Æviatriði
Steinunn Ásmundsdóttir fæddist 1. mars árið 1966 í Reykjavík. Hún er rithöfundur, ljóðskáld og blaðamaður. Fyrsta ljóðabók hennar, Einleikur á regnboga, kom út árið 1989. Síðan hefur hún sent frá sér fleiri ljóðabækur, auk skáldsagna, sem sumar eru byggðar á ævisögulegum heimildum - svokallaðar sannsögur.
Steinunn starfaði lengst af sem blaðamaður og ljósmyndari en hefur einnig unnið sem landvörður og sinnt náttúruvernd. Hún hefur dvalið lengi erlendis en er nú búsett í Reykjavík.
Árið 2016 opnaði hún hugverkavef sinn ordlist.is þar sem bróðurpartur eldri verka hennar er birtur. Síðan þá hefur hún helgað sig ritstörfum að mestu. Auk bóka hafa birst eftir hana ljóð, sögur og greinar í safnritum, tímaritum og blöðum og hún hefur gert þætti/innslög á ljósvakamiðlum.
Frá höfundi
Fyrsta ljóðið orti ég fimmtán ára gömul, árið 1981, og Almenna bókafélagið gaf út fyrstu ljóðabókina mína 1989, Einleik á regnboga.
Ég hrærðist meðal ungskáldanna í Reykjavík á þessum árum og allt mitt snerist um skáldskapinn og blaðamennsku á Mogganum. Við stofnuðum nokkur bókmenntatímaritið Andblæ sem kom út í nokkur ár og héldum úti reglulegum bókmenntakvöldum í listasal Nýhafnar í Hafnarstræti um árabil, þar sem öll helstu skáld landsins og grasrótarskáldin komu fram. Næsta ljóðabók, Dísyrði, kom út 1992.
Þetta voru skemmtilegir og frjóir tímar, svona eftir á að hyggja, þótt umrót þeirra hafi iðulega verið þungbært.
Mér leiddist Reykjavík heldur á þessum árum og sótti mjög út fyrir landsteina, til lengri og skemmri dvala. Þar tengdist ég einnig skáldskap og skáldum, m.a. í Mexíkó og Þýskalandi, þar sem ég var lengi.
Á sumrum kom ég svo stundum heim og vann sem landvörður því íslenska náttúran var mér kær og lífsnauðsynleg. 1996 sendi ég frá mér ljóðabókina Hús á heiðinni.
Um þrítugt var ég komin með nóg af flandri og þráði það eitt að setjast um kyrrt, fjarri borgum og skarkala. Svo fór að ég settist að á Egilsstöðum árið 1996, við hið volduga Lagarfljót og víðáttumikla skóga, í námunda við öræfin sem ég ann af öllu hjarta og sjóinn sem er nauðsynlegur til að ná andanum. Þarna eignaðist ég fjölskyldu og vini og vann lengst af sem blaðamaður og ljósmyndari.
Þannig liðu rúm tuttugu ár, full af verkefnum og fjöri, en ég skrifaði engin ljóð því öll mín skapandi orka fór í fjölmiðlavinnuna.
Laust eftir 2014 byrjaði ég að á ný að finna fyrir viðstöðulausu hungri eftir að tjá mig aftur í skáldskap og 2016 skoraði ég sjálfa mig á hólm, ef svo má segja, og gekk inn í flæðið að nýju.
Það var satt að segja eins og skrúfað hefði verið frá krana, eins og byggst hefði upp lager af hugmyndum sem þarna vildu sprengja sig út.
Þetta sama ár bjó ég mér til hugverkavefinn ordlist.is og setti þar inn gömlu ljóðabækurnar mínar, þýðingar á mínum ljóðum og mínar þýðingar á ljóðum annarra, og allt mögulegt annað efni sem ég hafði sent frá mér á fyrri árum.
Samhliða vann ég ljóð frá Mexíkódvöl minni, sem komu út 2017 undir nafninu Hin blíða angist, og í stóra bók 70 ljóða sem kom út 2018 með heitinu Áratök tímans. Það sama ár kom einnig út fyrsta skáldsagan mín, Manneskjusaga, sem er svokölluð sannsaga og hlaut afar góðar viðtökur.
Nú héldu mér engin bönd, ljóð og sögur streymdu fram og ég mátti hafa mig alla við að vinna með það sem leitaði fast á hugann.
Árið 2019 tók ég mig upp frá Egilsstöðum og flutti aftur í minn gamla fæðingarhrepp Reykjavík. Það ár kom út ljóðabók mín Í senn dropi og haf. Skáldsagan Ástarsaga kom svo út 2022, sem hljóðbók og rafbók, og 2023 prentuð. Ljóðabókin Fuglamjólk, með 69 ljóðum, var gefin út haustið 2023.
Þannig hef ég, frá því að ég hóf aftur að skrifa skáldskap, sent frá mér sex bækur á sjö árum og þær orðnar níu talsins þegar þetta er skrifað. Og finn að ég er rétt að byrja. Aldurinn, þroski, reynsla og aukið svigrúm gefa tækifæri til að sinna skáldskapnum jafnt og þétt og það er mér ævarandi fagnaðarefni að hafa aftur fundið andagiftina og geta sökkt mér í sköpun. Hún er kjarni lífs míns. Orðin eru mér allt.
Steinunn Ásmundsdóttir, september 2024
Verðlaun og viðurkenningar
Tilnefningar
2021 - Tilnefning til Íslensku hljóðbókaverðlaunanna, Storytel Awards, fyrir Manneskjusögu
Greinar og umfjallanir
Fuglamjólk
Són, tímarit um ljóðlist, 21, 2023
Í senn dropi og haf
SÓN, Tímarit um óðfræði. 17/2019
Áratök tímans
SÓN tímarit um óðfræði, bls. 176, 2019
Fuglamjólk
Lesa meiraí húsinu var reimt / en líka alúð og kærleikur / ungæðislegur galsi / við elduðum dýrðlegar máltíðir / sungum margraddað / ljóð Huldu við eldhúsborðið / gáfum fósturkrummanum / gammeldansk úr teskeið / sváfum vært við ugluvæl af heiðinni / söng stelksins á snúrustaurnum / gogg krumma í morgunsárið á rúðuna. .Ástarsaga
Lesa meiraÞað varð að segjast að litlu, syfjuðu Reykjavík veitti ekki af smávegis innblæstri og upptakti til að lifna aðeins við og fá fólk út á göturnar þetta haustið. Vinirnir töluðu um hversu hressandi það væri í rauninni, og hreinlega frelsandi, að heyra önnur tungumál og sjá fleiri hörundsliti. Öryggiskröfurnar væru þó algjörlega bilaðar og skrítið og jafnvel ógnvekjandi að sjá allan þann öryggisviðbúnað sem smám saman var að taka á sig mynd í Borgartúninu og alls staðar þar sem Reagan og Gorbatsjev myndu fara um komandi helgi. Um stund hefði mátt halda að Reykjavík væri á pari við gamalgrónar evrópskar heimsborgir.Í senn dropi og haf
Lesa meiraSeint um nóttina hjólaði ég heim / gegnum skógana / drukkin af hamingju / og óhaminni orku / heldur of hratt / og smádýr á veginum / áttu fótum fjör að launa.Áratök tímans
Lesa meiraSjö mínarettur bláu moskunnar / hafa vakað yfir bænum fólks / í fjögur hundruð ár..Manneskjusaga
Lesa meiraSaga íslenskrar stúlku frá vöggu til grafar á síðari hluta tuttugustu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu og fyrstu. Í samtíma hennar var enginn skilningur á þeim ósköpum sem hún gekk í gegnum, allt var þagað í hel. Ef til vill var hún ögn á einhverfurófi og stöðugt á skjön við veröld sem var.Hin blíða angist – ljóð frá Mexíkó
Lesa meiraÉg hef ekki heyrt frá Elsu síðan / og var sagt af þarlendum yfirvöldum / að hún hljóti að vera hugarburður. / Enga konu með þessu nafni / sé nokkurs staðar að finna.Hús á heiðinni – ljóð frá Þingvöllum
Lesa meiraÁ vatnsbakkanum / maður með veiðistöng / og reynir af alefli / að fanga friðsældina.