Beint í efni

Dimmubókin

Dimmubókin
Höfundur
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Barnabækur

Myndlýsingar eftir Högna Sigurþórsson.

Um bókina:

Þegar Addi verður þess áskynja í skemmtiferð til Írlands að til er ævafornt handrit sem heitir Dimmubókin telur hann víst að það hljóti að tengjast sögunum um vöðlunga og Mángalíu. Allsendis óvænt lendir hann á framandi slóðum, kynnist hinni munaðarlausu Kríu og upplifir töframátt orða. Í sameiningu tekst þeim að rekja sig áfram til landsins sem geymir leyndardóma fortíðar, en svo er spurning hvort leiðin heim reynist jafn greiðfær.

Úr Dimmubókinni:

Addi vaknaði um miðja nótt. Það var koldimmt í herberginu og um leið áttaði hann sig á því að þetta var hótelherbergið í Dyflinni. Pabbi hans svaf vært í hinu rúminu og rumskaði ekki þótt Addi færi á fætur, inn á klósett, pissaði, fengi sér vatn og kæmi svo aftur inn í herbergið. Það var eitthvað sem hélt vöku fyrir honum, án þess að hann gerði sér grein fyrir því hvað það var. Kannski var það hugsunin um gömlu handritin eða fólkið sem þeir höfðu hitt í matsalnum um kvöldið. Honum fannst merkilegt það sem karlinn Brendan hafði sagt um það að einhver heilagur Brendan hefði siglt til Íslands og líka fundið Ameríku. Hann langaði til að leita á netinu og reyna að finna eitthvað meira um þetta. Verst að það var ekki netsamband í herberginu. Átti hann að laumast niður í móttökuna og í tölvuna þar? Hann leit á klukkuna. Hún var ekki nema rúmlega eitt. Það hlaut að vera allt í lagi að skreppa aðeins niður.

Hann smeygði sér hljóðlega í hettupeysu en ákvað að dökkbláar náttbuxurnar væru í lagi svona seint. Til að eiga ekki á hættu að vekja pabba sinn, sem átti að fara á fund næsta morgun, lét hann eiga sig að leita að sokkum og fannst ágætt að vera bara berfættur.

Þegar hann var kominn fram á ganginn, gekk hann hljóðlega eftir slitnu, mjúku teppinu og staðnæmdist við lyftuna. Það var örugglega best að nota hana. Hann ýtti á takkann og það leið aðeins andartak áður en hann fann hvernig hún mjakaðist af stað. Samstundis sá hann eftir því að hafa ekki farið stigann því nú sóttu spegilmyndirnar að honum þótt birtan í lyftunni væri af skornum skammti. Þess vegna lokaði hann augunum til að láta ekki truflast af þessum ímynduðu persónum sem hann hafði hálfpartinn verið búinn að gleyma. Það var erfitt og hann þurfti að gægjast til að sjá að lyftan fór framhjá fyrstu hæð og síðan líka götuhæðinni þar sem hún átti að nema staðar.

(46-7)

Fleira eftir sama höfund

Oro de serpientes

Lesa meira

Seikkailu metsässä

Lesa meira

Segðu mér og segðu...

Lesa meira

Dvärgstenen

Lesa meira

Sjálfsmyndir

Lesa meira

Brúin yfir Dimmu

Lesa meira

Förunótt

Lesa meira

Álagaeldur

Lesa meira

Tryllespillet

Lesa meira