Um bókina
Sirrí var róttækur framúrstefnulistamaður á síðari hluta 20. aldar, sem lést fyrir aldur fram. Sirrí var ekki einungis umdeild sem listamaður, heldur einnig fyrir líferni sitt, ekki síst eftir að hún yfirgaf ung börn sín til að sinna listinni.
Þegar dóttir hennar, Kamilla, fellst á að liðsinna Listasafni Reykjavíkur við undirbúning yfirlitssýningar um móður hennar, lendir hún í vanda, því ekki hefur gróið um heilt í fjölskyldunni og ekki minnkar hugarangistin þegar bréf Sirríar til elskhuga hennar koma í leitirnar. Hvers konar mynd mun þjóðin fá af henni? Á einkalíf listamanns erindi við aðra? Á sannleikurinn erindi á sýninguna?
Yrsa Þöll Gylfadóttir hefur hér skrifað sögu um siðferðileg álitamál tengd listinni og lífinu, um skyldur foreldra við börn, um erfingja og ábyrgð þeirra – og hvað frjálsleg umgengni við sannleikann getur haft í för með sér.
Úr bókinni
„Ég er ekki alltaf alveg ein ..." sagði Kamilla ákveðin, en gerði sér ekki grein fyrir því að þessi orð fóðruðu aðeins slúðursvengd Kristínar.
„Nú, segðu frá, ekki kvelja gamla konu. Mikið vona ég nú að hann sé skárri en hinir lúðulakarnir sem þú hefur lagt lag þitt við, elskan mín góða."
„Það er enginn þannig, ég meina bara að ég á vini og er í vinnu og er ekkert alltaf ein, Kristín."
Kristín var alveg ferleg þegar ástarmál bárust í tal. Hún var alin upp á bókum í Rauðu seríunni og alla hennar tíð höfðu ástir og tilhugalíf annarra kveikt í henni bál af forvitni og hluttekningu. Stundum gat verið skemmtilegt að ræða þessi mál við Kristínu en það var ekki um neitt að ræða í þetta sinn. Það hafði verið Stefán fyrir jól, og breskur bankamaður síðasta sumar sem Kamilla hafði verið í örlitlum samskiptum við síðan. En svo byrjaði hann með nýrri konu og sendi Kamillu Facebook-skilaboð þar sem hann bað hana vinsamlegast um að hafa aldrei aftur samband. Eða öllu heldur fokka sér pent. Kamilla vildi nú stundum að hún hefði eitthvað bitastætt, jafnvel forboðið, til að næra slúðursuguna móðursystur sína á, eins og til dæmis lostafengið fling með Garðari Gé, hetjutenór í óperukórnum, en hann var vel læstur niður með konu og börn í úthverfahöll með palli og potti. Auk þess var Kamilla eingöngu hjónadjöfull með forboðin blæti þegar hún var ein uppi í rúmi undir sæng með lokuð augun, aldrei úti á meðal manna.
Þær settust á dívaninn og stilltu bakkelsinu, kaffinu og kertaljósinu á fallega útskorið sófaborð. Kamilla brosti til að vera vingjarnleg og reyndi að kveða umræðuefnið í kútinn, þar sem hún sá í hvað stefndi. Það var þó vita vonlaust. Hún hafði auk þess alla tíð gagnrýnt val hennar á karlmönnum, hafði að sjálfsögðu fylgst náið með því þegar hún bjó hjá þeim Þorgeiri, og svo síðar þegar hún fylgdist með uppvexti Bjarna og þeim mönnum sem gengu honum í föðurstað.
„Þessi þarna sem var eins og einhvers konar sjúkleg karlkynsútgáfa af henni systur minni. Ég sá það um leið að það var eitthvað mikið bogið við hann en þú þóttist ekki sjá það framan af, mín kæra. Svo fór úlfurinn heldur betur úr gærunni ..."
„Þú lætur þetta stundum hljóma eins og ég hafi verið að sænga hjá mömmu minni. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þú segir þetta um Ívar, að hann hafi verið eins og karlkyns mamma. Þú veist hvað mér þykir það ósmekklegt."
Kristín leit niður og varð uppiskroppa með orð. Hún lét þó ekki slá sig út af laginu og lagði það heldur ekki í vana sinn að biðjast afsökunar á neinu, þannig að hún sagði þess í stað sitt klassíska „jæja" og lét þar við sitja.
Kamilla var samt orðin svo vön móðursystur sinni að hún tók þetta ekki nærri sér. Henni fannst það í raun makalaust hvað hún gat umborið þegar kom að Kristínu og hennar vanhugsuðu ummælum. Það var líklega af því að hún vissi hve Kristínu þótti vænt um hana, og að hún talaði svona um allt og við alla. Kristín var öll þar sem hún var séð og talaði alltaf frá hjartanu og því hafði Kamilla lært að leiða annaðhvort ummæli hennar hjá sér, afskrifa þau sem vitleysu eða sjá í ummælum hennar ákveðinn sannleika og skýrleika, kjarna sem hulinn væri undir yfirbreiðslu blekkinga og afsakana. Oftar en ekki hafði hún hatað Kristínu fyrir eitthvað sem hún hafði sagt sem hún taldi vera móðgun, en síðar þakkað henni í laumi fyrir að hafa opnað augu hennar fyrir sannleikanum.
„Fyrst þú vilt ekki tala um hana mömmu þína, segðu mér þá heldur frá þessum nýja. Ég veit að þú ert að leyna mig einhverju. Hver er sá heppni?"
„Það er enginn nýr og það er enginn heppinn, síst af öllu ég. Og reyndar kom ég hingað einmitt til að ..." bætti Kamilla við, en Kristín greip aftur fram í.
„Ekki ertu lesbísk, er það? Eða hvað kallar fólk þetta í dag? Trans? Tvíkynhneigð?"
(bls. 34-35)