Beint í efni

Heimsmeistari

Heimsmeistari
Höfundur
Einar Kárason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Í miðju köldu stríði öttu fulltrúar austurs og vesturs kappi við skákborðið í smáborginni Reykjavík. Heimsmeistaratitill var í veði og vestrið vann. Sigurvegarinn ungi var sérvitur og óbilgjarn en heimafólk hafði samúð með honum og gleymdi ekki afreki hans.

Mörgum árum síðar hefur þessi hornótti einfari komið sér í meiri háttar ónáð hjá stjórnvöldum heimalands síns og situr í japönsku fangelsi, einmana og smáður. Þá grípa velunnarar frá eyjunni í norðri til sinna ráða og sækja heimsmeistarann yfir hálfan hnöttinn – en flóttinn til Íslands er dýru verði keyptur.

Úr bókinni

Hann tók símann og Sóli sagði honum þær fréttir að hann væri kominn í samband við mikilvæga menn í sínu heimalandi, menn með sambönd og jafnvel ráðherra og forseta og hvað hann nú nefndi af mönnum sem væru að leita allra leiða til að fá hann lausan og fluttan til Íslands, sem frjálsan mann. Já, hugsaði skákmeistarinnar, eflaust eru til mjög mikilvægir menn á Íslandi, heimsbyggðin hlýtur að skjálfa! Mjög mikilvæga og háttsetta menn, sagði Sóli, í símann yfir hálfan hnöttinn til japanska fangelsisins. Þetta hljómaði ærið langsótt, það hvarflaði að skákmeistaranum fyrst er hann biksvartur í huga tók tólið að það væri kannski verið að gera grín að sér, hér væri einhver svartur húmor í gangi, hvernig átti smáríkið hinum megin á hnettinum, land sem praktískt séð var hersetið af Bandaríkjunum, að geta orðið honum að liði í fjarlægri heimsálfu? Skákmeistaranum sem sat innimúraður í rammbyggðu fangelsi í Japan en bandarísk dómsmálayfirvöld og lögregla svo að segja á stéttinni fyrir utan að krefjast framsals hans, stæðu svo að segja með krumlurnar tilbúnar við inngönguhlið þessara fangelsisbygginga? En það var hann Sóli sem talaði á hinum enda línunnar, í bjartsýnum og uppörvandi tón sem var kunnuglegur, þannig talaði Sóli jafnan, og honum var reyndar síst ætlandi að vera með einhvern svartan húmor í garð manns sem var staddur í nauðum, en skákmeistarinn gerði lítið nema humma einhver samþykki, láta vita að hann heyrði það sem sagt væri, og hann spurði ekki neins nema hvort enn væri amerísk herstöð á Íslandi. Eftir að samtalinu lauk og hann var búinn að hengja tólið á tíkallasímann á ganginum og lagstur á fletið í klefa sínum og hugurinn aðeins farinn að róast sá hann eftir því að hafa ekki spurt meira um það hvað væri í gangi í smáatriðum, það var auðvitað ekki hægt að útiloka að það væri einhver glóra í þessu, eitthvert sannleikskorn, en hann hafði bara spurt um herstöðina. 

(s. 29-30)

Fleira eftir sama höfund

Wyspa diabla

Lesa meira

Une affligeante histoire

Lesa meira

Fjendemøde

Lesa meira

Revontulet

Lesa meira

Pirunsaari

Lesa meira

Tyhmyreiden neuvot

Lesa meira

Kultasaari

Lesa meira

Luvattu maa

Lesa meira