Harpa er á leið til Hrollfríðar frænku sinnar með köku og vín. Það er farið að skyggja og ferðin liggur gegnum drungalegan skóginn. Hróa langar alls ekki með vinkonu sinni, enda illa við allt sem er dimmt og draugalegt, en hann hefur ekkert val. Á leiðinni fær Harpa þá snilldarhugmynd að safna hráefni í dýrindis draugasúpu á gamlan pott. En vinirnir rekast á fleiri skepnur en nefndar eru í uppskriftinni og sumar skjóta jafnvel Hörpu skelk í bringu.
Úr Draugasúpunni:
Kanntu ekki uppskrift að einhverri gómsætri súpu, Hrói? spyr Harpa.
Nei, ég kann ekki neitt í matreiðslu nema að smyrja hrökkbrauð og opna rúsínupakka. Ættum við ekki bara að snúa við, Harpa? Það er að verða svo rosalega draugalegt hérna.
HÚRRA! Þarna komstu með það, Hrói! Við gerum auðvitað DRAUGASÚPU!
Harpa tekst á loft.
Í svoleiðis súpu hljótum við að þurfa:
Að minnsta kosti átján stórar
og loðnar kóngulær,
svo sem eins og tvo og hálfan
desilítra af leðurblökum,
hnefafylli af fersku illgresi,
blönduð skordýr af ýmsu tagi
og svo auðvitað eitt stykki
lítinn og ferskan DRAUG!
Við skellum þessu öllu í pottinn, hrærum vel í og látum það krauma yfir eldinum hjá Hrollfríði frænku. Svo étum við heita og góða draugasúpu með henni áður en við snúum aftur heim.
Draugasúpan
- Höfundur
- Sigrún Eldjárn
- Útgefandi
- Mál og menning
- Staður
- Reykjavík
- Ár
- 2002
- Flokkur
- Barnabækur