Beint í efni

Innanríkið - Alexíus

Innanríkið - Alexíus
Höfundur
Bragi Ólafsson
Útgefandi
Smekkleysa
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Skáldsögur,
 Sjálfsævisögur

Um bókina

Í þessari bók sýnir Bragi Ólafsson á sér nýja hlið sem höfundur, og beinir athyglinni að því sem ekki telst endilega vera skáldskapur. Faðir höfundar vaknar eina nótt við að ókunnugur maður stendur í svefnherbergisdyrunum á heimili hans við Skólavörðustíg. Aldarfjórðungi síðar rifjar sonurinn upp þessa reynslu föðurins, og styðst við heimildir sem óvænt tengdust atvikinu. Samhliða því fer hann á stefnulaust flakk um fortíð og nútíð, frá miðbæ Reykjavíkur upp á Mýrar og út í heim, með viðkomu í hugarheimi annarra höfunda. 

Úr bókinni

Þótt ég færi mig núna aftur yfir á Skólavörðustíg verður svolítil bið á því að hávaxni maðurinn í dyragættinni stígi aftur inn í frásögnina. Mér finnst líka rétt að láta vita - til að kalla ekki á of miklar væntingar - að maðurinn mun ekki "stíga inn" í svefnherbergið, ekki í þeim skilningi að fætur hans taki skrefið.
   Ég man vel eftir því þegar ég hjálpaði foreldrum mínum að bera hið danska klukkuferlíki upp tröppurnar á Skólavörðustígnum, þegar þau fluttu þangað. Íbúðin var á þriðju hæð til vinstri, þeirri efstu í húsinu. Ég man þetta með þriðju hæðina sérstaklega því um tíma tók ég að mér að þrífa stigaganginn í húsinu, sem var fín íhlaupavinna - einu sinni í viku, sirka klukkutími í senn - þegar ég hafði ekki aðra vinnu, að minnsta kosti ekki launaða. Og fyrir utan launin nýttist vinnan mér vel - mér sem get aldrei munað á hvaða hæð fólk býr í fjölbýlishúsum - til þess að muna í eitt skipti fyrir öll á hvaða hæð foreldrar mínir bjuggu.
   Þau voru frumbyggjar í húsinu. Æskufélagi föður míns, Gunnar Rósinkranz, stóð fyrir byggingu þessa húss. Hann bjó sjálfur ásamt fjölskyldu fyrir innan dyrnar á móti, en íbúð hans var mun stærri, með rislofti og stórum þaksvölum fyrir ofan - eða ofan á - íbúð mömmu og pabba.
   Það sem kannski er áhugaverðast fyrir þetta "nýbýli", sem stendur á horni Bergstaðastrætis, er að á reitnum stóð árðu hið sögufræga Bergshús. Sú staðreynd tengist einmitt því sem faðir minn upplifði þessa nótt sem ég hef nú nefnt oftar en einu sinni.

(s. 61-62)

Fleira eftir sama höfund

[Þrjú ljóð]

Lesa meira

Dragsúgur

Lesa meira

Við hinir einkennisklæddu

Lesa meira

Hvíldardagar

Lesa meira

Ansjósur

Lesa meira

Nöfnin á útidyrahurðinni

Lesa meira

Ljóð og smásaga í Wortlaut Island

Lesa meira

Ljóð í Brushstrokes of Blue: The Young Poets of Iceland

Lesa meira

Isländisches Theater der Gegenwart

Lesa meira