um bókina
Ljóðverk, afrakstur tilraunastofu sjö kvenna sem vinna með skáldaða texta um arf kvenna, erfðasynd, rætur og kynslóðir.
Ljóðið Madrigal eftir Tomas Tranströmer hefur hér orðið uppspretta könnunarleiðangurs um innri skóga. Sjö raddir verða að einni. Ein rödd splundrast í margar á leið sinni um árhringi.
Í skáldasamsteypunni Skóginum eru: Guðrún Inga Ragnarsdóttir, Halla Margrét Jóhannesdóttir, Heiðrún Ólafsdóttir, Hrafnhildur Þórhallsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Soffía Bjarnadóttir og Æsa Strand Viðarsdóttir.
úr bókinni
Við byrjum öll á sama punkti. Byrjunin felur í sér endi og það er hann sem hljómar í þessum sefandi skógarnið. Ég held áfram og reyni að villast en stígurinn treður sér alltaf fram. Tek skrefið út af stígnum, aftur og aftur. Brak og brestir í nálægum trjám.
Það er einhver að horfa a mig, fylgjast með mér. Fugl á grein eða hungrað dýr. Óargadýr sem sér þrútið kjöt mitt og langar í blóð.
Mig klæjar á nýjum stað rétt undir húðinni.
Ég greikka sporið og áður en ég veit af er ég farin að hlaupa. Dýrið er að koma, ég næ ekki andanum og byrja að öskra. Það brýst fram.
Það brýst út úr mér.
(s. 14)