Beint í efni

Fuglamjólk

Fuglamjólk
Höfundur
Steinunn Ásmundsdóttir
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Ljóð

Um bókina

Í sjöundu ljóðabók sinni heldur Steinunn Ásmundsdóttir uppteknum hætti og yrkir af um líf og tíma, tengsl við náttúruna, ójöfnuð og firringu, en fyrst og fremst um manneskjuna sjálfa í flóknum vefnaði tilverunnar.

Úr bókinni

Á Fornusöndum


lít ég langt og skammt
um Fornusanda

þeir sandar eru síkvikir
eftir sjónarhólum áranna

hillingar í fjarska:
sálnaborgir, lífslindir, óminnislundir

líflínur og rásir atburða
sveigjast í sandöldum

kviksyndi tímans
soga í sig sorgir og ósigra

í yfirborðshreyfingu Fornusanda
byltist duft minninganna

djúpt við þungt hjarta sandsins
liggur vísir að sannleik okkar

 

Gjábakki

stóð fyrrum á grasbala
á brún Ameríkuflekans

ofan Hrafnagjár
tvílyft hús með valmaþaki
hannað af húsameistara ríkisins

í húsinu var reimt
en líka alúð og kærleikur
ungæðislegur galsi
við elduðum dýrðlegar máltíðir
sungum margraddað
ljóð Huldu við eldhúsborðið
gáfum fósturkrummanum
gammeldansk úr teskeið
sváfum vært við ugluvæl af heiðinni
söng stelksins á snúrustaurnum
gogg krumma í morgunsárið á rúðuna
við bárum ljós í þetta hús
við bárum vatn í þetta hús
og mokuðum upp úr klósettinu
þegar gleymdist að fylla á vatnstankinn
toguðum háværa ljósvélina í gang
þegar rökkvaði að áliðnu sumri
og dísilkeimurinn var okkar reykelsi
sátum í varpanum undir gaflinum
sungum við gítarundirspil
drukkum í okkur náttúruna
æskuna og sumarkvöldið
- veröld okkar var áfeng

nú standa snúrustaurarnir einir
söngurinn þagnaður
draugarnir horfnir í hraunborgina
enginn stelkur, enginn krummi
húsið brunnið til kaldra kola

gróið yfir rústina

 

Við Knarrarós

bogi jarðkringlu hnífskarpur
dreginn svarblár við ljósan himin
þar sem nótt mætir degi
og roðagyllt sól gengur til viðar

við sjónarrönd farskip
selir á útskerjum
undir drynur þungt haf
hvítfextrar öldu

rýkur af þangi í fjöru
rauðar marflær á þönum
hlaupa undan flóði
togkröftum tungls

allt rís
allt hnígur

Fleira eftir sama höfund

hús á heiðinni kápa

Hús á heiðinni – ljóð frá Þingvöllum

Á vatnsbakkanum / maður með veiðistöng / og reynir af alefli / að fanga friðsældina.
Lesa meira
Einleikur á regnboga kápa

Einleikur á regnboga

rauði gossjálfsalinn / brosir kátur til mín / utan frá götunni.
Lesa meira
dísyrði kápa

Dísyrði

og guðirnir búa á tindinum / jötnar við ræturnar.  
Lesa meira
hin blíða angist kápa

Hin blíða angist – ljóð frá Mexíkó

Ég hef ekki heyrt frá Elsu síðan / og var sagt af þarlendum yfirvöldum / að hún hljóti að vera hugarburður. / Enga konu með þessu nafni / sé nokkurs staðar að finna.
Lesa meira
áratök tímans kápa

Áratök tímans

Sjö mínarettur bláu moskunnar / hafa vakað yfir bænum fólks / í fjögur hundruð ár..  
Lesa meira
í senn dropi og haf kápa

Í senn dropi og haf

Seint um nóttina hjólaði ég heim / gegnum skógana / drukkin af hamingju / og óhaminni orku / heldur of hratt / og smádýr á veginum / áttu fótum fjör að launa.
Lesa meira
ástarsaga kápa

Ástarsaga

Það varð að segjast að litlu, syfjuðu Reykjavík veitti ekki af smávegis innblæstri og upptakti til að lifna aðeins við og fá fólk út á göturnar þetta haustið. Vinirnir töluðu um hversu hressandi það væri í rauninni, og hreinlega frelsandi, að heyra önnur tungumál og sjá fleiri hörundsliti. Öryggiskröfurnar væru þó algjörlega bilaðar og skrítið og jafnvel ógnvekjandi að sjá allan þann öryggisviðbúnað sem smám saman var að taka á sig mynd í Borgartúninu og alls staðar þar sem Reagan og Gorbatsjev myndu fara um komandi helgi. Um stund hefði mátt halda að Reykjavík væri á pari við gamalgrónar evrópskar heimsborgir.
Lesa meira
manneskjusaga kápa

Manneskjusaga

Saga íslenskrar stúlku frá vöggu til grafar á síðari hluta tuttugustu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu og fyrstu. Í samtíma hennar var enginn skilningur á þeim ósköpum sem hún gekk í gegnum, allt var þagað í hel. Ef til vill var hún ögn á einhverfurófi og stöðugt á skjön við veröld sem var.
Lesa meira