Um bókina
Í sjöundu ljóðabók sinni heldur Steinunn Ásmundsdóttir uppteknum hætti og yrkir af um líf og tíma, tengsl við náttúruna, ójöfnuð og firringu, en fyrst og fremst um manneskjuna sjálfa í flóknum vefnaði tilverunnar.
Úr bókinni
Á Fornusöndum
lít ég langt og skammt
um Fornusanda
þeir sandar eru síkvikir
eftir sjónarhólum áranna
hillingar í fjarska:
sálnaborgir, lífslindir, óminnislundir
líflínur og rásir atburða
sveigjast í sandöldum
kviksyndi tímans
soga í sig sorgir og ósigra
í yfirborðshreyfingu Fornusanda
byltist duft minninganna
djúpt við þungt hjarta sandsins
liggur vísir að sannleik okkar
Gjábakki
stóð fyrrum á grasbala
á brún Ameríkuflekans
ofan Hrafnagjár
tvílyft hús með valmaþaki
hannað af húsameistara ríkisins
í húsinu var reimt
en líka alúð og kærleikur
ungæðislegur galsi
við elduðum dýrðlegar máltíðir
sungum margraddað
ljóð Huldu við eldhúsborðið
gáfum fósturkrummanum
gammeldansk úr teskeið
sváfum vært við ugluvæl af heiðinni
söng stelksins á snúrustaurnum
gogg krumma í morgunsárið á rúðuna
við bárum ljós í þetta hús
við bárum vatn í þetta hús
og mokuðum upp úr klósettinu
þegar gleymdist að fylla á vatnstankinn
toguðum háværa ljósvélina í gang
þegar rökkvaði að áliðnu sumri
og dísilkeimurinn var okkar reykelsi
sátum í varpanum undir gaflinum
sungum við gítarundirspil
drukkum í okkur náttúruna
æskuna og sumarkvöldið
- veröld okkar var áfeng
nú standa snúrustaurarnir einir
söngurinn þagnaður
draugarnir horfnir í hraunborgina
enginn stelkur, enginn krummi
húsið brunnið til kaldra kola
gróið yfir rústina
Við Knarrarós
bogi jarðkringlu hnífskarpur
dreginn svarblár við ljósan himin
þar sem nótt mætir degi
og roðagyllt sól gengur til viðar
við sjónarrönd farskip
selir á útskerjum
undir drynur þungt haf
hvítfextrar öldu
rýkur af þangi í fjöru
rauðar marflær á þönum
hlaupa undan flóði
togkröftum tungls
allt rís
allt hnígur