Beint í efni

Brúðkaupið í Hvalsey

Brúðkaupið í Hvalsey
Höfundur
Anna Dóra Antonsdóttir
Útgefandi
ADAN
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Skáldsögur


Af bókarkápu:
Söguleg skáldsaga sem byggir á síðustu ritheimildunum um Grænlendinga hina fornu.
   Ung kona frá Ökrum í Skagafirði siglir á vit óvissunnar. Hún gerist víðförul og brúðkaup hennar er haldið á Grænlandi. Hún kemur síðan heim og sest að á föðurleifð sinni, Ökrum.
   Þrjár merkilegar heimildir eru til um brúðkaup Sigríðar Björnsdóttur og Þorsteins Ólafssonar í Hvalsey á Grænlandi, hin svonefndu Hvalseyjarbréf. Ívaf sögunnar er ráðgátan um afdrif norrænna manna á Grænlandi miðalda.


Úr Brúðkaupið í Hvalsey:
Leyndarmálið sem Sigríður bar með sér mátti ekki einu sinni fóstra hennar fá grun um; um klofninginn í eigin sál og sinni. Hún, sem grét og barmaði sér og baðst vægðar, nærri búin að koma fóstru sinni í gröfina með óskapaganginum og hafði svert og skemmt samvisku föður síns, var innst í fylgsnum hugans ekki alveg fráhverf því að komast í burtu. Burtu frá ægivaldi föður og fóstru, burtu frá hinu þekkta og leiðingjarna í eitthvað nýtt. Oft hafði hún hlaupið inn til langömmu sinnar til að létta á hjarta sínu og það gerði hún nú. Hvergi voru leyndarmál betur varðveitt því Ingunn gamla Grímsdóttir hafði ekki mælt orð af vörum í tíu ár. Þá hafði hún skyndilega ákveðið að nú væri nóg komið, nú ætti hún að deyja en hún dó ekki samt. Með árunum rýrnaði hún og skrapp saman, enda mest rúmliggjandi og alfarið síðustu árin. Fólk undraðist hvað héldi lífi í svo gamalli konu og stakk saman nefjum um það. Enginn vissi hvar eða hvernig forneskjan gæti verið svo sterk og mögnuð að menn eða konur fengju ekki einu sinni frið til að deyja. Venjulegt var þetta ekki. Akrafólkið gat aldrei hagað sér eins og til var ætlast, gat ekki einu sinni dáið með eðlilegum hætti. Sigríður vissi að amma hennar var með fullu viti og vitund. Þegar hún kom inn til hennar, sat hjá henni og talaði um það sem henni lá á hjarta fann Ingunn hönd hennar, hélt í hana og strauk án afláts. Ef Sigríður hætti að tala, hættu hreyfingar gömlu konunnar. Þögnin var stúlkunni óskiljanleg en áratugum síðar varð henni ljóst, hvers vegna amma hennar gerði þetta með fullum vilja. Þá hafði hún öðlast visku og reynslu konunnar sem komið hefur börnum sínum til manns, horft á eftir svo mörgum sér kærum í gröfina og losað sig undan veraldlegu vafstri og eingum.
(s. 19-20)

 

 

 

 

 

 

Fleira eftir sama höfund

Konan sem fór ekki á fætur

Lesa meira

Voðaskotið: Saga af ólukkutilfelli

Lesa meira

Hefurðu farið á hestbak?

Lesa meira

Hafgolufólk

Lesa meira

Bardaginn á Örlygsstöðum

Lesa meira

Refir í hættu

Lesa meira

Uppskriftir stríðsáranna: matur úr íslenskum eldhúsum eftir stríð

Lesa meira

Brennan á flugumýri

Lesa meira