Beint í efni

Stínusögur

Stínusögur
Höfundur
Sigurlín Bjarney Gísladóttir
Útgefandi
Þrjár hendur
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Örsögur

um bókina

Sigurður Ámundason myndskreytti.

Örsögur um Stínu, sem sýslar við sitt af hverju. Hún rekur banka, bar, bílabíó; hún siglir togara, sér um sjúkrahús og sundhöll.

úr bókinni

Bankinn hennar Stínu

Stína bankastjóri veit að Kristjáni er treystandi þegar hann horfir djúpt í augu hennar og segir: "En ég er bara maður. Hræddur maður." Hann setur fingur á enni, veiðir svitadropa og þurrkar í úlpuna. Hún tvöfaldar innistæðuna og gefur honum fullan kassa af rauðum varalit í kaupbæti og segir: "Kristján minn, það er ekkert að óttast." Hann makar litnum á sig áður en hann gengur hróðugur út með kassann í fanginu. Við kinkum til hans kolli þegar hann gengur framhjá. 

Við erum gjaldkerarnir. Hinn samstillti hópur. Við erum með Elvis Presley hárkollur og eldrauðun varalit út á kinnar. Við klæðumst gulum hælaskóm og notum hvítt tyggjó. Sumum okkar finnst þægilegt að hafa fæturna uppi á borðum því þá fá skórnir að njóta sín. Stundum mænum við á pínulitla tölvuskjái með áhyggjustrik milli augnanna. "Fólk fer sífellt meira á bak orða sinna," kvökum við í einum kór og fylgjumst með því hvernig væntingavísitalan lækkar og svikavísitalan hækkar þar til þær mætast í skurðpunkti.

Kristján snarar sér aftur inn í bankann eftir að hafa komið kassanum fyrir í bílnum. "Ég ætla að taka sorgina út núna." Gjaldkerinn er ekki viðbúinn og slengir fótunum niður af borðinu með látum. Hún hagræðir kollunni og slær hratt á lyklaborðið og áhyggjustrikið dýpkar. Hún svarar hikandi: "Samkvæmt nýjustu útreikningum þarf sorgin langan tíma. Hvernig sorg er þetta annars?" Hann hallar sér fram á borðið: "Ástarsorg." Við stynjum og grúfum okkur yfir vístölurnar. "Látum okkur nú sjá. Ástarsorg segirðu? Þá þurfum við að fylla út eyðublöðin," segir gjaldkerinn og bætir á sig varalit. "Eyðublöðin?"spyr Kristján og gjaldkerinn heldur áfram:  "Í fyrsta lagi þurfum við að vita hversu mikið þú elskaðir hann eða hana og hve mikið hann eða hún elskaði þig og hvenær þetta fjaraði allt út, hvenær vísitalan lækkaði og svo hvar þú ert núna á söknuðarskalanum." Hann tekur skjálfhentur upp varalit og makar í kringum augun á meðan hann spyr með grástöfum: "Ég veit það ekkert. Ég vil bara fá að taka hana út. Alla." Þá segir gjaldkerinn það sem við vitum og endurtökum með henni nokkrum sinnum: "Við þurfum að mæla! Við þurfum alltaf að mæla!"

(s. 6-7)

 

Fleira eftir sama höfund

sólrún

Sólrún

Glufa í kerfinu reyndist mín mesta gæfa.
Lesa meira

Undrarýmið

ég er hingað komin / í þennan skóg / til að finna froska, sporðdreka, snáka og mýs
Lesa meira

Jarðvist

Lesa meira

Ég erfði dimman skóg

Lesa meira

Tungusól og nokkrir dagar í maí

Lesa meira

Fjallvegir í Reykjavík

Lesa meira

Svuntustrengur

Lesa meira