Úr Önnu á Eyrarbakka
Ég var nýkomin á Eyrarbakka í skáldahús, ég ætlaði að skrifa barnasögu um kvíðann. Ég var nýbúin að komast að því að ég væri haldin kvíða. Ég mátti ekki hreyfa mig. Ég lifði lífi mínu andspænis aftökusveit. En sannleikurinn leynist í sögum. Og mér finnst gaman að ferðast þótt það sé varla ferðalag að skutlast á Eyrarbakka. En ég kann þó hvergi betur við mig en úti á landi. Samt fer ég aldrei neitt því þá byrja ég að hugsa. Þú átt eftir að lenda í árekstri, flugvélin hrapar. Það kviknar í húsinu. En nú vildi vinkona mín endilega keyra mig og mér datt ekki í hug að segja henni frá hugsunum mínum. Það gæti valdið árekstri. Ég bvonaði bara að bíllinn héldist á veginum. Ég tek það fram að ég heiti Anna, Anna já. Og vonast eftir að það verði hægt að tala við þig, að þú yfirgefir mig ekki á blaðsíðu þrettán eða skellir aftur bókinni, því ég er að tala við þig sem ég veit ekki hver ert, kannski er ég þó að tala við part af sjálfri mér sem er í felum eða er mér hulinn. Já. Hér knýr brimið dyra, brimgnýrinn dunar einsog blóðið í æðunum, alveg sama hljóðið og þegar skútur og bátar fórust í brimgarðinum og líkunum skolaði á land, ekkjurnar grétu. Já. Bíddu, hvert var ég komin?
(9)