Beint í efni

Þar sem skömmin skellur: Skárastaðamál í dómabókum

Þar sem skömmin skellur: Skárastaðamál í dómabókum
Höfundur
Anna Dóra Antonsdóttir
Útgefandi
Espólín forlag
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Skáldsögur

um bókina

Skárastaðamálið í Húnavatnssýslu er 160 ára gamalt sakamál. Ungbarn deyr voveiflega og annað barn kemur ekki í ljós hvernig sem leitað er. Á Skárastöðum í Austurárdal hafa gerst válegir atburðir. Reglur samfélagsins eru brotnar og yfirvöld skerast í leikinn. Fleiri brot koma til kasta sýslumanns, málin gerast snúin og tímafrek í réttarkerfinu. Þungir dómar falla.
Í bókinni er skyggnst í dómabækur og fleiri samtímaskjöl, framburði vitna gerð skil og lesið í eyður. Að lokum er fylgst með sakborningum eftir að dómar eru kveðnir upp. Skárastaðamálið hefur lengi legið í þagnargildi, nú er þögnin rofin.

úr bókinni

Stúlkan Guðbjörg Guðmundsdóttir var sem mjúkur og mótanlegur leir frammi fyrir yfirvaldinu. Allra snotrasta stúlka, hugsaði sýslumaðurinn, synd að hún skyldi lenda í þessu máli og ekki séð fyrir endann á, gat reynst henni þung byrði að bera, hvort hún hafi kraftana til að takast á við þá byrði var umhugsunarefni og vafamál. Örlögin voru allskonar, suma léku þau grátt, dilluðu öðrum.
   Guðbjörg var vissulega myndarstúlka. Hún var meðalhá, grannvaxinn og fríð í andliti. Andlitsdrættirnir hennar voru mjúkir og barnslegir, augun stór og spyrjandi en hvarflandi. Hárið mikið en tætingslegt og klæðaburður var eins og hún hefði reynt að vanda til en ekki tekist. Líklega sparifötin, peysa með látúnskrókum og silkiklútur um hálsinn, ekki var hún í þrennum pilsum en hafði djúpa peysufatahúfu á höfðinu. Allt fas hennar var órólegt, hún nuddaði saman höndum og átti erfitt með að sitja kyrr í stólnum eins og hún væri alltaf í þann veginn að standa upp og fara.
   Yfirvaldið vildi fá nafn og heimilisfang.
   -Ég heiti Guðbjörg Guðmundsdóttir og er vistráðið hjú á Ytri-Reykjum, en hef verið á Skárastöðum frá áramótum, þar var ég vinnukona þarsíðasta ár.
   Sýslumaður vildi vita hvers vegna hún hefði verið á Skára-stöðum nú í janúar.
   -Ég var lánuð þangað, svaraði Guðbjörg.
   Læknirinn og dómarinn litu hvor á annan og báðir hugsuðu það sama. Hver hefur látið sér detta í hug að senda þessa stúlku beint í gin ljónsins eftir það sem á undan var gengið og þá grunaði nú sterklega, að væri meira en bara almannarómur.
   Sýslumaðurinn sneri sér nú að efninu. -Er það satt að þú hafir verið með barni þegar þú fórst frá Skárastöðum á krossmessu síðasta ár?
   -Já, ég varð ólétt þegar leið á sumarið af völdum húsbónda míns Jóns Einarssonar bónda á Skárastöðum.
   -Léstu húsbónda þinn vita af því?
   -Ég sagði honum frá því tímanlega í fyrravetur. Hann vildi ekki kannast við neitt en vildi láta mig kenna það Árna Árnasyni vinnumanni á Skárastöðum. Seinna ráðlagði Jón mér að láta ekki barnið koma í ljós.
   -Svo hann hefur ráðlagt þér það.
   -Já, og þremur til fjórum vikum eftir að ég var komin í Ytri-Reyki fann ég að það var komið að því að barnið kæmi. Þá gekk ég út í hagann og fæddi litla stúlku án þess að nokkur væri viðstaddur. Þrátt fyrir að tala viðstöðulítið voru viprur um munn Guðbjargar.

(79-80)

Fleira eftir sama höfund

Brúðkaupið í Hvalsey

Lesa meira

Konan sem fór ekki á fætur

Lesa meira

Voðaskotið: Saga af ólukkutilfelli

Lesa meira

Hefurðu farið á hestbak?

Lesa meira

Hafgolufólk

Lesa meira

Bardaginn á Örlygsstöðum

Lesa meira

Refir í hættu

Lesa meira

Uppskriftir stríðsáranna: matur úr íslenskum eldhúsum eftir stríð

Lesa meira