Um bókina
Kennarinn og karókídrottningin Sandra sinnir unglingum af natni á daginn og stundar kaup og sölu á notuðum húsgögnum á kvöldin. Hún veit að hún þykir sérvitur en hún er sátt við sjálfa sig. Svo framarlega sem hún hleypir engum of nærri sér og hugsar sem minnst um fortíðina – þá er allt í himnalagi. Þau fyrirheit gleymast fljótt þegar huggulegur maður blikkar hana um hábjartan dag á Sorpu. Hún verður strax gagntekin og sannfærð um að hrifningin sé gagnkvæm. Þegar hún kemst að því að smáhundurinn hans er týndur veit Sandra að örlögin hafa talað. Áður en hún veit af er hún gengin til liðs við leitarhópinn og blæs til sóknar í ástarlífinu.
Rambó er týndur er saga um gömul sár og glataða vináttu en einnig um leitina að ástinni og ógöngurnar sem henni geta fylgt. Rambó er týndur er fjórða skáldsaga Yrsu Þallar, sem áður hefur getið sér góðan orðstír fyrir vandaðan og glettinn stíl og áhugaverðar og breyskar persónur. Síðasta skáldsaga Yrsu, Strendingar (2020), var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins.
Úr bókinni
Gamla kaffivélin var víst farin á haugana, svo nú yrði Sandra að kaupa sér nýja. Hún varð að láta skyndikaffið nægja, sauð vatn og náði sér í rósóttan bolla inn í skáp, ýtti svo við hurðinni með léttri stroku og fylgdist með henni lokast löturhægt og í fullkomnu hljóði. Þótt ljúflokurnar væru algjört smáatriði í samanburði við borðplötuna, skápana, heimilistækin og vaskinn, bæði í gagnsemi og heimilisprýði, þá var Sandra ekki frá því að þetta smáatriði væri það sem hún kynni best að meta við nýja eldhúsið. Í hvert sinn sem hún opnaði og lokaði skúffum og skápum var hún minnt á þennan einfalda þægindaauka. Mamma hennar fengi áfall ef hún frétti að Sandra væri búin að skipta sjötíu ára gamalli timburinnréttingu út fyrir plasthúðað mdf drasl. Myndi harma það að langur leggur siðprúðs naumhyggjufólks liði nú undir lok. Lengi vel var Sandra á þeirri skoðun að ískur og skrækir í skúffum væru sjarmerandi en nýlega áttaði hún sig á því að sú skoðun var fengin að láni og var alls ekki hennar eigin. Hún var hætt við að þykjast vera eins og foreldrarnir og hætt að skammast sín fyrir að vera ólík þeim. Hún var heldur engin sérstök sóunarsubba. Hún var bara ekki ofstækisbókstafstrúarmeinlætamanneskja eins og foreldrarnir. Það var ekki að því að vilja stundum hafa ekkert nýtt í kringum sig. Í nýja eldhúsinu var allt hreint, bjart, aðgengilegt og á sínum stað og nóg pláss fyrir allt. Í nýja eldhúsinu leið henni vel.
Á æskuheimili hennar í Þingholtsstræti þótti svívirða að henda nokkru. Gömlu gólfborðin voru gersemi og gluggafögin heilög, silfurskottur voru krútt og myglusveppir voru ekki til. Allt gert frá grunni eða lagað, aftur og aftur, og sjaldan var nokkru skipt út. Samkvæmt pabba Söndru var æðsta dyggð mannsins að veita hinum forheimskandi heimi eyðslusemi og græðgi viðnám. Ikea var höfuðból plebba og uppa. Maður skyldi heldur finna eitthvað eitt og halda sig við það, halda því við, alla tíð. Foreldrarnir áttu sama bíl í fimmtán ár, keyrðu hann þar til ístran á honum strauk malbikið, vælandi og prumpandi og bremsurnar voru löngu farnar. Pabbi hennar hafði verið kominn upp á lagið með að snöggbeygja inn götur eða inn á bílastæði til að hægja á bílnum eftir að hann hafði brunað stjórnlaust niður brekku. Þetta var kappsmál hjá honum, að sanna fyrir sjálfum sér og hverjum þeim sem sitja þurfti undir fyrirlestri hans um nægjusemi, að hann hefði bókstaflega keyrt bílinn í þrot. Hann keyrði bílinn í tvö ár án þess að hann væri skoðaður og hökti síðustu metrana á þrjátíu eftir Kringlumýrarbrautinni þegar löggan stoppaði hann. Þá kleif hann út úr skrjóðnum, afhenti löggunni lyklana og gekk heim.
Vonandi var Leifur ekki á sömu skoðun og foreldrar hennar, þótt hann ynni á Sorpu, þótt hann væri mótfallinn gegndarlausri neyslu og sóun. Hann hlaut að sjá það að stundum var þörf fyrir endurbætur.
(s. 36-38)