Æviágrip
Ólafur Gunnarsson fæddist í Reykjavík 18. júlí 1948. Hann lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands 1969. Ólafur stundaði verslunarstörf hjá Ásbirni Ólafssyni hf. frá 1965 til 1971 og var bifreiðastjóri læknavaktar frá 1972 til 1978. Hann hefur starfað sem rithöfundur frá 1974.
Ólafur birti ljóð á prenti áður en fyrsta skáldsaga hans, Milljón-prósent-menn, kom út 1978. Hann hefur sent frá sér skáldsögur, smásögur og skrifað barnabækur. Skáldsaga hans, Tröllakirkja, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunin 1992 og ensk þýðing hennar var einnig tilnefnd til IMPAC Dublin bókmenntaverðlaunanna 1997. Leikgerð hefur verið unnin upp úr sögunni sem frumsýnd var á stóra sviði Þjóðleikhússins 1996 og kvikmyndaréttur hennar hefur jafnframt verið seldur. Öxin og jörðin eftir Ólaf vann til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2003.
Verk eftir Ólaf hafa verið þýdd á erlend mál, meðal annars barnabókin Fallegi flughvalurinn sem var tilnefnd til Norrænu barnabókaverðlaunanna 1990. Þá hafa skáldsögur hans fyrir fullorðna komið út í enskum, þýskum og frönskum þýðingum. Ólafur hefur einnig þýtt skáldsögur og leikrit á íslensku.
Ólafur er kvæntur Elsu Benjamínsdóttur. Þau eiga fjóra syni og eru búsett í Mosfellsbæ.
Forlag: JPV útgáfa.
Mynd af höfundi: Jóhann Páll Valdimarsson.
Frá höfundi
Hvernig ég varð rithöfundur
Ólafur Gunnarsson kynntist fyrst undrum bókmenntanna aðeins tíu ára gamall, þegar hann las sögu eftir Ástu Sigurðardóttur (1930-1971), smásagnahöfund sem átti engan sinn líka.
Ólafur fæddist árið 1948, byrjaði að yrkja 19 ára gamall og gaf út sína fyrstu bók árið 1970.
Hann varð yfir sig hrifinn af Ernest Hemingway og reyndi við ýmis störf án þess þó að leggja þau fyrir sig. En eftir að hann kynntist verkum Thomas Wolfe (1900-1938), því mikla bandaríska skáldi og höfundi Look Homeward Angel, fékk hann kjark til að gerast rithöfundur að atvinnu, eins og svo margir vongóðir lærisveinar bókmenntanna á árum áður. Skömmu síðar las hann Moby Dick eftir Herman Melville, sem hafði gífurleg áhrif á þennan unga nemanda og leiddi hann að lokum til Rússanna, einkum Dostojevskí, svo upphófst tuttugu og fimm ára skrykkjótt ástarsamband.
Eftir þessa för og með viðkomu í Íslendingasögunum kvaddi Ólafur sér hljóðs með eigin röddu og hefur nú gefið út um tuttugu verk, þar af tíu skáldsögur.
Um höfund
Geymir þá best
Fyrir trúleysingja af landsbyggðinni eru skáldverk Ólafs Gunnarssonar framandi heimur í fleiri en einum skilningi. Við undirbúning þessarar greinar glöggvaði ég mig á því sem bókmenntafræðingar og aðrir gagnrýnendur hafa skrifað um verk Ólafs í gegnum tíðina og það sló mig að enginn þeirra tæpir nema lauslega á þeim stefum sem mér finnast vera hinn augljósi rauði þráður í verkum Ólafs frá upphafi – trú, saga og Reykjavík. Ýmislegt er talið til, svo sem uppgjör Ólafs við hugmyndir um karlmennskuna, tilhneiging hans til að reyna á ramma hefðbundins raunsæis með því að koma ýktum persónum fyrir í raunsæislegu umhverfi, hversu vel honum ferst úr hendi að gefa vísbendingar um meginstef og stórvægileg atvik sögu snemma í textanum og að honum takist að skapa persónur sem eru í senn hlægilegar og grátlegar – blátt áfram quixotískar. Þetta er skarpleg gagnrýni á einstakar bækur; ég er sammála þessu flestu og mun vísa til þess hér á eftir. En þegar ég las verk Ólafs í heild beindist athygli mín aftur og aftur að samræðum hinna misleytustu persóna við guð, söguna og borgina. Flestar veigamiklar persónur eru á einn eða annan hátt að reyna að staðsetja sig í trúnni en eiga aftur á móti augljóslega heima í Reykjavík. Saga borgarinnar og byggðarinnar er mikilvægur og áleitinn hluti af samtíma þeirra. Reykjavík, trú og saga munu því verða aðal umfjöllunarefnin hér, líkt og í bókum Ólafs.
Trú
Hin lágværa en áleitna umræða um hlutverk trúarinnar sem er svo mikilvægur hluti af höfundarverki Ólafs er vægast sagt óvenjuleg í nútíma bókmenntum. Það er ekki í tísku að predika yfir lesendanum og mér liggur við að segja að trú, einlægur átrúnaður, sé heldur ekki í tísku. Umfjöllun um trúarbrögð fer fram í fjölmiðlum þar sem yfirleitt er getið hemdarverka í nafni trúarbragða eða afturhaldssemi strangkristinna pólitíkusa sem vilja banna allar getnaðarvarnir og fóstureyðingar. Það sem ekki er fjallað um er trú einstaklingsins, samband manns og guðs og auðmýkt gagnvart sér æðra máttarvaldi. En þetta er einmitt til umfjöllunar í sögum Ólafs og hann fer svo mjúklega að efninu, gerir efann og trúna svo samofna persónunum, að þessi lesandi upplifði það alls ekki sem prédikun, heldur sem órjúfanlegan hluta af sögunni.
Ólafur stillir gjarnan upp upphafningu efnishyggjunnar á einstaklingnum gegn trausti á guð og trúnni á boðskap Jesú um fyrirgefningu og náungakærleika. Bestu dæmin má finna í frægum þríleik Ólafs sem samanstendur af Tröllakirkju (1992), Blóðakri (1996) og Vetrarferðinni (1999). Um bækurnar þrjár sagði Einar Már Jónsson í ritdómi um Vetrarferðina sem birtist í Tímariti Máls og menningar að þríleikinn mætti lesa sem þrískipta altaristöflu, svokallaða hjaramynd. Sögurnar gerast á mismunandi tímum og fjalla um mismunandi persónur. Hver bók er þannig sjálfstæð eining, á sama hátt og miðja og vængir þrískiptrar altaristöflu mynda þrjú sjálfstæð listaverk. En rétt eins og myndirnar hanga saman á hjörunum og kallast á efnislega eru sögurnar þematískt skyldar svo nauðsynlegt er, eins og Einar bendir á, „að láta augun hvarfla frá einni til annarrar“ (100). Miðjubókin, Blóðakur, er samtímasaga á meðan Vetrarferðin gerist í kringum lok síðari heimsstyrjaldarinnar og Tröllakirkja um miðbik aldarinnar. Einar nefnir að í þrískiptri altaristöflu sé miðjumyndin veigamest og flytji meginboðskap verksins á meðan hliðarmyndirnar styðji hana efnislega og bæti einhverju við merkinguna. Ef við förum að þessum ráðum og látum augum hvarfla bæði til hægri og vinstri út frá miðjubókinni má greina heildarmynd af baráttu milli kristinnar trúar og efnishyggju, bæði innra með einstaklingnum og í samfélaginu. Í Blóðakri, samtímasögunni, er valdabarátta, einstaklings- og efnishyggjan í algleymingi á meðan hinar bækurnar tvær einkennast af innri togstreytu aðalpersónanna sem eiga erfitt með að samræma harmræna atburði í eigin lífi, eigingjarnar langanir og hefðbundin kristin gildi. Efasemdirnar og innri togstreytan sem einkenna Vetrarferðina og Tröllakirkju eru hins vegar ekki til staðar í Blóðakri. En efasemdir persóna hliðarbókanna tveggja mynda eftirminnilegan ramma sem bætir við skilningi á miðjunni – frá hægri og vinstri, upphafi og endi, berast lesendanum skilaboð um að til séu aðrir kostir en þeir sem móta samtímann sem Blóðakur speglar.
Þessir kostir liggja hjá einstaklingnum. Aðalpersónurnar í Vetrarferðinni og Tröllakirkju, þau Sigrún og Sigurbjörn, eru keimlík að því leyti að bæði velja að setja eigin frama og veraldlegt gengi ofar umhyggju fyrir fjölskyldu og hefðbundnum siðferðilegum gildum. Þau eru bæði alin upp í kristinni trú en á meðan Sigurbjörn er yfirlýstur trúleysingi er guð mikilvægur þáttur í tilveru Sigrúnar. Trú Sigrúnar einkennist þó ekki af auðmýkt gagnvart almættinu heldur einskonar sífelldri ögrun. Saga hennar er þrautarganga í ætt við sögu Jobs og í raun er oft vísað beint til veðmálsins sem er undirrótin að þjáningum Jobs. Jafnvel þegar ekki er vísað beint til Jobsbókar minna eintöl Sigrúnar við guð á þetta veðmál: hún ögrar guði sínum gjarnan og segist oft muni hætta að trúa á hann nema hann geri þetta eða komi í veg fyrir hitt. En þó hún missi báða syni sína, fyrri mann og fósturdóttur afneitar hún guði ekki. Eftir dauða yngri sonarins og eiginmannsins á hún viðtal við prestinn Ásgrím um trúna og upplýsir þá dýpri átrúnað en veðmálin hennar gefa til kynna: „Áttu við að Guð úthluti okkur örlögum? … Nei, það getur ekki verið, sagði hún … Ég hef enga trú á að hann stjórni veröldinni eins og einhver sirkusstjóri“ (201). Það eru því hinn guðs gefni frjálsi vilji og aðgerðir einstaklingsins sem ráða mestu um örlög hans eða hennar, enda veit Sigrún og bætir beisklega við að „sumu komum við sjálf í kring“ (201). Í lok bókarinnar fær Sigrún einskonar taugaáfall eftir dauða fósturdóttur sinnar, þeirrar manneskju sem var henni hvað kærust. En þrátt fyrir missi og þjáningar minnist hún þess að guð er með henni, allt til enda veraldar. Hún er því aldrei ein og gengur burt frá sorg og dauða „furðu örugg í hreyfingum eins og einhver liti til með henni“ (482).
Arkitektinn Sigurbjörn, aðalpersóna Tröllakirkju, elst upp í skugga sanntrúaðs eldri bróður sem siglir utan til guðfræðináms en deyr þar, staðfastur í trúnni fram á hinstu stund. Sigurbjörn hins vegar, dubbaður upp sem arftaki bróður síns í prestsnámið, missir við þetta trúna á hinn harðbrjósta guð, guðinn sem drap jafn einlægan og hjartahreinan mann og bróðurinn dáða; mann sem hafði þar að auki tileinkað guði líf sitt. Sorgin og reiðin koma í veg fyrir að hann geti fyrirgefið guði, og togstreytan sem endar með afneitun á guði skilur eftir djúp sár í sálu Sigurbjörnar. Enn sannfærist Sigurbjörn um fjarveru guðs þegar ungum syni hans er nauðgað og illvirkinn hlýtur náðun forseta eftir afskaplega stutta fangelsisvist. Fjölskylda Sigurbjarnar liðast í sundur eftir atvikið, að miklu leyti vegna tilhneigingar hans til að sjá sekt allsstaðar og hjá öllum, sekt sem honum er fyrirmunað að fyrirgefa. Hvar er enda réttlætið? Hvernig getur kærleiksríkur guð leyft sakleysingjum að þjást svona? Átakanleg er innri barátta Sigurbjarnar við kristilegt uppeldi sitt, minningu bróðurins og eigin hefndarvilja:
Hvað hefðirðu gert í mínum sporum Jóhannes bróðir? spurði Sigurbjörn hátt, einn í stofunni. – Beðið fyrir óvini þínum? Tilhugsunin finnst mér viðbjóðsleg … Hann staulaðist máttlaus og eirðarlaus um húsið … Hvað ef Kristur eru í raun og veru sonur Guðs? Og hvað ef eilíft líf er til? … Og hvað ef hann segir við enda veraldar: „Aldrei þekkti ég yður.“ Því ég verð að fara og drepa þennan bölvaða mann … En verð ég þá að gnísta tönnum í myrkri allt til enda veraldar ef ég drep hann? Er hefndin svo mikils virði? En svona get ég ekki lifað. Og ég get ekki kysst hendurnar sem svívirtu hann Tóta minn.
(s. 194)
Sigurbjörn sturlast að lokum, drepur eina raunverulega vin sinn í stað nauðgarans og endar í fangelsi. Sú staðreynd að hann getur aldrei fyrirgefið, hvorki guði, samferðafólki sínu eða sjálfum sér, verður að lokum alltumlykjandi farg sem hann brotnar undan. En það er ljóst að hann kýs sjálfur að fyrirgefa ekki – harðneskjan og sjálfsvorkunin er alltaf ráðandi þáttur í persónuleika hans sem kringumstæður og hans eigin ákvarðanir móta og herða. Ég tek undir með umsögn Páls Valssonar um boðskað Tröllakirkjunnar hvað þetta varðar: „atvik sögunnar og örlög persóna hennar eiga sér fyrst og fremst skýringar í sálarlífi þeirra og skapgerð, en jafnframt eiga tilviljanir stóran þátt í framvindu atburða … Þeirri söguskoðun er hafnað að einstaklingar séu í einu og öllu skilyrtir af samfélaginu og að samfélagið beri ábyrgð á óförum þeirra“ (102).
Frjáls vilji er okkur gefinn til að þjóna fyrirgefningu og kærleika en líka eigin löngunum sem geta leitt til þeirrar óhamingju, spillingar og reiði sem birtist í samtímaspeglinum Blóðakri. Eiginhagsmunasemi og síngirni aðalpersónanna Harðar og Dagnýjar birtist helst í því að þau meta ekkert ofar eigin veraldlegu gengi og þægindum. Dagný er trú eiginmanni sínum einungis þegar hann á peninga og Hörður nýtir sér spilltar pólitískar vélar til að niðurlægja mágkonu sína fyrir þjóðinni með það eitt í huga að nálgast arf konu sinnar – konu sem hann hvorki virðir né elskar. Efnishyggjan er þeirra eina trúarbragð og þau bera ekki umhyggju eða virðingu fyrir neinum nema sjálfum sér. Þannig rekur hver síngjörn ákvörðunin aðra og þau baka bæði sjálfum sér og sínum nánustu mikla óhamingju. En valið er þeirra.
Reykjavík
Það er ekki óeðlilegt eða óviðbúið að raunsæislegar skáldsögur eins og Tröllakirkju þríleikurinn nýti raunveruleg sögusvið – því tekur lesandinn sem sjálfsögðum hlut. En Ólafur hefur á stundum vikið allhastarlega frá raunsæisforminu sem hann alla jafna notast við og skrifað nútímalegar fantasíur. Sögurnar Gaga (1984 og 2000), Heilagur andi og englar vítis (1986) og „Grátt silfur“, seinni sagan í Sögur úr skuggahverfinu (1990), nýta allar hefðir vísindaskáldskaps. Gaga segir frá manni sem vaknar morgun einn sannfærður um að hann sé staddur á Mars, rauðu plánetunni. Sú staðreynd að herbergið hans og umhverfið allt er nákvæm eftirlíking af því sem hann þekkir frá Jörðinni er bara til vitnis um gamalt bragð Marsbúanna: hann vissi „að þetta ættu þeir til á Mars ef þeir kærðu sig ekki um gestinn“ (7). Söguþræði Heilags anda er erfitt að lýsa í margbreytileika sínum en er í stuttu máli frásögn af því þegar aðalpersónan Össur-mamma reynir að bjarga heiminum frá atómbombunni og lendir í þeim tilgangi í útistöðum við mótorhjólagengið Hell’s Angels sem hefur bækistöð sína við/í Heklu. „Grátt silfur“ er íslensk útgáfa af Tímavél H. G. Wells og fjallar um sagnfræðing sem ferðast aftur til fortíðar í tímavél bróður síns. Það sem er óvenjulegt við þessar sögur sem vísindaskáldskap er að þær gerast allar í frekar ófantastísku umhverfi – þær gerast meira og minna í samtímanum og í Reykjavík.
Það er hins vegar mikilvægt að sögusviðið sé kunnuglegt, því hér fjallar höfundur á óbeinan hátt um há-alvarlega hluti. Í viðtali við Einar Kárason og Guðmund Andra Thorsson, þar sem Gaga og Heilagur andi voru til umræðu, lýsti Ólafur því fyrir margt löngu yfir að:
mér finnst að hlutverk rithöfundar á okkar tímum sé að þeir eigi að vera fylgjandi lífinu, vera fullir af virðingu fyrir plánetunni, mér finnst það vera tilgangur höfunda. Vegna þess að við lifum á svo ægilegum tímum þar sem öll jörðin nötrar af skelfingu. Höfundurinn á að fylgja lífinu þó það kosti hann allt.
(s. 41)
Jafnvel þó sögurnar séu vísindaskáldskapur er boðskapur þeirra bundinn samtímanum og á erindi við lesendur sem eiga heima á jörðinni og í Reykjavík. Þessar tvær bækur, í mun meira mæli en annar skáldskapur Ólafs, gegna mórölsku hlutverki og mætti jafnvel lesa sem nútíma dæmisögur. „Að vera vondur við næsta mann,“ skrifar Össur-mamma í lesendabréf sem hann sendir til dagblaðanna, „það er atómbomban“ (19). Það þarf sem sagt ekki sprengju til að eyðileggja samfélag manna á jörðinni og jörðina sjálfa – við gerum þetta smám saman sjálf í daglegum orðum og gjörðum sem hleypa hinu illa í heiminn. Í þessum yfirfærða skilningi sprengir Geimfarinn í Gaga svo atómbombu þegar hann drepur kornabarn í vöggu. Með svo illri og tilgangslausri gjörð svíkur hann mannkynið og jörðina, rétt eins og hefði hann sprengt raunverulega sprengju. Til að lesandinn átti sig á að ótrúlegar sögur Össurar-mömmu og Geimfarans eigi erindi við sig eiga atburðir sér stað í Hljómskálagarðinum og á Laugarveginum, í umhverfi sem flestir þekkja og geta heimfært.
Raunsær bakgrunnur þjónar því sem áminning og ákall til lesandans – þessir atburðir gerast ekki bara í kunnuglegu umhverfi, heldur heima hjá stórum hluta Íslendinga. Ljóstollur (1980) er næsta ólík fantasíum Ólafs en nýtir bakgrunn og sögusvið á svipaðan hátt. Sagan er hreint frá sagt hræðileg. Hún er neikvæð þroskasaga ósköp venjulegs ungs drengs í Reykjavík – neikvæð í þeim skilningi að í stað raunverulegs þroska forherðist unglingurinn við inngöngu í samfélagið. Drengurinn Stebbi er svo venjulegur og sögusviðið svo kunnuglegt að ekki verður hjá því komist að viðurkenna þættina sem móta skapgerð hans sem hluta af hinu raunverulega samfélagi líka. Hrottaleg nauðgun systur hans á eigin heimili og óléttan sem af hlýst er afgreidd á gamalkunnan en því miður allt of algengan hátt af körlunum í kringum hana sem brókarsótt: hún bað um það. Ekki tekur betra við þegar faðir Stebba reddar honum vinnu í verksmiðjunni þar sem hann er verkstjóri. Til að ‘komast til manns’, fá inngöngu í karlaheiminn í verksmiðjunni og losna undan stríðni ‘meiri karla’, þarf Stebbi að tileinka sér kvenfyrirlitningu, andúð á hommum og snúa vörn í sókn með því að ofsækja sér minni máttar. Lýsingarnar á einelti í verksmiðjunni, sér í lagi á grunuðum homma, eru hrikalegar. Þó fyrstu persónu frásögnin geri það að verkum að fjarlægð skapast milli skilnings unglingsins Stebba og lesendans er ekki hægt annað en finna til með honum, meira að segja þegar hann lætur undan þrýsingi karlaklíkunnar og fordæmir hinn samkynhneigða vin sinn. Stebbi velur auðvitað vitlaust, en ákvarðanir hans eru mótaðar af vali annara íbúa í hinni kunnuglegu Reykjavík í fortíð og nútíð.
Saga
„Texti sögunnar hefur ekkert heimildargildi“ segir Ólafur á saurblaði Tröllakirkju og ítrekar á sama stað í Vetrarferðinni að sú bók hafi heldur ekki neitt „sagnfræðilegt gildi“. Höfuðlausn (2005) er í tileinkun höfundar skilgreind sem skáldsaga. Öxin og jörðin er nefnd „söguleg skáldsaga um Jón biskup Arason og syni hans“. Hvernig á lesandi að taka þessum tilkynningum? Lesið með varúð? Ekki taka of alvarlega það sem hér stendur? Það getur verið erfitt að staðsetja sig gagnvart sögulegum skáldsögum og höfundar þurfa skiljanlega að verja hugmyndir sínar með yfirlýstum skáldskap þegar þeir leggja orð í munn raunverulegra og þjóðþekktra persóna eins og Jóns Arasonar biskups, Muggs og Gunnars Gunnarssonar. Öxin og jörðin er saga, ekki sagan. En hvar er þá sagan? Hvar finnum við óyggjandi heimildir? Sannleikann? Ef til vill má sammælast um sagnfræðilega réttar dagsetningar og ferðir manna frá A til B en sagan samanstendur líka af einstaklingum: fólki með tilfinningar og ástæðunum sem lágu að baki því að viðkomandi ákvað að ferðast frá A til B sjöunda nóvember 1550. Um þessar ástæður fjallar Ólafur í meira og minna skálduðum sögum sínum, sér í lagi í nýjustu bókunum, Höfuðlausn og Öxinni og jörðinni.
Höfuðlausn hverfist um atburði sem áttu sér stað sumarið 1919 þegar danskir kvikmyndagerðarmenn komu til Reykjavíkur til að mynda Sögu Borgarættarinnar eftir Gunnar Gunnarsson. Þetta sama sumar breytir Jakob margfætlu í grasmaðk af greiðasemi við ókunnuga stúlku sem situr fyrir framan hann í bíó. Í fyrstu línum bókarinnar kynnir Ólafur þannig aðalpersónurnar tvær til sögunnar – þ.e. Jakob og stúlkuna, ekki margfætluna – þó stúlkan birtist ekki aftur fyrr en um miðbik bókar. Hvorugt þeirra, hvað þá lesandinn, veit að þeim er áskapað að verða hjón. Ólafur notar þesskonar boðanir, vísbendingar um hvað koma skal, í fleiri af verkum sínum og ferst það vel út hendi. Þannig reynist maðurinn sem situr á bekk á Skólavörðuholtinu og vekur ugg hjá Sigurbirni á fyrstu blaðsíðum Tröllakirkju eiga eftir að verða örlagavaldur í lífi Sigurbjarnar. Bæði í Tröllakirkju og Höfuðlausn birtast slíkir fyrirboðar sem hluti af söguþræðinum og afhjúpast ekki sem slíkir fyrr en þeirra tími kemur í sögunni. Fyrirboðarnir gefa sögunum dýpt og auka traust lesenda á alvitrum höfundi sem virðist hafa vitað hvert atburðarásin myndi leiða persónur hans allt frá upphafi.
Leið Jakobs til Ásthildar, stúlkunnar úr bíóinu, er hins vegar hlykkjótt og liggur austur fyrir fjall, á Selfoss, Keldur og Þingvelli, hvert hann ferðast í starfi sínu sem fréttamaður, ‘propps’, bílstjóri og smiður við kvikmyndagerðina. Sagnfræðin er sú að Jakob er að nokkru leyti staðgengill Árna Óla, raunverulegs fréttamanns Morgunblaðsins, sem ferðaðist með kvikmyndahópnum og skrifaði pistla um framvindu mála í blað sitt. En ástæðan fyrir því að Jakob tekur öllum þeim störfum sem bjóðast í sambandi við kvikmyndina er að hann er hugfanginn, bæði af dýrðarljómanum sem af kvikmyndum stafar sem og einni aðalleikkonunni, Elisabetu Jacobsen. Hún reynist hið versta flagð sem notar sér hrifningu Jakobs til að gera eiginmann sinn afbrýðisaman og gerir svo ofan í kaupið stólpagrín að ástarjátningum Jakobs í eyru hinna í hópnum. Var hin raunverulega Elisabet þesskonar manneskja? Hver veit, en í örvæntingu sinni fer Jakob á fyllerí með Muggi, fótbrotnar og endurnýjar þannig kynni sín við Ásthildi, gullsmíðanema sem vinnur á verkstæðinu á neðri hæð læknastofunnar sem fótbrotið rekur Jakob til. Saman missa þau, elska, gráta og sakna og það er hlýjan í lýsingunum á örlögum þeirra, augljós og einlægur áhugi höfundar á afdrifum persónanna, sem er aðaleinkenni bókarinnar. Sögulegir atburðir og þróun byggðar í Reykjavík mynda bakgrunninn að frásögninni af lífi Ásthildar og Jakobs á áhugaverðan hátt sem ljær skálduðum persónum dýpt en hlutskipti þeirra, tilfinningar og hugsanir, eru hinar raunverulegu staðreyndir sögunnar.
Á sama hátt eru sögufrægir atburðir rammi Axarinnar og jarðarinnar á meðan frásögnin er drifin af ástríðum og persónuleika sögupersónanna. Munurinn er að hér eru persónurnar einungis hálf-skáldaðar, því Öxin og jörðin segir frá átökunum sem leiddu til siðaskipta á Íslandi og aftöku síðasta kaþólska biskupsins Jóns Arasonar ásamt sonum hans. Í fáum verkum Ólafs er höfundurinn jafn alsjáandi og hér. Hann stendur svo nálægt persónum sínum að í einni setningu skiptir hann úr þriðju persónu frásögn yfir í að tala með rödd þess er hann segir frá, í þessu tilfelli Christian III Danakonungs:
Hann hafði gert boð fyrir biskup Jón að koma utan og finna sig en þótt konungur hefði heitið honum fullum tryggðum hafði Jón það utanboð í engu aktað, heldur yfirtreður hann vor boð og kirkjuskipan. Sömuleiðis þröngvar hann og þvingar með ofríki vora undirsáta, hvað við í engan máta líða kunnum.
(s. 159)
Þetta er að auki gott dæmi um hversu algerlega nærvera höfundar er undirskipuð nærveru persónanna. Þær eru margar og er frásögnin borin af þeim til skiptis. Það væri auðvelt í ljósi frásagnarformsins að láta skoðanir hins alvalda söguhöfundar á hugsunum og gerðum persónanna móta kaflana þar sem þær fá að tala, en með því að láta rödd einstakra persóna yfirtaka rödd söguhöfundar eins og hér að ofan, tala þær allar með eigin nefi, ef svo má segja. Þegar Jón biskup segir frá eru aðgerðir og persónuleiki Sigurðar ‘dóttur hans’ fyrirlitlegar en þegar séra Sigurður talar er það sem faðir hans skilur sem veiklyndi útskýrt með raunverulegri sannfæringu Sigurðar um réttmæti gagnrýni Lúters á kaþólskan sið.
Persónur Axarinnar og jarðarinnar verða ljóslifandi og minnistæðar í meðförum Ólafs. Sér í lagi er persóna Ara Jónssonar eftirminnileg fyrir staðfast fylgi við föður sem hann þó deilir ekki trú með. Þögul þjáning og djúp sorg Ara vegna dauða Halldóru konu sinnar skýra að miklu leyti seinna skeytingarleysi hans um jarðnesk örlög sín. Og þetta er einmitt það sem gerir vel skrifaðar sögulegar skáldsögur svo mikilvægar – þær færa söguna nær lesenda. Ari var maður sem elskaði konuna sína. Halldóra leið fyrir fæð Helgu tengdamóður sinnar á sér. Christian Schriver var tilbúinn til að fórna öllu fyrir Baldvin son sinn. Jón Ólafsson, böðull Jóns biskups, Björns og Ara var veikgeðja strákgopi sem var þvingaður til að vinna verk sem enginn hinna raunverulegu böðla, Jón Bjarnason, Daði, Marteinn og fleiri, höfðu einurð eða hugrekki til að taka að sér. Ekki man ég þessi nöfn úr sögukennslu þó 1550 sé vissulega dagsetning sem hömruð var inn í hausinn á mér eins og öðrum. En mig grunar að nú þegar Ólafur hefur gætt persónurnar lífi og gefið þeim tilfinningar – hversu skáldaðar sem þær tilfinningar kunna að vera – muni ég meira að segja muna að aftakan fór fram sjöunda nóvember.
Ég hef ekki fjallað um öll verk Ólafs hér, t.d. hef ég ekki minnst á fyrstu skáldsöguna Milljón prósent menn (1978), barnabækurnar, leikritið, ljóðin eða þýðingarnar hans tvær – skáldsögurnar eru enda veigamesti hluti höfundarverksins. Ólafur hefur að auki þroskast mikið sem rithöfundar frá því að Milljón prósent menn kom út hvað varðar frásagnartækni, efnistök og persónusköpun. En strax þá var hann að velta fyrir sér áhrifum nútíma efnishyggju á menn og þjóðfélag og þá helst samfélag manna í Reykjavík. Umfjöllunarefnið hefur haldið áfram að vera honum hugleikið og fléttast dýpri umræðu um hlutverk trúarinnar í lífi einstaklingsins og mikilvægi sögunnar í nýrri verkum hans. Þessu umræða er öll nærgætin og laus við þá predikun sem kannski mætti búast við í jafn raunsæum og nýraunsæum skáldskap. Sögulegar skáldsögur Ólafs hafa ef til vill ekki hefðbundið heimildagildi en þær eru hins vegar til þess fallnar að leiða lesendum fyrir sjónir að sagan er mótuð af fólki af holdi og blóði. Þannig vekja þær áhuga á mannlegum aðgerðum, á vali einstaklinga, sem hafa leitt til raunverulegra atburða í stað þess að innræta dagsetningar eða hamra á viðurkenndum sögulegum staðreyndum. Fyrir þær sakir finnst mér það vera saga Ólafs sem geymir mennina sem mótuðu hana best.
© Agnes Vogler, 2006
Heimildir
Einar Kárason og Guðmundir Andri Thorsson. „Ég bý í húsi undir klöpp: Einar Kárason og Guðmundur Andri Thorsson ræða við Ólaf Gunnarsson“, Teningur 1987: 4, bls. 35-43.
Einar Már Jónsson. „Besti drátturinn?“, TMM 2000: 2, bls. 98-103.
Páll Valsson. „Hin heilaga fjölskylda“, TMM 1993: 2, bls. 101-106.
Greinar
Almenn umfjöllun
„Ég bý í húsi undir klöpp. Einar Kárason og Guðmundur Andri Thorsson ræða við Ólaf Gunnarsson“
Teningur, 3. árg., 4. tbl. 1987, s. 35-43
Um einstök verk
Blóðakur
Victoria Ann Cribb: „Book news“
Iceland review, 38. árg., 2.tbl. 2000, s. 66-67
Páll Valsson: „Sáð í blóðugan akur“
Tímarit Máls og menningar, 58. árg, 4. tbl. 1997, s. 116-119
Dimmar rósir
Árni Óskarsson: „Blóm hins illa“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 70. árg., 4. tbl. 2009, bls. 117-121
Ingvi Þór Kormáksson: „Dimmar rósir“ (ritdómur)
Bókmenntavefurinn, sjá umfjöllun hér
Gaga
Páll Valsson: „Það er átak að skipta um plánetu“
Tímarit Máls og menningar, 46. árg., 4. tbl. 1985 s. 522-524
Heilagur andi og englar vítis
Guðmundur Andri Thorsson: „Það er atómbomban.“
Tímarit Máls og menningar, 49. árg., 1. tbl. 1988, s. 133-136
Höfuðlausn
Sólveig Ólafsdóttir: „Að yrkja sína Höfuðlausn“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 68. árg., 1. tbl. 2007, s. 87-90
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Leiðin til Hamsun“ (ritdómur)
Bókmenntavefurinn, sjá umfjöllun hér
Listamannalaun
Úlfhildur Dagsdóttir: "Laun, líf og lyst" (ritdómur)
Tímarit Máls og Menningar, 80. árg., 3. tbl. 2019, s. 128-133
Árni Davíð Magnússon: „Bacchi-Boy og Gúmsí-Lúms“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Ljóstollur
Ólafur Gunnarsson: „Að kunna skil á sínu skaz-i. Samvinna Ólafs Gunnarssonar rithöfundar og Ólafs Jónssonar bókmenntafræðings á meðan skáldsagan „Ljóstollur“ var í smíðum“
Tímarit Máls og menningar, 48. árg., 2. tbl. 1987 s. 220-234
Málarinn
Helga Birgisdóttir: „Harmur á striga“ (ritdómur)
Spássían 2012, 3. árg., 4. tbl. bls. 43.
Ingvi Þór Kormáksson: „Málarinn“ (ritdómur)
Bókmenntavefurinn, sjá umfjöllun hér
Meistaraverkið og fleiri sögur
Ingvi Þór Kormáksson: „Meistaraverkið og fleiri sögur“ (ritdómur)
Bókmenntavefurinn, sjá umfjöllun hér
Rúnar Helgi Vignisson: „Smáfuglar fagrir : staldrað við nokkrar smásögur frá liðnum árum“
Spássían 2011, 2. tbl. (vetur), bls. 36-9
Syndarinn
Jón Yngvi Jóhannsson: "Einnig listin er hégómi"
Tímarit Máls og menningar, 77. árg. 4. tbl. 2016, s. 131-136
Tröllakirkjan
Jón Yngvi Jóhannsson: „Að loknu gullæði: um þrjár íslenskar karlasögur“
Skírnir, 171. árg., vor 1997, s. 214-236
Páll Valsson: „Hin heilaga fjölskylda“
Tímarit Máls og menningar, 54. árg, 2. tbl. 1993, s. 101-106
Ingi Bogi Bogason: „Når drømmen er for stor. De islandske sagaers helteverden i ny afspejling = When a dream is too big. The world of the Icelandic sagas´ heroes from a new angle“
Nordisk litteratur 1993, s. 15
Vetrarferðin
Einar Már Guðmundsson: „Besti drátturinn?“
Tímarit Máls og menningar, 61. árg., 2. tbl. 2000, s. 98-103
Verðlaun
2003 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Öxin og jörðin
1999 - Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
Tilnefningar
1992 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Tröllakirkja
Herörin og fleiri sögur
Lesa meiraDauðvona lögfræðingur snæðir kjötsúpu með fyrrverandi eiginkonu sinni, AA-maður fer til að biðja gamlan bekkjarfélaga fyrirgefningar, húsgagnasmiður býður langveikri dóttur sinni í hvalaskoðun og átök leynifélaganna Rauðu rósarinnar og Svörtu handarinnar ná hámarki í blóðugum bardaga á Skólavörðuholti. Um þetta og margt fleira má lesa í tólf nýjum smásögum eftir Ólaf Gunnarsson. Stíllinn er knappur og oft launfyndinn, sögurnar ýmist bjartar eða dimmar, angurværar eða ærslafullar.Listamannalaun
Lesa meiraThe Ax and the Earth
Lesa meiraSyndarinn
Lesa meiraMálarinn
Lesa meiraMeistaraverkið og fleiri sögur
Lesa meiraDimmar rósir
Lesa meiraMillion-Percent Men
Lesa meiraFallegi flughvalurinn og Leifur óheppni
Lesa meira