Æviágrip
Ingibjörg Haraldsdóttir fæddist í Reykjavík 21. október 1942 og ólst þar upp. Eftir stúdentspróf stundaði hún nám við Kvikmyndaskóla ríkisins í Moskvu og lauk Mag. art prófi í kvikmyndastjórn þaðan 1969. Hún starfaði sem aðstoðarleikstjóri við leikhúsið Teatro Estudio í Havana á Kúbu frá 1970 – 1975. Hún skrifaði og þýddi blaðagreinar, aðallega fyrir Þjóðviljann, meðan hún dvaldi í Sovétríkjunum og á Kúbu. Eftir heimkomuna til Íslands í árslok 1975 vann hún sem blaðamaður og kvikmyndagagnrýnandi á Þjóðviljanum um árabil.
Frá 1981 var Ingibjörg ljóðskáld og þýðandi að aðalstarfi, en fyrsta ljóðabók hennar, Þangað vil ég fljúga, kom út árið 1974. Ingibjörg gaf út sjö ljóðabækur, þar af tvær safnbækur, og hafa ljóð hennar verið þýdd á ungversku, þýsku, lettnesku, litháísku, búlgörsku, rússnesku, slóvakísku, ensku og Norðurlandamál. Hún hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir ritstörf sín, meðal annars Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar, Íslensku bókmenntaverðlaunin, Menningarverðlaun DV fyrir þýðingu sína á Fávitanum eftir Dostojevskí og Íslensku þýðingarverðlaunin 2004 fyrir Fjárhættuspilarann eftir sama höfund. Þá var hún tvisvar tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, 1993 og 2004.
Ingibjörg var afkastamikill þýðandi, aðallega úr spænsku og rússnesku. Hún þýddi meðal annars skáldsögur eftir Dostojevskí og Búlgakov, fjölda leikrita eftir ýmsa höfunda og þýðingar hennar á ljóðum og smásögum spænsku- og rússneskumælandi höfunda birtust í tímaritum og voru fluttar í útvarpi.
Ingibjörg sat í stjórn Rithöfundasambands Íslands frá 1992 – 1998 og var formaður sambandsins frá 1994 – 1998. Hún var í ritnefnd Tímarits Máls og menningar frá 1977 og var aðstoðarritstjóri tímaritsins frá 1993 - 2000. Hún átti sæti í ritnefnd tímarits þýðenda, Jón á Bægisá.
Ingibjörg lést 7. nóvember árið 2016.
Ritþing um Ingibjörgu Haraldsdóttur í Gerðubergi 20. janúar 2007
Frá höfundi
Upphaf
Ég fæddist í gráu húsi
í bláhvítu landi við ysta haf
einn októberdag fyrir löngu
í landinu því var skógur
mikill og forn og dimmur
og draugar riðu þar hjá
á kvöldin kom fuglinn í fjörunni
og söng mér ódáinsljóð
meðan öldur brotnuðu á klettum
um húsið fór gustur af sögum
og lygasagan um heiminn og mig
hófst þar einn októberdag . . .
Úr ljóðabókinni Þangað vil ég fljúga (1974)
Um höfund
„Hér á ég heima“ : heimar, heima og heiman í ljóðum Ingibjargar Haraldsdóttur
„Lýst er eftir konu/sem fór að heiman í árdaga/fáklædd og loguðu/eldar í augum.“ Þetta eru upphafsorð ljóðabókar Ingibjargar Nú eru aðrir tímar (1989) og vísa þau til þeirra hamskipti sem orðin voru á pólitískum eldhita, bæði skáldkonunnar og þjóðfélagsins. Hin æskurjóða (skáld)kona sem „lagði á brattann og hvarf/inn í viðsjála þokuna“ verður tákn fyrir byltingarhita, en síðan hún hvarf inn í þokuna hefur hún „ekki sést“. En þótt sú æskurjóða hafi lagt á brattann og horfið þá er langt í frá að sú sem eftir situr hafi tapað eldinum, enn brennur skáldkonunni eldur í augum, en nú er það ljóðeldur.
Ingibjörg dvaldist við nám bæði á Kúbu og í Sovétríkjunum. Sósíalismanum hafði hún því kynnst af eigin raun og bera ljóð hennar honum vitni, stjórnmálaskoðanir hennar skína í gegn, andstaða við her og hernaðarbrölt og samúð með sósíalískri baráttu. En þótt ljóð Ingibjargar séu ádeiluljóð þá falla þau ekki í gryfju flatneskjulegs áróðurs, eins og berlega sést á því ljóði sem vitnað er til hér að ofan. Sýnin á þá ungu og æskurjóðu er kersknisleg og titillinn „Auglýsing“ ber í sér þá blendnu hugsun sem oft einkennir ljóð Ingibjargar. Annarsvegar er skírskotað til byltingarinnar, hér í formi ungrar konu sem leggur á brattann, en sú mynd er dregin í efa með því að gera för hennar hálf gönulega, hún er fáklædd og virðist ekki of forsjál þegar hún æðir inn í þokuna. Hinsvegar eru auglýsingar tæki kapítalismans, en ímynd þeirra er stillt upp gegn sjálfu ’ljóðinu’ sem byltingartæki.
Fyrsta bók Ingibjargar, Þangað vil ég fljúga (1974), skiptist milli tveggja heima. Byggingin er þétt og nokkuð línuleg eins og um frásögn í ljóðum sé að ræða. Þetta er undirstrikað með fyrsta ljóðinu sem heitir „Upphaf“ og segir frá fæðingu skáldkonunnar: „Ég fæddist í gráu húsi/í bláhvítu landi við ysta haf/einn októberdag fyrir löngu“, og „lygasagan um heiminn og mig/hófst þar einn októberdag...“ Þarna kemur fram mjög skemmtilegt og sérstætt frásagnarlíki í ljóðformi sem helst í fyrstu ljóðunum en leysist svo upp þegar á líður bókina. Í fyrstu ljóðunum er bernskuheimurinn séður í rósrauðum bjarma, lítil stúlka kemur heim í rauðum gallabuxum til að finna lítinn slefandi bróður í skúffu. Bernskuheimurinn er líka heimur uppeldis og lærdóms, pabbi útskýrir verkföll en kennir dótturinni ekki að marsera eins og hermennirnir. Svo skiptir um svið, skip sigla inn í himininn og í „Eilífð daganna“ segir frá mönnum sem „ferðast áttavilltir/um yfirborð jarðar“ og í lokin situr ljóðmælandi undir mangótré og eldist. Litla stúlkan er komin út í heim og seinni hluti bókarinnar er fullur af heimþrá og hugsunum heim frá ókunnum löndum og ströndum. Það er þaðan sem bernskuheimurinn birtist svo bjartur, í „Vísu um fiðrildi“ á fiðrildið aðeins einn dag til að dreyma og því skal ekki vekja það. Ljóðið vísar í báðar áttir, til bernskunnar og þeirrar eldri sem situr undir mangótrénu. Heimþráin kemur einna ljósast fram í ljóðinu „Að vera útlendingur“, þar sem ljóðmælandi geymir „sumarnótt í kyrrum björtum bæ“ lokaða í hirslu sem hún opnar þegar hún er ein:
þegar ég er ein
opna ég hirsluna
og hlusta á skóhljóð sjálfrar mín
bergmála í sofandi húsunum.
Kyrrðin sem ríkir í þessu ljóði, myndgerð í sofandi húsum og hljóðu bergmáli í kistu, er dæmigerð fyrir ljóð Ingibjargar og jafnframt hennar mesti styrkur. Í sumum ljóðum má finna máttleysi einstaklingsins gagnvart ópum myrkursins, þegar „morð eru framin á meðan þú sefur“, og máttleysi útlendingsins gagnvart heimi sem er honum framandi, svo mjög að hann getur ekki einu sinni fært hugsanir sínar í orð. Og getur þó, því slík er einmitt list Ingibjargar að færa í orð hin margvíslegustu andartök, augnaráð og hugsanir; nísta þau með prjóni, stöðva þau á flugi, setja þau undir gler, eins og hún kemst sjálf að orði í ljóðinu „Andartak“, frá 1983:
Þú dokar við
horfir í nærstödd augu
hugsar um eitthvað
- eitt andartak
[...]
geturðu níst það prjóni?
stöðvað það á flugi?
sett það undir gler?
Og það er kyrrðin í ljóðum Ingibjargar sem megnar að stöðva andartök og nísta prjónum hugsanir, setja augu og myndir andartak undir gler. Í þessari kyrrð standa svo myndirnar skírar eins og stjörnur á fleti nætur, stjörnur sem eru Ingibjörgu stöðugt yrkisefni, stjörnur sem lifa í nóttunni og deyja á daginn, stjörnur sem lofa og stjörnur sem hrapa. „Við erum sambýlismenn á þessari stjörnu“ minnir hún á í ljóðinu „Hvatning“ úr Þangað vil ég fljúga, og hvetur þannig til sameinaðs átaks. Í þessari fyrstu bók Ingibjargar er þó innanum alla kyrrðina sterk spennutilfinning, óþreyja eftir einhverju, kannski að breyta heiminum?
Orðspor daganna (1983), er um margt ólík Þangað vil ég fljúga, þótt hún sé um leið ákveðið framhald. Í Orðsporunum matar fyrir nokkurri svartsýni eða bölsýni á íslenskan veruleika og lífsgæðakapphlaupið, bygging húss er séð sem bygging fangelsis og öryggiskenndin er keypt á kostnað frelsis. Ingibjörg blandar þetta heimkomunni frá útlöndum, ljóðin í fyrstu tveimur köflunum eru ljóð vonbrigða við heimkomuna og nú beinist söknuðurinn út á við, til útlanda. Tíminn er hér aðalviðfangsefnið, tíminn sem hefur horfið sporlaust, eða þeyst stjórnlaust út um eldhúsgluggann yfir endalausu uppvaskinu og framrás tímans, dagarnir, eru merktir með orði í hverju spori. Skáldkonan er enn með ólgu sósíalismans í barmi sér en hún á ekki skjól við landsins hjarta, er njörvuð niður við eldhúsvaskinn, steypt inni í húsi. Þarna eru sterkir femínískir undirtónar, eins og í hinu kunna ljóði „Angist“ sem lýsir því hvernig angistin nagar rótina af ljóðmælanda sundur, „þartil einn daginn“ að „eitthvað af mér/þeytist stjórnlaust út í buskann“ en „hitt verður eftir/og klárar uppvaskið.“ Í næsta ljóði „Kona“ birtist mynd af einskonar konu sem kyndir ofninn minn, því í lok eldheitra umræðufunda „þegar allt hefur verið sagt“ og vandamál heimsins „vegin metin og útkljáð“ kemur alltaf kona „að taka af borðinu/sópa gólfið og opna gluggana/til að hleypa vindlareyknum út.“
Uppgjafartónn er þó hreint ekki allsráðandi, „með tvær hendur tómar“ rís ljóðmælandi upp einbeittur og vaknar af aldalöngum svefni, og virðist tilbúinn að takast á við lífið. Í ljóðinu „Þyrnirós“ segir: „Nú rís ég upp einbeitt og vakna/af aldarlöngum svefni/- eða er ég að fæðast?“, „Einhver hefur sagt mér/ég eigi hér heima.“ Það er ákveðin ferlishugsun sem gefur ljóðum Ingibjargar sérstakan blæ, ekki aðeins innan bókanna heldur líka milli þeirra. Þótt aldrei sé um heilsteyptan söguþráð að ræða, má sjá línulega þróun, framhald og samband milli ljóðanna. Ef biturð og uppgjöf setja mark sitt á mörg ljóðanna, þá er heildartónninn öflugur, kannski er bjartsýninin einna mest áberandi í börnunum sem verða Ingibjörgu að yrkisefni, þau munu landið erfa. Þannig drekkur dóttirin baráttuhugsanir móðurinnar með móðurmjólkinni í ljóðinu „Barn á brjósti“ í lok bókarinnar:
Ég dái konur
sem halda vígreifar
útá hála brautina
[...]
Þannig hugsa ég
[...]
meðan dóttir mín drekkur
hugsanir mínar
með móðurmjólkinni
Þriðja bók Ingibjargar, Nú eru aðrir tímar (1989), kemur út á tímum perestrojku Gorbatsjovs, sem er að setja af stað öldu gerbreytinga, kommúnisminn riðar til falls og sósíalistar allra landa skoða hug sinn. Sú nostalgía sem einkennir fyrri bækur Ingibjargar birtist einnig í Nú eru aðrir tímar, en hún er blendnari en áður, hugmyndir og viðhorf hafa breyst og skáldkonan með. Biturðin er með öllu á braut, í lokaljóðinu „Úr „myndabók hugans – Moskva“, er upprifjunin blandin nýrri vitneskju, nýrri sýn á kommúnismann í Sovétríkjunum, en einnig ljúfsárri gleði fyrir þær stundir sem þarna sköpuðust og verða ekki aftur teknar, né endurteknar í „Veröld sem var/og við áttum saman“. Nú eru aðrir tímar er að mestu laus við þá ólgu sem finna má í Orðsporum daganna. Frekar er litið um öxl með kímileitum svip, eins og fram kemur í fyrsta ljóðinu um æskurjóðu konuna sem hverfur inn í viðsjála þoku. Það er eins og skáldkonan sé sáttari, böndin sem binda hana eru silkibönd móðurástar. Þó er enn þessi sama tilfinning fyrir innilokun, „bilið vex/milli þess sem er/og þess sem átti að verða“ segir í ljóðinu „Nostalgía“, en söknuðurinn er frekar eins og tregi yfir minningu. Stjórnmál og staða konunnar eru Ingibjörgu enn yrkisefni, þjóðin horfir í tóm sjónvarpsins og kona með tryllt augu ber kjúkuber á glugga og æpir, kannski er þetta sú sem þeyttist stjórnlaust út um eldhúsgluggann í „Angist"? Hér hefur myndmálið líka fægst og pússast í ólgusjó og kyrrðin enn aukist. Kyrrð ljóðanna endurspeglar tilfinningakyrrð skáldkonunnar, eins og best kemur fram í ljóðinu „Endurkoma“, en þar segir: „Þá kom hún og sá/líf sitt gára/lygnan flöt/tímans//óendurkræft/líf sitt“. Þegar þessari undurfallegu mynd af tilveru einnar manneskju í hinum óendanlega tíma er stillt upp við hlið ljóðsins „Angist“ úr Orðsporum daganna, þar sem hugmyndin er skyld, tilvera í tíma, þá er þróunin skýr. Í „Angist“ er tilfinningin fyrst og fremst óþol, „eitthvað af mér/þeytist stjórnlaust/útí buskann“; þetta er mögnuð mynd af sóuðu lífi – við eldhúsvaskinn – frekar en þeirri gáru sem andartak myndast á fleti tímans. Nú eru aðrir tímar einkennist enn fremur af þessari kyrrð, en það er einmitt í henni sem kraftur ljóðanna býr, kyrrlátar myndirnar gára flöt ljóðsins og setja mark sitt á hann.
Árið 1991 voru ljóðabækur og ljóðaþýðingar Ingibjargar gefnar út í einni bók, auk nokkurra nýrra ljóða. Í þessari útgáfu birtist sú viðurkenning sem Ingibjörg nýtur sem eitt helsta samtímaskáld þjóðarinnar. Fjórum árum síðar sendi Ingibjörg frá sér nýja ljóðabók, Höfuð konunnar (1995). Bókin hefst á tilvitnunum um tvö mannshöfuð, hið almenna mannshöfuð sem er nokkuð þungt, samkvæmt Sigfúsi Daðasyni og svo höfuðkúpu Egils sem einnig þótti í þyngra lagi. En í ljóði Ingibjargar um höfuð konunnar er höfuð hennar alls ekki þungt, heldur „mjallhvítur/dúnmjúkur/hnoðri“ sem er stundum „á fleygiferð“, týnir áttum og villist. Með þessu samspili (karl)mannshöfða og höfuðs konunnar mætti ætla að Ingibjörg væri hér að takast á við ’hefðina’ og fyrsta ljóðið „Land“ virðist undirstrika það, en þar segir: „Ég segi þér ekkert um landið/ég syng engin ættjarðarljóð“, í stað þess biður ljóðmælandinn lesandann að standa við hlið sér í myrkrinu, anda djúpt og finna það streyma: „segðu svo:/Hér á ég heima“. Enn er verið að takast á við hugmyndina um heima og heiman og hér virðist skáldkonan fyllilega sátt við að vera komin ’heim’. Að auki birtist þarna skemmtileg yfirlýsing um íslenskar ljóðhefðir og ímynd landsins eins og hún birtist í ljóðum: skáldkonan sniðgengur slíkt og biður lesanda að upplifa sig heima í myrkrinu fremur en glæstu landslaginu eða dramatískri sögunni. Það væri ofmælt að ætla sér að draga þau margvíslegu minni sem birtast í ljóðum Höfuðs konunnar saman í eitt þema um átök við hefð, fremur mætti segja að slík ljóð stingi upp kollinum innanum önnur sem vísa allt annað. Annað dæmi um sérstaka nálgun Ingibjargar á ættjarðarátök er ljóðið „Fjallkona“ sem lýsir draumi um konu og fjall og fjallið er kona. Ljóðmælandi ætlar að leita skjóls við rætur fjallsins „En fjallið skautaði/faldi hvítum//og kalt var fjúkið við rætur þess“. Ímynd fjallkonunnar virðist því ekki alveg ásættanleg. Þessi mynd kulda verður sérlega sterk þegar hún er spegluð í einu af fjölmörgum ljóðum Ingibjargar sem lýsa útlöndum, en á síðunni á móti „Fjallkonunni“ er ljóðið „Eyja“ sem ber í sér kunnuglega nostalgíu eftir grænni eyju með pálmatrjám og hvítum sandi, gulri sól og rauðri mold. Þessi eyja býr líka í draumi skáldkonunnar, „angar ennþá/græn og aftur græn/í draumum mínum“. Þarna er stillt upp andstæðum, kaldri eyju fjallkonunnar og grænni eyju fjarlægðarinnar. Draumurinn birtist einnig í síðasta erindi ljóðsins „Höfuð konunnar“ því þar „geymir konan í höfði sér/klið þeirra daga sem liðu/í alsælu draumsins og dóu/svo válega síðar“:
Enn sigla skip um næturhöfin
og mætast, skríða hljóð
út úr dimmum þokum
og mætast
Þannig birtast okkur enn ein mótin, mót heima og heiman, drauma og veruleika, mót hefðarinnar – myndhverfð í þungu (karl)mannshöfði – og konunnar – en höfuð hennar er ekki þungt. Allt siglir þetta um næturhöf ljóða Ingibjargar og skríður út úr dimmum þokum til að mætast.
Síðari hluti Höfuðs konunnar er helgaður þýðingum á ljóðum rússnesku skáldkonunnar Marínu Tsvetajevu. Ingibjörg er ekki bara ljóðskáld, hún er einnig afkastamikill þýðandi og hefur þýtt ljóð rússneskra og spænskumælandi skálda eins og Pablo Neruda, Cesar Vallejo, Roque Dalton, Gioconda Belli, Nicolás Guillén, en ljóð þessara skálda eiga það sameiginlegt að vera ákaflega pólitísk.
Auk ljóðanna hefur Ingibjörg unnið þrekvirki í þýðingum á skáldsögum úr rússnesku og spænsku. Það er henni að þakka að síðustu tvo áratugina hafa Íslendingar fengið tækifæri til að kynnast rússneskum höfundum eins og Dostojevsky, Mikail Búlgakof, Anatoli Rybakov og Ljúdmílu Petrúshevskaju í frábærum þýðingum hennar. Einnig hefur hún þýtt tvær skáldsögur höfundarins Manuel Scorza frá Perú og bera allar þýðingarnar málvitund hennar og málgáfu vitni. Það hlutverk sem þýðingar gegna í bókmenntalandslaginu hefur verið ákaflega vanmetið í íslenskri umræðu. Ástráður Eysteinsson bókmenntafræðingur hefur unnið einna ötulast að því að koma þýðingum inn í bókmenntaumræðuna, með ágætum árangri. Þeir straumar og stefnur sem berast gegnum þýðingar eru sérstaklega mikilvægir í svo litlu og afmörkuðu bókmenntaumhverfi sem Ísland er.
Á níunda áratugnum varð mikil bylgja þýðinga, þarsem höfundar eins og Guðbergur Bergsson og Ingibjörg sendu frá sér hvert stórvirkið á fætur öðru. Þennan áratug var heilmikil gróska í íslensku bókmenntalífi og hafa þýðingarnar án efa átt sinn þátt í því. Bókaútgáfa blómstraði og íslenskir höfundar tókust á við ný viðmið og sjónarmið í bókmenntum og bókmenntaumræðu. Þrátt fyrir að Ingibjörg hafi einbeitt sér að þýðingum á klassískum bókmenntum fremur en samtímasögum, átti sá kraftur sem fylgdi þessum þýðingum sinn þátt í að lífga bókmenntalandslagið við og auðga það. Það er því óhætt að segja að þýðingar Ingibjargar úr frummálum séu ómetanlegt framlag hennar til íslenskra bókmennta. Það að fá að lesa höfuðverk bókmenntasögunnar eins og Bræðurna Karamasof, Glæp og refsingu, Fávitann og Tvífarann eftir Dostojevsky, og Meistarann og Margarítu eftir Búlgakof á eigin máli er ákaflega mikils virði fyrir bókmenntaunnendur, auk þess sem þessi stórvirki hafa nú verið gerð aðgengileg fyrir komandi kynslóðir lesenda.
© Úlfhildur Dagsdóttir, 2001
Greinar
Almenn umfjöllun
Gauti Kristmannsson: „Ingibjörg Haraldsdóttir skáld og þýðandi 1942-2016.“ Minningarorð
Jón á Bægisá, 15. árg. 2016, s. 7-8
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Ævir ljóðskálda“
Tímarit Máls og menningar 2008, 69. árg., 4. tbl. s. 81-87
Magdalena Schram: „Kannski það sé hugleysi.“ Rætt við Ingibjörgu Haraldsdóttur um þýðingar og sitthvað fleira.
19. júní, 35. árg., 1985, s. 38-40
Magnús Sigurðsson: „Níu aðferðir við fuglaskoðun“
Tímarit Máls og menningar 2008, 69. árg., 1. tbl. bls. 39-44.
Sigþrúður Gunnarsdóttir: „Kíkt í höfuð konunnar.“ Viðtal við Ingibjörgu Haraldsdóttur
Mímir, 35. árg., 43, 1996, s. 37-43
Silja Aðalsteinsdóttir: „Rokkstjarna í Kólumbíu: Ingibjörg Haraldsdóttir fór á stærsu ljóðahátíð í heimi“ Viðtal
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 3. tbl. 2004, s. 27-36
Svanhildur Óskarsdóttir: „Tilværelsens anakronisme.“ Ingibjörg Haraldsdóttir beskæftiger sig klart, enkelt og lokkende med tidens og tilværelsens modsigelser = „The anachronism of existence.“ Ingibjörg Haraldsdóttir confronts the conflicts of our time and existence with clarity, simplicity, and an enticing touch.
Nordisk litteratur, 1993, s. 38-39
Soffía Auður Birgisdóttir: „... lygasagan um heiminn og mig ...“: Um ljóðagerð Ingibjargar Haraldsdóttur“
Tímarit Máls og menningar, 64. árg., 1. tbl. 2003, s. 20-24
Úlfhildur Dagsdóttir: „Mod andre tider“
På jorden 1960-1990, Nordisk kvinndelitteraturhistorie, bind iv, ritstj. Elisabeth Møller Jensen og fl. København, Rosinante 1997, s. 233-236
Védís Skarphéðinsdóttir: „Lækningamáttur ljóðsins“
Læknablaðið, 89. árg., 3. tbl. 2003, s. 241
Um einstök verk
Höfuð konunnar
Haukur Hannesson: „Tvær skáldkonur“
Tímarit Máls og menningar, 57. árg., 1. tbl. 1996, s. 109 – 112
Soffía Auður Birgisdóttir: „Leikið með (mót)myndir: nokkur „höfuðatriði“ um skáldskap kvenna og karla“
Ástráður Eysteinsson, Dagný Kristjánsdóttir og Sveinn Yngvi Egilsson (ritstj.): Heimur ljóðsins. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2005, s. 262-273
Vala S. Valdimarsdóttir: „Höfuð konunnar“
Vera, 15. árg., 1. tbl. mars, 1996, s. 34
Nú eru aðrir tímar
Friðrikka Benónýsdóttir: „Nú eru aðrir tímar“
19. júní, 40. árg., 2. tbl. 1990, s. 62-63
Svanhildur Óskarsdóttir: „Góðar stundir“
Tímarit Máls og menningar, 51. árg., 2. tbl. 1990, s. 105 – 107
Orðspor daganna
Eysteinn Þorvaldsson: „Þú réttir fram hönd“
Tímarit Máls og menningar, 45. árg., 1. tbl. 1984, s. 110 – 113
Veruleiki draumanna: endurminningar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Ævir ljóðskálda„
Tímarit Máls og menningar 2008, 69. árg., 4. tbl. bls. 81-7.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Bókalíf: Um nýleg íslensk æviskrif„ (ritdómur)
Skírnir 2008, 182. árg., haust, bls. 501-7.
Þýðingar Ingibjargar á verkum Dostojevskíjs
Áslaug Agnarsdóttir: „Dostojevskíj á meðal vor“
Skírnir, 166. árg., vor 1992, s. 226-248
Greinar og viðtöl við Ingibjörgu Haraldsdóttur hafa einnig birst í dagblöðum, sjá t.d. Gagnasafn Morgunblaðsins
Verðlaun
2010 – Kjörin heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands
2004 – Íslensku þýðingarverðlaunin: Fjárhættuspilarinn eftir Fjodor Dostojevskí
2003 – Borgarlistamaður Reykjavíkurborgar
2002 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Hvar sem ég verð
2002 – Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu: fyrir störf í þágu íslenskra bókmennta
2000 – Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar
1988 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Fávitinn eftir Fjodor Dostojevski (þýðing)
Tilnefningar
2004 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Hvar sem ég verð
1995 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Höfuð konunnar
1993 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Nú eru aðrir tímar
1989 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Nú eru aðrir tímar
Ljóð í leiðinni: skáld um Reykjavík
Lesa meiraLa cabeza de la mujer
Lesa meiraLjóðasafn
Lesa meiraLjóð í Moord liederen
Lesa meiraMinningarorð um Franz Gíslason
Lesa meiraLjóð gripin sem hálmstrá
Lesa meiraLjóð í 25 poètes islandais d´aujourd´hui
Lesa meiraLjóð í Islande de glace et de feu
Lesa meiraLjóð
Lesa meira
Hinir smánuðu og svívirtu
Lesa meiraFjárhættuspilarinn
Lesa meiraSorgargondóll og fleiri ljóð
Lesa meiraKirsuberjagarðurinn: gamanleikur í fjórum þáttum
Lesa meiraDjöflarnir
Lesa meiraFeður og synir: leikgerð í tveimur þáttum
Lesa meiraÞrjár systur
Lesa meiraMinnisblöð úr undirdjúpunum
Lesa meiraTvífarinn. Pétursborgarbálkur
Lesa meira