Af bókarkápu:
Í þessu óvenjulega og frumlega smásagnasafni spyr Hermann Stefánsson sígildra spurninga um tengsl skáldskaparins við veruleikann, varpar skemmtilegu ljósi á samskipti kynjanna, og tekst á við íslensk samtímaskáld á borð við Davíð Oddsson, Ólaf Jóhann Ólafsson og Einar Kárason. Útkoman er verk sem Helena fagra, eiginkona sögumannsins, getur með engu móti sætt sig við.
Úr Níu þjófalyklum:
Dularfulla herbergið
En kæra Helena, það skapast engin hættuleg og persónuleg nánd þótt höfundarnafn rati fyrir tilviljun í texta eftir mig. Höfundarnafn er ekki nafn á manneskju heldur samheiti yfir ákveðna texta - og stofnun. Það gæti verið hvaða höfundur sem er, við erum búin til úr textum, ævisaga okkar er miklu fremur skýrslan um þær bækur sem við höfum fengið að láni á bókasafninu en nokkuð annað. Það gæti eins verið Enid Blyton...
Blyton, ó Enid Blyton að eilífu. Kannski má agnúast út í íhaldssama hugmyndafræði verka hennar og jafnvel kynferðislega bælingu sem brýst fram á óvæntum stöðum í textanum - en það verður að viðurkennast að hún skrifaði svo eftir var tekið. Það er þetta ,,eitthvað í bókunum hennar, þetta ,,dularfulla sem er fyrir framan allt, hvort sem það er talandi páfagaukur, matarveisla, eða drengur í dulargervi. Þetta eitthvað sem veldur því að kynslóð eftir kynsloð barna gleypir bækurnar hennar Blyton í sig. Sjáðu hana á myndinni, Helena. Mér skilst að hún hafi ekki þolað börn. Samt brosir hún líkt og sigri hrósandi, líkt og hróðug á laun yfir að hafa sett eitthvað dularfullt framan við tilveru okkar allra. Þrælbeinið á henni.
Þegar ég var barn skiptust krakkar í hópa eftir því hvort Dularfullu bækurnar, Ævintýrabækurnar eða jafnvel Fimm bækurnar voru í uppáhaldi hjá þeim. Mínar bækur voru Dularfullu bækurnar og ég reyndi að finna hið dularfulla í lífinu sjálfu.
Lífið sjálft er dularfull bók.
Og dularfyllst allra Dularfullu bókanna var Dularfulla herbergið. Dularfulla herbergið var sú eina af þeim sem ekki var til á bókasafninu, þótt hún væri þar á skrá, og ég þekkti engan sem átti hana - ég tilheyrði kynslóð barna sem lenti á milli prentana á Blyton; við fengum hana hjá eldri systkinum, foreldrum eða á bókasöfnum. Mér var útilokað að komast yfir hana þrátt fyrir dauðaleit og hef því fyrir vikið ekki lesið hana fram á þennan dag.
En ólesnar bækur vekja meiri eftirvæntingu og lotningu, kveikja fleiri frjóar hugsanir, eru áhrifameiri en þær sem maður hefur ekki lesið.
Það er frátekið hólf í heilanum á mér fyrir Dularfulla herbergið: það er læst og áreiðanlega dimmt inni í því. Ég er frá barnæsku heillaður og jafnvel gagntekinn af hugmyndinni um herbergi og í huga mér hefur dularfulla herbergið stækkað og orðið svartara þar inni eftir því sem ég hef elst. Vinkona mín var í sálfræði við Háskólann og þegar ég sagði henni frá þessu fyrir nokkrum árum kvaðst hún eiga Dularfulla herbergið og bauðst til að lána mér hana, hafði raunverulegar áhyggjur af því að ég væri að koma mér upp alvarlegri duld. Ég afþakkaði pent, herbergið væri ekki lengur dularfullt ef ég læsi bókina núna. Það væri enis og að ljóstra upp leyndarmáli töframanna, kveikja á villuljósi í dularfulla herberginu.
En árin hafa liðið og herbergið stækkað í heilabúinu á mér. Það er runnið upp fyrir mér að ég er staddur inni í herberginu en ekki fyrir utan það.
Einhvern daginn ætla ég að gera eitthvað í þessu með dularfulla herbergið.
(71-3)