Um bókina
Mannabein finnast á sveitabæ í Hvalfirði þar sem ekki hefur verið búið í hálfa öld. Hver kom þeim þar fyrir, hvers vegna — og hvenær? Ung einstæð móðir flytur á Akranes með ungan son sinn og fær leigða kjallaraíbúð hjá eldri manni sem virðist ekki allur þar sem hann er séður.
Lögreglukonan Elma, sem aðdáendur Evu Bjargar þekkja úr fyrri bókum hennar, fæst hér við flókið sakamál — um leið og hún grunar Sævar, sambýlismann sinn, um að leyna sig einhverju.
Eva Björg Ægisdóttir hlaut Íslensku glæpasagnaverðlaunin — Blóðdropann fyrir Heim fyrir myrkur. Bækur hennar koma nú út við miklar vinsældir bæði austan hafs og vestan.
Úr bókinni
Líkamsleifarnar voru af stelpu. Elma vissi ekki hvers vegna hún hafði það svona sterklega á tilfinningunni. Upp úr jarðveginum mátti aðeins greina hluta af beinagrind, ekki hvítri heldur brúnni, og hún vissi ekki hvort þetta væri mold eða einhvers konar lífvefur á beinunum. Það tók um fimm ár fyrir líkama að verða að beinagrind ef hann var grafinn án kistu en auðvitað þurfti að gera ráð fyrir ýmsum breytum; umhverfisaðstæðum og ástandi líksins. Gröfin var um hálfs metra djúp og jarðvegurinn aðallega mold, en hún vissi ekki nógu mikið til að geta sagt til um það hvort það hefði einhver áhrif. Kannski var hún svona viss um að þetta væri stelpa vegna þess að beinin virtust svo fíngerð, en líklega virkuðu allir frekar fíngerðir án alls þess sem vanalega klæddi mannabein: hold, blóð, vöðvar og fita.
"Hvað helduru að hún hafi legið þarna lengi?" Elma áttaði sig á að hún hafði sagt hún en auðvitað gæti þetta allt eins verið hann. Þessi tilfinning var ekki á neinum rökum byggð.
Yfirmaðurinn stóð við hlið hennar með gömlu, þvældu loðfeldshúfuna sína á höfðinu en í nýjum, mosagrænum frakka. Undanfarið hafði ansi margt nýtt dúkkað upp í fataskápnum hjá honum og hana grunaði að þar kæmi hin nýja vinkona hans við sögu, læknir sem hann hafði hitt í lok síðasta árs.
"Einhver ár líklega," sagði Hörður.
Elmu fannst það svo sem augljóst, en sagði það ekki.
Hún leit í kringum sig þar sem þau stóðu, í fjósi sem einu sinni hafði hýst nokkrar kýr. Það var þó ekki mikið eftir af því þótt básarnir væru vel greinilegir. Glerið í gluggunum var horfið og veggirnir orðnir hrörlegir, steypan tekin að molna úr þeim.
"Hvenær sagðirðu aftur að hefði síðast verið búið hérna?" spurði hún.
"Um 1970 held ég."
"Fyrir hálfri öld."
"Já, það er rétt," sagði Hörður eins og það kæmi honum á óvart. Elma skildi það. Árið 1970 virkaði ekki alveg svo fjarri. Hálf öld var langur tími, sérstaklega þegar hún hugsaði út í það að í hálfa öld hafði bærinn staðið í eyði.
Skyndilega gat hún ekki lengur verið þarna inni.
(s. 7-8)