Beint í efni

Í senn dropi og haf

Í senn dropi og haf
Höfundur
Steinunn Ásmundsdóttir
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Ljóð

Um bókina

Þessi sjötta ljóðabók höfundar hefur að geyma fjörutíu ljóð sem lýsa straumi tíma og atburða í nánd og firrð, umbreytingum, sorg og hugrekki manneskjunnar.

Ljóðin eru ferðalag konu sem brýtur sig lausa úr viðjum og hugsar á þeirri vegferð meðal annars til örlaga annarra kvenna. Rennsli vatns og tíma er alltumlykjandi og fuglar ljá frelsisþránni vængi.

Úr bókinni

Innantökur afteknar

Í seinni tíð haggar henni fátt
en áður fyrr þegar einsemdin varð ægileg
tók hún með sér koll ofan í kjallara
í miðstöðvarherbergið
batt grænt nælonband í verklegt rör.
Svo óumræðilega ósmekklegt.
Lagðist fyrir á svölum í vetrarnepju
beið þess að sofna
en dauðahrollurinn hélt vöku sinni þá sem oftar.
Skar líka þvert og lét rjóða hvíta fötu undan mayonesi
dugði ekki heldur enda skyldi það vera langsum.
Áður en árangur hafðist
grillti í veika týru og varð ratljóst.


Árar

Í miðri Evrópu
á rússnesku diskóteki
dansaði ég kósakkadans
eins og hefði ég aldrei gert annað
svo tímunum skipti
í stórum hópi ungs fólks
með ofboðslegan lífsþrótt.

Þvílík gleði!
Þvílíkur vodki.

Seint um nóttina hjólaði ég heim
gegnum skógana
drukkin af hamingju
og óhaminni orku
heldur of hratt
og smádýr á veginum
áttu fótum fjör að launa.

Ó þessi dans áranna -

 

Bróðir hennar

Eftir að hafa lifað í áttatíu ár
sagði hún loksins frá því þegar hún
tók við jakkafötum bróður síns í poka,
lagði þau í þvottahúsvaskinn
í mildan sápulög og volgt vatn
lét fingur sína og lófa nudda verstu blettina
en það var eins og þeir vildu ekki fara úr
hvernig sem hún hitaði vatnið og herti sápuna
kannski festu tár hennar drjúpandi í þvottavatnið
blóðið í fötunum og nakinn sársaukann í hjartanu
en þetta var eitt af því sem lifa varð með
hún skilaði ekkjunni fötunum
straujuðum í hreinum umbúðum
hafði snúið blettunum og rifunum inn
eins og harminum í brjóstinu.

Fleira eftir sama höfund

hús á heiðinni kápa

Hús á heiðinni – ljóð frá Þingvöllum

Á vatnsbakkanum / maður með veiðistöng / og reynir af alefli / að fanga friðsældina.
Lesa meira
Einleikur á regnboga kápa

Einleikur á regnboga

rauði gossjálfsalinn / brosir kátur til mín / utan frá götunni.
Lesa meira
dísyrði kápa

Dísyrði

og guðirnir búa á tindinum / jötnar við ræturnar.  
Lesa meira
hin blíða angist kápa

Hin blíða angist – ljóð frá Mexíkó

Ég hef ekki heyrt frá Elsu síðan / og var sagt af þarlendum yfirvöldum / að hún hljóti að vera hugarburður. / Enga konu með þessu nafni / sé nokkurs staðar að finna.
Lesa meira
áratök tímans kápa

Áratök tímans

Sjö mínarettur bláu moskunnar / hafa vakað yfir bænum fólks / í fjögur hundruð ár..  
Lesa meira
fuglamjólk kápa

Fuglamjólk

í húsinu var reimt / en líka alúð og kærleikur / ungæðislegur galsi / við elduðum dýrðlegar máltíðir / sungum margraddað / ljóð Huldu við eldhúsborðið / gáfum fósturkrummanum / gammeldansk úr teskeið / sváfum vært við ugluvæl af heiðinni / söng stelksins á snúrustaurnum / gogg krumma í morgunsárið á rúðuna. .  
Lesa meira
ástarsaga kápa

Ástarsaga

Það varð að segjast að litlu, syfjuðu Reykjavík veitti ekki af smávegis innblæstri og upptakti til að lifna aðeins við og fá fólk út á göturnar þetta haustið. Vinirnir töluðu um hversu hressandi það væri í rauninni, og hreinlega frelsandi, að heyra önnur tungumál og sjá fleiri hörundsliti. Öryggiskröfurnar væru þó algjörlega bilaðar og skrítið og jafnvel ógnvekjandi að sjá allan þann öryggisviðbúnað sem smám saman var að taka á sig mynd í Borgartúninu og alls staðar þar sem Reagan og Gorbatsjev myndu fara um komandi helgi. Um stund hefði mátt halda að Reykjavík væri á pari við gamalgrónar evrópskar heimsborgir.
Lesa meira
manneskjusaga kápa

Manneskjusaga

Saga íslenskrar stúlku frá vöggu til grafar á síðari hluta tuttugustu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu og fyrstu. Í samtíma hennar var enginn skilningur á þeim ósköpum sem hún gekk í gegnum, allt var þagað í hel. Ef til vill var hún ögn á einhverfurófi og stöðugt á skjön við veröld sem var.
Lesa meira