Myndir eftir Brian Pilkington
Um bókina
Elías, fyrirmynd annarra barna í góðum siðum (eða hitt þó heldur) er á förum til Kanada. Þar er pabbi hans, brúarsmiðurinn, búinn að fá vinnu og mamma hans, tannsmiðurinn, fær að smíðja indíánatennur. En Magga móða (fullu nafni Magga móðursystir mömmu) er ekki á því að sleppa fjölskyldunni úr landi.
Magga hefur skammast í foreldrum Elíasar frá því hann fæddist og sennilega lengur. Fyrst neitar hún þeim um fararleyfi, en þegar það dugar ekki fyllist hún trylltri hjálpsemi. Auðvitað lendir það á Elíasi að stöðva Möggu, því foreldrar hans eru fullorðnir og geta þess vegna ekki komið sér að því að segja Möggu sannleikann. En Elías er liðtækur við fleira en erfiðar frænkur. Hann selur líka búslóðina með óvenjulegum aðferðum.
Úr bókinni
En Magga var búin að ná sér daginn eftir. Það var laugardagur og hún var heima. Fyrst skammaði hún málrana af svölunum. Síðan mátaði hún þetta sem hún var að prjóna á mig. Hún hafði náð í sérstaklega harðgert gaddavírsgarn og búið til eins konar húfu. Húfan var hauspoki með tveim hnappagötum fyrir augun.
Ég gat ekki andað inni í henni. Þannig gátu lungun heldur ekki frosið. Ef ég setti þessa húfu nokkru sinni upp þá kæmi það í blöðunum hér heima:
„Ungur, efnilegur íslenskur drengur kafnar í húfu í Kanada. Hann hét Elías Guðmundsson.“
„Magga,“ sagði ég. „Veistu það, ef ég geng með þessa húfu í útlöndum, þar sem allt er fullt af glæpamönnum (það er eitt af því sem Magga veit um útlönd?, þá halda allir að ég sé bankaræningi. Og skjóta mig. Heldurðu að þú ættir ekki frekar að gefa honum Jörundi litla hans Jónasar þessa húfu? Hann er alltaf lasinn eins og þú veist.“
Magga horfði augnablik á mig og vafði svo handleggjunum utan um mig.
„Ó, elsku drengurinn minn, þetta er alveg rétt hjá þér. Og svo ertu svo hugulsamur að muna eftir Jörundi litla.“ Og Magga klökknaði. Mér leið eins og pabba þegar hann gaf Agnesi konfektið og púðann. En svo batnaði það þegar Magga sagði:
„Ég prjóna þá nærboli handa þér úr garninu, ég keypti sem betur fer nóg.“
(s. 39-40)