Æviágrip
Sigurlín Bjarney Gísladóttir er fædd í Hafnarfirði árið 1975 og ólst upp í Sandgerði. Bjarney hefur fengist við leiðsögustörf, prófarkalestur og kennslu auk ýmissa skrifstofustarfa. Hún er með meistaragráðu í ritlist og íslenskum bókmenntum frá HÍ.
Fyrsta bókin, Fjallvegir í Reykjavík, kom út árið 2007 og hefur að geyma prósaljóð. Árið 2009 kom út örsögu- og smásagnasafnið Svuntustrengur og árið 2013 gaf Bjarney út ljóðabókina Bjarg. Árið 2015 gaf hún út tvö verk, annars vegar nóvelluna Jarðvist og hins vegar ljóðabókina Ég erfði dimman skóg en þá bók vann hún að með sex öðrum konum. Árið 2016 kom út ljóðabókin Tungusól og nokkrir dagar í maí. Árið 2019 komu út tvær bækur, ljóðabókin Undrarýmið og örsögurnar Stínusögur.
Bjarney hefur birt sögur og ljóð í ýmsum tímaritum og flutt pistla í útvarpi. Útvarpsþættirnir Fjöllin hafa vakað voru fluttir á Rás 1 um páskana 2020 og fjalla um hugmyndasögu fjalla og eldfjalla.
Undanfarin ár hefur Bjarney fengist m.a. við stundakennslu við Háskóla Íslands og íslenskukennslu í framhaldsskóla.
Um höfund
Hispurslausir blúndurammar
Sigurlín Bjarney Gísladóttir (f. 1975) hefur sent frá sér sex heilsteypt verk auk þess sem hún hefur birt ljóð og sögur í tímaritum. Hún fékk fyrstu verðlaun í glæpasögukeppninni Gaddakylfan fyrir „Þjóðvegur 1“ sem birtist í Mannlífi 2006. Auk þess má nefna nóvelluna Jarðvist sem birtist sem ritröð í tímaritinu 1005 árið 2015. Skrif hennar samanstanda af ljóðum, örsögum og smásögum og eru umfjöllunarefnin fjölbreytt og grípandi. Hún leggur metnað í að skapa einstök verk sem innihalda skondnar og óvæntar hliðar lífsins.
Textarnir eru eins og áður sagði allt frá smásögum til ljóða, og oft ógerningur að skipa þeim í flokka. Hér verður fjallað um verkin eins og þau eru skilgreind hér á vefnum, þó að eflaust megi færa rök fyrir því að sum ljóð séu frekar örsögur og sumar örsögurnar frekar smáprósi. En það sést á umfjöllun um verk hennar að þau eru skilgreind á ýmsan máta. Skáldið notar þau form sem henta hverju sinni og fléttar inn í umgjörð verkana. Þetta er eitt dæmi um hispursleysi Sigurlínar, þar sem hún lætur ekki fanga sig í formgerð eða fyrirfram gefnu skilgreiningum.
I
Fjallvegir í Reykjavík (2007) er fyrsta ljóðabók Sigurlínar en í verkinu tekur hún fyrir gamalgróið tvenndarkerfi náttúru og borgar. Vettvangur ljóðanna eru þær götur borgarinnar sem litast af fjallasýn. Þannig trónir Keilir við enda Suðurgötu og Esjan yfir Sæbraut. En þó að fjöllin heilli hvetur ljóðmælandi þó lesanda til þess að gefa borgarumhverfinu gaum, þó að það sé ekki eins glæsilegt og fjallasýnin. Hér er brot úr „Suðurgata í suður“; „Ekki stara um of á Keili því gangandi farþegar eiga það til að lauma sér yfir götuna - uppgjafabændur frá Vestfjörðum og fátækir stúdentar í frostbitnum skóm.“ Hún notar hér orðið „farþegar“ í stað vegfaranda og býr þannig til forsendu með lítilli fyrirhöfn. Að við séum öll samferða – farþegar í sömu ferð.
Sum ljóðin eru leikur að leiðarvísum, önnur litlar sögur af fólkinu í borginni. Bókmenntaminni dúkka upp hér og þar, líkt og „sólroðið ský“ og „fjólubláir draumar“ í ljóðinu „Snorrabraut munstrar dúk í norðri.“ Þessi prósaljóð eru því mjög fjölbreytt en fjallaminnið sameinar þau auk þess sem skáldið setur GPS hnit í upphafi hvers og eins. Stílinn er hispurslaus og mörg ljóðin skemmtileg eins og þegar ljóðmælandi lýsir hættum á fjallvegum Reykjavíkur í samnefndu ljóði, en þar er meðal annars mikilvægt að setja upp varalit áður en lagt er á stað. Fjöllin ramma inn borgina og í fyrrnefndu ljóði um Snorrabraut mynda ljósastaurarnir ramma um hughrif einstaklingana. En það er einmitt áberandi einkenni í skáldskap Sigurlínar að skapa sterkan ramma utan um textana. Í þessari litlu ljóðabók birtast margar af þeim hugmyndum sem tengja verk Sigurlínar eins og skessur, varalitur og dólgslegir menn sem eru misáberandi í þeim verkum sem fylgja.
Önnur ljóðabók Sigurlínar nefnist Bjarg og kemur út 2013. Ramminn er að þessu sinni átta hæða íbúðarblokk á höfuðborgarsvæðinu. Í verkinu leikur skáldið sér að takmarkaðri skynjun blokkarbúans, sem hefur aðeins brot af útsýni og heyrir að óminn af því sem á sér stað í íbúðunum í kring. Eða lykt, eins og þegar Snorri í ljóðinu 2b finnur ilm af pönnukökum Sigþrúðar í 2a. Alsjáandi auga ljóðmælanda leyfir okkur að skyggnast inn í hugarheim fólksins, ljóstrar upp um óöryggi þess, þrár og lesti. En í verkinu er líka ákveðin framvinda þar sem einn íbúi á efstu hæð er í frekar óvenjulegum aðstæðum sem glittir í öðru hvoru þar til við náum upp á áttundu hæðina. Mörg ljóð eru vel heppnuð og gætu staðið ein utan ramma blokkarinnar. Þar á meðal ljóð um íbúð 4c sem hefst svona:
Í gær var Gústi á
þokumiðum í
brælureyndi að veiða
hugsanir úr
loftinu hlerarnir sátu
fastir trollið
fullt
Ljóðmælandi rennir sér auðveldlega inn í hugarheim Gústa, sem er ein af þeim persónum sem kemur fyrir oftar en einu sinni. Myndin er einföld og sterk og lesandi sér fyrir sér gamlan sjómann sem hefur misst tökin á hugsunum sínum.
Í ljóðinu 7e er annað dæmi um orðaleik og myndmál þegar ljóðmælandi segir um Hrafnkel sem er að horfa á fuglana:
Hrafnkell kærir sig ekki
um vindáttirhér eru þær
hringáttir
Formið krefst þess að við stöldrum við í öllum íbúðum og eðli málsins samkvæmt eru persónur verksins ekki allar jafn bitastæðar og sumar lýsingar ná ekki flugi. En almennt er verkið ríkulega búið áhugaverðum lýsingum á fólki og örlátt á myndir og sögur.
Þriðja ljóðabók skáldkonunnar ber heitið Undrarýmið (2019) og hverfist um sköpun og rými þess í víðasta skilningi. Eins og þessu ljóði:
en
vonin, ástin, flæðið, traustið, trúin, hugrekkið,
plástrarnir, faðmlögin, óttaleysið, kærleikurinn,
tónlistin, fallegu orðin, hvatningin, fegurðin,
kætin, dansinn, kryddin, nándin, reykelsin,
frelsið, vitundarsambandið, samveran, kertaljósin,
hláturinn, hugrekkið tárin tárin tárintaka reimarnar og binda
fallega slaufugræða
Hér dvelur ljóðmælandi við falleg hughrif í formi minninga og mörg ljóð litast af nostalgíu. Í verkinu er að finna allt aðra mýkt en í fyrri bókum Sigurlínar, sem skýtur kannski skökku við þar sem bókin er skreytt læknisfræðimyndum frá 17. öld. En það er einmitt í þessum bræðingi kaldrar fræðimennsku og tilfinningamýkt að eitthvað einstakt verður til.
Undrun er einskonar leiðarstef í gegnum verkið, en þar leitast höfundur við að stoppa og rannsaka þau rými sem tengjast undrun og sköpun. Það getur verið sá staður sem froskar fjölga sér eins og í ljóðinu „Selva oscura“ eða líkt og í ljóðinu „Smásjáardramað“ þar sem heilu veraldirnar birtast undir smásjánni. Í ljóðinu „Bleiktunga, blóðtunga“ safnast allt sem ljóðmælandi hefur sagt saman á tungu hennar, en líka orðin sem eru ósögð, þannig verður tungan rými þess sagða og ósagða. Og vissulega eru líka tekin fyrir drungalegri pælingar eins og í ljóðinu „Fósturvísavísa“ þar sem segir:
Jafnvel í dauðanum
er einsemdin sár
og betra að vera saman
Ljóðin fjalla á einlægan hátt um alla þá þræði sem tengjast fyrirbærinu sköpun og mynda þannig þetta rými til undrunar þar sem skáldið fær næði til þess að staldra við einstakar upplifanir og aðstæður.
II
Svuntustrengur (2009) er safn örsagna, prósaljóða og smásagna. Tónninn hér er hrár og vel til þess fallin að vekja óhug. Verkið skiptist í tvo hluta með styttri textum fyrst og svo lengri sögum og hér birtist glæpasmásagan „Þjóðvegur 1“ ásamt fleiri textum með glæpaívafi eins og til að mynda í „Í nótt ætla ég að forðast ískrið i hliðinu og klifra yfir girðinguna“ þar sem við fylgjum konu á flótta. Það er galsi í verkinu eins og sést í „Barbíkjútjútt“, þar sem „Sólin glennti fæturna og pissaði geislum yfir heiminn.“ En í þeirri sögu er Sólrún að grilla í litríkri svuntu. Annarstaðar eru svunturnar blautar af tárum eða notaðar í fiskvinnslu. Þannig eru svunturnar yfir og allt um kring sérstaklega í fyrri helmingi. Verkið er þannig fléttað saman með svuntustreng, en tengingarnar eru of fyrirferðarlitlar til þess að skapa verulega heilstæða merkingu. Það eru til að mynda engar svuntur í sögunni „Lyfta“ í síðari hluta verksins, en það er dásamlega skondin hryllingssaga um lyftuferð með framliðnum í átta hæða blokk sem vel gæti verið sama hús og í verkinu Bjarg.
Nóvellan Jarðvist frá 2015 fjallar um níu menn sem lokast inni í námu vegna óvæntrar sprengingar. Við fylgjumst með lífi mannanna neðanjarðar á meðan þeir bíða upp á von og óvon. Þeir hafa takmarkaðar birgðir, vatnið er mengað og loftið þungt og rakt. Sögumaður er skáld og hefur haft með sér pappír sem hann ritar á einskonar dagbók. En þegar vinnufélagar hans verða þess vísir að hann geti skráð frásagnir þeirra og tilfinningar nýta þeir sér það óspart. Eins og gefur að skilja myndast mikil spenna á milli manna en höfundur einbeitir sér mest að líkamleika upplifunarinnar og því hvernig mennirnir verða samdauna eins og sést í þessari tilvitnun: „Svitastækja steig upp af líkömum okkar og rigndi yfir okkur aftur. Einhverjir voru þegar búnir að míga í eitt hornið. Lyktin var óbærileg. Við ákváðum að spara rafmagn og slökktum á luktunum. Það sló þögn á hópinn en smám saman fylltist loftið af hljóðum; andardrætti níu manna sem sveiflaðist milli vonar og skelfingar. Drunur og höggbylgjur bárust enn til okkar með óreglulegu millibili. Einhver sagði: „Náman grætur"" (10). Þeir verða næstum að einu dýri. Frásögnin verður slitrótt þegar á líður og dauðinn nálgast en heldur þó alltaf áfram að gefa okkur innsýn í aðstæður. Þema verksins er eins og fyrr segir líkamleiki og mörk hans en einnig margvíslegur tilgangur skrifa. Skrif þjóna ýmsum tilgangi í prísundinni og geta bæði verið rými ljóða og drauma en líka beiðni um hjálp og pappírinn er hægt að búta niður og nota sem oblátur og verður þannig staðgengill Krists. Verkið er martraðakennt en höfundur fær hér einnig tækifæri til þess að bregða sér í karlmannslíki eins og hún hefur gert áður og gefa þessum námuverkamönnum, sem svo oft heyrist einungis um í fréttum, rödd.
Tungusól og nokkrir dagar í maí (2016) skiptist í þrjá hluta: „Látra-Björg á vergangi,“ „Tungusól“ og að lokum „Nokkrir dagar í maí.“ Hún var tilnefnd til Maístjörnu ljóðaverðlaunanna árið 2016. Fyrsti hluti verksins snýr að Látra-Björgu (1716–1784), en hún var skáldkona og ljóðin ort í orðastað hennar. Hún er að takast á við ástarsorg eins og kemur fram strax í fyrsta texta „7. júní 1740“: „Loka augunum, anda djúpt og hef alltaf rétt fyrir mér. Hann er undantekning því þar skjátlaðist mér hrapallega. Var það lyktin sem villti mér sýn, framandi lykt og blik í augum? Hann sagði hálsinn á mér skógarstíg þar sem æðarnar liðast um eins og rætur. Og að svart hárið væri eins og rakt myrkrið í miðjum skóginum þar sem sólin nær ekki að brjótast fram. Núna skín sólin hvorki á hár mitt né háls. Hann tók hana með sér.“ Þessi prósi er í formi einskonar dagbókarfærslu og kallast þannig á við dagbókarfærslur sem finna má í þriðja hluta verksins. Sá hluti sem heitir nokkrir dagar í maí hefst á færslu 28. maí 2014, þar sem stendur meðal annars: „Á meðan börnin sofa falla bókstafir á síðu eins og og dökkir dropar, næstum svartir blóðdropar. strengirnir í slaghörpunni.“ Og það er ljóst að ljóðmælandi er að takast á við áfall og missi. Þó að þessir tveir vitnisburðir séu fjarri hvor öðrum í tíma og aðstæðum þá eiga þeir ýmislegt sameiginlegt hvað varðar sársauka og raunir. Á milli þessara tveggja hluta verksins er einskonar ljóðabrú sem nefnist því mjög svo ljóðræna heiti „Tungusól.“ En þar segir í ljóðinu „Arfur“:
Konur eru eins og blúndur og fjaðrir
mjúkar léttar viðkvæmar sterkar flóknar
þræddar i flækjuþráðum sem handahófi varpar fram í
fegurð
Einmitt þessir kvenlegu þræðir eru það sem tengja verkið. Við erum stödd í hugarheimi kvenna, á hefðbundnum kvennavettvangi. Aftur og aftur erum við stödd við eldhúsborðið þar sem ljóðmælandi tekst á við þá atburði sem hafa átt sér stað þar og það sem er þar ekki lengur. Eitt þema er móðurmissir og þó að konur í þessum línum séu fínlegar, dúkka þær líka upp í gervi sterkra mæðra og tröllskessa.
Stínusögur (2019) eru örsögur, myndskreyttar af Sigurði Ámundssyni. Í þessu litla verki fylgjum við annarsvegar Stínu og hinsvegar karlmanni sem á einum stað heitir Kristján. Við byrjum í bankanum hennar Stínu þar sem innistæðurnar eru tilfinningarlegar og eingöngu hægt að taka út sorg ef búið er að taka út reiði. Þar fær maðurinn kassa fullan af varalit og í kjölfarið dúkkar Stína upp í mismunandi gervum. Á barnum, í bílabíó, á sjó, á sjúkrahúsi og í sundi. Á hverjum stað eiga þessar tvær persónur samskipti í einhverskonar absúrd leikþætti sem snýr að áföllum og úrvinnslu þeirra. Stína leitar að mömmu sinni á sjónum og maðurinn makar allt út í varalitnum. Textinn er léttur og dregur upp skondnar myndir af því ástandi sem grípur mannshugann í áfalli. En á sama tíma er umgjörð verksins svo ankannaleg að textarnir vekja hjá lesanda djúpstæðan óhug um botnlausa eymd sorgarinnar. Í sögunni um „Togarann hennar Stíun“ á sér stað nokkuð undarleg atburðarás þegar nýi hásetinn er gripin með kassa af varalit og Stína skipstjóri skipar allri áhöfninni að mála á sér varirnar. Að því búnu gluggar hún í uppáhaldsbókina sína Sem ég lá fyrir dauðanum eftir Faulkner: Hún situr í stólnum , horfir út á miðin og segir uppáhaldssetninguna sína úr bókinni:
„Móðir mín er fiskur.” Þögnin hjúpar hana og öldudalir ólga. Síðan bætir hún við : „Og ég er alltaf að leita að mömmu og þess vegna moka ég fiskum úr sjónum og ég spyr hvern fisk : Ha, mamma, ert þetta þú? Mamma, hvar ertu?”
Galsinn og súrrealisminn umbreytist í sorgarmynd af stúlku sem leitar móður sinnar á rúmsjó. Fram að þessu í verkinu hefur fókus lesanda verið á sambandi Stínu við manninn og lesenda bregður því heldur í brún þegar í ljós kemur að Stína er að takast á við eitthvað allt annað. Auk þess sem textinn undirstrikar það hversu hjálparlaus hún er án móður sinnar. Þrátt fyrir að vera skipstjóri á bát þá hefur hún engin úrræði önnur en að spyrja fiskana.
Ein af þessum óvæntu tengingum er vísir að hrollvekju. Oft tekst skáldinu með lítilli fyrirhöfn að skapa óhug hjá lesanda og skapa persónur sem eru ekki „alveg eins og þær eiga að vera.“ Slíkur ankannaleiki er vel þekkt bragð og hefur verið nota síðan í rómantísku stefnunni til þess að setja spurningarmerki við upplifun okkar af veruleikanum og eðli tilvistar okkar. Þetta nefnist „unheimlichkeit“ á þýsku og virkar líka vel til þess að byggja upp spennu. Hjá Sigurlín dúkkar þessi litli óhugnaður upp með litlum fyrirvara og aðdáunarvert hversu auðvelt skáldið á með að hafa áhrifa á lesendur.
Sigurlín Bjarney er áhrifamikið skáld sem á auðvelt með að gefa sig að hugmyndum og fylgja þeim eftir svo úr verða heilstæð listaverk. Oft eru textarnir hógvær blanda af hversdagslegu raunsæi og absúrdisma og ekki endilega til þess fallnir að tengja við lesanda. En raunin er hinsvegar sú að þessir litlu textar fylgja manni lengi eftir lestur og halda áfram að opinbera einhverja vitneskju um það að vera manneskja. Verk Sigurlínar bera með sér blæ ankannaleika og hún kemur sífellt á óvart með bæði hispursleysi í kröftugum lýsingum og einlægni í öllum þeim fínlegu þráðum sem tengja þessi verk.
Rósa María Hjörvar, mars 2021
Til þessara greinaskrifa hlaut Bókmenntavefurinn styrk frá
[[{"fid":"7581","view_mode":"default","fields":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"Miðstöð íslenskra bókmennta","field_file_image_title_text[is][0][value]":false},"type":"media","field_deltas":{"2":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"Miðstöð íslenskra bókmennta","field_file_image_title_text[is][0][value]":false}},"attributes":{"alt":"Miðstöð íslenskra bókmennta","class":"media-element file-default","data-delta":"2"}}]]
Greinar
um einstök verk
undrarýmið
Haukur Þorgeirsson: "Sigurlín Bjarney Gísladóttir. Undrarýmið" (ritdómur)
Són 2019: 17; bls. 140-141
BJARG
Auður Aðalsteinsdóttir: "Háskinn í bjarginu" (ritdómur)
Spássían: 2013; 4: bls. 36
Svuntustrengur
Rúnar Helgi Vignisson: "Smáfuglar fagrir: staldrað við nokkrar smásögur frá liðnum árum"
Spássían: 2011; 2: bls. 36-39
Verðlaun
Verðlaun og viðurkenningar
2017 - Ljóðstafur Jóns úr Vör: Viðurkenning fyrir ljóðið „Kyrralíf“.
2016 - Ljóðstafur Jóns úr Vör: 3. sæti fyrir ljóðið „Arfur“
2014 - Fjölís styrkur Rithöfundasambandsins
2009 - Nýræktarstyrkur Miðstöðvar íslenskra bókmennta: Svuntustrengur
2006 - Gaddakylfan (glæpasöguverðlaun): Smásagan „Þjóðvegur eitt“
Tilnefningar
2020 - Maístjarnan, ljóðabókaverðlaun Rithöfundasambandsins og Landsbókasafnsins: Undrarýmið
2017 - Maístjarnan, ljóðabókaverðlaun Rithöfundasambandsins og Landsbókasafnsins: Tungusól og nokkrir dagar í maí
Undrarýmið
Lesa meiraég er hingað komin / í þennan skóg / til að finna froska, sporðdreka, snáka og mýsStínusögur
Lesa meiraTungusól og nokkrir dagar í maí
Lesa meiraJarðvist
Lesa meiraÉg erfði dimman skóg
Lesa meiraBjarg
Lesa meiraSvuntustrengur
Lesa meiraFjallvegir í Reykjavík
Lesa meira