Úr Línum í lófa:
ALLT Í HEIMI
Börnin mín
þið sem eruð fullvaxin og horfin frá mér
Ég læt hugann reika
til þess tíma er við áttum saman
Ég man hve þorsti ykkar var sár
að vita meira öðlast lífsreynslu
sem gæti fleytt ykkur fram til þroska
opnað nýjar víddir
Þannig er öllum börnum farið hygg ég
Oft keypti ég af ykkur þægð og sagði:
Ef þú gerir þetta eða hitt
ef þú verður svona og svona
þá skal ég segja þér allt í heimi
Þessu fyrirheiti félluð þið ávallt fyrir
líklega af því hve heillandi fráleitt það var
Þegar til efndanna kom
sagði ég jafnan: Spyrjið mig þá
En hvernig á að spyrja
Nú vil ég segja eitthvað af því
sem ég lofaði þá en gerði ekki
því annað virtist brýnna
Ég legg nú af stað eftir óljósri slóð
minnug þess að þúsund mílna ferð
hefst í einu skrefi
(s. 5)