Um bókina
Allir krakkar á Íslandi þekkja Stellu og hennar skrautlegu fjölskyldu : Mömmu klikk, pabba prófessor, ömmurnar, börnin fimm og nojaða nágrannann.
Nú stefnir Stella á Ólympíuleikana en allt sem getur klikkað, klikkar. Og hvernig í veröldinni á hún þá að vera eiturhress og peppuð?
Úr bókinni
Það er alveg sama hvað Lína langsokkur var klár og dugleg og allt það, ég sá bara ekki hvernig þetta átti að nýtast mér. Ég las bókina þrisvar. Fyrst mjög hratt til að sjá hvað í henni ætti við mig en fann ekkert. Í annað sinn las ég aðeins hægar en fannst mjög hallærislegt að ég væri að lesa þessa barnabók. Samt fannst mér hún allt í lagi. Í þriðja sinn fannst mér hún fyndin. Og þá sá ég hvað amma átti við. Þessi Lína sko! En! Hún var ekki í hjólastól. Og hún átti skrilljón gullpeninga. Og hún var ekki slösuð. En hún átti góða vini sem héldu með henni í gegnum súrt og sætt.
Eins og ég.
Vinir mínir komu og þó að ég nennti ekki að tala við þá höfðu þau komið inn til mín. Blær hafði auðvitað bent á að hann væri sjálfur bundinn við hjólastól, hefði aldrei getað gengið og myndi aldrei geta það og það skipti hann bara engu máli. En það var ekki það sama. Hann gat auðvitað ekki skilið mig. Ég hafði getað gengið en ekki hann. Og nú var búið að taka það frá mér.
Stelpurnar voru ekkert skárri. Vildu taka mig í makeover af því ég leit svo hræðilega út. Hver segir svoleiðis við langveikt barn? Eða langveikan ungling? Eða langveikan og slasaðan ungling? Tommi og Anna hefðu aldrei sagt neitt þessu líkt við Línu langsokk.
(s. 79-80)