Æviágrip
Þóra Jónsdóttir er fædd 17. janúar 1925 á Bessastöðum á Álftanesi en fluttist ung að aldri með fjölskyldu sinni að Laxamýri í Suður-Þingeyjarsýslu og ólst þar upp. Hún nam við Alþýðuskólann á Laugum í Reykjadal frá 1940 - 1942 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1948. Þóra kenndi við Flensborgarskólann í Hafnarfirði 1948 - 1949 og las síðan bókmenntir við Hafnarháskóla 1949 - 1952. Hún lauk prófi frá Kennaraskóla Íslands 1968. Þóra starfaði á Borgarbókasafni Reykjavíkur frá 1975 - 1982.
Fyrsta ljóðabók hennar, Leit að tjaldstæði, kom út árið 1973, en síðan hefur Þóra sent frá sér fjölda ljóðabóka auk ljóðaþýðinga. Safnrit með ljóðum úr öllum fyrri ljóðabókum Þóru kom út hjá bókaforlaginu Sölku haustið 2005.
Frá höfundi
Frá Þóru Jónsdóttur
Þegar ég sá dagsins ljós bjuggu foreldrar mínir á Bessastöðum á Álftanesi. Fáum árum síðar seldu þau jörðina vegna skorts á landrými og keyptu Laxamýri í Suður Þingeyjarsýslu þar sem ég ólst upp. Jarðnæði er þar gott og sést ekki til næstu bæja með berum augum. Jörðin er mannfrek og voru þar oftast margir í heimili. Þjóðvegur liggur þar fyrir ofan garð og mikið um gesti og gangandi vegna þess hversu samgöngum var háttað fyrir tíma vélvæðingar. Raunar held ég að sitthvað í fari þjóðarinnar hafi þá verið óbreytt frá landnámstíð.
Lögboðin skólaskylda var þá frá 10 til 14 ára aldurs sex mánuði á vetri að nafninu til. Farkennara deildum við með annarri sveit. Var hann þrjá mánuði í hverjum stað til skiptis á bæjunum en vegna fjarlægðar og annars nutu fá börn kennslunnar nema einn mánuð á vetri. Annað varð að vera heimanám með tilsögn foreldra. Á vorin tókum við staðlað próf minnir mig.
Þótt náttúran sé óblíð norður þar varð hún mér óþrjótandi uppspretta fjölbreytni og fegurðar. Háttbundin sveitastörf mörkuðu árstíðirnar. Annríki var mikið. Á einhvern hátt sem ég kann ekki að skýra fékk hver þáttur náttúru og umhverfis samsvörun innra með mér og bætti að nokkru leyti upp hina félagslegu fábreytni sem ég bjó við. Þessir töfrar hafa ætíð síðan fylgt mér.
Sem barn og unglingur las ég það sem til náðist en hafði mjög takmarkaðan aðgang að bókasafni. Vegna þessa las ég einnig þau ljóð sem ég komst yfir. Þau líkt og lukust upp fyrir mér þannig að ég þóttist lesa margt milli línanna. Svo fór að ég hneigðist mjög að lestri ljóða.
Sem unglingur var ég í alþýðuskólanum á Laugum í Reykjadal og síðar stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri. Í þessum skólum varð ég fyrst samvista jafnöldrum. Ég giftist ung að árum. Hjónabandið hefur enst. Þegar börnin okkar voru vaxin úr grasi fannst mér tíminn lengi að líða og hóf að skrifa það sem ég kalla ljóð en eru kannski smásögur ellegar æviminningar. Jöfnum höndum hef ég fengist við myndlist sem er mér hugleikin.
Þóra Jónsdóttir, 2001
Um höfund
„Línur í lófa“ – Um ljóðabækur Þóru Jónsdóttur
Í ljóðinu „Nafnið“ í bókinni Far eftir hugsun (2000) eftir Þóru Jónsdóttur segir svo: „Mér var gefið nafn / aftur úr grárri forneskju / kennt við heiðinn guð / grimmt eins og mannfórn / eða spjótsoddar“ og síðar: „Hvað á barnið að heita / Í höfuðið á ömmu á Höskuldsstöðum / auðvitað“.
Þó varla megi kalla þetta ljóð drög að sjálfsmynd þá má sjá í þessari vangaveltu um nafn ákveðna þræði í ljóðum Þóru, nefnilega tengslin við fortíð og fjölskyldu sem eru henni mjög hugstæð.
Þóra Jónsdóttir hefur gefið út átta ljóðabækur og úrval ljóða hennar birtist í safnriti þriggja kvenna, Ljósar Hendur: Þrjár íslenskar skáldkonur á fagnaðarfundi (1996). Fyrsta bókin kom út árið 1973, Leit að tjaldstæði, og sú nýjasta árið 2000. Ljóð Þóru eru yfirleitt mjög táknsæ og knöpp og sverja sig í ætt við móderníska ljóðahefð, jafnframt því að fylgja stefnum og straumum hvers samtíma. Í sjöttu bókinni, Línur í lófa (1991), bregður Þóra þó út af venjunni og sendir frá sér ljóðabók sem er gerólík fyrri og síðari bókum hennar. Bókin er einskonar æviminningar í ljóðformi og virkar eiginlega eins og lykilbók að höfundarverki skáldkonunnar og opnar lesanda nýja sýn á mörg ljóðanna í öðrum bókum hennar. Ljóðin lýsa uppvexti á afskekktu bóndabýli og fyrsta ljóðið sem er einskonar inngangur að bókinni hefst svo: „Börnin mín/þið sem eruð fullvaxta og horfin frá mér / Ég læt hugann reika / til þess tíma er við áttum saman.“ Börnin eru fróðleiksþyrst og stundum kaupir móðirin af þeim þægð með því að lofa því að segja þeim „allt í heimi“ en oft varð fátt um efndir. En: „Nú vil ég segja eitthvað af því / sem ég lofaði þá en gerði ekki/því annað virtist brýnna / Ég legg nú af stað eftir óljósri slóð / minnug þess að þúsund mílna ferð / hefst í einu skrefi.“ Ljóðin lýsa svo í þessum látlausa stíl daglegu lífi á bóndabæ. Bæjarhúsinu og bæjarháttum eru gerð skil í ljóðinu „Bankað uppá að vestan“ („Á bænum okkar eru tvennar útidyr“) og „Við eldavélina“ („Nei engin mynd er til af eldhúsi bernsku minnar“). Vinnulagi hinna ólíkustu verka er lýst í ljóðunum „Undir olíulampanum“ („Hvert okkar heldur á dúnvisk í höndunum/að fíntína fjaðrir og kusk“), „Um sláttinn“ („Veðrað heyskaparliðið hefur suðu fyrir eyrum og sér aðeins flekki bak við augnalokin“) og „Fossadagar“ („Það má teljast afrek að standa votur upp að höndum / í kaldri straumþungri ánni mikinn hluta úr degi/að skorða grindur og kistur með grjóti“). Bóklestur og nám fær sinn skerf í ljóðum eins og „Farskóli“ („Kennarinn reynir að fella kennsluna að aldri hvers og eins / agavandamál eru engin/Börnunum finnst íðilgaman í tímum og utan þeirra“) og „Þekkingarleit“ („Bókakostur heimilisins rúmast í tveimur hillum / sem ná frá lofti til gólfs“).
Ljóðin í bókinni skiptast í tvær tegundir, annarsvegar eru stílhreinar og einfaldar lýsingar á aðstæðum og staðháttum, sem eru í frásagnarstíl, einkennast oft af upptalningu og minna að því leyti kannski helst á þulur. Þessi ljóð eru yfirleitt tjáð úr nokkurri fjarlægð, þrátt fyrir að ljóðmælandi sé oftar en ekki þátttakandi í atburðum, í einu ljóðanna lýsir skáldkonan sjálfri sér í þriðju persónu sem unglingsstúlku við strokk: „Telpunni er órótt og telur víst að svona strokkur / hafi verið notaður frá landnámstíð / Það er eins og ekkert nýtt hafi skeð / síðustu þúsund árin / Hún er sjálf líkt og lokuð inni í tímanum / Hún horfir út um gluggann á hvítan snjóinn / eins og til að eyja undankomuleið“. Í þessu ljóði kemur vel fram hið tvíbenta viðhorf til fortíðarþrárinnar, þrátt fyrir að skáldkonuna lengi eftir þessum tíma sem hún hefur sjálf dregið upp í einföldum og nokkuð fegruðum dráttum, þá bera minningarnar með sér þrá þess tíma eftir einhverju öðru. Skáldkonan er mjög meðvituð um þessa togstreitu eins og kemur fram í fremur gamansamri sýn á búðarráp í ljóðinu „Erindisleysur“ (Lesnætur, 1995) en þar fer ljóðmælandi yfir götuna erindisleysu, „með sitthvað að yfirvarpi“. Hann lítur í sýningarglugga og er á leið yfir breiðstræti í leit að tilgangi: „Þótt ég geti sagt mér sjálf / að sé hann á annað borð til / býr hann mín megin götunnar“. En inni á milli þessara frásagnarljóða eru svo persónulegri ljóð, vangaveltur skáldkonunnar útfrá atburðum og staðháttum sem hún lýsir. Í framhaldi af ljóðinu við strokkinn kemur ljóðið „Í tímanum“ sem hefst svo: „Ég leita hennar sem óttast / að lokast inni í tímanum“, og í framhaldinu af ljóðinu „Um sláttinn“ sem endar á því að hestar fælast, en eru sefaðir af ungum sláttumanni, kemur ljóðið „Hestar tímans“: „Hver fær stöðvað hesta tímans“.
Í þessari bók birtast minni sem koma fyrir aftur og aftur í ljóðum Þóru, tengslin við náttúruna, þjóðtrúin, fjölskyldan og aðskilnaður og söknuður. Ferðin er svo það minni sem er rammi bókarinnar, en svo er einnig um fleiri bækur Þóru, Leiðin heim (einnig nefnd Leiðin norður, 1975) og fyrsta bókin, Leit að tjaldstæði, einkennist mjög af ferðaljóðum.
Náttúran er Þóru mjög hugleikin og birtist í mörgum myndum í skáldskap hennar. Í ljóðinu „Eins manns tjald“ í Far eftir hugsun myndhverfir hún beinlínis ljóðið í náttúrunni. Ljóðið minnir skemmtilega á ljóð Steinunnar Sigurðardóttur „Sjálfsmyndir á sýningu“ og sýnir vel hvernig skáldskapur Þóru er í stöðugri samræðu við bókmenntalandslagið, þó sjálf sé hún næsta ósýnileg í því. Svipuð myndhverfing ljóðs og náttúru birtist í ljóðinu „Hvarvetna“ (Á hvítri verönd, 1988), en þar óttast skáldkonan að ljóðið yfirgefi sig: „því sjávarföll þess/stjórnast ekki af tungli / og geimfar þess svífur / milli himins og jarðar.“ Og í „Landslagi“ (Leit að tjaldstæði) rennur áin gegnum huga ljóðmælanda, „og fjallið / færir sig úr stað / og verður mitt.“ Heiðin bíður hans og síðan birtir hraunið honum leyndarmálið. Í ljóðinu „Saga“ (Höfðalag við Hraðbraut, 1983) birtir skáldkonan klassíska mynd af andstæðu borgar og náttúru, sem hún gefur nýja sýn á í orðunum „hlið við hlið stóðu húsin / höfðalagsmegin við rúmin/stóð hraðbrautin.“ „Án skyggnis til fjalla / eigra ég um / eins og húsbóndalaus“ segir í ljóðinu „Esjan“ (Lesnætur), en þar hefur áður komið fram sú dásamlega hlýlega hugmynd að „Í góðu skyggni / flytur fjallið inn til mín / Leggur hendur á axlir mér / og hefur mig fyrir gæludýr.“ Ljóðið „Seiður“ (Horft í birtuna) tengir svo saman tvö minni, náttúruna og þjóðsöguna:
Sértu einn af þeim
sem unir bezt
undir berum himnifjallabláminn fær á þig
niður vatna syngur
þér í eyrumþú finnur til frændsemi
við grjótþá máttu vita
að vættir landsins
hafa hér um vélt
Þetta er eitt af glaðlegri ljóðum Þóru, en skáldskapur hennar hneigist meira til tregablandinna tilfinninga, þó vissulega sé léttari tóna að finna. Mörg þjóðsagnaljóðanna eru myrk og óhugnanleg eins og „Þjóðsaga“ þarsem smalamaður verður að mæta skrímslinu í flæðarmálinu, rakki hans leggur á flótta. Hundurinn er ekki heldur til mikils gagns í ljóðinu „Heimsókn“ en bæði ljóðin eru úr bókinni Leit að tjaldstæði.
Sum þjóðsagnaljóðanna eru þó glaðlegri eins og „Nykurvatn“ í sömu bók, en þar yrði „fólk sem framhjá ekur“ undrandi á „að sjá nykurinn“ og í „Fljótstúni“ tjaldar ljóðmælandi að kveldi til að vakna að morgni á bæ huldufólks „sem þar hefur búið / mann fram af manni, // frá landnámstíð.“ Þessi ljóð bera vitni um skemmtilega sýn á óvætti landsins sem hluta af daglegum veruleika og sú sýn á þjóðtrúna kemur einnig vel fram í ljóðunum í Línur í lófa, en þar er sagt frá fjósadraugi sem enginn óttast „þó hann gangi sjálfsagt enn í dag bæjarhlöð“, mýrarskottu er óskað betri tilveru „mættirðu leggja upp á ný / á rósaleppuðum sauðskinnsskóm“, og bræðurnir mæta sjóskrímsli í fjörunni í ljóðinu „Um sækýr og fleira“, mögulega er það skylt þeim sem birtast í ljóðunum í Leit að tjaldstæði. Ljóðið „Sumarhús um vetur“ (Far eftir hugsun) einkennist af þessu sátta sambýli, en þar er sumarhúsið skilið eftir skuggunum og auðninni á haustin. „Kannski rata þangað vofur“, „Eða huldufólk heldur þar / nýársfagnað að hætti álfa“ og „þegar geimskip lendir / í grenndinni / verða eftir fáséð för / á jörðinni.“
Í andstöðu við þetta afslappaða samfélag manna og óvætta er ljóðið „Dagtröll“ (Á hvítri verönd) en þar birtist okkur þjóðsagan sem úrelt og varasöm. Svipaður ótti við innrás óvætta kemur fram í ljóðinu „Þunnir veggir“ (Far eftir hugsun), en því fylgir tilvitnunin „... aldrei áttu óvættina að nefna“:
Ég reis um nótt
fann ókunnuga
í híbýlum mínum
Húsið var læst
Hvernig komust þið inn
Veggirnir eru þunnir
var svarið
sem bergmálar inn í vökunaÖðru sinni
hringdi bjallan í myrkri
Óttaslegin gerði ég krossmark
Að morgni sáust spor
í snjónum
er ég hirði ekki um að lýsaLoks slæddist inn um lúguna
sending
Ég veit ekki enn
hvernig henni verður
komið fyrir
Bæði ljóðin eru dæmi um táknsæi ljóða Þóru þarsem myndmál þjóðsagnanna er notað til að lýsa tilfinningu einsemdar og útilokunar í „Dagtröll“, með greinilegum undirtónum brjálsemi sem er einnig til staðar í „Þunnum veggjum“, nema þar er það þörfin fyrir einangrun og óttinn við umsátur og innrásir / truflanir sem þjóðsagan tjáir.
Í ljóðinu „Systur“ (Höfðalag við hraðbraut) birtist okkur mynd sem er tekin jafnt frá goðsögum sem þjóðsögum, ljóðið segir frá samrýmdum systrum sem eiga saman fjöregg og skeyta því ei „að greina sundur mynd vora/í sléttum fleti vatnsins“. En svo skiljast leiðir en „Munum vér systur ná / að mætast framar við vatnið/varpa á milli oss fjöregginu á ný/að mynd vor renni saman í fletinum.“ Hér er annarsvegar vísun til þeirra fjölmörgu fjöreggja trölla og vætta sem byggja ævintýri og þjóðsögur, en einnig má greina stef úr grísku goðsögunni um systurnar þrjár sem deildu einu auga. Myndin sem fylgir ljóðinu sýnir þrjár síðhærðar stúlkur, en Þóra myndskreytir sjálf bækur sínar. Fyrir utan þjóðsagnatenginuna má þarna sjá annað hugðarefni Þóru, fjölskylduna, og svo hinn tregablandna söknuð og aðskilnað sem einnig er svo ríkur í ljóðum skáldkonunnar.
Fjölskyldutemað birtist fyrst og fremst í ljóðum um systkyni og börn, ljóðin í Línum í lófa lýsa meira samskiptum við systkinin en foreldra, og sú ljóðabók er sett upp eins og frásögn eða þula fyrir börn skáldkonunnar sem hún yrkir mikið til. Í ljóðinu „Morgunsól“ (Horft í birtuna) er lýst nýrri móður sem vakir meðan aðrir sofa og fær ekki litið „af andliti barnsins nýfædda.“ Ljóðið „Langt að komið“ í sömu bók, lýsir því hvernig jafnvel móðurástin getur aldrei gefið óskorðaðan eignarrétt.
Fyrsti hluti bókarinnar Á hvítri verönd heitir „Mömmuleikir“ og þar eru ljóð um mæður og börn og vangaveltur um móðurhlutverkið. Eins og Silja Aðalsteinsdóttir bendir í á dómi í Þjóðviljanum frá 1989 (ath), lýsir „Sleginn vefur“ kynslóðaskiptum og von um að dóttirin öðlist meira frelsi í lífinu en móðirin sem „fæst við að vefa ábreiðu“ en greinir vart lengur „glitvefsins hefðbundnu áttablaðarós“. Hún sér ekki fram á að ljúka verkinu en ætlar að láta dóttur sína um það „og gefa henni frjálsar hendur“.
Þetta er eitt af ljóðum Þóru sem taka sérstaklega til umræðu kynhlutverk og stöðu kvenna, sem hefur verið algengt tema skáldkvenna síðustu þrjá áratugina. Eins og áður sagði er Þóra Jónsdóttir næstum ósýnileg í íslenskri bókmenntasögu, þrátt fyrir að hafa verið virk í útgáfu frá upphafi. Líkt og algengt er með skáldkonur fór hún ekki að skrifa fyr en á miðjum aldri og vakti strax nokkra athygli fyrir bókina Leit að tjaldstæði sem almennt fékk góða dóma. Svo var og um fleiri bækur Þóru en þrátt fyrir góðar viðtökur virðist skáldkonan ekki hafa náð að marka sér þann stað í bókmenntalandslaginu sem hún á skilið. Að einhverju leyti má skýra þetta með kenningum femínísta: það er staðreynd að skáldkonur hafa átt erfiðara uppdráttar í karlstýrðu bókmenntasamfélagi og að skáldskapur þeirra hefur oft ekki hlotið álíka athygli og verk karla, án tillits til gæða. Nú er erfitt að heimfæra þetta einhliða upp á ljóð Þóru, því eitt af því sem hefur verið talið ástæðan fyrir þöggun kvenskálda er að viðfangsefni þeirra þykja of ‘heimilisleg’ og ‘hversdagsleg’. Vissulega yrkir Þóra um hin hefðbundnu kvennamál eins og móðurhlutverk, heimilislíf og notar mikið þjóðsagnaminni sem oft er talið einkenna ljóð kvenskálda. En bækur hennar eru einnig ríkar af áhrifamiklum náttúruljóðum og ögrandi tilvistarspurningum (ferðaminnið) sem einnig tilheyra skáldskap karla. Því má gera sér í hugalund að einangrun Þóru frá bókmenntastofnuninni stafi að einhverju leyti í sambandi við stöðu hennar (sem reyndar einnig markast af kynhlutverki) en hún er vel sett húsmóðir sem sver sig í fáu í ætt við það ‘áhættusama’ líf sem þykir tilheyra skáldum. Að auki hefur hún lítið tjáð sig um skáldskap, sinn eða annarra, og því ekki heldur verið virk eða áberandi í umræðunni um bókmenntir, hvorki útfrá stöðu sinni sem ‘ljóðskáld’ eða ‘skáldkona’. Sjálf segir hún í viðtali í Morgunblaðinu frá 26. apríl 1986 að henni nægi ekki að vera í skugganum og að hana vanti uppörvun og viðbrögð lesenda og gagnrýenda við bókunum. Og hún nefnir stöðu skáldkvenna í þessu sambandi og segir að enn séu þær sniðgengnar.
Það er greinilegt af sumum ljóðunum að staða kvenna er Þóru umhugsunarefni. Þetta sést helst í ljóðinu um ömmuna sem „Engin mynd“ er til af (Lesnætur). Hér er komin amman sem skáldkonan er nefnd í höfuðið á, og hún reynist hafa verið skáld, en hún er ekki til á mynd og lifir í huga skáldkonunnar sem ljósrák og leyndarmál. Í ljóðinu birtist einnig þessi stöðuga tilfinning fyrir söknuði og aðskilnaði sem einkennir meginhluta höfundarverks Þóru, allt frá ljóðunum sem lýsa fortíðarþránni til fjölskylduljóðanna sem lýsa óhjákvæmilegum aðskilnaði systkyna, foreldra og barna, vina og ástvina. Þessum aðskilnaði lýsir skáldkonan á sinn átakalausa hátt í ljóðinu „Samfylgd“ (Leiðin heim): „Samfylgdin / hvarf úr augsýn. // Við gættum þess ekki / að bar á milli / í hverju spori.“ Ljóðið kallast á við ljóð Steins Steinarss um veginn eins og reyndar fleiri ljóða Þóru, en úrvinnsla Þóru á þessum minnum er þó alltaf sérstæð og hennar eigin. Og ljóðið heldur áfram: „Tekst að sveigja gönguna / og nálgast handan hæðanna. // Hversu er ferðin löng, / unz við látum allt af hendi / fyrir spölkorns fylgd.“
Ferðin er Þóru mjög hugleikin og í henni tákngerir hún á klassískan hátt tilvistarspurningar af ýmsu tagi, sem einkenna módernísk ljóð. Leit að tjaldstæði einkennist af ferðaljóðum, og oftar en ekki eru þær ferðir nokkrar óvissuferðir, í „Blindvegur“ lætur ljóðmælandi fyrirberast „við enda þessa vegar/sem ekki liggur til baka“. „Þrotlaus er leiðin / til landsins sem ekki finnst“ segir í „Fjarskinn er blár“ og í „Gegnið í hrauni“ er einnig leið sem liggur ekki til baka:
Frá því snemma í morgun
hef ég gengið í hrauninu.Lengi dags
hugðist ég finna hreiður gæsarinnar
í næstu gjótu.Margt hefur borið fyrir augu
og dagurinn hrokkið skammt
í hrauninu.Mér lízt
að ekki sé allt sem sýnist
og skil ekki lengur
hvað mér gekk til.Sárfætt óska ég þess eins
að snúa heim.Svartur skuggi fylgir fast á hæla mér.
Ég stend á bakka árinnar
á leið minni.Þar hefur brúna tekið af.
Myndmálið sver sig í ætt við skáldskap módernismans og er meitlað og sterkt. Ferðin hefst á leit að gæsahreiðri sem gæti verið tákn ævintýra eða nýs lífs – sbr. sagan af gæsamömmu – og ljóðmælandi drekkur í sig nýjar upplifanir á umhverfi sínu, dagurinn líður hratt. En fljótlega kemur í ljós að eitthvað er vafasamt við ferðalagið og efinn læðist að, kannski vegna þess að ljóðmælanda tekst ekki að hrista af sér fortíðina. Að lokum stendur hann við ný landamæri sem reynast lokuð. Ferðin verður ekki lengri að sinni.
Leiðin heim er eins og nafnið gefur til kynna full að ljóðum um ferðir sem eru öllu bjartsýnni en í Leit að tjaldstæði, „Að rata“ er tiltölulega hefðbundin vangavelta um villur og leiðir sem breytast stöðugt og endar svo: „Nú heyrist mér vindurinn hvísla: Þeir rata er sjá fyrir sér áfangastaðinn.“ Vís áfangastaður er einnig markmiðið í ljóðinu „Ferðabæn“ sem að þessu sinni notar nútímalegt myndmál bifreiðaumferðar. Öllu eldri blær er yfir ljóðinu „Yfir heiðina“ lýsir ferð langferðabíls í snjó: „Á að grafa farþegana í fönn / eða hvað?“ og enn er áfangastaðurinn í augsýn: „Þess verður freistað / að ná sæluhúsinu.“ Og þrátt fyrir hremmingarnar í ferðaljóðum fyrstu bókarinnar álítur skáldkonan ferðalöngun vera nauðsynlega eins og kemur fram í ljóðinu „Dagsverkið“ í Höfðalag við hraðbraut, en þar hikar ljóðmælandi meðan dagarnir fylla árin. Í „Næturferð“ kemur ljóðmælandi úr næturferð aftur í tímann og dvelur um hríð í einskismannslandi því jafnfallinn snjór þekur jörðina þegar hann vaknar. En svo býður dagurinn honum „að stíga / ný spor í fönnina“ og leggja upp í nýja ferð. Síðan verða ferðirnar aftur óvissari í síðari bókunum. „Erindisleysur“ lýsir marklausu flakki í leit að tilgangi, og ferðaljóðin í Far eftir hugsun eru næstum súrrelísk í óreiðu sinni, án þess þó að bera vitni jafnsterkri angist og þau úr Leit að tjaldstæði. Ljóðið „Í fjárhúsi“ er gott dæmi um þetta, en þar hefur ferðin snúist upp í draumkennda hugmynd:
Ég beið þess að fiskbúð opnaði
hinkraði í fjárhúsi
Þrifalegt var um að litast
uppbúin rúm í garðanum
Þar hurfu mér skórnir
Ég kom við í áföstu eldhúsi
Kona vildi gefa mér kaffi
vissi ekki um skóna
Ég spurði hver svæfi í fjárhúsinu
Börn auðmanna ansaði hún.
Að endingu fann ég stakan skó.
Í ljóðinu „Um tæpan veg“ situr blindur maður undir stýri. Kona sem situr í bílnum reynir að leiðbeina honum og tekur eftir að hann sér í gegnum fingur: „Þau héldu áfram ferðinni / hugðust kaupa altaristöflu“. Bíll ekur mannlaus um göturnar í rökkri miðborgarinnar í ljóðinu „Rauður“. Ljóðmælandi heldur í humátti á eftir en sér þá að „þetta er ekki bifreið / heldur rauður tarfur / sem tekur á rás / út í buskann“. Ljóðinu fylgir tilvitnunin „allt er dautt sem ekki er rautt“.
Enda kemur í ljós í ljóðinu „Svæfilvísa“ (tilvitnun: Renni renni rekkja mín hvert sem maður vill) að draumar og ferðir eru náskyld fyrirbæri:
Við vegginn ljósa
þar sem vaggan stendur
er vært að hvíla
hjúfra að svæfli
huga að mynd við gaflinn
af bát sem báran aldrei haggar
og ekki siglir burtSæfararnir
haldnir heimþrá
geta ekki gengið á vatniÍ nótt munu þúsund stjörnur
horfa inn um gluggann
hreinan eftir regnFar draumanna
dregur upp festar
og siglir sinn sjó
© Úlfhildur Dagsdóttir, 2002
Greinar
Almenn umfjöllun
Sigríður Vilhjálmsdóttir: „Þangað sem leið liggur : um skáldskap Þóru Jónsdóttur“
Mímir, 44. árg. 2005, s. 128-130
Soffía Auður Birgisdóttir: „I mit sind kogte vreden: Om Vilborg Dagbjartsdóttir, Þóra Jónsdóttir og Þuríður Guðmundsdóttir“
På jorden 1960-1990, Nordisk kvinndelitteraturhistorie, bind iv, ritstj. Elisabeth Møller Jensen og fl. København, Rosinante 1997, s. 113-116
Um einstök verk
Einnota vegur
Úlfhildur Dagsdóttir: „Gleði og uppgötvun ; Módernísk myndsýn“ (ritdómur)
Vera, 22. árg., 5. tbl. 2003, s. 67
Elst milli hendinga
Úlfhildur Dagsdóttir: „Stóreyg fjallavötn“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Far eftir hugsun
Úlfhildur Dagsdóttir: „Far eftir hugsun“ [Umfjöllun unnin upp úr yfirlitsgrein um skáldskap Þóru Jónsdóttur sem er að finna á bókmenntavef Borgarbókasafns]
Vera, 21. árg., 1. tbl. 2002, s. 70
Hversdagsgæfa
Úlfhildur Dagsdóttir: „Örstykki í púsluspili tilverunnar“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur
Lesnætur
Berglind Steinsdóttir: „Lesnætur“
Vera, 14. árg., 4. tbl. 1995, s. 45
Sólardansinn
Lesa meiraElst milli hendinga
Lesa meiraHversdagsgæfa
Lesa meiraLandið í brjóstinu
Lesa meiraEinnota vegur
Lesa meiraLjóð í Cold was that Beauty...
Lesa meiraFar eftir hugsun
Lesa meiraNýbúar. Blátár
Lesa meiraLjósar hendur : þrjár íslenskar skáldkonur svífa sólgeislavængjum
Lesa meira