Beint í efni

Hafgolufólk

Hafgolufólk
Höfundur
Anna Dóra Antonsdóttir
Útgefandi
Tindur
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Skáldsögur


Af bókarkápu:
Hvers konar saga er þetta eiginlega? Hafgolufólk er fjölskyldusaga með Emmu frænku í forgrunni. Jafnframt er hér á ferðinni saga kynslóðar sem ekki fæddist með silfurskeið í munni heldur í skugga heimsstyrjaldar, óx upp úr barnafötunum í kreppunni miklu og kom undir sig fótunum að loknu seinna stríði.


Úr Hafgolufólkið:
Ég var níu ára, veturinn sem geiturnar hennar mömmu hlupu fram fyrir bakkann og Gunnar móðurbróðir minn drukknaði. Veðrið er samt býsna skýrt í minningunni, skýrara en margir aðrir aftakabyljir sem alltaf voru að skella á. Það er eins og atburðir kvölds og nætur hafi fest liðinn dag í minninu svo rækilega að þar situr hann ennþá. Ískyggileg kyrrð um morguninn, það muggaði, sjórinn steingrár á litinn og ólgaði undirniðri þótt ekki væri farið að brotna á öldu. Um hádegi skóku fyrstu hrinurnar húsið og hríðarmuggan þéttist. Seinnipartinn var hann skollinn á með aftakaveður svo hrikti í húsinu. Alla jafnan fannst mér stórhríðardagarnir ekki svo slæmir. Gott að kúra í hlýju rúmi og hlusta á æði veðursins sem hamaðist úti. Engar áhyggjur og öryggið algert. En að þessu sinni var það öðruvísi. Maður fann það á andrúmsloftinu, sá það á andlitum fullorðna fólksins að ekki var allt öruggt þennan dag.
   Gunnar var áreiðanlega sá þriðji í systkynaröðinni og fyrsti drengurinn, enda farinn á sjóinn strax upp úr fermingu. Seinna stundaði hann vertíðir fyrir sunnan og sögur um framgöngu hans þar gengu innan fjölskyldunnar, raunar allt fram á þennan dag. Hann var stór maður og mikill á alla enda og kanta. Enginn vissi hvaðan þessi stærðargen komu, höfuðið á honum gnæfði alltaf upp úr fjöldanum hvar sem fólk kom saman. Í fjölskylduboðum bar hann höfuð og herðar yfir alla hina, þar til synir hans uxu upp. Hvaðan var hann Gunnar? Var hann stökkbreytt afbrigði eins og við sjáum stundum úti í náttúrunni eða hafði hreinlega orðið genaruglingur?
   -Þetta gerist á bestu bæjum, sagði Pála kankvís á svip. -Ætli það fylgi ekki mannkyninu að fara frjálslega með erfðaefnið.
Emma lagði spurninguna öðruvísi út, hún gat ekki verið sammála systur sinni nema þegar í nauðir rak: -Systkini geta verið ólík. Horfið bara á systkinahópa sem þið þekkið, oft er þar einhver sem sker sig úr. Mér dettur í hug hann Sigurður frá Eyri, hann bar af sínum systkinum bæði til hugar og handa.
   Nú skellihló Pála: -Og þú segir þetta bara eins og ekkert sé. Þú þorir ekki að nefna orðið framhjáhald. Það vissu allir sem vita vildu að Sigurður var rangt feðraður.
   -Ertu að tæpa á því að Gunnar bróðir hafi verið rangt feðraður?
   -Ég er hvorki að tæpa á einu né neinu, við vitum báðar fullvel hvað skrafað var. En þetta skiptir auðvitað engu máli, þú sleppir þessari umræðu framhjá þér Dúsa mín, láttu eins og þú hafir ekki heyrt þetta.
   -Auðvitað má kanna þetta með DNA prófi, sagði ég til að leggja eitthvað til málanna.
Í nauðvörninni urðu þær loks hjartanlega sammála: - DNA hvað? Er það faðernispróf? Ertu frá þér stúlka, og hverjir ættu svo sem að fara í þannig próf, Gunnar löngu farinn og fannst ekki einu sinni.

(s. 31-33)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fleira eftir sama höfund

Brúðkaupið í Hvalsey

Lesa meira

Konan sem fór ekki á fætur

Lesa meira

Voðaskotið: Saga af ólukkutilfelli

Lesa meira

Hefurðu farið á hestbak?

Lesa meira

Bardaginn á Örlygsstöðum

Lesa meira

Þar sem skömmin skellur: Skárastaðamál í dómabókum

Lesa meira

Refir í hættu

Lesa meira

Uppskriftir stríðsáranna: matur úr íslenskum eldhúsum eftir stríð

Lesa meira