Um bókina
Miðaldra bókhaldari vaknar skyndilega upp sem gjafvaxta ungmey í Englandi á 14. öld. Þar bíða hennar ýmis vandræði: vafasamar hreinlætisvenjur, brúðgumar til að bíta af sér og manndrápsplága sem breiðist út með ógnarhraða. En lífsreynd 20. aldar kona hefur ýmis ráð undir rifjum.
Úr bókinni
Það stendur brúðkaup fyrir dyrum á Kinthorpe Manor. En ekki mitt.
Mér finnst ég hafa sent litlu tæfuna í opinn dauðann.
Ekki svo henni. Hún hefur sigrað í baráttunni um brúðgumann sem ég frétti hjá Beu að Anna hefur ágirnst frá upphafi. Ekkert persónulegt í hans garð, Anna hefur bara alltaf ágirnst allt sem var Elísabetar. Einskonar þrágræðgi.
Án samráðs við eigandann og hönnuðinn er ákveðið að Anna fái brúðarkjól Elísabetar. Ég lít á það sem tryggingu gegn því að ég verði gift næsta gæfuleysingja sem gengur inn um dyrnar og mótmæli ekki. En þegar hún ætlar að sölsa undir sig allt innihald kistunnar hegg ég niður hælum. Ég vil ekki að Elísabet komi aftur og uppgötvi að ég hef ekki lyft hendi til að verja hana.
Á hverjum morgni á ég von á að vakna í rúminu mínu heima. Þetta-er-ekki-að-gerast-tilfinningin fer þó víkjandi og innan um blandaðan beyg leynist skelfingin við að ef ég gleymi mér snúi ég aldrei aftur. Ég er ekki búin að ná mér - Elísabet er ekki búin að ná sér - og það þrek sem við höfum fer í að varast að gera meiriháttar mistök.
Sem ég geri samt. Sum vísvituð, önnur af varaleysi. Enn og aftur hef ég tækifæri til að undrast að axarsköft sem maður gerir vitandi vits af því að löngunin er sterkari en skynsemin, þau heldur maður alltaf að maður komist upp með. Hin, sem maður gerir af vangá, vekja manni skelfingu. Bæði eru og verða vitleysur af svipaðri stærðargráðu svo hvernig í ósköpunum ættu sumar að vera skaðlausar og aðrar skaðvænlegar.
Þegar ég afþakkaði bónorðið henti ég mér fram af hengiflugi. Enn sem komið er hefur það ekki haft aðrar afleiðingar en þær að Anna heldur að hún hafi verið tekin fram yfir mig. Hvorugur karlmannanna hefur borið orð mín um feigð og framtíðarleysi yfir þröskuldinn. Samt iðjar Anna við illvirkin allt hvað af tekur. Brúðguminn og tengdafaðir hans sitja til skiptis á kontórnum eða spígspora um landareignina. Ég geri ráð fyrir að utanhúss ræði þeir árferði og afkomu og innanhúss brúðarféð. Á meðan þeir halda sig úti spýtir Anna eitri. Um leið og þeir koma í heyrnmál verður hún að mjúkmálum engli. Ég er farin að efast um að þetta sé venjuleg systkinaafbrýðisemi og held að stúlkan sé geðklofi. Og sé hún það ekki þegar þá verður hún það. Ég hef lesið um menn sem léku geðklofa og tókst það svo vel að þeir klofnuðu.
(s. 102-103)