Æviágrip
Matthías Johannessen fæddist í Reykjavík 3. janúar 1930. Hann lauk Cand.-mag.-prófi í norrænum fræðum frá Háskóla Íslands árið 1955, með íslenskar bókmenntir sem aðalgrein. Hann lagði stund á almenna bókmenntasögu og leiklistarfræði í Kaupmannahöfn um tíma og rannsakaði m.a. verk Gríms Thomsen. Matthías starfaði lengst af við Morgunblaðið, fyrst sem blaðamaður frá 1951-1959 og síðan sem ritstjóri fram í ársbyrjun 2001 þegar hann lét af störfum.
Á löngum ritferli sendi Matthías frá sér ljóðabækur, leikrit, ritgerðir, viðtalsbækur og ævisögur, þýðingar, annaðist útgáfur og samdi formála að ýmsum ritum, auk fjölbreytts efnis í blöðum og tímaritum. Matthías var þekktur fyrir samtöl sín við kunna sem og síður þekkta einstaklinga, m.a. Halldór Laxness, Tómas Guðmundsson og Pál Ísólfsson. Árið 1958 sendi hann frá sér sína fyrstu ljóðabók, Borgin hló, sem vakti athygli fyrir frjálst stílform. Ljóð hans hafa verið þýdd á fjölda tungumála og hann hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín. Þrjár bóka hans hafa verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs; Tveggja bakka veður (1983), Dagur af degi (1990) og Vötn þín og vængur (1998). Hann hefur ennfremur hlotið heiðurslaun Alþingis frá 1984 og fékk Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 1999. Þá var hann einn þeirra sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðibóka árið 2005 fyrir bókina Kjarval.
Matthías lést 11. mars 2024.
Mynd af höfundi: Kristinn Ingvarsson.
Um höfund
Ósýnileg hönd við gamla vindhörpu. Um ljóð og önnur ritverk Matthíasar Johannessen
Matthías Johannessen er fæddur 1930 í Reykjavík og hefur átt þar heima æ síðan.
Hann varð stúdent frá M.R., stundaði síðan nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands og lauk cand. mag.-prófi árið 1955. Fyrsta bók Matthíasar, Njála í íslenskum skáldskap (1958), er byggð á lokaverkefni hans við Háskólann.
Matthías gerðist blaðamaður við Morgunblaðið 195l; hann varð ritstjóri blaðsins árið 1959 og gegndi því starfi uns hann varð sjötugur.
Matthías er afkastamikill rithöfundur. Frá hans hendi hafa borist margvíslegar bækur, fyrst og fremst skáldrit en einnig ævisögur, viðtalsbækur og endurminningar eða skáldreynslusögur og ritgerðasöfn um bókmenntir og önnur menningarmál. Kunnastur er Matthías fyrir ljóð sín; í ljóðlistinni er hann módernisti af þeirri kynslóð sem kom fram í kjölfar atómskáldanna. Fyrsta ljóðabók hans, Borgin hló, kom út 1958 en ljóðabækur hans eru orðnar 20 að tölu, sumar þeirra skreyttar myndum listamanna.
Ljóð Matthíasar eru ýmist óbundin eða háttbundin; margar sonnettur hefur hann ort en einnig háttbundin kvæði með ýmsum tilbrigðum við hefðbundin form. Hann tileinkar sér fjölbreyttar kveðskaparaðferðir módernista. Ljóð hans eru því margvísleg að formi og brag og fjölbreytilegar ljóðmyndir einkenna ljóð hans. Hann er málhagur vel, yrkir stundum með mælskum hætti en einnig knöpp ljóð.
Í ljóðum sínum vitnar Matthías gjarnan í menningararfinn, fornrar sagnir, goðsögur og bókmenntir, og tengir stundum slíkar vísanir við nútímann. Í bálkinum „Á skip skal til skriðar orka…“ greinir frá heimsókn á víkingasýninguna í Jórvík á síðustu öld en jafnframt er fjallað um Egil Skallagrímsson og þolraunirnar sem hann rataði í á þessum stað. Inn í yrkisefnið fléttast vísanir í Höfuðlausn Egils: „bauð ulfum hræ / Eiríkr of sæ, /hlaut af konungi / hjálma klett / að höfundarlaunum, / eins og við sækjum líf okkar / í leyndardóm þessarar borgar / í líf þeirra og dauða / sem riðu með alvæpni / undir ótryggu tungli / Jórvíkur“ (Tveggja bakka veður).
Einnig yrkir Matthías frá sínu sjónarhorni um sagnir og sögur frá öllum tímum í ýmsum löndum.
Matthías hefur ort mörg kvæði um horfna listamenn frá mörgum löndum og um verk þeirra frá ýmsum tímum, og oft fjallar hann einnig um slíkt fólk í prósaverkum sínum.
Eitt slíkra ljóða er „Munch“ í Tveggja bakka veðri sem geymir lýsingu og túlkun á hinni frægu litógrafíu listamannsins, Ópinu, og þar stendur:
Ótti
og þessi andlitslausu
augu, full af þögulu
ópi:
afbrýðisemi, dauði.
Yrkisefni Matthíasar eru annars margvísleg og verður hér getið nokkurra þeirra helstu sem við blasa í í ljóðasöfnum hans.
Vandamál samtímans. Heimsmálin
Í ljóðum sínum fjallar Matthías oft um vandamál samtímans, heimsmálin. Hann er eitt af þeim skáldum sem á unga aldri ortu um ógnir kalda stríðsins, um sundrungaráhrif þess meðal mannfólksins sem hraktist á einskonar flótta undan stríðsógninni:
Við erum flóttamenn
á löngum nóttum bíðum við þess
að hríðinni sloti og sólin
veiti nýtt skjól fyrir haglinu
ó land mitt, við sem erum hér á ferð
af einskærri tilviljun
og höfum kallað yfir okkur dóm
vetnissprengjunnar,
hlustum hlustum kemur gustur
af nýrri ísöld sem læðist að okkur
á skriðjökla-
skóm: vindöld, vargöld.
(Jörð úr ægi, IV.)
Friður og traust með mönnum og þjóðum er gamalt og nýtt og eilíft yrkisefni því að andstæður þessara hugtaka, þ.e.vígbúnaður og styrjaldarógn, virðast jafnan voldugri. Kynslóð hins kalda stríðs þekkir viðsjár, flokkadrætti og vígbúnað stórvelda og hún man einnig hildarleik heimsstyrjaldarinnar. Um þessi vandamál og þessar staðreyndir yrkir Matthías fjölmörg ljóð, t.d. í Jörð úr ægi og í bálkunum „Sálmar á atómöld“ og „Friðsamleg sambúð“ í ljóðabókinni Fagur er dalur. Í slíkum ljóðum er lögð áhersla á gildi friðsamlegra samskipta í eindrægni og friði. Bálkurinn „Sprengjan“ í bókinni Dagur af degi er hörð ádeila á tortímingu atómsprengjunnar: „…lífinu vígðar / sáum við Hírosima og Nagasaki / undir hvítablómi dauða og ógnar“. Styrjaldargrimmdinni er líkt við ógnaræðið á blóðvelli Colosseum í Róm.
Hversdagsleiki og daglegt amstur er stöku sinnum yrkisefni skáldsins, stundum í íronískum tóni, t.d. í bálkinum „Hversdagsljóð“ í bókinni Mörg eru dags augu. En einnig í Reykjavíkurljóðunum og í bernskuminningum frá styrjaldarárunum og hernáminu. Tiltölulega fá ljóð fjalla beinlínis um íslenskan samfélagsveruleika samtíðarinnar, en honum bregður fyrir í ljóðrænni íhugun á ýmsum stöðum, t.d. í bálkunum „Við“ og „Þið“ og „Undir regnhlíf“ í síðastnefndri bók. Gagnger pólitísk afstaða kemur þó ekki fram hjá skáldinu nema í löngum bálki í bókinni Dagur ei meir; þar er hörð pólitísk gagnrýni á vinstri menn í tilefni af baráttudegi verkalýðsins og einnig á Jóhannes úr Kötlum vegna baráttuljóða hans.
Borgin
Borgarveruleikinn, Reykjavík, náttúruumhverfi hennar og mannlíf, er algengt yrkisefni Matthíasar. Í borginni hefur hann alltaf átt heima og hann hefur goldið henni fósturlaunin í ljóðum sínum alla ævina. Fyrsta ljóðið í fyrstu ljóðabók sinni yrkir hann til borgarinnar. Ljóðið heitir „Hörpusláttur“ og þar talar ungt Reykjavíkurskáld við fóstru sína um hin traustu tengsl þeirra:
Ég syng þig borg og hús foreldra minna
og götur þínar sem liggja inn í hjarta mitt
og binda okkur saman
eins og dauðinn líf og eilífð.
Í brjósti mínu berst hjarta þitt
og ljóð þitt fyllir eyru mín,
þegar þú leikur á hörpuna
við lækjargötur og torg.
Matthías vex upp með borginni og býr í henni á mesta útþensluskeiði hennar, hann þekkir hana innan frá. Borgin er umgerð og tilverurými margra ljóða sem hann yrkir um æsku, ást og endurminningar. Hún er stundum ævintýraleg en ekki óvænt uppgötvun aðkomumanns, hún er hvorki spillingabæli né firringarstaður. Hún er vinsamlegt heimkynni og fegurð náttúrunnar og gildi hennar nær líka til ættborgarinnar. Náttúrumyndir hennar eru margar eftirminnilegar, t.d. í ljóðinu „Gullregnið við Túngötu“ sem tjáir tilfinningar þeirra sem uxu upp í skjóli þessa trés og hittast þar enn „þótt tréð sé löngu fallið / og lauf þess flöktandi skuggar.“ (Tveggja bakka veður)
Hugur skáldsins til borgarinnar og landsins í senn birtist m.a. í einni sonnettunni í bókinni Vori úr vetri, en þar eru tvær ljóðlínur þessar:
Ljóð þín unna ey við nyrztu strendur,
[…]
unna þinni borg við björtust sundin
Náttúrumyndir borgarinnar eru nálægar og kunnuglegar með mannlífi, veðrum og trjám, sorg og vonum. Æskustöðvar í borg fá hér í fyrsta sinn hugþekkan blæ í íslenskum kveðskap.
Af öðrum toga en flest önnur borgarljóð Matthíasar eru bernskuminningar hans í prósastíl, einkum frá hernámsárunum, í bókinni Morgunn í maí. Reynsla þeirra ára breytti mörgu í lífi Íslendinga, ekki síst þeirra sem þá voru ungir, og um það hefur Matthías einnig skrifað í prósabókum sínum.
Náttúran og mannsævin
Þetta borgarskáld þekkir vel hina fjölbreyttu náttúru landsins alls og hefur ort mörg ljóð um margvíslega ásýnd hennar. Náttúruljóðin eru áhrifaríkust í hinu stóra ljóðasafni Matthíasar. Hann hefur ferðast víða og kynnst landinu af ástríðu. Þau kynni eru einnig orkugjafi annarra yrkisefna hans. Í litríkum myndum blasir náttúran við, landslag, blæbrigði birtunnar og nafnkenndir staðir. Eitt þessara ljóða heitir „Við Jökul“ og þar sést einnig hvernig skáldið leikur með hefðbundið ljóðform:
Jökullinn hverfur
í haustgula
heiðríkju sínaeitt sinn stóð eldstólpi
upp af þeim gígauðmjúk er nóttin
sem nemur, ó drottinn,
við nóttlausa deigluna þína.
(Ættjarðarljóð á atómöld)
Stundum skerast tækni og hraði nútímans í leikinn og setja nýstárlegan svip á myndmálið, eins og í eftirfarandi kvæði í bálkinum „Smákvæði úr næsta nágrenni I“:
Gígarnir hvíldir
eftir þúsund ára
svefnhraun í mosapeysu
undir frostkaldri
þögnSkuggi bílsins
kemur hratt á móti okkur
þeir hittast á veginum
aka saman
inn í kvöldbjart tunglskinþannig hittum við skugga okkar
og fylgjum honum
með brunnin eldfjöll í brjósti
(Tveggja bakka veður)
Náttúruljóðin tengjast öllum árstíðum og ekki síður mannfólkinu sjálfu, hugarfari þess og tilfinningum. Myndir þeirra leiða lesandann stundum óvænt inn í hugarheim. Ljóðið „Melgresi“ er dæmi um slík tengsl, tjáð með skýrum myndum í knöppu formi:
Festir melgresið
rætur
í foksandi
deyjandi auðnarhugarfar þitt
í harmkvælum mínum.
(Vötn þín og vængur)
Áhrif manns og náttúru eru gagnkvæm; náttúran er stundum persónugerð og fær svipmót frá hugsun mannsins, t.d. í smáljóðinu „Eftirvænting“:
Hljóðlátt er kulið
og kvöldfölir skuggar
við vatniðsenn kemur blyshvítur
dagurog drepur fingri
á lyngið.
(Vötn þín og vængur)
Í bókinni Ættjarðarljóð á atómöld eru öll ljóðin um íslenska náttúru og hugleiðingar henni tengdar. Sum ljóðanna eru ort í gamansömum tóni og öll eru þau gjörólík hinum hefðbundna ættjarðarljóðaskóla 19. aldar. Ættjörðin er laus undan boðskap og dýrkun, og við njótum náttúrunnar af því að hún er fögur og gleður hugann. Eitt smákvæðið heitir „Ættjarðarkvæði“. Það er íslenskt veður í sólríku hjarta; við öndum að okkur sjávarlyktinni og þar er „mávurinn / í hjarta þínu“ eins og þar stendur. Náttúru- eða umhverfismyndir borgarinnar og landsins sameinar Matthías líka eftirminnilega í þessari bók og raunar víðar.
Skáldið sýnir ævina alla og hlutskipti mannsins í spegli náttúrunnar. Á hinn bóginn er þróun og hringrás náttúrunnar einnig líkt við mannsævina. Það haustar að í ævi mannsins ekki síður en í náttúrunni. Gott dæmi er ljóðið „Þegar veturinn nálgast“ í Tveggja bakka veðri sem hefst með þessum hendingum: „Aldurinn færist yfir / og árin þyrlast gult lauf / inn í haustföla gleymsku.“
Ástarljóð og tilfinninga
Af framansögðu má ljóst vera að tengsl náttúruskynjunar við tilfinningarnar er líka víða að finna í ástarljóðum skáldsins sem eru fjölmörg, t.d. í bókinni Árstíðaferð um innri mann:
Hendur okkar
eru greinar
fléttast saman
laufgastÞað er vor
Svo hljóðar eitt kvæðið í bálkinum „Haustið er hugmynd um dauðann“ Kvíðinn getur verið fylgifiskur ástarinnar eins og í ljóðinu „Þunglyndi“ í sömu bók:
Fyrirsát
þessi dagurör af kvíðboga mínum
í djúpu sári
þínu.
Ástartilfinningar renna gjarnan saman við fegurð náttúrunnar, t.d. í fyrsta „Viðljóði“ í Tveggja bakka veðri en þar blómstrar ástin „þegar spegilmynd fuglsins gáraði vatnið / þegar vatnið speglaðist í augum þínum / þegar tillit þitt var geisli í gárum þeirra / þegar rætur okkar fléttuðust hver um aðra.“
Ástarkenndir í ljóðunum eru einlægar og myndríkar en misjafnlega heitar og verða við vissar aðstæður að þola kaldhæðni. Varla hefur hin jarðneska ást sést í öllu myndríkara og knappara ljóði en þessu hérna sem er í smákvæðasyrpunni „Smákvæði úr næsta nágreinni I“:
Hún liggur
nakin við hlið þér,
djúp mold.Þú tekur fyrstu
skóflustunguna . . .
(Tveggja bakka veður)
Allmikið af ljóðum Matthíasar hefur verið þýtt á erlend mál og hefur birst í bókum og tímaritum erlendis. Alla tíð hafa fjölmörg ljóð hans einnig birst í íslenskum tímaritum.
Prósaverk
Matthías hefur ekki eingöngu verið afkastamikill rithöfundur á sviði ljóðlistarinnar. Eftir hann liggja á fjórða tug annarra bóka um margvísleg efni: skáldsögur, smásögur, bókmenntaritgerðir, leikrit og margar ævisögur og endurminningabækur í ýmsum formum, t.d. bækur með viðtölum, einkum við listamenn.
Blaðamennska var ævistarf Matthíasar en skáldverk hans og aðrar bókmenntalegar ritsmíðar eru geysimiklar. Í ritstjóratíð sinni átti Matthías stærstan þátt í eflingu Morgunblaðsins og leitaðist við að auka menningarhlutverk blaðsins og jafnframt að losa það úr pólitískum tengslum við Sjálfstæðisflokkinn.
Sögur og frásagnir Matthíasar, sem hann kallar ýmist skáldsögur eða smásögur, eru margar hverjar í ætt við listrænar frásagnir blaðamanns. Atvik úr fréttaveröld raunveruleikans koma fyrir bæði í skáldsögum, smásögum og endurminningabókum og jafnvel líka í ljóðunum. Matthías dregur ekki heldur dul á að sumt í sagnabókum hans séu sjálfsævisögulegar frásagnir, en sumar smásögurnar eru alger skáldskapur og margar þeirra einkennast af ljóðrænum stíl. Bækurnar Hann nærist á góðum minningum og Vatnaskil mætti hinsvegar kalla skáldreynslusögur eða persónulegar skáldsögur eins og þær voru kynntar af útgefanda. Sjálfur nefnir höfundur hina fyrri skáldsögu en hina seinni dagbókarsögu.
Nokkur leikrit eftir Matthías hafa verið gefin út og sum þeirra sett á svið eða leikin í sjónvarpi.
Í blaðamannsstarfinu lagði Matthías m.a. sérstaka rækt við samræður og viðtöl við samtíðarmenn. Snemma á ferlinum varð þetta einskonar sérsvið hans og náði hann nýjum og betri tökum á þessari grein en tíðkast hafði. Viðtölin voru síðan gefin út á bók í fimm bindum. Einnig skrifaði Matthías heilu bækurnar með samræðum sínum við einstaka listamenn, m.a. Tómas Guðmundsson, Halldór Laxness, Gunnlaug Scheving, Pál Ísólfsson og Þórberg Þórðarson. Samræðubókin við Þórberg, Í kompaníi við allífið, vakti strax mikla athygli og hefur hún verið gefin út tvisvar, í seinna skiptið með viðaukum frá kynnum þessara tveggja ólíku rithöfunda. Auk þess hefur Matthías ritað bækur um kunna íslenska listamenn sem hann kynntist vel og einnig skrifaði hann ævisögu stjórnmálaforingjans Ólafs Thors.
Í nýjustu bók sinni, Málsvörn og minningum, fjallar Matthías Johannessen m.a. um viðhorf sín til skáldskapar, ekki síst ljóðlistar. Hann segir þar að ljóðlist sé „farvegur fyrir þrá okkar og tilfinningar.“ Fyrr á tímum hafi ýmsu íþyngjandi góssi verið hlaðið á skáldskapinn, s.s. hagnýtum upplýsingum, allskonar fróðleik, lífspeki og heilræðum og ljóðlistin notuð þannig sem fjölmiðill. Á okkar tímum hafi slíkum varningi verið létt af ljóðagerðinni, og hann heldur áfram:
Af þeim sökum ekki síst er hún mikilvæg listgrein, auk þess sem hún skerpir myndvísi okkar, skírskotunarhæfileika og viðbrögð við því, sem er mikilsvert, ný og fersk reynsla, þannig að gott ljóð getur verið eftirminnleg tíðindi í sjálfu sér.
En fyrst og síðast er ljóðið andsvar viðkvæmra strengja, sem væru þögulir og einmana án þess. Það er eins og ósýnileg hönd við gamla vindhörpu.
© Eysteinn Þorvaldsson, 2005
Greinar
Almenn umfjöllun
Ástráður Eysteinsson: „Til móts við lífsreynsluna: skyggnst í nýjustu ljóðabækur Matthíasar Johannessen og Þorsteins frá Hamri“
Tímarit Máls og menningar 2012, 73. árg., 4. tbl. bls. 76-85.
Silja Aðalsteinsdóttir: „Matthías Johannessen (1930- )“
Icelandic Writers. Dictionary of Literary Biography, vol. 293, ritstj. Patrick J. Stevens, Detroit, Gale 2004, s. 260-267
Silja Aðalsteinsdóttir: „Kónguló sem spinnur inn í tómið: viðtal við Matthías Johannessen“
Tímarit Máls og menningar, 57. árg., 3. tbl. 1996, s. 5-41
Matthías Viðar Sæmundsson: „Ég er ekki fugl á hendi“
Stríð og söngur, 1985, s. 63-101
Hannes Hólmsteinn Gissurarson: „Félagi orð“
Frelsið, 4. árg., 3. tbl. 1983, s. 194-203
Jóhann Hjálmarsson: „Hér slær þitt hjarta, land: Matthías Johannessen“
Íslensk nútímaljóðlist, 1971, s. 210-231
Einstök verk
Á vígvelli siðmenningar
Halldór Blöndal: „Krossferð Matthíasar á vígvelli siðmenningarinnar“ (ritdómur)
Þjóðmál 2010, 6. árg., 4. tbl. bls. 76-81.
Borgin hló
Eiríkur Hreinn Finnbogason: „Matthías Jóhannessen. Borgin hló“
Félagsbréf Almenna bókafélagsins, 4. árg., 7. tbl. 1958, s. 45-46
Jónas Ragnarsson: „Nýliði sem fagna ber: 50 ár frá útkomu fyrstu ljóðabókar Matthíasar Johannessen, Borgin hló“
Þjóðmál 2008, 4. árg., vor, bls. 60-3.
Stefán Jónsson: „Alibí“
Dagskrá, 2. árg., 1. tbl. 1958, s.77-79
Bókmenntaþættir
Hjörtur Pálsson: „Matthías Johannessen. Bókmenntaþættir“
Skírnir, 160. árg. 1986, s. 412-434
Fagur er dalur
Erlendur Jónsson: „Matthías Johannessen. Fagur er dalur“
Skírnir, 140. árg. 1966, s.286-292
Flýgur örn yfir
Silja Aðalsteinsdóttir: „Sjónarhorn arnarins“
Tímarit Máls og menningar, 47. árg., 3. tbl. 1986, s. 387-389
Hólmgönguljóð
Hannes Hólmsteinn Gissurarson: „Sár þitt er haf milli landa“
Frelsið, 6. árg., 3. tbl. 1985, s. 218-220
Hugleiðingar og viðtöl
Sverrir Kristjánsson: „Hugleiðingar og viðtöl“
Tímarit Máls og menningar, 24. árg., 1. tbl. 1963, s. 93-95
Í dag skeið sól
Gunnar Árnason: „Bækur“
Kirkjuritið, 31. árg., 3. tbl. 1965, s. 137-139
Í kompaníi við allífið
Berkov, Valeríj Pavlovítsj: „Matthías Johannessen og Þórbergur Þórðarson. Í kompaníi við allífið“ Þýtt úr sovéska tímaritinu Nýir Tímar
Tímarit Máls og menningar, 21. árg., 3. tbl. 1960, s. 232-234
Í Skálholtskirkju
Björn Bjarnason: „Í minningu ljóðs“
Þjóðmál 2013, 9. árg., 3. tbl. bls. 6.
Jörð úr ægi
Ólafur Jónsson: „Símtöl við guð: blaðað í nokkrum ljóðabókum“
Félagsbréf Almenna bókafélgasins, 8. árg., 27. tbl. 1962, s. 40-57
Jón Böðvarsson: „Matthías Johannessen. Jörð úr ægi“
Tímarit Máls og menningar, 22. árg., 2. tbl. 1961, s. 157-159
Kjarvalskver
Ingólfur Kristjánsson: „Ritsjá“
Eimreiðin, 75. árg., 2. tbl. 1969, s. 157-159
Land mitt og jörð
Silja Aðalsteinsdóttir: „Ein og spyrjandi í kaldri skor“
Tímarit Máls og menningar, 56. árg., 1. tbl. 1995, s. 106-112
The Naked Machine
Loftur Bjarnason: „Matthías Johannessen. The naked machine“
Scandinavian studies, vol. 62, no. 2 1990, p. 261-263
Njála í íslenskum skáldskap
Gunnar Sveinsson: „Matthias Johannessen. Njála í íslenzkum skáldskap“
Skírnir, 133. árg., 1959, s. 227-228
Ólafur Thors: ævi og störf
Svanur Kristjánsson: „Þrjú rit um Sjálfstæðisflokkinn“
Saga, 20 árg. 1982, s. 266-285
Svo kvað Tómas
Sigfús Daðason: „Tilveran gerð upp“
Tímarit Máls og menningar,22. árg., 4. tbl. 1961, s. 324-329
Ritgerðir og pistlar, 2000, s. 102-109
Tveggja bakka veður
Eysteinn Þorvaldsson: „Landið fylgir okkur: um Tveggja bakka veður, eftir Matthías Johannessen“
Ljóðaþing, 2002, s. 266-273
Silja Aðalsteinsdóttir: „Og það varð ást“
Tímarit Máls og menningar, 43. árg., 2. tbl. 1982, s. 243-246
Gísli Jónsson: „Haustljóð til Hönnu“
Frelsið, 2. árg., 3. tbl. 1981, s. 388-390
Vegur minn til þín
Silja Aðalsteinsdóttir: „Heimsókn í gamalt safn“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2010, 71. árg., 4. árg. bls. 134-9.
Vötn þín og vængir
Sigríður Albertsdóttir: „Et digt er aldrig slut = A poem is never finished“
Nordisk litteratur, 1998, s. 12-14
Um Jónas
Kristján Björnsson: „Flökt af guðdómsloga“
Kirkjuritið, 61. árg., 1. tbl. 1995, s. 57
Verðlaun
2005 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Kjarval, ásamt Kristínu B. Guðnadóttur, Gylfa Gíslasyni, Arthur Danto og Silju Aðalsteinsdóttur
1999 - Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
1961 - Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
Tilnefningar
1998 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Vötn þín og vængur
1990 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Dagur af degi
1983 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Tveggja bakka veður
Undir mjúkum væng : Myndir úr dagbók
Lesa meiraEn vængblár flögrar hrafn / við laupinn sinn og krunkar / við efstu hæð nærliggjandi kranaÁ asklimum ernir sitja
Lesa meiraEnn logar jökull
Lesa meiraVið landamæri
Lesa meiraSögur úr Vesturbænum
Lesa meiraHrunadansinn
Lesa meiraHrunadansinn
Lesa meiraHöfuð úr sjó
Lesa meiraVor úr vetri
Lesa meira