Um Sæmd:
Á köldu vetrarkvöldi árið 1882 situr Benedikt Gröndal skáld í einkennilega húsinu sínu og ákveður að rífa sig upp úr drykkju og draumórum og mæta til kennslustarfa í Lærða skólanum daginn eftir. Þar er hins vegar kominn til valda helsti lærdómsmaður landsins, Björn M. Ólsen, sem lítur á það sem sitt lífsverkefni að hefja þjóðina upp úr fáfræði og vesældómi; og það verði ekki gert án hörku og aga. Skólapiltar voru fjöregg landsins og framtíð, og því áríðandi að ala þá upp í réttum anda. Ólíkir menn, ólíkar hugmyndir – og atvik í skólanum verður til þess að þeim lýstur saman.
Úr Sæmd:
Reyndar hefur ekki gengið sem skyldi að koma skólapiltum í skilning um mannkosti Björns og hefur hann þó lagt sig fram: þegar hann tók við starfinu kvaddi hann sér hljóðs við skólasetningu og las af blöðum vængjaða ræðu yfir nemendunum þar sem hann sagðist vilja vera primus inter pares og alls ekki sem Argos með hundrað augu að snuðra uppi alla bresti heldur elskulegur faðir: Hjarta mitt stendur opið, sagði hann.
Hann stóð þarna, hár og tígulegur og með sitt mikla og gáuflega höfuð, fríður foringi, fullur löngunar og umbótavilja, boðberi nýrra tíma með rótfestu í aldagamalli þekkingu, fulltrúi nýrrar hæfni til að takast á við kröfur nútímans, maður sem þekkti heiminn – fulltrúi hins nýja Íslands – hjarta mitt stendur opið.
Allt skyldi opnað. Fullur af dugnaði og elju þess sem kemur að utan og sér allt eins og það er í raun og veru – og hvað þarf að gera – einsetti hann sér að útrýma alls kyns ósiðum og agabrotum og kveða jafnharðan niður alla uppivöðulsemi. Það yrði kannski erfitt fyrstu vikurnar, sagði hann við Slembi, en fljótlega myndu piltarnir sjá að betra væri að hafa reglu á hlutunum – læra, þroskast, vaxa en að láta undan öllum dyntum, leti og löngunum – non scholae sed vitae discimus. Hann sá að best væri að setja skýr mörk sem allir vissu hver væru. Þeim voru allir vegir færir, honum og Slembi – fóstbræðrunum. Hann innleiddi nákvæmar skólareglur í ótal liðum sem höfðu að geyma fyrirmæli og valdboð um líf piltanna í stóru og smáu frá morgni til kvölds og var fylgt hart fram, bæði af honum sjálfum og Slembi auk þess sem þeir fengu nokkra nemendur í lið með sér til að láta vita af brotum félaga sinna.
Allt skyldi opnað og ekki vanþörf á úrbótum. Nemendur skyldu ekki reykja eða neyta áfengis í skólanum; þeir skyldu vera stundvísir, standa upp fyrir kennurum þegar þeir komu inn í skólastofu og taka ofan fyrir þeim þegar þeir mættu þeim á förnum vegi; þeir skyldu taka ofan húfurnar um leið og þeir komu inn í skólann en þó ekki setja þær inn í skápa sem ætlaðir voru undir bækur; þeir skyldu kaupa litlar nótubækur þar sem kennarar skrifuðu umsagnir um lunderni þeirra, gáfur og ástundun; þeir skyldu ekki fá að fara út nema brýna nauðsyn bæri til og hætta að fá sífellt útgönguleyfi til að slæpast í bænum – væru þeir veikir gætu þeir fengið að fara upp á loft til rúms síns sem veikir menn; kömrum skyldi læst og lyklar geymdir hjá sérstökum umsjónarmönnum; piltar skyldu sitja á setunni en ekki standa uppi á bríkinni og var sérstök slá negld yfir setunni til að koma í veg fyrir það.
Allt espaði þetta uppreisnargirni nemenda fremur en að hvetja þá til hlýðni og sjálfsaga. Allt hið lága í eðli þessara pilta barðist um á hæl og hnakka eins og þeir væru setnir óðum drýslum. Þeir þverskölluðust við að fylgja inní framtíð þar sem röð og regla ríktu, prúðmennska og hreinleiki, mannrækt og gleði.
Áður en hann vissi af var skollið á stríð. Nemendur gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að brjóta þessar reglur sem honum þóttu mikilvægar og eðlilegar, ögra honum, niðurlægja hann, og hann tók á móti af öllu afli því að hann taldi að hér ætti hann ekki í höggi við þessa pilta sem einstaklinga heldur þá ósiði sem íslensk þjóð hafði tamið sér um aldir, út afillri tíð, hungri, vesöld, úrræðaleysi og bágri stöðu þess sem enga ábyrgð getur tekið. hann ætlaði að kenna þessum drengjum að bera höfuðið hátt í heiminum og leiða þeim fyrir sjónir að til væri heimur fegurðar og visku, samræmis, reglu og virðingar. Sérhver dagur færði honum gremju og ótal litla ósigra en hann var staðráðinn í því að láta hina illu anda þjóðarinnar ekki buga sig.
(22-4)