Beint í efni

Rómantískt andrúmsloft: 30 og eitt ljóð

Rómantískt andrúmsloft: 30 og eitt ljóð
Höfundur
Bragi Ólafsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Ljóð

Úr Rómantísku andrúmslofti:

Nóvembermorgunn

 

Hálfur máninn
sem hangir í eina mínútu eða svo
á svörtum himni, bláum -
það er hann sem mætir augum mínum

 

þennan morgun í nóvember
þegar augun hafa ekkert annað fyrir stafni
en að elta uppi himininn.
En svo fetar tíminn sig burt

 

og skýin sem bera burt mánann
í gagnstæða átt
eru sömu ský og ég sá fyrir nokkrum dögum.
Ég vildi að ég gæti verið nákvæmari en það,

 

en þetta var daginn sem heimurinn faldi sig
fyrir fjölmiðlum sínum:
þegar hann neitaði að láta benda á sig
og bað um að ljósinu

 

yrði beint eitthvað annað.
Í heilan dag voru einu fréttirnar
ferðalag skýjanna á himninum.
Það er þess vegna sem ég kannast við þau.

 

Skriffærin

 

„Vonandi þarf ég ekki að skrifa fleiri ljóð með kúlupenna sem klínir,“ orti Dagur Sigurðarson í ljóðinu Með kúlupenna (handa Stefáni Herði). „Ég sætti mig við hrafnsfjöður.“

 

Sú var tíðin að menn máttu sætta sig við lindarpenna. Og þeir vildu leka; þeir settu bletti í skyrtur og jakkaföt.

 

Þegar ég bað Guðmund Haraldsson að árita bók sem ég keypti af honum inni á bréfberadeild Pósts og síma í Pósthússtrætinu 22. desember 1982 - Guðmundur var þar í heimsókn hjá deildarstjóranum Reyni Ármannssyni, ég að vinna sem bréfberi - þá settist Guðmundur við skrifborð Reynis og áritaði fyrir mig bókina með kúlupenna, en gleymdi svo að penninn var kúlupenni en ekki lindarpenni; hann lyfti bókinni að lokinni árituninni og hristi hana í svolitla stund til að þerra blekið.

 

Halldór Laxness skrifaði með blýanti. Og sumar bækurnar svo langar að nánast ekkert var eftir af blýantinum.

 

En með hverju skrifaði Thor Vilhjálmsson? Hann skrifaði með höndunum.

 

Fleira eftir sama höfund

Ljóð í Action Poétique

Lesa meira

The Ambassador

Lesa meira

Animali domestici

Lesa meira

Wiersze

Lesa meira

Isländisches Theater der Gegenwart

Lesa meira
gegn gangi leiksins

Gegn gangi leiksins

Sjö ár eru liðin frá því ljóðskáldið Svanur Bergmundsson losnaði úr klefa sínum á Litla-Hrauni, eftir að hafa afplánað dóm fyrir manndráp.
Lesa meira

Hvíldardagar

Lesa meira

Við hinir einkennisklæddu

Lesa meira