Beint í efni

Sjónhverfingar: Fjarvistarsannanir fyrir íslenskan veruleika

Sjónhverfingar: Fjarvistarsannanir fyrir íslenskan veruleika
Höfundur
Hermann Stefánsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Fræðibækur

Af bókarkápu:

Sjónhverfingar er hverfult inngangsrit nýrrar og vaxandi fræðigreinar sem kalla mætti íslenska menningarfræði. Höfundur sviptir hér hulunni af ýmsum hliðum samtímans, ekki síst þeirri tegund menningar sem venjulega er skilgreind sem lágmenning eða fjöldamenning.

Meðal viðfangsefna bókarinnar er hvalurinn Keikó, sjómannadagurinn, dauði Díönu prinsessu, auglýsingar á smjörlíki, dömubindum, og hársápu, týnd skáldsaga eftir Halldór Laxness, skyndibitastaðir, ríkjandi viðhorf, ljósmyndir, fatafellur, falsanir og auðkennahryðjuverk.

Höfundur sækir hugmyndir sínar til frönsku fræðimannanna Rolands Barthes og Jeans Baudrillard og er fyrsti hluti bókarinnar helgaður hugmyndum þeirra. Í öðrum hluta eru sömu hugmyndir útfærðar með hliðsjón af íslenskum veruleika en í þriðja hluta bókarinnar fer höfundurinn sínar eigin leiðir og dregur í efa hefðbundnar markalínur fræða og skáldskapar.

Úr Sjónhverfingum:

Samtaka sjómenn
Sjómennirnir á skipinu Júlla Dan ÍS 19 frá Ísafiðri voru við veiðar í rjómablíðu í Smugunni fyrir helgi. Aflanum var landað á Þórshöfn á Langanesi á miðvikudag. Nægur tími gafst því til að halda heim í faðm fjölskyldu og vina fyrir sjómannadaginn sem í dag er haldinn hátíðlegur um allt land í sextugasta skipti.

Myndin er táknmynd sjómanna á sjómannadaginn, sameiningartákn þeirra, baráttuandinn holdi klæddur. Það er eitthvað óvenjulega sterkt við þessa blaðaljósmynd, eitthvað sem singur. Hún sendir mann á flug þótt mennirnir á myndinni rembist við að halda fluginu í skefjum, toga eitthvað af himnum í átt til jarðar. Innbyggð hrakfarasaga í henni, neðanmálsgreinar, frásagnir af allt öðru tagi en lýsingar Sigríðar Jónsdóttur. Og sjómennirnir, þótt þeir togi, megna ekki að halda fluginu í skefjum.

Júlli Dan var líkt og vígður ógæfunni frá upphafi, eða ætti ég að segja ólukkunni, eða niðurníðslunni, því skipið var ekki búið undir þetta tveggja mánaða úthald. Júlli Dan hafði legið í höfn á Ísafirði í marga mánuði, auðveld bráð fyrir ryð og hnignun, en ég hafði ekki miklar forsendur til að meta það við fyrstu sýn hvort Júllinn, einsog við fórum að kalla hann, væri dallur eða glæsifleyta. Mig skorti samanburð. Ég sat í sæti númer 13a í flugvélinni á leiðinni til Ísafjarðar, það voru 13 í áhöfn og ég sá þrettándi og skipið átti að sigla út daginn eftir, sem var föstudagurinn 13. maí. Fyrir hjátrúarfulla var samræmið ískyggilegt. Þegar til kom voru aðeins 12 í áhöfn þar sem einn lét sig hverfa. Og skipið sigldi ekki næstu daga, það var fullt af viðgerðarmönnum þó að okkur hefði verið sagt að allt væri klárt. Ljósavélin var biluð.

Við komum ekki saklaus að mynd sem þessari. Við fyrstu sýn gætu gallar mannanna virst vera hvítir og það gefur öllu annarlegt yfirbragð, nánast klínískt. En við vitum að gallarnir eru appelsínugulir þó að myndin sé svarthvít; við höfum séð svo margar myndir af íslenskum sjómönnum í sjónvarpi og blöðum;  við erum skilyrt, komum á vettvang með alla okkar þekkingu og fyrri reynslu af sjómannamyndum: hún gefur göllunum lit sem þeir fengju kannski ekki í huga fransks lesanda (ég veit ekki hverskonar göllum franskir sjómenn klæðast).

Með öðrum orðum: Við lesum myndina ekki útfrá reynslu okkar af sjómennsku heldur þekkingu okkar á blaðaljósmyndum. Myndin er í stíl sem ég þori að fullyrða að er einkennandi fyrir ljósmyndir Morgunblaðisins (eða öllu heldur ljósmyndara þess). Spurningin er þessi: Er slíkur stíll myndaður (mótaður) af náttúru landsins eða er náttúran mótuð (mynduð) af ljósmyndum? Til eru Íslendingar sem þekkja íslenska náttúru svo að segja eingöngu af ljósmyndum blaða og sú náttúrusýn er ólík segjum sýn sjónvarpsins. Þetta er engin tilviljun: Myndin er í stil sem ljósmyndarinn RAX (Ragnar Axelsson) hefur náð góðum tökum á og þróað; þróun slíks stíls er háð ýmsum skilyrðum, svo sem þeim að myndin þarf að koma vel út í prentun á óvandaðan pappírinn sem dagblöð eru prentuð á. En samt: það þarf að sitja ansi stíft um andartakið til að ná augnabliki einsog þessu, veruleika sem minnir mjög svo á sviðsetningu. Eða kannski er það heppni, tilviljun.

(157-9)

Fleira eftir sama höfund

Ugluturn

Lesa meira

Hælið

Lesa meira

Zeitreise als Laborratte

Lesa meira
millibilsmaður

Millibilsmaður

Í Reykjavík geisar mikið fár yfir hinni nýju stefnu, spíritismanum.
Lesa meira

Níu þjófalyklar

Lesa meira

Stefnuljós

Lesa meira

Borg í þoku

Lesa meira

Áður óútgefið efni

Lesa meira

Súkkulaði og kók

Lesa meira