Beint í efni

Fríða Á. Sigurðardóttir

Æviágrip

Fríða Á. (Áslaug) Sigurðardóttir fæddist á Hesteyri í Sléttuhreppi þann 11. desember 1940. Hún lauk Cand mag prófi í íslensku frá Háskóla Íslands 1979. Hún starfaði sem bókavörður á Háskólabókasafni og Ameríska bókasafninu frá 1964 til 1970, var deildarfulltrúi við heimspekideild Háskóla Íslands frá 1971 til 1973 og stundakennari við Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands frá 1973 til 1975. Frá 1978 starfaði hún alfarið við ritstörf.

Fyrsta bók Fríðu, smásagnasafnið Þetta er ekkert alvarlegt, kom út árið 1980. Hún sendi síðan frá sér fleiri smásögur auk skáldsagna og þýðinga á verkum erlendra höfunda. Skáldsaga hennar, Meðan nóttin líður (1990), hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 1991 og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1992. Hún hefur verið þýdd á Norðurlandamál og ensku. Einnig birti Fríða greinar um bókmenntir í blöðum og tímaritum og sendi frá sér ritgerð um leikrit Jökuls Jakobssonar. Síðasta verk Fríðu er skáldsagan Í húsi Júlíu sem kom út í október 2006.

Fríða Á. Sigurðardóttir lést í Reykjavík þann 7. maí 2010.