk sem heldur að ég sé snobbuð og góð með mig vegna þess hver fjölskyldan mín er. (41)
Persónur Evu Bjargar eru hvorki algóðar né alvondar og samúð og skilningur er ekki bara ætlaður sumum. Dekraða barnið getur átt erfitt, alveg jafnt og barnið sem líður skort, þótt með öðrum hætti sé.
Morðið í Þú sérð mig ekki er afar snyrtilegt, ef svo má að orði komast. Hér eru engin rotnandi lík eða heilaslettur upp um alla veggi. Höfundur notar þess í stað bragð sem raunar kemur fyrir í fleiri bókum hennar. Til þess að kynda undir óhugnaði eru sagðar ýmsar þjóðsögur eða flökkusögur sem tengjast sögusviðinu. Á Snæfellsnesi virðist vera um auðugan garð að gresja, draugasögur af Oddnýju Pílu og sögur af horfnum börnum svífa yfir vötnum. Það er beygur í loftinu – og hann smýgur undir húð lesandans.
Raðmorðingi gengur laus á Skaganum
Aftur víkur sögunni að Elmu á Akranesi eftir þetta stutta framhjáhald. Í Strákum sem meiða er Elma mætt til vinnu eftir fæðingarorlof – sem gefur gullið tækifæri til þess að búa til óendanlega togstreitu milli krefjandi morðrannsóknar og heimilislífs rannsóknarlögreglukonunnar, en Eva Björg fer á svig við þá hefð. Barnsfaðir Elmu er heima í fæðingarorlofi og mamma hennar hjálpar til. Elma getur sinnt hvoru tveggja, vinnu og barni með sóma.
Í sveitasetursráðgátunni Þú sérð mig ekki dvaldi höfundur ekki við lýsingar á rotnandi líkum, eins og áður kom fram, en bætir hér hressilega í. Rúmlega fertugur hugbúnaðarverkfræðingur finnst látinn í sumarbústað. Hann hefur verið stunginn margsinnis í kviðinn.
Húðin virtist þó á sumum stöðum, sérstaklega kviðnum, vera orðin blágræn. Holdið var tekið að rotna og því var húðin þrútin af gasi, tekin að tútna út og flagna. Hárið á höfðinu virtist í þann veginn að losna og neglurnar á fingrunum sömuleiðis. Úr vitum hans hafði seytlað rauðbrúnn vökvi. Augun voru hálflukt og það sem glitti í bakvið augnlokin var matt og ljóst. Uppþornuð augu, líkust augnlinsum sem ekki eru lagðar í vatn. (9)
Líkunum fjölgar og í ljós kemur að í Strákum sem meiða gengur raðmorðingi laus. Þetta eru hefndarglæpir sem tengjast atburðum sem áttu sér stað áratugum fyrr. Þar liggja ræturnar í vanrækslu/ofbeldi gegn börnum og einelti/útskúfun, sem eru tvö af uppáhaldsviðfangsefnum Evu Bjargar Ægisdóttur.
Útskúfun óhreinu barnanna
Eva Björg hefur sagt í viðtölum að hún hafi örlítið samviskubit yfir því að hafa leitt morðöldu yfir Akranes, þann friðsæla kaupstað. Að sviðsetja lögreglurannsókn í smábæ hefur þó sína kosti. Elma er vel tengd, mamma hennar vinnur á bæjarskrifstofunum, systir hennar er ljósmóðir og fleiri sinna störfum sem útheimta að þeir umgangist og þekki margt fólk. Elma og allir í hennar nærumhverfi hafa líka gengið í skóla á staðnum og þekkja því til þeirra sem koma til rannsóknar. Það getur verið kostur að þekkja marga í bænum, en það getur líka verið ókostur, eins og Hörður yfirlögga fær að reyna þegar mektarmenn í bænum móðgast við það eitt að þurfa að svara fáeinum spurningum. Það gæti einnig talist ókostur að fyrir Íslending er morðaldan á Akranesi heldur ótrúverðug, en slíkt láta krimmavinir ekki á sig fá.
Í Heim fyrir myrkur er sögusviðið ekki Akranes, heldur tilbúið bæjarfélag – Hvítárreykir í Borgarfirði, staðsett á milli Reykholts og Húsafells. Fram að þessu hefur Eva Björg skrifað beint inn í samtímann, en þessi saga hefst í nóvember árið 1977. Skiptist svo á milli þess árs og atburðanna sem leiða til þess að unglingsstúlkan Stína hvarf, í nóvember 1967.
Sjónarhornið flakkar á milli Stínu í aðdraganda hvarfsins og Marsí systur hennar, sem komin er aftur í foreldrahús tíu árum eftir hvarfið og fær dularfullt bréf sem gefur henni tilefni til að ætla að morðinginn vilji henni eitthvað. Hún er heltekin samviskubiti, því kvöldið sem Stína hvarf og skildi einungis eftir sig blóðuga úlpu við brúna yfir Hvítá, var Marsí á leið að hitta ókunnugan mann sem hún hafði skrifast á við í nafni systur sinnar. Hún komst ekki á stefnumótið, en það átti einmitt að eiga sér stað á brúnni yfir Hvítá.
Útskúfun stúlknanna á Kleppjárnsreykjum, sem sviptar voru frelsi fyrir að leggja lag sitt við erlenda hermenn, er tengd inn í söguna, enda Kleppjárnsreykir í nágrenni við Hvítárreyki. Þar snertir höfundur á samfélagsmeini sem hefur ítrekað komið upp á yfirborðið á síðustu áratugum. Grimmd fortíðarinnar í garð ungmenna sem féllu utan við normið og litið var á sem vandamál. Vandamál sem ekki voru leyst, heldur aðeins komið úr augsýn góðborgaranna í Reykjavík. Óhreinu börnin hennar Evu, sem ýmist voru staðin að óknyttum eða lauslæti og send út á land, í Breiðavík eða á Kleppjárnsreyki, þar sem þau þurftu að þola illa meðferð. Marsí verður hugsað til kynsystra sinna þegar rannsóknin á hvarfi Stínu leiðir hana að staðnum:
Hvernig lífi lifði maður eftir að hafa verið útskúfað úr samfélaginu og sendur á vinnuhæli fyrir lauslæti? Höfðu þær „læknast“? Hafði sama samfélag og útskúfaði þeim tekið þeim aftur opnum örmum? Eins og þær hefðu bara lagst inn á heilsuhæli til að jafna sig á lungnabólgu? (247)
Það kveður við nýjan tón í þessari bók Evu Bjargar í fleiri en einu tilliti. Ekki aðeins er sögusviðið annað og ytri tími settur í fortíðinni, heldur eru gróteskar lýsingar töluvert fyrirferðarmiklar í Heim fyrir myrkur. Hið líkamlega er látið kynda undir ógeði og óhugnaði. Fyrrum forstöðukona vinnuhælisins á Kleppjárnsreykjum er heimsótt á öldrunarheimili: „Augun voru gulleit og vot, umgjörðin tekin að síga niður á við svo glitti í bleika húðina að innanverðu“ (280). Lýsingar á dýrum, dýrahræjum og ógeðslegum mat eru markvisst notaðar til þess að vekja viðbjóð og hrylling. Hæg eru heimatökin, þar sem foreldrar þeirra systranna reka kjúklingabú.
Sláturhúsið var í næsta húsi. Ólíkt varphúsinu ríkti þar dauðaþögn. Um leið og við komum inn horfðum við niður í hvítt og krómað rýmið. Litlu bleiku hænsnalíkamarnir héngu í röðum á stálkrókum sem krækt hafði verið í annan fótinn. Í þessari stöðu voru fæturnir keimlíkir mannsfótum. Lærin, kálfarnir og stubbarnir fremst, líkt og þeir hefðu verið höggnir af við ökklann. Húðin slepjuleg og glansandi eftir að fiðrið hafði verið rifið af. Þeir minntu mig á nýfædd ungbörn. (123)
Gróteskan er eitt verkfæranna sem notað er til þess að vekja beyg hjá lesandanum – líkt og óhugnanlegar þjóðsögur og sögur af gömlum sjálfsmorðum. Í Heim fyrir myrkur er kannski ekkert rotnandi lík í sjónmáli eins og í sumum fyrri bókanna, en umgjörðin sem er sköpuð nær heldur betur að velgja lesanda undir uggum.
Sögur sem hræða
Glæpirnir í verkum Evu Bjargar eru alltaf „persónulegir“ og sprottnir af ástríðu. Eru hefndarglæpir, framdir af afbrýðisemi eða til þess að hylma yfir einhverjar misgjörðir úr fortíðinni. Eva fjallar um „venjulegt fólk“, ekki harðsvíraðan undirheimalýð sem smyglar eiturlyfjum eða rænir banka.
Það er ákveðin tilhneiging í Skandíkrimmanum að fara sífellt lengra í því að skálda upp skelfileg morð og hafa líkin hræðilega illa út leikin eftir hugvitssamlegar pyntingar. Eins og áður hefur verið sagt eru morðin í verkum Evu Bjargar frekar snyrtileg. Það er ekið á fólk, það drepið með lyfjum, hrint fram af klettum, lamið í höfuðið og jú, stungið. Skapað er óhugnanlegt andrúmsloft og umgjörð, en áherslan er ekki fyrst og fremst á hrylling glæpanna, heldur ráðgátuna.
Alfred Hitchcock sagði að flest vildum við láta hræða okkur. Að við hefðum hreinlega ánægju af því að upplifa ótta og spennu. Á hans tíð þótti þetta fráleit fullyrðing; fólk sem lifað hafði tvær heimsstyrjaldir taldi hreint ekki eftirsóknarvert að dvelja í spennu og ótta. Hitchcock útskýrði þá að það væri einmitt galdurinn. Við látum skapa handa okkur óhugnað og halda okkur í spennuástandi án þess að okkur stafi nokkur hætta af.
Það alvarlegasta sem glæpasagnahöfundar gera sig seka um er að missa lesendur sína úr hinu eftirsóknarverða spennuástandi. Það gera þeir tildæmis með því að skrifa langa kafla sem bæta ekki neinu við söguna og hjálpa í engu til við að leysa gátuna. Nú á dögum, þegar flestir glíma við áunninn athyglisbrest, er nauðsynlegt að sáldra vísbendingum úr pokanum með reglulegu millibili – nú eða gefa lesandanum nýtt lík að gleðja sig við. Höfundar verða líka að taka tillit til þess að mjög margir hlusta á h-æ-g-a-n lestur þessara bóka og því verður oftar að fleygja safaríkum bitum fyrir þá að japla á. Ef spennustigið er ekki viðunandi heltist lesandinn úr lestinni, fer að skrolla á Tiktok eða rífast á kommentakerfum. Þetta veit Eva Björg betur en margir aðrir höfundar og hún sáldrar alltaf jafnt og þétt úr sínum vísbendingapoka. Lausn gátunnar er líka yfirleitt hugvitssamlega unnin í hægu tempói og lesandinn aldrei skilinn eftir í lausu lofti með spurningar sem ekki fást svör við.
Þórunn Hrefna 2024
Verðlaun
Verðlaun
2018 - Svartfuglinn fyrir Marrið í stiganum
2020 - CWA Dagger fyrir Marrið í stiganum
2020 - Storytel verðlaunin fyrir Marrið í stiganum
2022 - Thrillzone Award í Holland fyrir Best Debut Thriller of the Year fyrir Marrið í stiganum
2023 - Storytel verðlaunin fyrir Þú sérð mig ekki
2023 - Thriller of the Year í Hollandi fyrir Stelpur sem ljúga
2023 - Blóðdropinn fyrir Heim fyrir myrkur
Tilnefningar
2021 - Tilnefning Crimefest sem Best debut fyrir Marrið í stiganum
2022 - Tilnefning til Blóðdropans fyrir Strákar sem meiða
Boys Who Hurt
Lesa meiraFresh from maternity leave, Detective Elma finds herself confronted with a complex case, when a man is found murdered in a holiday cottage in the depths of the Icelandic countryside – the victim of a frenzied knife attack, with a shocking message scrawled on the wall above him.. . At home with their baby daughter, Sævar is finding it hard to let go of work, until the chance discovery in a discarded box provides him with a distraction. Could the diary of a young boy, detailing the events of a long-ago summer have a bearing on Elma’s case?You Can't See Me
Lesa meiraThe wealthy, powerful Snæberg clan has gathered for a family reunion at a futuristic hotel set amongst the dark lava flows of Iceland's remote Snæfellsnes peninsula.. . As the weather deteriorates and the alcohol flows, one of the guests disappears, and it becomes clear that there is a prowler lurking in the dark.. . But is the real danger inside … within the family itself?Heim fyrir myrkur
Lesa meiraHin 14 ára Marsí skrifast á við strák sem býr hinum megin á landinu. En hún gerir það í nafni systur sinnar. Bréfaskiptunum lýkur með því að þau ákveða að hittast. Marsí kemst ekki til að hitta hann en þar sem þau höfðu mælt sér mót finnst blóðug úlpa systur hennar sem er horfin. Tíu árum síðar hefur þessi óþekkti pennavinur samband á ný.. .Strákar sem meiða
Lesa meiraNeðst var gormabók sem hlaut líka að hafa verið í eigu Mána. Hún var dökkblá og græn og á forsíðunni var mynd af trúði. Þetta var ekki skólabók. Þegar Sævar opnaði bókina sá hann að á fyrstu síðuna hafði verið skrifað stórum stöfum: Vatnaskógur. Máni reyndist ekki bara vera góður námsmaður, heldur var skriftin líka falleg og fullorðinsleg. Ártal og dagsetning hafði verið skrifað þar fyrir neðan, 8. ágúst 1995. Sævar fletti yfir á næstu síðu og las: Ég á örugglega ekkert eftir að skrifa mikið í þessa bók.Night Shadows
Lesa meiraThe small community of Akranes is devastated when a young man dies in a mysterious house fire, and when Detective Elma and her colleagues from West Iceland CID discover the fire was arson, they become embroiled in an increasingly perplexing case involving multiple suspects. What’s more, the dead man’s final online search raises fears that they could be investigating not one murder, but two.. .Þú sérð mig ekki
Lesa meiraSnæbergsfjölskyldan er efnamikil, voldug og virt í samfélaginu. Allt virðist leika í lyndi, en þegar stórfjölskyldan sameinast í tilefni af afmæli ættföðurins á nýju hóteli á Snæfellsnesi koma brestir í ljós. Rifið er ofan af gömlum sárum og leyndarmál fortíðarinnar leita upp á yfirborðið. Á meðan veisluhöldin standa sem hæst versnar veðrið og í gegnum hríðina heyrast skelfileg öskur.Girls Who Lie
Lesa meiraWhen single mother Maríanna disappears from her home, leaving an apologetic note on the kitchen table, everyone assumes that she’s taken her own life … until her body is found on the Grábrók lava fields seven months later, clearly the victim of murder. Her neglected fifteen-year-old daughter Hekla has been placed in foster care, but is her perfect new life hiding something sinister?. .Næturskuggar
Lesa meiraLogarnir höfðu farið illa með líkama unga mannsins og lyktin af brenndu holdi loddi enn við hann. Flíkurnar voru ennþá límdar við handleggina og fæturna og hárið hafði sviðnað af.The Creak on the Stairs
Lesa meiraWhen a body of a woman is discovered at a lighthouse in the Icelandic town of Akranes, it soon becomes clear that she’s no stranger to the area.. .