Um bókina
Ofan í læstri hvelfingu í Reykjavík eru varðveitt skinnhandrit sem voru skrifuð á Íslandi fyrir mörg hundruð árum. Þessar bækur, sem geyma fornar sögur, kvæði, galdra, lög og fróðleik, eru ráðgáta. Enginn veit hver skrifaði þær eða hvenær, hver átti þær og hvað hefur glatast úr þeim. Eitt þessara handrita er Möðruvallabók sem hér stígur fram og segir sögu sína. Með henni mátti kaupa bæði líf og mannorð, hún lenti í svaðilförum á landi og sjó, varð fyrir slysum og skemmdarverkum og slapp oft naumlega frá því að lenda á báli tímans.
Myndir eftir Sigmund B. Þorgeirsson
Úr bókinni
Hann hefur verið í marga daga að skrifa þessa sögu. Margar vikur, held ég. Alltaf situr hann við allan daginn þar til hann er farinn að píra augun og kveinka sér þegar hann réttir úr loppnum fingrunum. En nú hefur hann skrifað, hægt og vandlega, Og lýk ég þar Brennu-Njáls sögu og hann ætlar ekki að skrifa meira í dag.
Sagan af Gunnari og Njáli hefur átt hug minn allan en nú þegar ég hef drukkið í mig orðin og atburðina og tilfinningarnar finn ég vakna forvitni um umhverfi mitt.
Ég þekki púltið og ég þekki gluggaboruna og ég þekki lampann, en annað þekki ég ekki.
Stundum marrar í þiljuðu gólfinu og það er moldarlykt í loftinu. Hér eru önnur púlt og aðrar bækur liggja á þeim.
„Er einhver þar?“ spyr ég út í tómið.
Ég sé blöðin á hinum púltunum bærast.
„Nú, nú, sú stóra er bara vöknuð,“ segir eitt handritið.
„Þá verð ég víst send heim í Skálholt,“ heyrist í bókinni sem liggur með mér á púltinu.
„Hvað meinarðu?“ spyr ég.
„Ég er hér bara í heimsókn,“ segir gamla bókin. „Ég geymi söguna af Njáli og sonum hans. Nú hefur hún verið afrituð í
þig og ég fer aftur heim.“
„Á ég þá líka að geyma söguna af Njáli?“ spyr ég spennt.
„Er það mitt hlutverk?“
„Ekki bara hana,“ segir gamla handritið. „Hann hefur víst gaman af sögum, höfðinginn sem pantaði þig. Hann vill stærsta sagnahandrit á Íslandi. Þú verður ekki bara bók, þú verður bókasafn. Príorinn hefur pantað handrit af öllu Íslandi til þess að afrita í þig.“
(9-10)