Beint í efni

Matthías Johannessen

Æviágrip

Matthías Johannessen fæddist í Reykjavík 3. janúar 1930. Hann lauk Cand.-mag.-prófi í norrænum fræðum frá Háskóla Íslands árið 1955, með íslenskar bókmenntir sem aðalgrein. Hann lagði stund á almenna bókmenntasögu og leiklistarfræði í Kaupmannahöfn um tíma og rannsakaði m.a. verk Gríms Thomsen. Matthías starfaði lengst af við Morgunblaðið, fyrst sem blaðamaður frá 1951-1959 og síðan sem ritstjóri fram í ársbyrjun 2001 þegar hann lét af störfum.

Á löngum ritferli sendi Matthías frá sér ljóðabækur, leikrit, ritgerðir, viðtalsbækur og ævisögur, þýðingar, annaðist útgáfur og samdi formála að ýmsum ritum, auk fjölbreytts efnis í blöðum og tímaritum. Matthías var þekktur fyrir samtöl sín við kunna sem og síður þekkta einstaklinga, m.a. Halldór Laxness, Tómas Guðmundsson og Pál Ísólfsson. Árið 1958 sendi hann frá sér sína fyrstu ljóðabók, Borgin hló, sem vakti athygli fyrir frjálst stílform. Ljóð hans hafa verið þýdd á fjölda tungumála og hann hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín. Þrjár bóka hans hafa verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs; Tveggja bakka veður (1983), Dagur af degi (1990) og Vötn þín og vængur (1998). Hann hefur ennfremur hlotið heiðurslaun Alþingis frá 1984 og fékk Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 1999. Þá var hann einn þeirra sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðibóka árið 2005 fyrir bókina Kjarval.

Matthías lést 11. mars 2024.

Mynd af höfundi: Kristinn Ingvarsson.