Æviágrip
Ævar Örn Jósepsson fæddist í Hafnarfirði 25. ágúst 1963. Hann er yngstur í fjögurra systkina hópi. Hann bjó í Garðabæ fyrstu tvö æviárin (og segist hafa sloppið þaðan án þess að hljóta varanlegan skaða af), síðan í Hafnarfirði, en þegar hann var 16 ára flutti hann úr firðinum í sveit, nánar tiltekið í Skilmannahrepp austan Akraness (honum var mútað með hundi). Ævar varð stúdent af náttúrufræðibraut Fjölbrautarskólans á Akranesi 1983, en hann var skiptinemi í flæmskumælandi hluta Belgíu 1981-1982. Hann stundaði nám í fjölmiðlafræði, stjórnmálafræði og heimspeki við háskólann í Stirling í Skotlandi 1986-1987 og lauk síðan Magister Artium námi í heimspeki og enskum bókmenntum frá Albert-Ludwigs Universität í Freiburg í Þýskalandi 1994.
Ævar Örn hefur sinnt ýmsum störfum til sjós og lands. Hann stundaði sjómennsku á sumrin á menntaskólaárunum, auk almennra verkamannastarfa á Grundartanga og víðar. Hann var bankastarfsmaður frá 1984-1986, vann að dagskrárgerð í sjónvarpi 1986 og í útvarpi 1987 og 1988 og skrifaði um popptónlist fyrir Þjóðviljann. Ævar hefur einnig sinnt blaðamennsku með hléum frá 1994, meðal annars á Morgunpóstinum, Vísi.is, tímaritinu Ský og fleiri blöðum. Þá hefur hann fengist við þýðingar í lausamennsku og þýtt ýmsar greinar, skýrslur, sjálfshjálparbækur og fleira. Ævar Örn hefur unnið sem dagskrárgerðarmaður hjá RÚV, ýmist í lausamennsku eða föstu starfi frá 1995, aðallega í Dægurmálaútvarpi Rásar 2 og Speglinum. Hann var umsjónarmaður Sunnudagskaffis Rásar 2 veturinn 2004-2005 og gekk að eigin sögn af þeim þætti dauðum.
Ævar Örn hefur sent frá sér fimm glæpasögur, sú fyrsta var Skítadjobb sem kom út 2002. Sama ár gaf hann líka út bókina Taxi. 101 saga úr heimi íslenskra leigubílstjóra. Svartir englar kom út 2003, Blóðberg 2005, Sá yðar sem syndlaus er 2006 og sú nýjasta er Land tækifæranna, sem kom út hjá Uppheimum 2008. Í öllum glæpasögum Ævars segir af sama lögguteymi, þeim Stefáni, Katrínu, Árna og Guðna. Smásagan „Línudans“, sem birtist í Tímariti Máls og menningar 2004 kom einnig út á þýsku sama ár í smásagnasafninu Spannendsten Weihnachtgeschichten aus Skandinavien. Svartir englar og Blóðberg hafa komið út í þýðingum.
Ævar Örn býr í Mosfellsbæ. Hann er kvæntur Sigrúnu Guðmundsdóttur líffræðingi og eiga þau tvær dætur. Aðrir fjölskyldumeðlimir eru tvær læður, geldar.
Forlag: Uppheimar.
Mynd af höfundi: Friðþjófur Helgason.
Frá höfundi
Pistill frá Ævari Erni Jósepssyni
Glæpasögur samtímans ganga í æ ríkari mæli út á störf tæknideildarinnar og réttarlæknanna, sem samkvæmt því sem fyrir augu ber í þáttum á borð við CSI vinna hreinustu kraftaverk á degi hverjum og virðast á góðri leið með að gera hinn klassíska rannsóknarlögreglumann óþarfan, rétt einsog offset- og síðar tölvutæknin útrýmdu setjarastéttinni einsog hún lagði sig. Hvort sem fólki líkar það betur eða verr, þá er þetta að sjálfsögðu argasti misskilningur.
DNA-rannsóknir, sífellt betri tæki og tól til að þefa uppi og greina blóð og aðra líkamsvessa, æ umfangsmeiri gagnabankar og eftirlitsmyndavélar á öðruhverju götuhorni, svo aðeins fátt eitt sé nefnt, hafa vissulega orðið til þess að létta lögreglunni lífið á margan hátt, og saksóknurum þó enn frekar. En öll þessi tækni og öll þessi vísindi koma að litlu gagni ein og sér. DNA-sýnið, rétt einsog fingrafarið, verður krimmanum ekki að falli fyrren menn vita hver hann er og fá þannig eitthvað til að bera saman við sönnunargögnin. Þaraðauki vill svo illa til að í hinum raunverulega heimi, öfugt við það sem oft má sjá í sjónvarpinu, eru morðingjar sárasjaldan að paufast við að grafa líkin akkúrat í skjóli afar sjaldgæfra trjáa sem vaxa aðeins á einum stað í fimmþúsund kílómetra radíus og skilja eftir sig grókorn á sólum eða buxum grafarans til að auðvelda löggunni eftirleikinn. Leðjan á skónum þeirra, ef hún er yfirleitt enn fyrir hendi, er oftar en ekki ósköp venjuleg og erfitt að sýna framá að hún sé akkúrat þaðan frekar en héðan, og það er sandurinn í jakkavasa þeirra líka. Og jafnvel þótt svo sé ekki, jafnvel þótt fágæt fræ búi um sig í illa greiddum lubba hins lævísa drullusokks, þá finnst það ekki fyrr en hann finnst sjálfur.
Og til þess að finna hann, til þess að vita yfirleitt hvar á að leita hans og hversvegna, þarf oftar en ekki að beita forneskjulegum rannsóknartólum á borð við augu og heila rannsóknarlögreglumanna. Mér finnst skemmtilegra að skrifa – og lesa – um rannsóknir með slíkum tólum, en nákvæmar útlistanir á efnasamsetningu jarðvegs, depilblæðingu í augum og mögulega víxlverkan saltsýru og sódavatns á buxnatölur úr áli. Mér finnst semsagt skemmtilegra að skrifa – og lesa – um fólk en tækni. Þessvegna eru þau Stefán, Katrín, Guðni og Árni í aðalhlutverkum í mínum sögum, og þótt bæði tæknideildin og réttarlæknirinn fái að fljóta með, þá eru þau í aukahlutverki. Svo fremi sem þau skila af sér sínum rannsóknarniðurstöðum er ég ekkert að skipta mér af því hvernig þau komast að þeim.
Ákvörðunin um þessa tilhögun var fullkomlega meðvituð, og það var einnig ákvörðunin um að sviðsetja sögurnar sem næst raunveruleikanum í tíma og rúmi. Árni fer á Næsta bar og 22, frekar en Hinn barinn og 23, Stefán les Moggann og Fréttablaðið á morgnana, en ekki Morguntíðindi og Fréttabréfið. Hinir grunuðu í Blóðbergi, svo dæmi sé nefnt, starfa flestir hjá Landsvirkjun og Impregilo á Kárahnjúkum, en ekki hjá Þjóðvirkjun og Imperio á Márahnjúkum. Það breytir því ekki að atburðarásin í Blóðbergi, sem og öðrum sögum, er uppdiktuð frá A til Ö, og vissulega tek ég mér skáldaleyfi hvar sem þörf krefur.
Þannig er hin svokallaða „almenna rannsóknardeild“ lögreglunnar, sem þau Stefán, Katrín, Guðni og Árni starfa við, samsetningur úr nokkrum deildum hinnar raunverulegu rannsóknarlögreglu. Þetta gerir mér mögulegt að láta þau fást við fjölbreyttari verkefni en ella og hunsa kröfur um ítrustu nákvæmni þegar kemur að verkaskiptingu, verklýsingum, boðleiðum og öðrum formsatriðum sem ég kýs fremur að laga að þörfum skáldsögunnar en raunveruleikanum.
Það var heldur ekki erfið ákvörðun – og ég er ekki einu sinni viss um að hún hafi verið meðvituð, líklega hefur hún hreinlega verið ósjálfráð – að manna sögurnar sömu söguhetjum, æ oní æ, fremur en skipta þeim út í hvert skipti. Þeir glæpasagnahöfundar sem ég hef hvað mestar mætur á eiga það flestir sameiginlegt að flagga sömu persónum í aðalhlutverkum hverrar sögunnar á fætur annarri, leyfa þeim að eldast, þroskast og breytast einsog öðru fólki, einsog okkur sem lesum um sigra þeirra og sorgir og kynnumst þeim betur með hverri bókinni. Þessi sameiginlega vegferð lesandans og söguhetjunnar/söguhetjanna er það sem heillar mig hvað mest við sögur af þessu tagi, ég gríp hverja nýja bók um vini mína Rebus, Van Veeteren, Winter, Carella, Halvorsen og alla hina með áfergju, spenntur að vita hvað þau eru að bralla þessa dagana. Og ég hef komist að því að það er ekki síður heillandi að kynnast þeim persónum sem maður skrifar um. Ég hélt ég vissi hver þau væru, hélt að ég þekkti þau eins vel og hægt er að þekkja nokkra manneskju, en það er misskilningur. Þau koma mér stöðugt á óvart og eiga vonandi eftir að halda því áfram nokkur næstu árin.
Hér á eftir fylgja nokkrir fróðleiksmolar um helstu persónur sagna minna. Ég hripaði þetta niður eftir að ég skrifaði Skítadjobb, bæði til að forða mér frá innbyrðis mótsögnum í framhaldinu og til að gera mér aðeins gleggri mynd af bakgrunni þessa ágæta fólks. Nokkur atriði sem bæst hafa við síðan fylgja í svigum hér og þar. Vonandi hjálpar þetta einhverjum til að kynnast þeim betur.
Stefán Einarsson
Fæddur á Akureyri 1950, stúdent frá MA 1970, byrjaði í löggunni 1972, á Akureyri. Fluttist suður 1981, komst í rannsóknarlögregluna 1984, varð aðalvarðstjóri 1990.
Fékk vægt hjartaáfall 1998.
Kvæntist skólasystur sinni, Ragnhildi Bjarnadóttur 17. júní 1970, sama dag og þau útskrifuðust. Hún fæddist 1950, á Húsavík, dóttir bankastjórans Bjarna Leifssonar og konu hans, Freyju Gísladóttur húsmóður. Einkabarn. Stundaði bankastörf á Akureyri til 1981, fór þá í hagfræði í Háskólanum og lauk námi fimm árum síðar. Var í hálfu starfi í bankanum nyrðra frá því að elsta barnið fæddist og aftur fyrir sunnan eftir námið þar til það yngsta hóf menntaskólanám, þá réði hún sig til viðskiptaráðuneytisins þar sem hún hefur starfað síðan. Tók að sér stöðu skrifstofustjóra haustið 1999.
Börn:
Hrefna, fædd 1971, læknir í Danmörku. Gift Garðari Þorsteinssyni, sálfræðingi. Þau eiga tvö börn: Stefán, fæddur 1996, og Elínborg, fædd 1999.
Bjarni, fæddur 1974, trésmiður í Reykjavík. Kvæntur Steinunni Eyjólfsdóttur, líffræðingi. Eitt barn, Védís, fædd 2000, og annað á leiðinni (það fæddist síðan árið 2003 og heitir Eyjólfur).
Oddur, fæddur 1977, háskólanemi í Frakklandi (franska og stjórnmálafræði). Ókvæntur og barnlaus, en í sambúð með franskri stúlku, Marianne Girault. (Ég er ekki viss, en ég held að Oddur hafi lokið námi í millitíðinni og starfi nú sem skrifari á Alþingi, gott ef hann er ekki skilinn við Marianne og tekinn saman við íslenska stúlku).
Foreldrar Stefáns:
Einar Stefánsson, bankastarfsmaður og grúskari í gömlum fræðum, fæddur 1925, Margrét Valgeirsdóttir, kennari, fædd 1929.
Systkini:
Guðrún, hjúkrunarkona, fædd 1953, gift Hrafni Steinssyni vélvirkja, tvö börn, Einar Gunnar og Ásgerður Elfa.
Valgeir, verkfræðingur, fæddur 1954, kvæntur Þórdísi Vilhjálmsdóttur, ljósmyndara, þrjú börn, Vilhjálmur, Vigdís og Vésteinn.
Rúmlega fimmtugur, hægur, minnst einnognítíu, minnst hundraðogtíu kíló, líklega hundraðogtuttugu, þrjátíu ár í löggunni, byrjaði fyrir norðan, lagleg, brosmild eiginkona sem hann vissi ekki ennþá hvað hét, ljóshærð og fíngerð, nánast fáránlega lítil við hlið manns síns. Þegar þau föðmuðust líktust þau helst úttroðnum leikfangabangsa og einhverri smádúkku sem einhver hafði stillt upp saman í bríaríi. Þrjú börn – eða voru þau fjögur? Árni var ekki viss. Hann hafði bara séð eitt þeirra, fúlskeggjaðan lurk sem var enn lengri en pabbi hans ef eitthvað var og minnst jafn breiður.
(Skítadjobb)
Katrín Anna Eiðsdóttir
Fædd 1968, á Siglufirði. Stúdent frá MA 1988, flutti þá til Reykjavíkur og fór beint í Háskólann. Þar fór hún í sálfræði og heimspeki og kláraði B.A. á þremur árum sléttum, með ritgerð og öllu saman. Vann eitt ár hjá félagsmálastofnun en fór svo í lögregluskólann 1992 og þaðan í almennu deildina. Komst í rannsóknarlögregluna 1997.
Hún giftist Sveini Lýðssyni kerfisfræðingi, f. 1969, árið 1993 og á með honum tvö börn, Írisi Ósk og Eið Bjarna, f. 1994 og 1998. Hjónabandið er á hálfgerðum brauðfótum, þar sem Katrínu finnst Sveinn heldur seinn til að fullorðnast og hafa meiri áhuga á jeppaferðum, skotveiði og fótbolta en fjölskyldulífinu og uppeldi barnanna. Þau hanga þó saman ennþá og þykir í grunninn bara nokkuð vænt hvoru um annað, þótt gagnkvæmur pirringur gjósi upp öðru hvoru. Jeppaferðir á hálendið eru reyndar sameiginlegt áhugamál þeirra hjóna, og þótt Katrín hafi gefið sér minni tíma til að sinna því en Sveinn síðustu árin þá er útivistaráhuginn enn fyrir hendi og fátt sem hún nýtur meira en að þræða varasama slóða í foráttuveðri og standa uppá jökli með vindinn í fangið.
(Leysir af sem aðalvarðstjóri í almennu deildinni, jafnt Stefán sem kollega hans hinumegin við ganginn, við mismikla hrifningu karlanna sem undir þá heyra.)
Foreldrar Katrínar eru Eiður Bjarni Vilhjálmsson vélvirki, f. 1941, og Erla Ásmundsdóttir gjaldkeri, f. 1942.
Katrín á tvo bræður, Ásmund Bjarna, vélstjóra hjá Landsvirkjun, f. 1966, og Vilhjálm Pétur, sjálfstætt starfandi verkfræðing, f. 1972. Ásmundur er kvæntur Sigurást Böðvarsdóttur tæknifræðingi og á með henni tvö börn, en Vilhjálmur er í sambúð með Bjarka Sigurbjörnssyni matreiðslumeistara.
Katrín, sem sat við hlið hans, var lítið eldri en Árni, hávaxin, rauðhærð og freknótt með glettnisblik í grænum augum sem glapti margan karlmanninn til að misreikna sig hrapallega og hafði stundum komið sér illa en oftar vel á þeim tíu árum sem hún var búin að vera í lögreglunni.
(Skítadjobb)
Árni Eysteinsson
Fæddur 1971 í Hafnarfirði. Stúdent 1991 frá Flensborg, mála- og náttúrufræðibraut. Dvaldi við ýmis störf í Bretlandi og á meginlandi Evrópu fram til sumars 1992, byrjaði í læknisfræði haustið ’92 en komst ekki inn. Skipti yfir í líffræði haustið ’93, og fór svo til Edinborgar í stjórnmálafræði og sögu ’94. Byrjaði í íslensku og sögu ’95, fór á sjóinn í janúar ’96. Haustið ’97 reyndi hann enn við háskólann, að þessu sinni við sálfræði og heimspeki, entist í tvo vetur. Vorið 1999 byrjaði hann að vinna sem prófarkalesari í fyrsta sinn, og hélt því áfram meðfram tilfallandi öðrum störfum hér og þar 2000 og 2001, en var starfsmaður Hitaveitunnar, kynningardeildar, þess í milli. Haustið 2001 gerðist hann blaðamaður stutta hríð, áður en hann ákvað í bríaríi að sækja um í lögregluskólanum. Þar hóf hann nám í janúar 2002, en var kippt út úr skólanum og inn í almennu deild rannsóknarlögreglunnar að lokinni fyrstu önninni af þremur – fyrir einskæran klíkuskap.
Ókvæntur og barnlaus, en hefur tvisvar verið í sambúð, fyrst um hálfs árs skeið veturinn ’95 – ’96 með stúlku frá Keflavík, Guðnýju Guðsteinsdóttur, sem nam lögfræði við Háskólann. Hún er nú starfandi lögfræðingur í Reykjavík, gift og tveggja barna móðir. Í september 1996 tók hann saman við Önnu Geirsdóttur (Jónssonar réttarmeinafræðings) markaðs- og viðskiptafræðing, og bjuggu þau saman til vorsins 1999. Þá voru þau endanlega búin að komast að því að þau áttu nákvæmlega ekkert sameiginlegt annað en að hafa gaman af því að gera það og svo ósammála um allt annað að sambúðin var gjörsamlega vonlaus. Hún býr nú með Friðleifi Antonssyni héraðsdóms- og verðandi hæstaréttarlögmanni, og starfar sem markaðsstjóri hjá stóru útflutningsfyrirtæki í hátæknigeiranum. Þau eru barnlaus en eiga helling af peningum.
(Árni kynntist Ástu Jónsdóttur sumarið 2003 í tengslum við rannsóknina á morði Birgittu Vésteinsdóttur kerfisfræðings. Ásta er sjúkraþjálfari, fædd í S-Afríku árið 1974, en ættleidd til Húsavíkur sem kornabarn. Kjörforeldrar hennar eru Jón Ákason, húsasmiður, og Brynhildur Eiríksdóttir matselja. Það lítur bara þokkalega út með framhaldið hjá þeim Árna og Ástu, en maður veit aldrei hvað gerist...)
Foreldrar:
Eysteinn Erlendsson, enskukennari við Iðnskólann, fæddur 1943 í Hafnarfirði, og Sigurlín Árnadóttir, fædd 1947 á Ísafirði, leikskólakennari, og leikskólastjóri síðan 1985.
Systkini: Erlendur, fæddur 1969, rafeindavirki, kvæntur Dagrúnu Þorsteinsdóttur efnafræðingi síðan 1995. Þau eiga tvö börn, Sigurlín og Þorstein, fædd ’94 og ’96.
Arnaldur, fæddur 1973, var kvæntur Þórdísi Scheving og á með henni eina dóttur, Önnu, sem fæddist 1994. Arnaldur og Þórdís skildu haustið 2000, eftir að Arnaldur var ítrekað nappaður í framhjáhaldi. (Arnaldur hefur nú heldur róast, er búinn að festa ráð sitt að nýju með ágætri stúlku frá Sandgerði, Freyju að nafni. Hún á von á sér í febrúar 2006...)
Hvernig var hans „lúkk“? Rétt skriðinn yfir þrítugt, rétt skreið uppí einn og áttatíu, áttatíu kíló, frekar stuttir fætur miðað við hæð, meðalmaður semsagt nema þegar hann stóð við hliðina á Stefáni, þá var hann hárlaus dvergur. Stutt, strítt músgrátt hár sem hann kallaði ljóst í vegabréfinu og vatnsþynntur blámi í kvikum augunum. Nefið í stærra lagi, hvasst miðsnes og mikið vænghaf, örlítið skakkt eftir fall af traktorskerru vestur í Dölum fyrir fimmtán árum síðan. Augabrúnir nánast bein strik á háu og óþægilega ört hækkandi enninu, öllu dekkri en höfuðhárið. Skeggrót í meðallagi þétt, ekki of dökk, og munnurinn – hvernig var munnurinn? Hann drap í sígarettunni og rölti fram á bað. Munnurinn var tiltölulega meinlaus, sýndist honum. Hann gretti sig og geiflaði framan í sjálfan sig í speglinum. Ekki munúðarfullar, þykkar og blóðmiklar varir sem menn tengdu iðulega tilfinningasemi og ástríðu, og ekki mjó litlaus strik sem ýmist voru sett í samband við hörku og grimmd eða tepruskap og feimni. „Samkvæmt fræðunum ætti ég að vera allsvakalega ákveðinn,“ hugsaði hann, „með þetta nef í andlitinu.“ Hann tók þétt um það með vísifingri og þumli og blés út smá hellu sem hann var með í eyrunum. Eyrun, já. Hann virti þau fyrir sér, sneri höfðinu til beggja hliða og skáskaut augunum á spegilinn. Horfði svo beint fram, setti hendurnar aftur fyrir eyrun og ýtti þeim út. No comment. Átti hakan ekki að segja eitthvað um karakterinn líka? Hún sagði honum ekki neitt, var bara þarna fyrir neðan meinlausan munninn og lét lítið yfir sér. Kannski hann ætti að reyna að koma sér upp hökutoppi? Hann fór úr skyrtu og bol og sló létt á magann á sér, sneri sér í sinn hvorn hálfhringinn og setti hendur á mjöðm. Það var farið að votta fyrir björgunarhring ofan við buxnastrenginn og gisin mottan á bringunni náði ekki að hylja slappa brjóstvöðvana. Honum sýndist meira fara fyrir skvapi á upphandleggjunum en vöðvum en var ekki viss. Hávært hviss heyrðist innan úr eldhúsinu áður en hann náði að kanna þau hlutföll betur og hann hljóp af stað.
Á meðan hann bograði hálfnakinn við að þurrka olíublandað vatnið af eldavélinni og gólfinu fyrir framan hana komst hann að niðurstöðu um hvaða lúkk hann hafði: Hann leit út einsog fífl.
(Skítadjobb)
Guðni Páll Pálsson
Fæddur 1947, í Reykjavík. Stúdent frá MR 1968 (féll í 5. bekk), gekk til liðs við lögregluna sem sumarafleysingamaður það sama sumar og hefur verið þar síðan. Varðstjóri í umferðardeild 1980, komst í rannsóknarlögregluna 1985.
Þríkvæntur og þrískilinn, síðast 1998 frá Álfrúnu Reynisdóttur meðferðarfulltrúa á Vogi, sem hann kynntist á meðan hann dvaldi þar fjórða sinni. Á fimm börn með hinum eiginkonunum tveimur og eitt til viðbótar með ónefndri konu (Deddu) austur á landi. Fjórar dætur, tveir synir, misvel á vegi stödd í lífinu. Elsta dóttirin, Pálína, fædd 1970, er bóndakona á Jótlandi, þar sem hún rekur svínabú ásamt manni sínum, Karsten Eltofte. Þau eiga þrjú börn. Næstelsta dóttirin, einnig úr fyrsta hjónabandi, Petra, fædd 1971, er öryrki, aðallega vegna mikillar lyfjamisnotkunar til margra ára. Hún er fráskilin og tveggja barna móðir, býr í Reykjavík. Börnin þrjú úr öðru hjónabandinu eru öll búsett erlendis, tvö í Svíþjóð en eitt í Noregi, enda flutti móðir þeirra með þau til Svíþjóðar um leið og hún sagði skilið við Guðna árið 1982. Elsti sonurinn, Adam, er kennari í Gautaborg og hefur ekki talað við föður sinn í sextán ár. Hann fæddist 1974. Dóttirin úr þessu hjónabandi, Freyja Dís, fæddist 1977 og er frelsuð. Hún starfar með sértrúarsöfnuði sínum að ýmsum þjóðþrifamálum í nágrenni Oslóar. Hún hefur einnig heldur lítið saman við föður sinn að sælda. Yngri sonur Guðna, Páll, fæddist 1980 og hefur því alið nánast allan sinn aldur í Svíþjóð. Hann er barþjónn í Malmö.
Yngsta dóttir Guðna, Helena Dögg, kom undir austur á Héraði þergar Guðni var þar að aðstoða lögregluna á staðnum við morðrannsókn sumarið 1986 og fæddist vorið 1987. Hann hefur talað við hana þrisvar sinnum og finnst það kappnóg. Henni líka.
Foreldrar Guðna voru þau Páll Guðni Pálsson, verslunarmaður (1898 – 1973) og Petra Rósbjörg Daníelsdóttir húsfrú (1916 – 1998). Guðni er yngstur fimm systkina. Elsti bróðir hans, Daníel, fæddur 1937, er síðasti íslenski stýrimaðurinn hjá Eimskipum, kvæntur Sólveigu Viðarsdóttur sjúkraliða frá Reyðarfirði, f. 1940. Þau eiga fjögur börn. Næst honum í röðinni er Rósbjörg, f. 1938, deildarstjóri í Landsbankanum, gift Snorra Ásgeirssyni kennara. Þau eiga tvö börn. Þá kemur Vigdís, f. 1940, sölumaður á fasteignasölu, fráskilin. Hún eignaðist einn son með eiginmanni sínum, Atla Rúnari Eiríkssyni langferðabílstjóra, og annan með öðrum manni nokkrum árum síðar. Baldur var fjórða barn þeirra Páls og Petru, hann fæddist 1943 og býr í Kanada, þar sem hann rekur þrjár þurrhreinsanir í Albertafylki ásamt konu sinni Susan. Þau eru barnlaus. Lítið samband er á milli systkinanna, þau voru aldrei ýkja samrýmd utan Daníel og Rósbjörgu, en meira að segja þau talast varla við lengur síðan dánarbú móður þeirra var tekið til skiptanna 1998.
Guðni var kollegi þeirra, hálfsextugur, reffilegur kall sem reyndi enn að vera tvítugur en mistókst það herfilega og reykti vindla einsog aðrir reyktu sígarettur.
(Skítadjobb)
Þegar hann var búinn að slétta eins vel og hann gat úr kraganum kringum ört vaxandi skallann stakk hann uppí sig rauðum Ópal og hálfreyktum vindilstubbi sem lá á baðhillunni.
„Lúkking gúd, amígó,“ sagði hann við spegilmynd sína. „Lúkking dam gúd.“
(Blóðberg)
Ævar Örn Jósepsson, 2005.
Um höfund
Glæpst á glæp: um glæpasögur Ævars Arnar Jósepssonar
Það eru viðtekin sannindi í kvennabókmenntum að margar skáldkonur hefja sinn feril seint á ævinni, oft um miðjan aldur. Karlkynsrithöfundar, hinsvegar, byrja yfirleitt ungir að sinna ritstörfum, með tilheyrandi glamúr og snillingsyfirbragði. Þessi regla þverbrotnaði eins og svo margt annað í íslensku bókmenntaheimi þegar glæpasögur urðu skyndilega að almennum veruleika í skáldsagnalandslaginu. Arnaldur Indriðason (1961) hafði reyndar sinnt ritstörfum sem blaðamaður til margra ára þegar hann skrifaði sína fyrstu glæpasögu, 1997, sömuleiðis Árni Þórarinsson (1950), en hann hafði einnig skrifað ævisögu (1994), áður en hann sendi frá sér glæpasögu, 1998. En hvorugur gat þó talist rithöfundur í hefðbundinni merkingu þess orðs. Ævar Örn Jósepsson (1963) bættist síðan í hóp þessara ‘miðaldra’ glæpasagnahöfunda árið 2002, þegar hann, tæplega fertugur maðurinn, hóf feril sinn sem glæpasagnahöfundur með Skítadjobbi. Reyndar byrjaði hann með tvöfaldri slemmu, því meðfram glæpasögunni sendi hann frá sér viðtalsbók við reykvíska leigubílsstjóra, Taxi.
Þó hér sé ekki ætlunin að endurskapa söguna um uppgang glæpasögunnar á Íslandi undanfarin ár sem gátusögu, þá finnst mér ekki úr vegi að velta fyrir mér hlutverki Hins íslenska glæpafélags í hinum vaxandi vinsældum og virðingu sem glæpasögur hafa öðlast á þessum tæpa áratug síðan Arnaldur - og reyndar líka Stella Blómkvist, en hennar fyrsta bók kom út sama ár og Arnaldar - gaf úr Syni duftsins.
Hið íslenska glæpafélag var formlega stofnað árið 1999. Félagar eru fólk sem stuðlað hefur að framgangi glæpasögunnar, rithöfundar, gagnrýnendur og aðrir sem fjalla um glæpasögur á einn eða annan hátt eða sýna þeim annarskonar stuðning í orði og verki. Glæpafélagið sótti strax um inngöngu í Norrænu glæpasagna-samtökin, SKS (Skandinaviska Kriminalsällskapet), og með því móti fékk Ísland þátttökurétt í samkeppninni um bestu norrænu glæpasöguna, en verðlaunin þar eru hinn svonefndi Glerlykill. Flestir þekkja svo framhaldið, Arnaldur hirti Glerlykilinn af grunlausum Skandinövum tvö ár í röð, 2002 og 2003, varð metsöluhöfundur bæði heima og heiman og glæpasagan naut óvænt bæði vinsælda og virðingar. Ég tel mig ekki vera að draga neitt úr hæfileikum Arnaldar þó ég segi að stofnun og starfssemi Hið íslenska glæpafélags hafi án efa átt þátt í að vekja athygli á og styðja við glæpasagnaskrif og skrif um glæpasögur, og þarmeð lagt heilmikið af mörkum til hinnar farsælu niðurstöðu málsins.
Ævar Örn Jósepsson var bara óbreyttur útvarpsmaður þegar hann gekk í félagið sem sérlegur áhugamaður um glæpasögur og stuðningsmaður þeirra. Hann sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið, sat meðal annars í dómnefnd sem tilnefndi framlag Íslands til Glerlykilsins, og kaus síðan um bestu norrænu glæpasöguna. En skyndilega var Ævar Örn ekki lengur tiltækur í slík störf, og var kominn hinumegin við borðið, orðinn glæpasagnahöfundur. Ekki hætti hann þó afskiptum af félagsmálum glæpafélagsins, því á ársfundi SKS sem haldinn var á Flúðum, vorið 2004, var hann kosinn forseti SKS, og endurkjörinn vorið 2005. En það ár keppti önnur glæpasaga hans, Svartir englar (2003), um Glerlykilinn.
Skítadjobb
Ævar Örn fer bæði troðnar og ótroðnar slóðir í sögum sínum. Segja má að hann fari nokkuð hefðbundnar leiðir í nálgun sinni á formið, sögur hans eru löggusögur, með tveggja manna teymi í aðalhlutverkum, sem síðan er hluti af öllu fjölmennari hópi innan rannsóknarlögreglunnar. Hinsvegar eru tök hans á hinu klassíska löggupari skemmtilega óvenjuleg, yfirmaðurinn Stefán er fulltrúi hins gamalreynda, en sú týpa er yfirleitt bitur og fúl. Í meðförum Ævars er hann hinsvegar hinn mesti blíðlyndismaður, rólegur og hlýr og það sem meira er, hamingjusamlega giftur. Fulltrúi hins unga og upprennandi er ofur framagjarn og vel menntaður, en Árni í Skítadjobbi er dómadagsklaufi og lúser, sem kláraði ekki einu sinni lögregluskólann og virðist hafa endað fyrir tilviljun í rannsóknarlögreglunni, eftir að hafa prufað sig áfram með ýmiskonar menntun og störf. Segja má að það sé einskonar hliðarplott innan bókarinnar að komast að því hvernig hann sé skyndilega og óvænt kominn í þessa eftirsóttu stöðu innan lögreglunnar, auk þess sem hann þarf að reyna að finna út hver hann sé, hvað hann vilji og hvað hann sé að gera hér!
Sagan hefst á því að Stefán og Árni eru kallaðir út vegna atburðar sem virðist vera sjálfsvíg, en lík manns liggur á gangstétt fyrir framan háhýsi þar sem hann býr. Þrátt fyrir að málið virðist liggja ljóst fyrir glepst Árni til að segja að hann álíti þetta ekki sjálfsmorð, og þrátt fyrir reynsluleysi hans tekur Stefán orð hans alvarlega og málið er skoðað nánar. Við frekari eftirgrennslanir fara svo að koma í ljós skuggahliðar á fórnarlambinu, sem í upphafi virtist fremur flekklaust.
Það sem gerir söguna eftirminnilega og skemmtilega aflestrar er ekki síst samband þessara tveggja ólíku manna, og það hvernig þeir bregðast hvor við öðrum og læra hvor inná hinn, en þetta býður uppá nokkrar kostulegar senur, svo sem þegar Árni mætir afartimbraður til vinnu og hlýtur að launum bæði þreytulegar ávítur og góðmannlegan skilning hjá Stefáni. Og svo má auðvitað ekki gleyma samskiptum Árna við fyrrverandi tilvonandi tengdaföður sinn, réttarlækninn Geir, en í þeirri vináttu felst lausnin á allavega einum þræði verksins.
Svartir englar
Það þykir lenska meðal glæpasagnahöfunda að bjóða lesendum sínum uppá bók á ári, allavega ef þeir ætla sér einhvern starfsframa á þessu sviði. Ævar Örn lagði strax út á þessa braut og fylgdi Skítadjobbi eftir með Svörtum englum árið 2003. Þar hittum við fyrir sama huggulega teymið, þá félaga Stefán og Árna, og nú kynnumst við betur öðrum úr flokknum, Guðna, gamalli löggu af harða skólanum, Friðriki, sem er ungur, menntaður og metnaðarfullur (sumsé hefðbundna lögguparið, nema bara í aukahlutverki), og Katrínu, einu konunni í hópnum. Hún er er ‘kvótakona’ og stendur til að setja hana yfir flokkinn meðan sá gamli, Stefán, fer í frí. Allt eru þetta ánægjulegar viðbætur í perónugalleríið og gerir bara ekkert til þó þau séu svolítið stereótýpísk.
Sagan segir svo frá því að þessi fríði flokkur er að leita að týndri konu, Birgittu (!), sem mikil áhersla er lögð á að finna, en rannsóknarlögreglufólkið fær ekki að vita hversvegna. Fyrri hluti skáldsögunnar er því lagður undir ýmis viðtöl og rannsóknir sem enginn veit almennilega af hverju hann er að gera, og er það vel heppnað bragð og virkar skemmtilega. Jafnframt sinnir Árni með hálfum huga öðrum rannsóknum, reynir að hafa upp á stolnum tölvum (undir dulnefninu Erlendur (!)) og veltir fyrir sér af hverju róni á Hlemmi er lostinn skelfingu. Inn í þetta blandast svo átök milli Guðna og Katrínar, en sá fyrrnefndi telur að freklega sé framhjá sér gengið þegar yngri manneskja og kona í ofanálag er yfir hann sett. Jafnframt því koma fram nokkrar umræður um stöðu kvenna í lögreglunni. Þetta er málefni sem er mjög vinsælt um þessar mundir, enda áhugavert og mikilvægt og Ævari tekst að taka á þessu án þess að detta í of miklar kynjaklisjur. Þessi kynjaumræða er svo spegluð í kynórum Árna, unga klaufans, sem álítur sig femínista og skammast sín voðalega fyrir að sjá allar konur í kynferðislegu ljósi.
Svo fer málið að flækjast, bráðskemmtileg samsæriskenning dúkkar upp og allt fer á fullt. Þó er ekki hægt að segja að hraðinn sé almennt mikill, Ævar skrifar ekki það sem kallað er á ensku ‘fast-paced’ sögur, enda engin ástæða til þess að allar glæpasögur séu þannig. Í fyrri bókinni var tekið á frekar hefðbundnum glæpamálum tengdum eiturlyfjum og álíka neðanjarðarstarfssemi, en hér tekur Ævar fyrir annað samfélagsmein nútímans; rafrænt eftirlit yfirvalda með einstaklingum. Í kjölfar hryðjuverkanna í New York 2001, hafa ýmis lönd samþykkt ný lög sem gera yfirvöldum auðveldara fyrir að hafa mjög náið eftirlit með borgurum sínum, eftirlit sem að sama skapi gengur freklega á réttindi einstaklingsins. Dæmi um þetta eru lög sem heimila lögregluyfirvöldum að sækja, án rökstuðnings, upplýsingar í gagnasöfn bókasafna, og þannig kortleggja lestrarvenjur, tölvunotkun og aðra einkahagi einstaklinga og hópa. Og Birgitta (!) er kerfisfræðingur og sinnir leynilegum verkefnum...
Blóðberg
Kárahnjúkar, virkjun og deilur um erlenda verkamenn og náttúruvernd, er viðfangsefni þriðju glæpasögu Ævars Arnar, Blóðberg, en hún kom út árið 2005. Skriða verður sex manns að bana og í kjölfarið virðist ábyrgðarmaður öryggismála hafa framið sjálfsmorð. Okkar fólk mætir á staðinn - daginn eftir partý hjá Árna og nýju kærustu hans. Henni kynntist hann við rannsókn málsins í Svörtum englum, en fram að því hafði ýmislegt gengið á í kvennamálum drengsins. Fljótlega kemur í ljós að lögreglufólkið er ekki sammála um náttúruverndarsjónarmiðin og sem fyrr takast Guðni og Katrín á. Friðrik, hinsvegar, er hér kominn yfir í annan lögregluhóp, tengdan öryggismálum, eftir dramatíska atburði í tengslum við rannsókn hvarfs Birgittu. Árni heldur áfram uppteknum hætti og glæpist til að hitta naglann á höfuðið, þó ekki hafi honum tekist að hugsa útí skjólfatnað, en Kárahnjúkasvæðinu að vetrarlagi er lýst sem afar kaldranalegu.
Sem fyrr felst aðagildi sögunnar í því hvernig höfundur skapar sínu fólki sannfærandi baksvið og það er hreint með ólíkindum hvernig alls grunlaus lesandi er skyndilega staddur í kulda og trekki í grófhöggnu landslagi virkjunarframkvæmda, innanum snjó og sand og urð og grjót. Mikil áhersla er lögð á umfjöllun um daglegt líf verkamannanna þarna, en þar vekur mataræðið sérstaka eftirtekt, en það er vægast sagt óhollustusamlegt - þ.e. ákaflega hefðbundið íslenskt. Þetta matartema er reyndar skemmtilega áberandi í skrifum Ævars, en strax í fyrstu bókinni kemur í ljós að Árni er lunkinn matreiðslumaður, auk þess sem andlegt ástand hans - þ.e. andlega óreiðu - má merkja á því hvernig hann kaupir inn. Upphaf Blóðbergs er síðan lagt undir miklar og lystaukandi lýsingar á matreiðslu lambalæris þarsem hvítlaukur og flambering í viskýi koma við sögu og myndar sú afar hungurvekjandi sena glæsilega andstæðu við ógeðfelldar lýsingar á Kárahnjúkafæði.
Inn í málið fléttast síðan hinar ýmsustu flækjur, meðal annars tengdar öryggismálum á svæðinu. Í ljós kemur að ýmsir höfðu rúmlega góða ástæðu til að syrgja ekkert sérstaklega allavega fjóra hinna látnu, og því er að ýmsu að huga fyrir rannsóknarteymið, auk þess sem þau rannsaka hvort skriðan hafi verið slys eða sprengja, en sá eini sem eftir lifir, Portúgalinn Jorge, heyrðist í óráði tala um sprengingu. Ekki bætir úr skák að sjálfsmorð öryggismannsins virðist grunsamlegt, enda lesendum þegar ljóst að sjálfsmorð í verkum Ævars Arnar eru ekki einföld mál. Síðast en ekki síst kemur á daginn ýmislegt annað gruggugt þarna á Kárahnjúkasvæðinu.
Eins og allir góðir glæpasagnahöfundar notar Ævar Örn formið til að taka á ýmsum átakamálum samfélagsins og minna hinn almenna lesenda á að þrátt fyrir að daglegt líf gangi kannski yfirleitt nokkuð snuðrulaust fyrir sig, þá séu skuggahliðarnar ávalt nærri. En þrátt fyrir það að skáldsögurnar séu glæpasögur sem fjalla um mannshvörf og morð, eiturlyf og undirheima, og almennt séð hinar dökku hliðar tilverunnar, þá er fremur létt yfir bókum Ævars Arnar. Þetta kemur að mestu leyti til af lögguteyminu sem er fremur furðulegt lið upp til hópa og ákaflega furðulega samsett, en samt ótrúlega samhent þegar á reynir. Árni, sem er aðalpersóna bókanna, er alger rugludallur, en jafnframt ákaflega sympatískur, og góður fulltrúi lesenda. En samkvæmt bókmenntafræðikenningum (sem Árni hafnaði, hann gafst upp í bókmenntafræðinni eins og svo mörgu öðru), þá verður alltaf að vera til staðar í glæpasögum einn góður fulltrúi lesenda sem lesandinn getur samsamað sig. Þessi fulltrúi má samt ekki vera of flínkur því lesandinn verður jafnframt að geta upplifað sjálfan sig ofurlítið gáfaðari en sögupersónan. Auðvitað hafa glæpasagnahöfundar leikið sér að því að hrekkja grunlausa lesendur með því að rugla með slíka fulltrúa samsömunar, og það er ekki laust við að Ævar geri það líka - en, það breytir ekki því að Árni er hlutverki sínu vel vaxinn, bæði innan lögreglunnar og sögunnar.
Úlfhildur Dagsdóttir, 2005.
Greinar
Almenn umfjöllun
Auður Aðalsteinsdóttir: „Bregst við samtímanum“ (viðtal)
Spássían 2010, 1. árg., vetur, bls. 16-9.
Um einstök verk
Land tækifæranna
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir: „Árás á útrásarvíkinga“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Blóðberg
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Morð í gúlaginu.“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur 2005, sjá hér
Sá yðar sem syndlaus er
Ingvi Þór Korkáksson: „Syndin og „Jesúkallannir““
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Svartir englar
Katrín Jakobsdóttir: „Sveittar löggur með kynlíf á heilanum.“
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 2. tbl. 2004, s. 116-117.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Svartir englar“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Önnur líf
Sigurður Ólafsson: „Lygilegur veruleiki“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Verðlaun
2009 – Blóðdropinn, íslensku glæpasagnaverðlaunin: Land tækifæranna
Tilnefningar
2010 – Glerlykillinn: Land tækifæranna
2007 – Blóðdropinn, íslensku glæpasagnaverðlaunin: Sá yðar sem syndlaus er
2007 – Glerlykillinn: Blóðberg
2005 – Glerlykillinn: Svartir englar
Leðurblakan
Lesa meiraWer ohne Sünde ist
Lesa meiraÖnnur líf
Lesa meiraBlutberg
Lesa meiraLand tækifæranna
Lesa meiraTabú: Hörður Torfason - ævisaga
Lesa meiraSvartir englar
Lesa meiraSjónvarpsþáttaröð í fjórum þáttum byggð á skáldsögunum Skítadjobb og Svörtum englum. Handrit eftir Sigurjón Kjartansson og Margréti Örnólfsdóttur. Óskar Jónasson leikstýrði.. . Sýnt í RÚV í september og október 2008.Sá yðar sem syndlaus er
Lesa meiraBlodbjerget
Lesa meira