Um bókina
Sérhver fjölskylda geymir mörg líf og margar raddir. Pétur vinnur fyrir auglýsingastofu en elur með sér skáldadrauma. Eva kona hans stendur í ströngu sem byggingafulltrúi á Stapaströnd. Saman eiga þau þrjú börn; unglinginn Silju, sem hefur annan fótinn í öðrum heimi, viðkvæma sex ára drenginn Steinar og ungbarnið Ólafíu. Auk þess er á heimilinu eðalborinn og ævaforn köttur, kallaður Mjálmar, og þangað kemur líka faðir Péturs, Bergur, fyrrum bóndi sem hefur nýverið misst konu sína og er við það að hverfa inn í heim gleymskunnar.
Í þessari skáldsögu fylgjumst við með hálfu ári í lífi fjölskyldu, þar sem allir sjö hugarheimar hennar fá rödd. Þannig fléttast saman innra líf þeirra og ytri atburðir, valdabarátta og áföll, togstreita og uppeldisátök, gamall tími og nýr, í marglaga sögu.
Úr bókinni
Ég legg frá mér bókina. Ég veit ekki hvert þetta ljóð stefnir, hvað það merkir eiginlega. Það er eins og það hafi kvíslast út úr þeirri hugsun sem ég lagði upp með. Ég hef aldrei upp lifað mig sem sérlega karlmannlegan karl með barmafullar testósterónbirgðir. Ég hef fylgst með, líkt og úr fjarska, atferli mannanna sem þenja sig og keppast um konur eins og feng. Það kom mér aldrei við, ég fylgdist aðeins með, samt féll það mér oft í skaut að parast og að elskast, en allt án nokkurs strits, því skolaði bara á land. Það fær mig til að hugsa hvort það hafi verið gæfa mín að bíta alltaf á það agn sem ekki var barist um og sleppa við darradansinn. Eða hef ég ætíð verið agnið? Ég hef aldrei sperrt mig og spólað kringum konur, en ég hef dillað mér ögn og horft á þær og mögulega, bara mögulega, látlaust flaksað fjöðrum.
Þannig gerðist það með Evu. Ég var nýkominn úr sambúð, særður og sorgmæddur, ég talaði frá hjartanu og hún kenndi í brjósti um mig. Það var alls ekki meðvitað, og þó, hver veit. Mér fannst hún falleg, hún vakti furðu mína og forvitni og hún fékk mig til að brosa. Henni fannst ég skarpur, næmur og yfirlætislaus og ég kenndi henni að slaka á. Nú erum við hér, átta árum seinna, hjón með þrjú börn, tvö þeirra getin af mér og Silju átti hún áður.
Þetta er meðalgott ljóð í besta falli. Ég var ekki með orðalistann minn við höndina. Sé til hvort ég geti möndlað úr því eitthvað, slípað það til. Ég hef tvo mánuði þar til fresturinn rennur út og ég er aðeins kominn með tvö tilbúinn ljóð og þetta yrði það þriðja.
„Hvað segirðu, Ólafía mín, á faðir þinn að hætta að þræla sér út í vélrænni vinnu og gerast skáld? Skáld eins og amma þín hefði átt að vera?"
Augnatillit hennar segir já.
Góð stelpa, hugsa ég og þríf hana í framan. Það kann hún ekki að meta og byrjar strax að skæla.
Hvað er klukkan? Níu. Hvenær sagði Eva að hún væri vön að leggja hana á morgnana? Var það ekki tíu? Hún lagði mikla áherslu á að leggja hana ekki fyrr en klukkan tíu, eftir pelann. En barnið virkar svo þreytulegt og vansælt. Hvað er til ráða, litla barn? Hún elskar tónlist og að vera í fangi manns. Fang. Fangi. Að vera fangi og að vera í fangi er auðvitað nátengt, þótt gjörólíkt sé.
„Komdu, hlustum á Megas," segi ég og reyni að halda á barninu í einni hendi og taka plötu úr pappanærbuxunum sínum með hinni. Þetta gengur víst ekki, það er önnur plata á fóninum. Songs of Love and Hate með Leonard Cohen. Æ, við hlustum bara aftur á hana, hugsa ég og set nálina á. „Avalanche" byrjar, með sínum taktföstu gítartónum og dramatískri strengjainnkomunni.
„Cover up my soul ..." syng ég með og vagga Ólafíu. Hún er tortryggin á svip, er hún hrædd við baritóninn hans Cohens? Hvað þætti henni þá um Megas? Kannski er Kate Bush meira málið. Börn elska skærar raddir, kvenmannsraddir. Karlmaðurinn er soddan skelfir, ungbörn skynja það strax.
„Það á þó ekki við um mig, pabbi þinn er prúðmenni."
Ólafía brosir, heldur að ég sé að vera fyndinn. En þetta er satt, ég hef alltaf litið á mig sem prúðmenni, eitthvað í ætt við hugmynd Stuðmanna um karlmennskuna. Dálítið wild en ávallt með snyrtimennskuna í fyrirrúmi.
(bls. 43-44)