Myndir: höfundur.
Úr Drekastöppunni:
„Svo núna situr afi bálreiður og geðvondur heima, sokkalaus, með þurrar tvíbökur og lokaða dós og bíður eftir að ég komi heim!“
„Já, en afhverju ertu svona leiður fyrst þú getur auðveldlega glatt hann aftur?“ spyr Harpa hissa.
„Það er nefnilega vandamálið: ÉG GET EKKI GERT HANN GLAÐAN AFTUR, AF ÞVÍ AÐ ÉG ER BÚINN AÐ TÝNA PENINGUNUM!“
„Nú fer ég loksins að skilja hvað þetta er hrikalegt vandamál!“ segir Harpa. „En til hvers heldur þú að vandamál séu, ha? Þau eru auðvitað til þess að leysa þau. Við skulum bara byrja strax. Komdu!“
Harpa sprettur á fætur og gengur rösklega af stað. Hrói drattast á eftir henni. Hann hefur enga trú á að þau geti leyst úr þessu.
„Heyrðu, við verðum líka að hafa augun opin á leiðinni ef við skyldum rekast á dýrið sem ég ætla að veiða í dag,“ segir Harpa og litast um.
„Ha, er eitthvert dýr hérna?“ Hrói hrekkur við og lítur órólegur í kringum sig. „Hvernig lítur það út?“
Honum er meinilla við dýr og dauðhræddur við flest þeirra. Harpa hugsar sig um.