Um bókina
Ástarsaga fjallar um unga Reykjavíkurstúlku og franskan fréttaljósmyndara sem kynnast og verða ástfangin í aðdraganda fundar Reagan Bandaríkjaforseta og Gorbatsjev, leiðtoga Sovétríkjanna, í Höfða í Reykjavík haustið 1986, fundar sem átti eftir að breyta heimssögunni.
Sagan gerist á fimm dögum í kringum fundinn og næstu fimm ár á eftir, þar sem allt var smám saman til lykta leitt og veröldin losuð úr viðjum.
Úr bókinni
1986
Ísland nötraði af spenningi. Í auga stormsins var settur á fundur heimsleiðtoga vesturs og austurs: Ronald Wilson Reagan, forseti Bandaríkjanna, og Mikhail Sergevitsj Gorbatsjev, aðalritari Kommúnistaflokks Sovétríkjanna og leiðtogi þeirra, ákváðu að hittast í Reykjavík, höfuðborg Íslands, haustið 1986. Heimsbyggðin batt vonir við þíðu í samskiptum öxulveldanna, eftir áratugalangt ískalt stríð þar sem ógnanir og köpuryrði gengu á víxl og fjöldi gereyðingarvopna var notaður sem vogarafl og ballest í andstyggilegri keppni um yfirráð og örlög þjóða og heimsbyggðarinnar allrar.
Reykjavík var full af fjölmiðlafólki frá öllum heimsins hornum, bandarískum og sovéskum öryggisvörðum og leyniþjónustumönnum. Borgin titraði bókstaflega af eftirvæntingu og stressi því í hönd fór heimsviðburður sem öll veröldin beindi athyglinni að. Gorbatsjev og Reagan höfðu með tíu daga fyrirvara fastsett að hittast á Íslandi til þreifinga um málefni vígbúnaðar á landi og í geimi, mannréttindi og ýmis önnur deilumál áður en til meginfundar þeirra kæmi í Washington 1987. Þar stóð svo til að gera bindandi samninga um þessi mál á grundvelli tilslakana. Reykjavíkurfundurinn átti því að vera nokkurs konar undirbúningsfundur, stuttur og ekki endilega mjög veigamikill, til að skipuleggja framtíðarviðræður, en margir bundu þó meiri vonir við hann og að eitthvað yrði jafnvel fast í hendi að honum loknum.
Reagan hafði lent ásamt fylgdarliði, þar á meðal George Shultz utanríkisráðherra, fimmtudagskvöldið 9. október og átti að gista í sendiherrabústað Bandaríkjanna við Laufásveg. Bandaríkjaforseti lagði sérstaka áherslu á að um væri að ræða einmitt undirbúningsfund fyrir raunverulegan leiðtogafund í náinni framtíð. Auk afvopnunarmála stæði til að ræða mannréttindamál og önnur staðbundin ágreiningsefni stórveldanna, svo sem sovéska íhlutun í Mið-Ameríku, Afganistan, Suðaustur-Asíu og Afríku.
„Við höldum til Reykjavíkur í friðarskyni. Við komum til þessa fundar fyrir frelsið. Og förum vongóðir,“ var haft eftir Reagan í Washington fyrir brottförina til Íslands.
Gorbatsjev var væntanlegur laust eftir hádegi daginn eftir og ætlaði að halda til í skipi í Reykjavíkurhöfn. Hann hafði látið í veðri vaka að Sovétmenn vildu fyrst og fremst hindra þá dreifingu geimvopna sem fyrirhuguð var í nýrri geimvarnaáætlun Bandaríkjanna og gera samkomulag um fækkun eldflauga í Evrópu.
Í rauninni var heldur óljóst hverju leiðtogarnir hugðust áorka með Íslandsfundinum miðað við þær ólíku áherslur sem þeir komu með að borðinu.
Gorbatsjev hafði stungið upp á Reykjavík sem fundarstað, eða annarri evrópskri borg, og Reagan þá valið Ísland, enda friðsamt lítið ríki, nokkuð miðsvegar fyrir báða, auk þess sem Reagan átti herstöð í landinu.
Áætlað var að um 800 milljónir sjónvarpsáhorfenda myndu sjá útsendingar frá höfuðborg Íslands þessa daga. Auk þeirra hátt í þúsund blaðamanna sem nú voru komnir til landsins var allt að hálft þúsund komið eða væntanlegt í fylgdarliði leiðtoganna tveggja, þar á meðal læknar og hjúkrunarlið. Skotheldri Opel Senator-bifreið bandaríska forsetans hafði verið skipað upp úr einu Sambandsskipanna strax á mánudag. Búið var að flytja fleiri skothelda bíla til landsins og skipulögð hafði verið rýming á húsum í nágrenni Höfða í Borgartúni, þar sem fundurinn færi fram.
Ekki var nóg með að ráðist hefði verið í tafarlausa vegagerð á borgarsvæðinu vegna fundarins heldur var dýpkun Reykjavíkurhafnar flýtt um hálft ár svo taka mætti við stærri skipum á Ægisgarði. Þar á meðal erlendum skipum sem nýtt voru sem gististaðir fyrir það aðkomufólk sem ekki hafði fundið sér pláss á helstu hótelum borgarinnar, sem ríkisstjórnin hafði tekið leigunámi vegna atburðarins, eða í herbergjum á einkaheimilum, sem Ferðaskrifstofa ríkisins hafði forgöngu um að útvega. Reykvíkingar voru beðnir um að borða og drekka heima hjá sér meðan á öllu þessu brölti stæði til að létta álagi af veitingahúsum borgarinnar. Íbúar í nágrenni bandaríska sendiráðsins höfðu orðið að fjarlægja bíla sína úr hverfinu. Stjórnvöld á Íslandi gerðu sitt ítrasta til að mæta kröfum og þörfum stórveldanna vegna fundarins um helgina. Borgin var, ef svo má segja, í hers höndum.
Tóbaksreykurinn var næstum áþreifanlegur í dauflýstum sal Fógetans við Aðalstræti þetta regnblauta fimmtudagskvöld og tónlist, hlátrasköll og glasaglamur bylgjuðust um rýmið svo að gömlu dökku bjálkaveggirnir skulfu. Halla sat þarna með tveimur bestu vinum sínum, Atla og Maliki, yfir vínglasi í einu horninu og umræðuefnið var auðvitað fundurinn.
Það varð að segjast að litlu, syfjuðu Reykjavík veitti ekki af smávegis innblæstri og upptakti til að lifna aðeins við og fá fólk út á göturnar þetta haustið. Vinirnir töluðu um hversu hressandi það væri í rauninni, og hreinlega frelsandi, að heyra önnur tungumál og sjá fleiri hörundsliti. Öryggiskröfurnar væru þó algjörlega bilaðar og skrítið og jafnvel ógnvekjandi að sjá allan þann öryggisviðbúnað sem smám saman var að taka á sig mynd í Borgartúninu og alls staðar þar sem Reagan og Gorbatsjev myndu fara um komandi helgi. Um stund hefði mátt halda að Reykjavík væri á pari við gamalgrónar evrópskar heimsborgir. Þrátt fyrir alvarleika viðburðarins væri koma leiðtoganna eins og gott spark í rassinn.
„Við skulum skála fyrir því að Reagan og Gorbatsjev tali af einhverri alvöru um að fækka kjarnorkuvopnum og stingi tappanum í þetta bölvaða kjarnorkuvopnakapphlaup,“ sagði Halla alvörugefin og þau klingdu glösum sínum svo upp úr skvettist yfir snjáð borðið. Þeim fannst mögulegt að litla Ísland gæti fóstrað fræ nýrrar afvopnunarstefnu. Nú væri kannski hægt að þíða upp hið ískalda og klisjukennda störustríð stórveldanna. Það hafði staðið allt frá lokum síðari heimsstyrjaldar og virtist engan endi ætla að taka, þrátt fyrir að vera augljós helstefna. Þetta væri vonandi nýtt upphaf og mögulega líka lóð á vogarskálar þess að koma bandaríska hernum af landinu og taka upp alvöru friðarstefnu á Íslandi. Níu fjölmennar Keflavíkurgöngur til að mótmæla veru bandaríska hersins á Íslandi höfðu ekki haft afgerandi áhrif til þessa. Eyjarskeggjar skiptust í andstæðar fylkingar varðandi herstöðina og umræðan var oft hörð og óvægin.
Maliki sagðist hafa tekið þátt í kertafleytingu á Tjörninni með samtökum herstöðvaandstæðinga í ágúst.
„Ef fólk hefði vitað þá að karlhlunkarnir væru á leiðinni hingað til að ræða mannréttinda- og afvopnunarmál, en ekki til Genf eins og í fyrra, hefði verið hægt að skipuleggja eitthvað meira en kertafleytingu,“ sagði hún glaðhlakkalega og hristi síðan, svartan makkann svo hringlaði í stórum eyrnalokkum, alltaf tilbúin í andóf og borgaralega óhlýðni fyrir málstað friðar. „Við hefðum sent út kall til friðarsinna um víða veröld að koma hingað og hjálpa okkur að mótmæla hersetu og helvítis helstefnunni!“
Halla bað hana aðeins að taka því rólega, hún hefði heyrt af því inni á ritstjórn Moggans að íslensk friðarsamtök væru í skyndi að undirbúa friðarfund um helgina. Þannig væri nú ekki allt ónýtt í þeim efnum.
Atli brosti ljúflega og sagðist ekkert skilja í Maliki að vilja losna við bandarísku hermennina, þeir væru þvílíkt myndarlegir í einkennisbúningunum sínum. Hann hefði spilað á vellinum við einhverja orðuveitingarathöfn í fyrra og bókstaflega fengið í hnén, standandi þarna með fiðluna sína að spila kliðmjúka klassík fyrir þennan vörpulega hóp.
„Og það var þarna einn ansi flottur sem mér fannst vera að blikka mig ̶ ég fipaðist næstum því í verkinu sem ég var að spila, hann var svo myndarlegur!“ Það tísti í Atla af hlátri.
„Æ, Atli, þú ert slíkur erkihommi að það er bara fyndið,“ sagði Halla og sagðist vita að hann styddi hlutlaust Ísland, hvað sem öllu brölti íturvaxinna hermanna hér uppi á skerinu liði.
„Ég skil alveg að þér finnist herinn góð búbót í strákaúrvalið. En að hafa bandaríska herinn hér býr til einhvers konar þverstæðu. Hann gerir okkur í senn að agni og getur mögulega verndað okkur að einhverju leyti en vopnin sem stórveldin eru að leika sér með munu hvort sem er þurrka okkur af yfirborði jarðar. Því er þetta dæmt til að mistakast. Það er skást að hafa hér engan her og kjósa frið,“ sagði Halla.