Um bókina:
Dansinn dunar á Ísafirði þegar hermenn með alvæpni ganga þar á land á bjartri sumarnótt árið 1941. Þeir stilla upp vélbyssum og handtaka sjö heimamenn. Þeirra á meðal er Kristín Eva, 17 ára stúlka, og móðir hennar. Síðar um nóttina eru þær fluttar ásamt hinum föngunum til stríðshrjáðs Englands, sakaðar um að vera óvinir ríkisins.
Þar bíður þeirra fangelsi um óvissa tíð. Í prísundinni spinnur Kristín Eva áhrifamikla og átakanlega sögu kynmóður sinnar; konunnar sem gaf hana forðum. Og utan múranna geisar styrjöld – rétt eins og
innan þeirra.
Úr Dóttir mæðra minna:
Ég var kófsveitt eftir polkann. Hljómsveitin í Alþýðuhúsinu skipti undraskjótt yfir í vals. Stýrimaðurinn sem hafði boðið mér upp þrívegis áður renndi sér fótskriðu yfir spegilgljáandi gólfið og hneigði sig djúpt. Ég þáði boðið í þetta skipti. Hann var ekki tiltakanlega fullur. Ekki ennþá.
Við vorum hálfnuð með dansinn þegar einhver bankaði frekjulega í öxlina á mér. Ég leit við. Samanherpt andlitið á öðrum strandverðinum í bænum starði á mig. Þeir höfðu verið staðsettir í nokkra mánuði á Ísafirði og glettust við okkur stelpurnar þegar við löbbuðum út á kvöldin. Við þáðum hjá þeim sígarettur en fussuðum bara og sveiuðum þegar þeir ýjuðu að nánari kynnum. Ég hélt eitt andartak að hann vildi skerast í dansinn, en þá greip hann fast í handlegginn á mér. Hann meiddi mig. Ég æjaði eitthvað en þagnaði svo. Svipur hans og járntakið sögðu skýrt að þetta væri ekkert spaug.
Nokkrum sekúndum síðar birtist félagi hans. Þeir drógu mig út af dansgólfinu með sameiginlegu átaki. Stýrimaðurinn kreppti hnefana einsog hann ætlaði að slást um mig. Hann steig eitt ógnandi skref fram. Englendingarnir klöppuðu á byssuhulstrin. Hann lyppaðist niður einsog loft gusast úr blöðru. Fólkið hætti að dansa og horfði steinhissa á okkur. Tríóið lék áfram en fór skerandi út af laginu. Ég eldroðnaði. Hvað var eiginlega á seyði?
Ræningjar mínir stugguðu mér heim á leið. Mamma sat andspænis fjórum breskum hermönnum í eldhúsinu. Þeir horfðu þegjandi á hana með ygglibrún. Inni í stofu rifu hermenn í sundur húsgagn sem pabbi hafði fengið í arf frá föður sínum, feiknastórt skatthol með loki sem huldi alls kyns skúffur og hillur. Einn þeirra rak sig í loftljósið. Það sveiflaðist til og frá og fleygði skuggum af mönnum og hlutum á tvist og bast upp um alla veggi. Herbergið var um stund einsog iðandi hringekja. Mig sundlaði.
„Mamma, hvað í ósköpunum er að gerast?”
„Það á að flytja okkur í burtu. Út af þýska stráknum,” sagði mamma. Hún reyndi að bera sig vel en vanlíðanin var auðsæ.
„Burt?” hváði ég. „Hvert burt? Út af Thomasi?”
Mamma kinkaði kolli. Ég seig einsog slytti niður á eldhúsbekkinn. Ég var öll dofin of utan við mig, einsog ég væri sárlasin. Mér fannst ég vega salt á mörkum meðvitundar og svefnmóks.
„Hvað eru krakkarnir?” spurði ég eftir langa mæðu og svipaðist um eftir yngri systkinum mínum, Söru og Viktori. Mamma saug upp í nefið áður en hún lagði fingur á vör og gjóaði augum til lofts.
„Ætlarðu ekki að vekja þau?” spurði ég undrandi.
„Nei. Krakkaskinnin verða dauðhrædd við alla þessa soldáta. Þau fá martraðir næstu árin.”
„Martraðir! Hvernig heldurðu að draumar þeirra verði ef þau vakna upp í galtómu húsi? Við horfnar, gufaðar upp,” sagði ég hneyksluð. Ég botnaði ekki í að þau hefðu ekki rumskað við fyrirganginn í hermönnunum.
„Ég skrifa bréf til þeirra. Börn eru alltaf í sjöunda himni þegar þau fá bréf,” staðhæfði mamma. Hún hóf að leita að bréfsefni. Bretarnir gerðu engar athugasemdir við að hún færi á stjá. Ég horfið áhyggjufull á mömmu: hún hlaut að hafa tapað glórunni!
Þú ert orðin galin, langað mig að hrópa á hana. En umkringd brúnaþungum hermönnum fannst mér hollast að þegja.
Fætur mínir skulfu og ég settist á eldhúsbekkinn. Þungur ómur af umgangi barst í gegnum þilið. Ég sperrti eyrun og áttaði mig á að næturheimsókn hersins var ekki aðeins til okkar. Þeir trömpuðu líka um heimili nágranna okkar, Steingerðar og Matthíasar. Þau höfðu sömuleiðis liðsinnt „þýska stráknum” einsog mamma kallaði Thomas Lang. Bretar kölluðu hann njósnara nasista.
(s. 7-8)