Úr Borg í þoku:
Þjónn, þér ofsækið mig
Þjónn, þér ofsækið mig
hef ég þó aldrei gert neitt á hlut yðar
því horfið þér svona á mig?
ég bað ekki um sardínur, hver bað um sardínur?
ég bað ekki um krukkur, hver vill krukkur?
því skyldi ég standa hágrátandi við barinn?
aðrir gestir gera það ekki
sé tekið mið af þögn yðar og eðlislægu fúllyndi
- yður stekkur alla jafna ekki bros
er mesta furða hvað þér gleðjist þegar félagar yðar leggja leið sína hingað
já, þá er glatt á hjalla
þjónn, þér ofsækið mig
hver bað um tungl eða dómkirkju
pantaði einhver að stjörnunum hélaði af himnum á höfuð okkar?
já, hunsið mig bara, breiðið hvítan dúk á það borð sem næst er
líkt og von sé á andskotanum til miðdegisverðar
því sópið þér ekki stjörnunum af gólfinu?
hver hringdi klukkum, kling, kling
óskaði einhver eftir seglum eða sæförum?
maðurinn þarna við innsta borðið er ekki sæfari
konan hans er svo ung í anda að hún verður brátt ævaforn
hann mun votta hvernig þér hegðið yður gagnvart mér
verði um það spurt í náinni framtíð
þjónn, þér ofsækið mig
þér eigið ekki skilið að ég leggi leið mína hingað
dag eftir dag eftir dag
(46-7)