Um bókina
Saga íslenskrar stúlku frá vöggu til grafar á síðari hluta tuttugustu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu og fyrstu. Í samtíma hennar var enginn skilningur á þeim ósköpum sem hún gekk í gegnum, allt var þagað í hel. Ef til vill var hún ögn á einhverfurófi og stöðugt á skjön við veröld sem var.
Hversu margt getur farið úrskeiðis í lífi einnar manneskju? Björg fréttir á unga aldri að hún sé ættleidd. Með þroskaröskun í farteskinu upplifir hún sig sífellt á skjön við samfélagið og finnst hún hvergi tilheyra. Hún heldur út í lífið í leit að viðurkenningu en mætir hverju áfallinu á fætur öðru. Sagan gerist á tímum þegar samfélagið hafði lítinn sem engan skilning eða þolinmæði í garð þeirra sem ekki féllu inn í rammann.
Manneskjusaga er skáldævisaga, byggð á raunverulegum atburðum.
Úr bókinni
Vorið heldur innreið sína með veðursæld og náttúran milli fjalls og fjöru titrar af nýfengnum lífsþrótti. Um sauðburðinn er vitlaust að gera og Björg og Skeggi skiptast á um að vaka í fjárhúsunum. Hún lærir að hjálpa rollunum og er nösk við það. Þótt henni finnist verkið hálfógeðslegt eru lömbin samt indæl þegar búið er að kara þau. Björg og Skeggi eru á sinn hátt samhent í verkunum og á milli þeirra hefur myndast einhver vísir að væntumþykju. Hann hefur samt ævinlega töglin og hagldirnar í öllum þeirra samskiptum. Stundum lætur hann Björgu í friði í einhverja daga eða vikur og það eru í hennar huga góðir tímar, ef til vill þeir bestu sem hún hefur átt.
Hún fer að skrifa sig Björgu Skeggjadóttur í stað Guðmundsdóttur aftan á umslögin til Önnu Siggu og segir að nú megi vinkona hennar ekki hlæja að sér, hún ætli nefnilega að verða bóndakona þegar hún verði fullorðin.
Þegar sauðburði lýkur í maí verður Skeggi fimmtugur og heldur upp á það með því að drekka sig nærri dauðan. Hann fær í afmælisgjöf frá frændum sínum óvenjustóra og fagurgræna brennivínsflösku og leggst í svaðalegt fyllirí sem endar með því að hann gengur algerlega af göflunum og hótar að skjóta Björgu. Hann gengur í skrokk á henni í eldhúsinu þannig að úr henni blæðir. Eina ástæðan fyrir því að hann drepur hana ekki á staðnum er hversu ringlaðan margra daga ölvunin gerir hann. Hún nær að lemja karlinn í aðra hnéskelina með pönnu svo hann fellur við og hún kemst þá út úr eldhúsinu fram á ganginn og hringir á nálægan bæ og biður um hjálp. Hún er fljótlega sótt og þannig forðað úr greipum Skeggja. Hún er hýst á nágrannabænum um nóttina.
„Pabbi lá í því í fjóra daga eftir afmælið án þess að láta renna af sér,“ segir Björg hjá yfirvaldi sveitarinnar, algerlega stjörf og með glóðaraugu á báðum augum, auk annarra áverka um allan líkamann.
„Hann varð alveg brjálaður, hótaði að skjóta mig með einhleypunni og sló mig víða, meðal annars á kjaftinn þannig að ég fékk fossandi blóðnasir. Þá fékk ég alveg nóg og hringdi hingað og var strax sótt,“ útskýrir hún.
Hún er spurð hvort Skeggi sé sá sem hafi gert henni barn þegar hún kom fyrst á Torfu og nú viðurkennir hún að svo sé. „Já, það var hann, og hann er enn að ráðast á mig.“ Nú bresta allar varnir og flóðgátt opnast
„Hann notar mig eins og tusku, þetta vita allir hér en enginn gerir neitt og enginn þykist vita af þessu!“
Skeggi hefur verið sóttur heim á Torfu þar sem allt er mölvað og útælt og er dröslað illa til reika til yfirvaldsins.
Andrúmsloftið er þrúgandi á kontórnum. Þrekvaxinn embættismaðurinn situr ábúðarfullur á grænum og ískrandi skrifborðsstól og trommar með fingrunum á gljáfægt palisanderborðið hlaðið pappírshaugum.
„Þú þrætir sem sagt fyrir að hafa gengið í skrokk á Björgu Guðmundsdóttur sextán ára gamalli og barið hana sundur og saman síðastliðna nótt? Og að hafa áður nauðgað þessari blóðdóttur þinni rétt kominni á fermingaraldur?“ spyr yfirvaldið og hvessir ströng augun á útjaskaðan og glertimbraðan bóndann á Torfu, sem húkir þegjandi gegnt honum og blimskakkar votum og rauðsprengdum augum flóttalega niður í gólfið.
„Björg hefur látið uppskátt um að þú sért faðir að fóstri sem þurfti að eyða hjá henni á sjúkrahúsinu, svo ekki þýðir fyrir þig að þverskallast við þessu. Er þér ljóst að ef fólkið sem ættleiddi Björgu lætur sér detta í hug að kæra þig geturðu lent í verulegum vandræðum? Og nú stórsér á henni eftir barsmíðar, fíflið þitt. Geturðu ekki reynt að haga þér, mannfjandi?“
Björg er send suður og samstundis vistuð á Kleppi þegar þangað er komið, þar sem hún er í nokkra mánuði.