Beint í efni

Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Æviágrip

Sigurlín Bjarney Gísladóttir er fædd í Hafnarfirði árið 1975 og ólst upp í Sandgerði. Bjarney hefur fengist við leiðsögustörf, prófarkalestur og kennslu auk ýmissa skrifstofustarfa. Hún er með meistaragráðu í ritlist og íslenskum bókmenntum frá HÍ.

Fyrsta bókin, Fjallvegir í Reykjavík, kom út árið 2007 og hefur að geyma prósaljóð. Árið 2009 kom út örsögu- og smásagnasafnið Svuntustrengur og árið 2013 gaf Bjarney út ljóðabókina Bjarg. Árið 2015 gaf hún út tvö verk, annars vegar nóvelluna Jarðvist og hins vegar ljóðabókina Ég erfði dimman skóg en þá bók vann hún að með sex öðrum konum. Árið 2016 kom út ljóðabókin Tungusól og nokkrir dagar í maí. Árið 2019 komu út tvær bækur, ljóðabókin Undrarýmið og örsögurnar Stínusögur.

Bjarney hefur birt sögur og ljóð í ýmsum tímaritum og flutt pistla í útvarpi. Útvarpsþættirnir Fjöllin hafa vakað voru fluttir á Rás 1 um páskana 2020 og fjalla um hugmyndasögu fjalla og eldfjalla.

Undanfarin ár hefur Bjarney fengist m.a. við stundakennslu við Háskóla Íslands og íslenskukennslu í framhaldsskóla.