Beint í efni

Brotamynd

Brotamynd
Höfundur
Ármann Jakobsson
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Ung blaðakona í Reykjavík fær það verkefni að skrásetja lífshlaup Herdísar Pálsdóttur læknis, alþingismanns og athafnakonu að henni látinni og finna út hvers vegna hún ánafnaði óskyldum útlendingi húsið sitt og stóran hlut í stöndugu fjölskyldufyrirtæki.

Sannleikurinn um Herdísi reynist ekki auðfundinn en leitin kveikir hugsanir um aðstæðurnar sem hver manneskja fæðist inn í og möguleika hennar til að móta eigið líf. Um leið verða tengslin milli rannsakanda og viðfangsefnis æ flóknari og spurningin er ekki lengur aðeins hver Herdís var heldur einnig hvernig ævisagnaritarinn getur rækt skyldur sínar við hana.

úr bókinni

Ég skal draga þetta saman, sagði hann, brá fyrir sig óvæntri auðmýkt. Það rak á fjörur mínar áhugaverða sögu um fyrirtækið Snorri Snorrason hf., kennt við stofnandann sem var einu sinni í matvælaframleiðslu, fiskibollum og áleggi og þessháttar. Seinustu áratugi hefur það verið eignarhaldsfélag, ansi öflugt. Það á hlutabréf í öllu sem munar um. Sjávarútveginum, hátækniiðnaði, samgöngum. Snorri Snorrason sjálfur lést fyrir tíu árum, á gamals aldri. Hann hafði aðeins átt eitt barn, son sem dó af slysförum átján eða nítján ára, í kringum 1975. Ekkjan erfði því félagið og öll hlutabréfin.
   Jæja, sagði hún, sá enga bók hér og enn síður ástæðu til að leyna því fyrir honum.
   Ekkjan hét Herdís Pálsdóttir, seinni kona hans, tuttugu árum yngri. Átti sjálf þrjú börn frá fyrra hjónabandi. Þú hefur enn engan áhuga? En nú byrjar það. Herdís var læknir, raunar fyrsta konan sem varð yfirlæknir og prófessor í fæðingarlækningum. Hún var líka formaður Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna og eitt kjörtímabil þingmaður fyrir Alþýðubandalagið. Í stuttu máli kommúnisti. Forríkur kommúnisti.
   Það er óvenjulegt en ég veit samt ekki...
   Bíddu, sagði hann og aftur reikaði höndin í átt að pennanum í brjóstvasanum. Herdís lést núna fyrir nokkrum vikum og skildi eftir sig miklar eignir. Miklar eignir. 
   Hún beit í vörina. Aftur veifar hann peningum dólgslega framan í hana.
   Heima hjá henni fannst lögleg erfðaskrá þar sem hún arfleiðir nítján ára strák frá Bandaríkjunum sem heitir Alexander Moran að húsinu þar sem þau Snorri bjuggu og tæpum þriðjung bréfa í eignarhaldsfélaginu. Börnin hennar og ýmis góðgerðafélög fá afganginn og sjálfsagt meiri arf en flestir; eftir stendur að mestur auðurinn fer til þessa bandaríska drengs sem er víst ekki af íslensku ætterni og virðist aldrei hafa komið til Íslands.
   Þau horfðust í augu smástund. Hann brosti ekki lengur. Stillti sig greinilega um það. Svona er allt öfugt í gagnnjósnaheiminum.

(12-13)

 

 

Fleira eftir sama höfund

álfheimar risinn

Álfheimar: Risinn

Risinn er önnur bókin af fjórum um fjögur ungmenni í heimi álfanna, sú fyrsta var Bróðirinn
Lesa meira
álfheimar bróðirinn

Álfheimar: Bróðirinn

Bróðirinn er fyrsta bókin af fjórum um fjögur ungmenni í heimi álfanna
Lesa meira

Útlagamorðin: saga um glæp

Lesa meira

Síðasti galdrameistarinn

Lesa meira

Glæsir

Lesa meira

Fréttir frá mínu landi. Óspakmæli og örsögur

Lesa meira

Vonarstræti

Lesa meira

Urðarköttur: saga um glæp

Lesa meira

Bölvun múmíunnar

Lesa meira