Beint í efni

Saga af bláu sumri

Saga af bláu sumri
Höfundur
Þórdís Þúfa
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina:

Ung kona sest að í húsi látinnar ömmu sinnar yfir sumartímann. Að henni sækja minningar um horfna tíma, um leið og hún kynnist nýju lífi í þorpinu, gömlum manni og stúlku í klukkusafni.


Úr Sögu af bláu sumri:

Ég velti fyrir mér hvort kjörbúðin væri enn á sínum stað því ég hafði alveg gleymt að líta eftir því þegar ég gekk í gegnum bæinn úr rútunni daginn áður. Stúlkan sem ég sá á leiðinni hafði fangað alla athygli mína. Eftir á að hyggja þótti mér í raun merkilegt að ég skyldi hafa gengið rétta leið heim að húsinu en ekki ráfað eitthvað út í bláinn eftir að hún hvarf mér sjónum.
Hún var á mínu reki og ég hafði séð hana koma út úr gamla Klukkusafninu um sexleytið. Aðra eins fegurð hafði ég aldrei augum litið. Þessi stúlka var algjörlega einstök í mínum eigin heimi, þeirri veröld sem aðeins ég og enginn annar hafði aðgang að, og gæti aldrei hlotið aðgang að, jafnvel þótt ég óskaði þess sjálf.
Í mér vaknaði tilfinning sem ég hafði áður kynnst í lífinu, þegar eitthvað heltók mig og fékk mig til að vilja taka mikla áhættu, niðurlægja mig eða fórna einhverju dýrmætu. Í flest skiptin hafði þetta einfaldlega verið löngun til að breyta hversdagsleikanum í eitthvað annað.
Einu sinni var ég stödd uppi á fjórðu hæð í hárri byggingu. Þar stóð ég nærri stigahandriðinu og fylgdist með ungum hjónum leiða lítið barn á milli sín. Skyndilega greip mig óstjórnleg löngun, eða kannski fremur dýrsleg hvöt, til að grípa barnið eldsnöggt og kasta því yfir handriðið.
Ég sá þetta alveg fyrir mér - ég myndi hlaupa að þeim, fleygja barninu niður, og fyrr en varði lægi það fyrir neðan í blóði sínu. Allt myndi þetta gerast á einu örstuttu andartaki en samt sem áður kollvarpa allri tilverunni.
Slíkur er máttur eins andartaks og mér fannst gott að vera minnt á það öðru hverju. Samt hræddist ég líka stöðugt að láta einhvern daginn undan þessari hvöt og gera eitthvað skelfilegt.

(33-34)

Fleira eftir sama höfund

Í felum bakvið gluggatjöldin

Lesa meira

Schlafsonate

Lesa meira

nötur gömlu nútíðarinnar

Lesa meira

Ljóð í Neue Lyrik aus Island

Lesa meira

Og svo kom nóttin

Lesa meira

Ást og appelsínur

Lesa meira

Vera & Linus

Lesa meira

Ást og appelsínur

Lesa meira

Ljóð í leiðinni: skáld um Reykjavík

Lesa meira