Um bókina
Einleikur á regnboga er fyrsta ljóðabók Steinunnar Ásmundsdóttur, skrifuð þegar hún var tuttugu og þriggja ára gömul. Bókin er sprottin upp úr reynslu Steinunnar af dekkri hliðum lífsins. Bókin lýsir í heild ákveðnu þroskaferli sem vísar til bjartari tíma.
Úr bókinni
Grár dagur
Vindurinn blæs
í andlit,
gráleit híma þau
við veggi
gleymskunnar.
Húskumbaldar
skekjast til,
hljóða þreytulega
undan fargi áranna
- fólksins
sem vindbarið
er sífellt
á undanhaldi.
Mynd
Þungar hugsanir
lögðu blómsveig haturs
um höfuð hennar.
Var ekki óbærileikinn
svo léttur
allt til enda víðáttunnar
og fram af hengiflugi
sannleikans?
Kvölddagskrá til morguns
Er þá rétt að hugsa yfirleitt
um skráargöt hugans?
Lykill horfinn
og vitavonlaust
að sjá inn með aðeins öðru auganu.
Góðan dag!
Tíminn er ómælanlegur,
við hefjum dagskrána
með nýjum lykli:
Opnið
og gjörið svo vel að ganga innfyrir.
Mánudagsmorgunn
Regnið fellur lóðrétt
á svartar gangstéttir
og ilmur gróðursins
lokast inni
í þungum dropunum,
hrapandi á regnhlífar
borgarinnar.
Vitundin mýkist
í gráleitum morgninum
gáruðum vorpollum
rauði gossjálfsalinn
brosir kátur til mín
utan frá götunni.