Æviágrip
Linda Vilhjálmsdóttir fæddist 1. júní 1958 í Reykjavík. Hún er sjúkraliði að mennt og starfar við það meðfram ritstörfum. Ljóð Lindu hafa birst í dagblöðum, tímaritum og safnritum frá 1982 en fyrsta ljóðabók hennar, Bláþráður, kom út 1990. Síðan hefur hún sent frá sér fleiri ljóðabækur og leikrit og ljóðverk eftir hana hafa verið sett upp í Borgarleikhúsinu og Kaffileikhúsinu. Linda var eitt af sjö ungum skáldum sem tóku þátt í ljóðagjörningnum Fellibylurinn Gloría, en hann var gefinn út á hljóðsnældu árið 1985. Þá voru ljóð hennar sýnd á Kjarvalsstöðum í apríl 1993. Fyrsta skáldsaga Lindu, Lygasaga, kom út 2003.
Linda hlaut Menningarverðlaun DV árið 1993 fyrir ljóðabókina Klakabörnin. Ljóð hennar hafa birst í erlendum þýðingum í safnritum.
Linda Vilhjálmsdóttir er búsett í Reykjavík.
Forlag: Mál og menning.
Mynd af höfundi: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Frá höfundi
Frá Lindu Vilhjálmsdóttur
Það eina sem ég man eftir að hafa ætlað mér að gera þegar ég yrði stór var að skrifa bækur. Ég ætlaði ekki að verða neitt sérstakt, ég ætlaði bara að skrifa bækur, löngu áður en ég vissi hvað slíkur verkamaður var kallaður. Ég hafði að vísu áhyggjur, ekki í byrjun, en þegar aðeins var farið að líða á skólagöngu mína, þá hafði ég sívaxandi áhyggjur af því að mér tækist ekki þetta ætlunarverk mitt. Ég var ekki alveg nógu góð í stafsetningu, málfræðin vafðist fyrir mér og ég botnaði ekkert í kommusetningu. Á unglingsárunum bættist það við að ég var léleg í vélritun svo að ég sá fram á ótrúlega erfiða daga við hreinritun handrita. Ég hafði sem sagt lengi vel töluverðar áhyggjur af frágangi og verklegum framkvæmdum og það dró úr mér kjark. Söguefnið sjálft olli mér hins vegar engum heilabrotum enda varð mér flest að sögu og hausinn á mér hefur alltaf verið morandi í sönnum, ýktum og skálduðum sögum. Sumt af þessum heilaspuna komst á blað því ég fór að setja saman vísur og litlar sögur í minningarbækur um leið og ég lærði að skrifa og seinna fékk ég saumaklúbbinn minn með mér í blaðaútgáfu svo ég gæti birt afurðir mínar víðar og oftar. Meiri parturinn af sögunum mínum var samt aldrei bókfærður heldur urðu þær uppistaðan í þeirri draumaveröld sem ég bjó mér til og lifði í meiri hluta æskuáranna.
Frá því ég var smákrakki samdi ég mína eigin útgáfu af hverri einustu sögu sem ég heyrði eða las. Ég staðfærði þær og setti sjálfa mig, fjölskyldu mína og vini í hlutverkin og í þeirri veröld lifði ég og hrærðist meðan sagan var ókláruð. Ég var ýmist munaðarlaus blind stúlka sem lapti dauðann úr skel, spæjarastelpa að leita að ólöglegum smyglvarningi útí Gróttu án þess að hafa hugmynd um hvað orðið smygl þýddi, ægifögur og ægidöpur austurlensk prinsessa eða tveggja barna einstæð móðir og sorgmædd ekkja látins Bandaríkjaforseta. Ég las allan skrattann þegar ég var krakki og var eins og grár köttur á flestum bókasöfnum bæjarins og líklega hefði það verið uppbyggilegra ef einhver kunnáttumaður hefði leitt mig gegnum rangala bókmenntanna. En ég sóttist ekki eftir slíkri leiðsögn og hefði sjálfsagt ekki tekið eftir því sem mér var bent á að kynna mér þótt því væri veifað framan í mig. Ég þurfti að uppgötva þetta allt saman sjálf enda hef ég alltaf valið torfærustu leið að öllum mínum takmörkum. Lestrarvenjur mínar urðu þess vegna stundum ansi öfgakenndar eins og á unglingsárunum þegar ég vatt mér á snöggu augabragði úr Alistair McLean, Sven Hazel og Victoríu Holt yfir í T.S. Eliot, Ezra Pound og James Joyce.
Uppúr tvítugu fór ég fyrst að birta ljóðin mín í tímaritum og lesbókum og fékk það góðar viðtökur að ég varð eiginlega skelfingu lostin. Mér fannst ég engan veginn geta staðið undir þeim væntingum sem ég ímyndaði mér að til mín væru gerðar, þótt að í raun og veru væru það einungis mínar eigin kröfur sem ég var að kikna undan. Þá hætti ég að hafa gaman af því að skrifa og þannig var það í mörg ár að skriftirnar voru í huga mér kvöl og pína sem ég vildi helst losna við en tókst aldrei að sleppa algerlega hendinni af. Það leið þess vegna heill áratugur þangað til ég þorði að gera það sem ég vissi samt allan tímann að væri óhjákvæmilegt, að gefa ljóðin mín út á bók. Ég hef líkast til virkað óeðlilega sjálfsörugg á Sigmund Erni þegar hann tók mig í örlítið viðtal fyrir sjónvarpið jólin sem að bókin kom út en þá spurði hann mig meðal annars að því hvers vegna ég væri að yrkja, eða skrifa, eða hvernig hann orðaði það. Ég svaraði nefnilega að bragði, óvenju einlæg, og sagðist gera það af því ég kynni það. Mér þykir sennilegast að honum hafi þótt svarið einum of montlegt og þess vegna hafi hann af hjartagæsku sinni ákveðið að klippa það út. Ég er hins vegar sannfærðari um það núna en nokkru sinni fyrr að ef að ég vanda mig þá er ég færari í því að skrifa en flestu öðru sem ég tek mér fyrir hendur. Og eftir að mér tókst að losa mig við fullkomnunaráráttuna veitir fátt mér meiri ánægju en það að setja saman sögur, leikrit og ljóð, og gjöfulli starfsvettvang er varla hægt að kjósa sér. Auðvitað er skemmtilegast að skrifa þegar allt gengur vel en samt finnst mér það mikilvægast að vera loksins sátt við sjálfa mig og hlutskipti mitt í lífinu.
Skrifað í ágústlok árið 2002
Linda Vilhjálmsdóttir
Um höfund
„Ef ég hefði ort til þín ljóð“: öll fallegu orðin hennar Lindu Vilhjálmsdóttur
Besti vinur ljóðsins er hópur ljóðunnenda sem stendur fyrir reglulegum ljóðaupplestrum. Hópurinn kom fram á sjónarsviðið um miðjan níunda áratuginn, en þá var mikið blómaskeið í ljóðaáhuga og ljóðaupplestrar vinsælar samkomur meðal fólks á öllum aldri, þó yfirleitt hafi ungt fólk verið í meirihluta. Enda var það ungt fólk sem stóð að mestu leyti fyrir hópnum, þar á meðal Hrafn Jökulsson og Kristján Þórður Hrafnsson. Þetta var vettvangur fjölmargra þeirra skálda sem hafa síðar orðið þekkt: Margrét Lóa Jónsdóttir, Bragi Ólafsson, Kristín Ómarsdóttir, Sindri Freysson, Þórunn Valdimarsdóttir, Óskar Árni Óskarsson, Kristján Kristjánsson og Gerður Kristný stigu þarna á svið í bland við þekktari nöfn yngri og eldri skálda á borð við Þorstein frá Hamri, Gyrði Elíasson, Steinunni Sigurðardóttur og Ingibjörgu Haraldsdóttur, en áherslan var á að gefa óþekktum skáldum möguleika á að koma skáldskap sínum á framfæri. Linda Vilhjálmsdóttir var ein af þeim, og hlaut strax verðskuldaða athygli. Það var þó ekki fyrr en árið 1990 sem fyrsta bók hennar kom út, og bar nafnið Bláþráður.
Þrátt fyrir að að Besti vinur ljóðsins hafi verið opinn fyrir tilraunum í ljóðagerð er óhætt að segja að þau skáld sem hvað helst tengdust hópnum hafi ort innan ákveðins stíls sem er ekki beint hægt að kalla hefðbundinn, en mætti kannski kenna við ákveðið látleysi. Þetta látleysi virkar kannski fyrst og fremst næstum hefðbundið í samanburði við súrrealísk og óreiðukennd ljóð Medúsu-hópsins, sem var virkastur á fyrri hluta níunda áratugarins. Að mörgu leyti mætti segja að Besti vinur ljóðsins hafi birst sem einskonar svar við ólátum Medúsu-manna sem kenndu sig við súrrealisma og stóðu fyrir fjölda gjörninga, kvikmyndasýninga og upplestra – þar sem menn lásu ljóð í kapp og hver ofaní annan, keyrt var inn í upplestrarsali á bíl og drukkið blóð, skáldin komu fram hálfnakin með lærisneiðar á höfði, og tefldu sömu megin við taflborðið, spreyjuðu ilmvatni allt í kring og trommuðu á bækur, svo eitthvað sé nefnt. Upplestrarnir líktust ljóðaorgíum og voru oft skyldir leikhúsi, eins og ljóst má vera af þessari upptalningu. Hinsvegar voru ljóðakvöld Besta vinar ljóðsins með allt öðru sniði. Þar fór fyrst og fremst fram hefðbundinn ljóðaupplestur – og/eða upplestur úr annarskonar skáldverkum – í mesta lagi í bland við tónlist, en að öðru leyti án allra gjörninga. Þessi einfalda framsetning ljóðalesturins endurspeglar svo þá nálgun á ljóðið sem einkenndi meginþorra þeirra skálda sem þarna komu fram. Tjáningin í þeim stíl sem ég kenni hér við Besta vin ljóðsins er oft kyrrlát og einlæg, myndmálið einfalt og yfirbragðið alvarlegt, jafnvel hátíðlegt þó vissulega sé húmor ekki útskúfað. Þannig er óhætt að segja að þessi ljóð hafi verið auðmeltanlegri en súrrealísk og furðuleg ljóð Medúsu-skáldanna.
Fyrstu tvær bækur Lindu sverja sig í ætt við þennan stíl og eru reyndar mjög gott dæmi um möguleika hans og styrk. Bláþráður er sérlega áhugaverð að því leyti að þar er greinilegt ákveðið ferli í þróun stílsins, og ljóst að ljóðin eru skrifuð á löngum tíma. Fyrstu ljóðin eru mjög einföld og knöpp og dálítið dramatísk eins og „Stillimynd“:
Þá nemur þú staðar
á glerbrotaströnd
í svarthvítri martröð
á mörkum draumsins og draums.
Þessi fyrstu ljóð einkennast af ákveðinni sjálfsskoðun og á stundum speglar skáldkonan sig í náttúrunni eins og í „Ljósmynd“:
Fljótandi á kafi
í sægrænu grasinu
og kitlandi sumrinu
opna ég dökkbrún augun
mót bláma himinsins.
Eftir því sem líður á ljóðabókina verður náttúrumyndmálið meira áberandi. Í „Ísbjörn“ segir ljóðmælandi að verði viðmælandi hans „blár / eins og sjórinn“ þá verði ljóðmælandi „hvít / eins og ísbjörn / úr plasti með hanska / og maska // eins viðbúin / krossfestingu / og hægt er að vera.“ Þetta trúarlega stef birtist svo aftur í „Austfjarðaþokunni“, og blandast þar náttúrusýninni eins og algengt er í íslenskum náttúruljóðum, þarsem guð og náttúra renna í eitt. En ljóðið hefst á þjóðsögu því „séð úr klifrinu / er þjóðsagan óslitin / linnulaus bláþráður“. Skyndilega birtist veturinn „upprisinn“ „í upphæðum“:
hvílíkt
og eitthvað guðlegt
hafi niðurrétt sæng
og breytt yfir fjörðinn
þá gróðursett smáfjöll
og búið til glænýja tegund af skýjum og himni.
Í Klakabörnunum (1992) birtist aftur þessi mynd af guðlegri náttúru, sterkust er hún líklega í „Mónu Lísu: fyrstu mósaíkmynd handa Kristjáni Steingrími“:
þennan morgunn reis regnbogi úr sjónum við vesturenda engeyjar
og stakk sér niður við austurendann á vesturey viðeyjarhafi rignt rigndi í nafni guðs
ösku og sandi og kalki
hvað hafði gerst nóttina á undan?
Þessi persónulega hamfaramynd kallast skemmtilega á við ljóðið „Miðnætursól“ í Bláþræði, en þar opnar ljóðmælandi sér æð
og liturinn rauður er legíó
ívafið messínggult
koparhár fléttað í nornaþráð
slær kórréttan blæ
í hverablátt
hafið og himininn
og blóðrauðu spanskgrænar fígúrur
sem stíga svarfdælskan mars.
Þá skal tína til svart
krúnk í krummann
útmálaðan
kroppandi í gullið í fjallinu.
Í báðum tilfellum blasir við einstök náttúrusýn, litrík og óvænt og umfram allt ókyrr, landslagið er á iði og inn í þessa hringiðu blandast blóð skáldsins sem getur líka verið vellandi hraunkvika eins og í ljóðinu „Himnabréf“ sem er fyrsta ljóð Klakabarna. Þar hefur ljóðmælanda verið steypt af himnum ofan líkt og óþekkum engli og nú hangir hann í lausu lofti og telur kindur: „Ég! / Með vellandi hraunkviku / í æðunum // og einn snöggan blett / bláan á brjóstinu / hálfmánalaga.“ Hér virðist ljóðmælandi spanna himin og jörð og taka að sér hlutverk tunglsins. Enn er trúarlegt táknmál ríkjandi, því óþekki engillinn er auðvitað Lúsífer sem mögulega hefur einnig hraunkviku í æðum.
En hver er þessi ljóðmælandi? Á stundum er hann allavega skáld, því víða eru vangaveltur um skáldskapinn og skáldið. Þetta er sérstaklega áberandi í Klakabörnunum sem er bæði þéttari og persónulegri bók en Bláþráður. Ljóðmælandi er ágengari og lesandinn finnur meira fyrir návist skáldkonunnar, sérstaklega í ljóðunum sem fjalla um skáldskapinn. Strax í þriðja ljóði bókarinnar, „Nótt – Tvö“, stígur ljóðmælandi fram sem skáld og segir: „fyrir þig / kraftaskáld / kraftaskáld“. Í „Veður – Tvö“ hrópar ljóðmælandi „Ég elska þig!“ út í vindinn og reynir „að hljóma eins og stórskáld“. Í þessum ljóðum birtist ákveðin þörf skáldkonunnar til að skapa sér stöðu innan karllegrar hefðar, en kraftaskáld voru flest karlar og sömuleiðis eru íslensk stórskáld almennt karlkyns. Þetta gengur þó misvel og á stundum neyðist skáldkonan til að lúta höfði og „tuldra í barminn / eitthvað skáldlegt“ eins og í ljóðinu „Skáldskapur: handa hrafni“. Tuldrið virðist vera réttlæting, því skáldkonan hefur fundið þann sem hún ávarpar „efst inní kompunni / þar sem næturnar eru geymdar“ og þar syrgir hann sjálfan sig og hún tuldrar „eins og það sé líka óhamingja / í minni fjölskyldu“. Í lokaljóðinu tekur skáldkonan sér svo afgerandi stöðu og segir í „Farvel í lokin: kveðja til Halldórs Guðmundssonar“: „Ég er kvenkynsskáld og næstum því orðin að norn / og nenni ekki að leita að vegi sem virðist beinn / fer mína leið eins og kötturinn – farvel í lokin.“ Öll bera ljóðin merki íróníu, skáldkonan glottir að sjálfri sér og tilraunum sínum til að vera skáldleg, jafnframt því að hún áréttar rétt sinn til þess að vera „kvenkynsskáld“.
Sami húmor einkennir ljóð Lindu um skáldskap. Í Bláþræði klýfur „Uppvakningur handa Kristjáni Steingrími“ bókaskáp í tvennt, niður sturlungu: „Og ég rek augun í orðin: / „Og nú vinna smádjöflar á mér“. Og í „Eldskírn: í kvistherbergi á austurbrú“ í Klakabörnum eru grískir harmleikir ausnir vatni eftir að eldur hafði kviknað út frá kertaljósi nóttina sem „sagan um eldinn í kaupinhafn“ var lesin fyrir ljóðmælanda, eða var það kannski ljós heimsins? Líkt og náttúran er hluti af ljóðmælanda eru bókmenntirnar fremur eins og persónulegir og áþreifanlegir atburðir en skáldlegar minningar. Þessi hversdaglegi bókmenntaandi kallast svo skemmtilega á við það hvernig Linda býr til skáldskap úr hversdeginum. Linda starfar sem sjúkraliði og í Klakabörnum eru ljóð sem vísa til þess. Í „Móna Lísa: önnur mósaíkmynd handa Kristjáni Steingrími“ er lýst nótt þar sem tvær konur hafa dáið og „sú þriðja var á mörkunum í morgunsárið“. Ljóðmælandi man aðeins þrennt, „afmynduð andlit / í þjáningu“, „brosið sem birtist / þegar andað er síðasta sinni // og að endingu / viðurkenndi ég merkingu orðsins / friður“. Í ljóðinu „Klakabörnin“ er mun kómískari mynd, en þar er gömul kona þess fullviss að hún hafi verið skorin upp og í hana sett klakabörn sem hún yrði að fæða. Og hjúkrunarkonurnar sem í huga konunnar eru orðnar að ljósum taka á móti og vita ekki hvað þær eiga að gera við börnin.
Í Klakabörnum er líka nokkuð af bernskuminningarljóðum, sem eru flest stuttir prósar. Í „Búið með sauðfé“ lýsir ljóðmælandi því hvernig hún samsamar sig kindum og í „Skúrasögu: handa Veru, Söru og Þórhildi“ er sagt frá því hvernig gamlir karlar sýsluðu í skúrum í gamla daga. Í „Skiparadíóinu“ er svo sjómannadóttir að lýsa bænum sínum til guðs, þarsem hún biður hann að vaka yfir okkur sem sofa, sum á landi og sum á sjó. Í inngangi að þriðju bók sinni Valsar úr síðustu siglingu (1996) lýsir Linda einmitt þessu, að sem barn hafi hún fundið sig knúna til að biðja fyrir öllum þeim fjölmörgu sjómönnum, skipum og áhöfnum sem hún hitti með sjómanninum föður sínum. Bókin er sprottin upp úr þessu uppeldi nátengdu sjónum og sjómannalögum, og lýsir sjóferðalagi sem hún fer í á fullorðinsárum. Bókin er því í raun einskonar bálkur, sem er gefið til kynna í brotinu sem er lítið og fínlegt. Tíminn er felldur saman og aðrar sjóferðir og minningar tengdar sjó blandast saman í heilsteypta og fallega sögu sem er eins og svo oft áður í ljóðum Lindu, ákaflega írónísk:
sé ég spurð
um ferðina tala ég fjálglega
um osta vín og guðdómlegt konjakkfer varla að játa
að ég eins og sæmundur forðum
og fást hafi gert afleitan kontrakt
Skáldkonan er með í siglingunni og þó hún sé „ekki í sjakket / með staf“ þá spókar hún sig „spjátrungsleg / í rokinu á dekkinu“ og lætur sem pólski viðgerðarmaðurinn sé sólstóll og múkkinn sem sveimar yfir henni með æluna í hálsinum sé sólhlíf. Við vitum ekki glöggt hver er með æluna í hálsinum, múkkinn eða skáldkonan, en í ljóðinu „dauðahafið“ er okkur sagt að hún verði ekki sjóveik frekar en faðir hennar, afar, forfeður og víkingar: „hef stigið ölduna / síðan ég fæddist á sjó / mannadaginn og blóðið / í æðum mér er saltara en brim“. Trúarmyndmálið er líka með í farteskinu, skipinu er líkt við stórfisk sem hefur gleypt ljóðmælanda og kviðurinn er þéttur og lifandi. Í dálitlum sjó rennir guð fingrunum guðlega í hárinu meðan ljóðmælandi sofnar. Og í óvæntri vangaveltu um guðlega sköpun segir í ljóðinu „hvítanestýran“ að „ef ég næði í bein / og bita úr síðu / hvers manns // og gerði úr því konur / yrði ég kölluð / galdranorn“. Þetta ljóð kemur í kjölfar þriggja ljóða um mataræðið á skipinu. En kannski er hún bara orðin leið á þessum karlaheimi? Því næsta ljóð á undan heitir „saltskip“ og þar lýsir ljóðmælandi því hvað það sér karlmannlegt að skrúbba burt ryð, „ryðverja / og mála yfir ryð // skipið þynnist / og þynnist“. Ljóðin eru skemmtileg og lífleg og lesandinn upplifir vagg og veltu og einnig það karlasamfélag sem um borð er.
Bókin Valsar úr síðustu siglingu er um margt ólík fyrri bókum Lindu, hún er áreynslulausari og afslappaðari, en að mörgu leyti ekki eins sterk og Klakabörnin. Að vissu leyti virkar hún formlega séð sem einskonar æfing fyrir næstu bók, Öll fallegu orðin (2000) sem er vafalaust besta bók Lindu. Tungutak Lindu er hér, eins og í fyrri bókum hennar, áreynslulaust og beinskeytt, hún notar myndmál sparlega, textinn er fremur lýsandi en myndrænn, að því leyti sem teiknaðar eru upp senur, sviðsetningar, fremur en brugðið upp snöggum myndum. Þannig séð eru ljóðin í Öll fallegu orðin auðskilin og auðsæ, hrein og bein, og að mörgu leyti frásöguleg. Bókin er hugsuð sem heild, saga af ást og missi, og er þannig, líkt og Valsarnir, eiginlega frekar eins og ljóðabálkur en safn stakra ljóða, þrátt fyrir að öll ljóðin geti staðið ein og sér. Þó er hér um gerólíkar bækur að ræða, því meðan Valsarnir eru glaðir og dálítið valtir á fótunum þá er Öll fallegu orðin full af sársauka og trega, ljóðin ganga nærri lesandanum og gefa ekkert eftir í átökum sínum við tilfinningar og minningar. Bókin er á vissan hátt eitt langt ástarljóð, en þrátt fyrir að ástarljóð sé að finna í bæði Bláþræði og Klakabörnunum, þá undirbúa þau lesanda ekki fyrir áhrifin af Öll fallegu orðin.
Bókin lýsir ástarsambandi sem er lokið, og virðist sprottin af láti elskhugans sem hefur hugsanlega framið sjálfsmorð. Frásögnin er því öll í bakliti, þarsem ljóðmælandi rifjar upp samskipti þeirra, ást, ósætti, viðskilnað og eftirsjá. Ein minningin er um ósk elskhugans til að fara eitthvað og gera eitthvað, til Þingvalla eða útlanda eða út að borða: „en við fórum aldrei út / saman hvorki til parísar / þingvalla eða út að borða / við vorum inni // og nú eru minningar mínar / takmarkaðar við tvo stóla / skrifborðshorn farsímann / baðið og rúmið // og ég sakna þín samt“. Draumurinn um víðsýni ástarinnar breytist þannig í þröngt rými tregans. Og ljóðmælandi vill halda þessum sársauka við og virðist nærast á honum því í einu ljóðinu segir: „hef staðið mig að því / að ýfa viljandi upp sárin / síðustu dagana“. Hún gengur um hús hins látna og andar að sér lyktinni og rifjar upp síðustu samskipti þeirra og fréttir af ljóði sem hann hafði skrifað til hennar, „og nú get ég haldið áfram / að kroppa í hrúðrið enn um sinn // nú finn ég til“.
Inn á milli minninganna eru svo ljóð sem lýsa að því er virðist jarðsetningu elskhugans, og gæti lesandi jafnvel ímyndað sér að ljóðin séu hugrenningar konunnar þarsem hún situr í kirkjunni:
kalt og þú varst ekki
varst ekki þú í kistunni
varst ekki líflaus líkami
varst ekki í anda í kirkjunni
þú hélst ekki ískaldri hendi
þinni um mína við gröfina
þína þú varst ekki þar
Ljóðin eru titilslaus og aðskilin með strikum sem undirstrikar heildarsvipinn, sem er sérlega sterkur og agað tungutak skáldkonunnar heldur öllu til haga, myndir og þemu eru endurtekin, eins og þemað um tímann, sem tekur á sig hið ákaflega venjulega form armbandsúrs. Aðalþema bókarinnar, fyrir utan sjálfa ástina, er þó ljóðið sjálft, og orðin, og Linda spinnur utan um þetta viðkvæma efni ástar og missis þéttan vef orða, orða sem tala um orð, ljóða sem fjalla um ljóð, og skapar þannig sláandi samspil einlægrar tjáningar og fimlegrar orðlistar. Þessi ljóð kallast á við vangavelturnar í fyrri bókunum um stöðu skáldkonunnar, en eru nú með allnokkuð öðru sniði. Elskendurnir tala um ljóð og elskhuginn rifjar upp ljóð hennar sem hún vill ekki kannast við. Síðarmeir er hún sannfærð um að hann sé að skrifa í gegnum sig:
finnst eins og þú
sért að senda mér straum
svo ég uppljómistfinnst eins og þú fiktir
í tölvunni þegar ég þarf
að hnika til orðiog ég heimta
engar skýringar lengur
trúi því baraog trúi því líka
að þetta hafi allt verið planað
það að við hittumstvið kynntumst
og elskuðumst
að þú skyldir deyjasamt efast ég ekki
eitt andartak um það
að þú værir tilef ég hefði ort til þín ljóð
Hér er leikið með hugmyndina að elskhuginn sé bara til í orðum ljóða. En hér er líka fjallað um skort á orðum, ljóðið sem hefði getað gefið elskhuganum líf var aldrei samið. Sama þögn birtist í ljóðinu sem hefst á titli bókarinnar: „sagðir þú einn öll fallegu orðin / sem hljóma í höfðinu á mér? / orð sem ég hefði áður fyrr / ritskoðað og stimplað sem væmin“, þessi orð virka svo einföld og hversdagsleg en segja samt mikið: „til dæmis þegar þú sagðir: / það er alltaf sól þegar þú kemur // og ég man að ég brosti mínu / bjartasta brosi // bara brosti / sagði ég aldrei neitt?“
Sú einlægni og það tilgerðarleysi sem einkennir bókina er kannski sérstaklega eftirtektarverð þegar til þess að tekið að Öll fallegu orðin eru ástarljóð, en ástarljóðum er kannski helst hætt við klisjuðu og upphöfnu tungutaki, eins og reyndar ljóðmælandi bendir sjálfur á í fyrrnefndu ljóði. Ástarljóðum hefur líka verið jaskað allhraustlega út í popptextum, og því er oft eins og tungumál ástarinnar sé komið í þrot, og bjóði einungis upp á tilgerð eða flatneskju. Á tíunda áratugnum var nokkur umræða um tilgerð ljóða, í framhaldi af kröfunni um einlægni. Það sem var svo merkilegt við þá umræðu var að óvænt var hún orðin að andstæðu við persónulega tjáningu ljóðsins, sem ég hefði haldið að geymdi einmitt mesta möguleikann á einlægni? Mér finnst undarleg og eiginlega dálítið varhugaverð þessi fælni gagnvart ljóðum; getur verið að einlægnin sem kallað er eftir sé lítið annað en tilbúningur, eða jafnvel felubúningur gagnvart þeirri tilfinningalegu nánd sem ljóðið kallar iðulega á?
En Linda sýnir að ljóðið er fullfært um einlægni og bók hennar er gott dæmi um að ljóðið er langt því frá í vondum málum, það geymir enn og mun halda áfram að segja öll fallegu orðin.
© úlfhildur dagsdóttir, 2003
Greinar
Almenn umfjöllun
Joseph C. Allard: „Linda Vilhjálmsdóttir (1958- )“
Icelandic Writers. Dictionary of Literary Biography, vol. 293, ritstj. Patrick J. Stevens, Detroit, Gale 2004, s. 241-245
Elísabet Jökulsdóttir: „Um hvað á maður að yrkja? : Elísabet Jökulsdóttir talar við Lindu Vilhjálmsdóttur“
Hending, 1. árg., 1. tbl. 1991, s. 15-19
Jóhanna Á. Helga Jóhannsdóttir: „Með pabba í bryggjunum“
Víkingur, 59. árg., 2. tbl. 1997, s. 6-7
Um einstök verk
Bláþráður
Silja Aðalsteinsdóttir: „Lindu-blús“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 52. árg., 4. tbl. 1991, s. 107-109
Frelsi
Soffía Auður Birgisdóttir: „Margfeldi merkingar“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 77. árg. 3. hefti 2016, s. 130-134
Frostfiðrildin
Davíð Stefánsson: „Jöklar og gufa og gréglettinn heili“
Tímarit Máls og menningar, 68. árg., 3. tbl. 2007, s. 96-99
Úlfhildur Dagsdóttir: „Frost á Fróni“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Klakabörnin
Eysteinn Þorvaldsson: „Hugarganga : kynnisferð um ljóðabækur fjögurra skálda“
Skírnir, 167 árg., vor 1993, s. 259-274
Lygasaga
Dagný Kristjánsdóttir: „Mea culpa, mea maxima culpa : þrjár ævisögur“
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 2. tbl. 2004, s. 88-100
Smáa letrið
Úlfhildur Dagsdóttir: „Óþekk(t)ar stærðir“
Bókmenntavefurinn, sjá umfjöllun hér
Valsar úr síðustu siglingu
Ragnheiður Jónsdóttir: „Valsar úr síðustu siglingu“
Vera, 15. árg., 6. tbl. 1996, s. 38
Öll fallegu orðin
Soffía Bjarnadóttir: „Því að elskan er sterk, eins og dauðinn“: um fórnargjöf og sígilda endurkomu í tveimur íslenskum ljóðsögum“
Tímarit Máls og menningar 2012, 73. árg., 3. tbl. bls. 58-74.
Verðlaun
2015 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Frelsi
2015 – Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, besta ljóðabók ársins: Frelsi
2010 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
2005 – Ljóðastafur Jóns úr Vör fyrir ljóðið „Sónata fyrir forynju og fylgirödd“
1993 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Klakabörnin
Tilnefningar
2021 - Maístjarnan: Kyrralífsmyndir
2019 - Maístjarnan: Smáa letrið
2017 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Frelsi
Safnið
Lesa meiraLjóðasafn Lindu Vilhjálmsdóttur geymir allar ljóðabækur hennar frá árabilinu 1990‒2022, níu talsins, auk nokkurra ljóða sem birst hafa á öðrum vettvangi eða eru áður óbirt.Kyrralífsmyndir
Lesa meiraSmáa letrið
Lesa meiraHöfuðljóð
Lesa meiraFrelsi
Lesa meiraAlle schönen Worte
Lesa meiraFrostfiðrildin
Lesa meiraLygasaga
Lesa meira