um bókina
Prósaljóð sem beinlínis fjalla um fjallvegi í Reykjavík, þ.e. götur sem eru á einhvern hátt markaðar af fjöllum.
úr bókinni
Rakarakvartettinn
Sæbraut við Kleppsveg í suðaustur
N64°09'00/ V21°52'19''
Þennan áliðna janúar er ég líti annað en dúfa, agndofin yfir vaxandi birtuskilyrðum. Kurra inn í mig undrun, jesúsigningu og hamingjutísti. Flýg í huganum upp yfir sviðið og fæ sviða í magann eftir pungum, sviðasulti og örum febrúarkræsingurm.
Og ég sveigi höfuðið til hliðar og kemst ekki hjá því að sogast inn í útsýnið. Á sama tíma byrjar rakarakvartettinn að syngja dillandi tóna um harðnesku heimsins og grjótmulinn sannleik. Hjáróma raddir sem titra í víbrandi trega en dilla sér þó inn á milli. Og ég get mér til um að hinar eilífu deilur á milli blábergs, grábergs og móbergs séu uppspretta tjáningarinnar og tregans í röddunum. En síðan hristi íeg hausinn yfir hugmyndinni og minni mig á að ég veit ekki neitt.
Kvartettinn syngur inn í miðstöðina á bílnum og til að njóta tónanna betur set ég blásturinn í botn og stilli hitann í hæsta styrk. Esjan er sópran, Úlfarsfellið alt, Hengillinn tenór og Vífilsfellið bassi. Rakarakvartettinn rakar óreiðuhugsunum saman, sker þær af mér og þeytir þeim ofan í saltvatn. Klappar mér á kinnina, brosir uppörvandi til mín og sprautar ógrynni af Old Spice yfir hausinn og inn í eyrun. Þó ég sé bara ólöguleg stela þá stappar kvartettinn í mig stálinu og minnir mig á að berjast fyrir hverjum einasta skeggbroddi á líkamanum.
(s. 18)
Vestur Ártúnsbrekku
á þarfasta þjóninum
N64°07'45''/ V21°48'75''
Það er móska í morgunskímunni. Ég keyri Ártúnsbrekku í vestur og umferðin er svo mikil að mér finnst ég stödd í ókunnugri borg í öðru landi. Svona borg sem er eins og skrímsli, dreifir úr sér um allt go sjóndeildarhringurinn ekkert nema hús. Og ég finn hvernig aksturslag forfeðranna seytlar um æðar mér. Mér finnst ég keyra traktor eftir troðningum. Rígheld með báðum höndum um stýrið, skima til beggja hliða svo ég festi dekkin ekki í holu eða missi jafnvægið á þúfu. Samstundi þykknar móskan í skímunni og ég finn aksturslag miðalda krauma í mergnum. Stýrið er beislið mitt, bremsan og bensíngjöfin í stöðin og hnakkurinn er með rafmagnshitarann í botni. Ég segi "hott, hott", sparka í bensíngjöfina og rykki í beislið en hann stöðvar ekki þó að ég togi og togi í stýrið. Hnúarnir hvítna og blóðið hverfur úr höndunum og ég toga af öllu afli. Traktor eða hestur, skiptir það máli? Á hverjum morgni hef ég enga stjórn á ferð minni vestur Ártúnsbrekkur.
Þá er best að stranda á umferðareyju, kyssa næsta stuðara eða stöðva bílinn á miðjum veginum og ganga af göflunum.
(s. 21)