Um bókina
Þessi sjötta ljóðabók höfundar hefur að geyma fjörutíu ljóð sem lýsa straumi tíma og atburða í nánd og firrð, umbreytingum, sorg og hugrekki manneskjunnar.
Ljóðin eru ferðalag konu sem brýtur sig lausa úr viðjum og hugsar á þeirri vegferð meðal annars til örlaga annarra kvenna. Rennsli vatns og tíma er alltumlykjandi og fuglar ljá frelsisþránni vængi.
Úr bókinni
Innantökur afteknar
Í seinni tíð haggar henni fátt
en áður fyrr þegar einsemdin varð ægileg
tók hún með sér koll ofan í kjallara
í miðstöðvarherbergið
batt grænt nælonband í verklegt rör.
Svo óumræðilega ósmekklegt.
Lagðist fyrir á svölum í vetrarnepju
beið þess að sofna
en dauðahrollurinn hélt vöku sinni þá sem oftar.
Skar líka þvert og lét rjóða hvíta fötu undan mayonesi
dugði ekki heldur enda skyldi það vera langsum.
Áður en árangur hafðist
grillti í veika týru og varð ratljóst.
Árar
Í miðri Evrópu
á rússnesku diskóteki
dansaði ég kósakkadans
eins og hefði ég aldrei gert annað
svo tímunum skipti
í stórum hópi ungs fólks
með ofboðslegan lífsþrótt.
Þvílík gleði!
Þvílíkur vodki.
Seint um nóttina hjólaði ég heim
gegnum skógana
drukkin af hamingju
og óhaminni orku
heldur of hratt
og smádýr á veginum
áttu fótum fjör að launa.
Ó þessi dans áranna -
Bróðir hennar
Eftir að hafa lifað í áttatíu ár
sagði hún loksins frá því þegar hún
tók við jakkafötum bróður síns í poka,
lagði þau í þvottahúsvaskinn
í mildan sápulög og volgt vatn
lét fingur sína og lófa nudda verstu blettina
en það var eins og þeir vildu ekki fara úr
hvernig sem hún hitaði vatnið og herti sápuna
kannski festu tár hennar drjúpandi í þvottavatnið
blóðið í fötunum og nakinn sársaukann í hjartanu
en þetta var eitt af því sem lifa varð með
hún skilaði ekkjunni fötunum
straujuðum í hreinum umbúðum
hafði snúið blettunum og rifunum inn
eins og harminum í brjóstinu.