Beint í efni

Þórdís Þúfa

Æviágrip

Þórdís Þúfa fæddist í Reykjavík þann 7. ágúst 1978. Hún lauk stúdensprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1999 og B.A.-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 2005. 

Þórdís gaf sjálf út sína fyrstu ljóðabók, Ást og appelsínur, haustið 2004, og fram til ársins 2009 sendi hún frá sér tvær ljóðabækur til viðbótar, prósaverk og tvær skáldsögur. Eftir það tók hún sér drjúgt hlé frá birtingu, að undanskilinni einni ljóðabók undir dulnefni árið 2012. En árið 2019 steig hún fram á nýjan leik með skáldsöguna Sólmund sem kom út hjá bókaútgáfunni Sæmundi. Árið 2024 stofnaði hún útgáfuna Þúfuna ásamt öðrum konum og í sameiningu sendu þær frá sér fyrstu skáldævisögu Þórdísar, Þín eru sárin, þá um haustið, en þar fjallar hún um upplifun sína af kynferðislegum árásum, sem og eigin úrvinnslu. Verk Þórdísar hafa komið út á ensku og þýsku, og ljóð hennar hafa birst í safnritum og tímaritum hér heima og erlendis.

Þórdís hlaut styrk frá Art Angel árið 2010 ásamt þriggja mánaða dvöl á Vatnasafninu Stykkishólmi, og árið 2011 var hún einn af íslenskum höfundum á Bókamessunni í Frankfurt. Það sama ár var hún jafnframt fulltrúi Íslands á norrænni bókmenntahátíð á vegum Litteraturhuset í Osló. Árið 2016 hlaut hún mánaðardvöl á listamannasetrinu Villa Sarkia í bænum Sysmä í Finnlandi í boði ljóðahátíðarinnar Poetry Moon í Helsinki þar sem hún kom fram meðan á dvölinni stóð.