Um bókina
Lögreglukonan Kristín erfir óvænt gamalt prestsetur á landsbyggðinni, ásamt hálfbróður sínum. Setrið er á jörðinni Stóru-Hlíð þar sem eru aðeins fáein íbúðarhús önnur og eitt gistiheimili. Kristín sér húsið sem kærkomið athvarf frá glæpaerlinum í höfuðborginni. Á staðnum býr lítill er fjölskrúðugur hópur fólks á ólíkum aldri, á ólíkum stað í lífinu og með ólíkar þarfir og langanir – og einn morðingi.
Úr bókinni
Tremillinn tvíhöfðaður, hve margir búa í þessari hlíð? stundi Bjarni mæðulega.
Samkvæmt Hrefnu eiga fjórir lögheimili á staðnum auk hins látna, sagði Margrét. Fjórir hafa auk þess dvalið hér í Stóru-Hlíð í sumar og hér munu vera tveir gestir þessar vikurnar, annar okkur vel kunnugur. Lögreglan á staðnum segir að auk þess séu hér þennan morgun níu þýskir ferðamenn sem dvelja í fimm herbergjum á hótelinu. Þá eru upp taldir þeir tuttugu sem áttu hér svefnstað í nótt en þó að það sé nokkur spotti í næsta þéttbýlisstað eru auðvitað fjölmargir bæir innan tuttugu mínútna aksturs héðan.
Bjarni dæsti og leit á klukkuna. Maginn rumdi eins og kvefað ljón. Klukkan var nærri hálftíu enda höfðu þau lagt af stað úr bænum fyrir átta eftir að tilkynnt var um grunsamlegt dauðsfall í Stóru-Hlíð og helstu málsatvik. Annars var þetta í umdæmi lögreglunnar á Ósi og hún hafði komið á staðinn í bítið en síðan beðið um aðstoð. Tæknideildarmenn höfðu lagt af stað um sjöleytið en að lokum var morðteymið ræst út.
Jæja, sagði Bjarni og endurtók það síðan.
Ég fæ uppþembu á löngum bílferðum, sagði hann svo. En þið?
Heldurðu að það sé bílferðin, spurði Margrét, fremur en mataræðið?
Eigum við að líta inn í hjallinn? spurði Njáll sem hafði fylgt Bjarna úr Reykjavík og gert sitt besta til að halda uppi samræðum á leiðinni en Margrét fylgdi Marteini Finnssyni sem var þögull núna og virti Bjarna fyrir sér eins og hann væri búinn að finna Mónu Lísu í Louvre og reyndi að leyna vonbrigðunum.
Þau stóðu og tvístigu fyrir utan gamalt einbýlishús í töluverðri niðurníðslu en litu öðru hverju flóttalega upp í hlíðina þar sem kirkjan og hótelið blöstu við. Ekki sást sála þar uppi. Gluggar húsanna minntu á rándýrsglyrnur.
(s. 121-122)